Brussel - Amsterdam - Keflavík - Mosfellsbær
Þá er að verða komið að langþráðri heimferð. Lestin fer frá Midi stöðinni kl. 7.52 í fyrramálið og ég fæ að bíða aðeins á Schiphol þangað til ég kemst í flugvélina og legg af stað til Íslands. Stóru ritgerðirnar eru klárar og ég á bara eftir smotterísfrágang á minni ritgerðunum sem ég hreinlega nennti ekki að gera í gær. Ég mæti í vinnu strax á föstudaginn langa og mér fannst ég eiga skilið að fá tvo daga í að slæpast áður en ég færi í bókhaldið aftur. Ég fer í allra síðustu kennslustundina í mastersnáminu á eftir og Liverpool heldur vonandi upp á það fyrir mig með því að vinna á Anfield í kvöld. Annars virðist Brussel ætla að kveðja mig með grenjandi rigningu - svona svo ég sakni hennar örugglega ekki. Annars skilst mér að ég og bleika sumarkápan mín munum mæta í snjó á Klakanum á morgun en við komum allavegana ekki til með að týnast í snjónum svo maður líti á björtu hliðarnar.
Mamma er búin að biðja mig um að taka ekki of mikið af fötum með heim. Jájá. Ég hef allavegana gert mitt besta til þess að ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera næstu fjórar vikurnar og svo krossa ég bara fingur að það rúmist innan þeirra 20 kílóa sem maður má fljúga með. Alltaf jafn skemmtilegt verkefni. Annars sjáumst við bara á Íslandinu á morgun. Gleðilega páska :-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli