14 júní 2009

Kellurnar komnar til Brussel

Jæja, þá eru mamma og amma komnar til Brussel eftir ansi hreint viðburðarríkan dag í gær. Ég ætlaði að sækja þær á flugvöllinn í Amsterdam svo þær þyrftu ekki að vesenast í lestina og svona sjálfar. Það gekk hinsvegar ekki betur en svo að ég var föst í Antwerpen í 2 tíma þar sem það var rafmagnsbilun á lestarteinunum. Þá var okkur smalað upp í yfirfulla innanlandslest sem fór með okkur e-rt lengst út í rassgat í Belgíu þar sem rútur áttu að ferja liðið yfir til Hollands í innanlandslestir þar. Þannig að þegar mamma og amma lentu þá var ég ennþá í Belgíu og alveg ljóst að það yrðu nokkrir klukkutímar í að ég kæmist til Schiphol. Annað hvort þurftu kellurnar því að bíða eftir mér eða koma sér sjálfar til Brussel.

Við ákváðum að þær skyldu athuga með möguleika á því að komast sjálfar til Brussel. Það gekk ágætlega hjá þeim og þær sátu alveg óvart á fyrsta farrými í lestinni og höfðu það fínt. Sú lest stoppaði hinsvegar á endastöð í Hollandi og sem betur fer var þar lest á leið til Brussel sem þær gátu hoppað upp í. Það var ekkert fyrsta farrými þar heldur var lestin yfirfull og þar þurftu þær að dúsa í einn og hálfan tíma þangað til þær komu til Brussel. Ég þurfti að koma mér úr lautarferðinni sem ég lenti í og ég kom til Brussel klukkutíma á undan kellunum. Við vorum því allar dauðþreyttar eftir langan lestardag í gær og erum hættar við að fara í Waterloo í dag af því að það nennir engin af okkur að fara aftur í lest í dag. Deginum verður því eytt utandyra á rölti um miðborg Brussel.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæhæ
Það var nú gott að allir komust heilu og höldnu á leiðarenda, Góða skemmtun
Kolla