29 nóvember 2006

Snilldar kennari ;)

Varð bara að monta mig smá af púkunum mínum í bókfærslunni. Var að ljúka við að fara yfir jólaprófin þeirra og meðaleinkunnirnar voru 9,5 og 9,8 svo ég er bara úber stolt af liðinu. Áður en þið farið að kommenta um að prófin hafi verið of létt þá vil ég benda á að þetta er þannig fag að annað hvort kanntu það eða ekki og venjulega fá nemendur 10 eða núll og ekkert þar á milli. Á prófunum komu fram öll þau atriði sem þau hafa lært í vetur og þessu var bara rúllað upp með stæl. Mikið asskoti er ég ánægð :)

28 nóvember 2006

Grenj....

Pabbi ætlaði að vera svo góður að kaupa fyrir mig ilmvatn í fríhöfninni á leiðinni heim. En nei, ilmvatnið mitt var hvorki til í Köben né í Keflavík og nú þarf ég víst að fara að finna mér nýtt ilmvatn - og believe you me það tók laaaangan tíma að finna þessa lykt. Kannski spurning um að kíkja inn í allar snyrtivörubúðir sem verða á vegi mínum í jólagjafaleiðöngrum og sjá hvort að þar leynist eitt glas af Simply frá Clinique.... Ef allir góðir englar vaka yfir mér finn ég kannski líka sólarpúður frá Lancome - þetta gamla góða í stóru boxunum. Hvað er málið með snyrtivöruframleiðendur að hætta alltaf framleiðslu á bestu vörunum??

22 nóvember 2006

Gæsahúð og hrollur

Þeir sem þekkja mig vita að ég er enginn Bubba aðdáandi. Þess vegna hef ég aldrei heyrt þetta lag. Textann sá ég hins vegar á síðu hjá gömlum nemanda og um mig fór hrollur. Ég fékk sömu gæsahúðina og alltaf þegar byrjar að hvessa og snjóa og vindurinn gnauðar úti. Sömu tilfinningu og maður upplifði í janúar og október 1995. Þetta er magnaður texti.

Bubbi Morthens - Með vindinum kemur kvíðinn

Fyrir vestan er veturinn stríður
vokir yfir byggð og tíminn líður.
Með sólvana daga, dapurlegan róm
dreymir ekki alla himnanna blóm.

Vegirnir lokast, veturinn hamast,
vörnin er engin, þorpið lamast.
Menn horfa upp í hlíðina, sjá ekki neitt
himinn og jörð renna saman í eitt.

Dag eftir dag snjónum kyngdi niður,
dúnmjúk mjöll, þessi hvíti friður.
Í rökkrinu þorpið sýndist svo smátt,
svo fór hann að hvessa úr annarri átt.

Og með vindinum kemur kvíðinn,
úti er kolsvört hríðin.
Og fjallið það öskrar svo fellur öll hlíðin
og húsin þau hverfa í kófið.

Eitt andartak stóð tíminn kyrr,
æddi síðan inn um glugga og dyr.
Hreif burt vonir, reif upp rætur,
einhvers staðar engill grætur.

Hvers vegna hér - menn spá og spyrja,
spurningar flæða hvar á að byrja.
Fólkið á þig kallar Kristur,
kvölin nístir bræður og systur.

Tárin eru leið til að lækna undir
lífið er aðeins þessar stundir.
Gangverk lífsins þau látlaust tifa
og við lærum með sorginni að lifa.

Og með vindinum?

21 nóvember 2006

VILTU KOMA ÞÉR Á FÆTUR!!!!

Það búa afar, tja hvað skal segja - skrautlegar kannski, mæðgur fyrir ofan mig. Undanfarna morgna hefur dóttirin greinilega átt afar erfitt með að koma sér á fætur en þrátt fyrir að ég hafi lítið sem ekkert hitt þessar mæðgur eða spjallað við þær þá veit ég það að þær eru alltaf samferða út á morgnana. Venjulega hrekk ég upp við það þegar mamman kallar á dóttur sína að fara að koma sér á fætur - og hún öskrar eitthvað misskiljanlegt til baka. Mér bregður ennþá það mikið við öll þessi læti að ég tek þetta hreinlega til mín og hrökklast fram úr rúminu sjálf. Það er kannski bara ágætt, ég sef þá ekki yfir mig á meðan.

19 nóvember 2006

Árviss viðburður...

en kemur Reykvíkingum alltaf jafn mikið á óvart. Að sjálfsögðu er ég að tala um fyrsta alvöru snjóinn. Ég skemmti mér konunglega áðan við að fylgjast með einni gellu í blokkinni á móti moka upp bílinn sinn - ef hægt er að segja svo. Það var smá skafl fyrir aftan bílinn og þurfti kannski að moka smá. Þetta tók hana hins vegar góðan hálftíma og hún mokaði öllu fyrir bílana sem voru við hliðina á henni. Ég hefði náð í hana og látið hana moka frá þeim bílum líka ef ég hefði átt þá. Það er svo alveg magnað að Lögreglan þurfi að taka það fram í fjölmiðlum að fólk eigi ekki að vera á ferðinni á sumardekkjum. Fólk er fífl - það er eiginlega ekki hægt að segja annað.

18 nóvember 2006

Stolt af kallinum

Það er ekkert gefið í pólitík og það hefur sést greinilega í prófkjörum undanfarið. Pabbi hlaut ekki brautargengi í prófkjörinu í gær og auðvitað eru það vonbrigði fyrir hann. Ég hef aldrei viljað vera flokksbundin og hef alls ekki alltaf verið sammála karli föður mínum en ég hef alltaf borið virðingu fyrir því starfi sem hann hefur unnið af hendi. Þrátt fyrir úrslit gærdagsins er ég stolt af kallinum. Hann hefur alltaf staðið á sínu þrátt fyrir að á móti hafi blásið og það er meira en hægt er að segja um margan þingmanninn sem skiptir oft um lið eftir vindáttum. Eins og einhver vitur maður sagði eitt sinn, þá er einn djarfur maður oft meirihlutinn.

En pólitíkin er hins vegar tík og ég á ekki eftir að gráta það ef hann ákveður að hætta í stjórnmálum. Eftir að stjórnmálaumræða færðist í meira mæli inn á netið þá gleymist það æ oftar að aðgát skal höfð í nærveru sálar. Oft verður persónulegt skítkast meira ráðandi í umræðu þeirra sem tjá sig á netinu þar sem viðkomandi er ekki í aðstöðu til að svara fyrir sig. Það er nú samt þannig að það er gott fólk að vinna á öllum vígstöðvum í pólitík og þrátt fyrir að maður sé ekki sammála þeirra vinnubrögðum og/eða skoðunum þá hefur maður engan rétt á því að vaða með skít og drullu yfir persónu þeirra - þó svo að málefnaleg gagnrýni standi alltaf fyrir sínu. Því eins og áður sagði skal aðgát höfð í nærveru sálar og fátt er eins meiðandi og einmitt orð.

Umræðan um pabba hefur oft verið óvægin og ég reyni oftast að leiða hana hjá mér. Hans eigin flokksmenn hafa oft gengið hart fram og hafa haft í frammi ummæli sem segja meira um þá sjálfa en pabba. Ekki það að ég sé viðkvæm fyrir gagnrýni á pabba eða hans störf, við systkinin erum alin upp á mjög pólitísku heimili þar sem er langt í frá gefið að allir séu sammála. Ég hef ávallt verið foreldrum mínum þakklát fyrir það að hafa ekki troðið sínum skoðunum upp á okkur heldur frekar alið okkur upp til þess að hafa okkar eigin skoðanir. Maður væri hins vegar gerður úr steini ef það kæmi ekki við mann þegar einhver sem stendur manni nærri er beinlínis rakkaður niður í fjölmiðlum. Og það er einmitt mergur málsins. Hvort sem það er í stjórnmálum eða annars staðar í samfélaginu þá skal aðgát höfð í nærveru sálar. Það er vonandi að sem flestir taki það sér til fyrirmyndar.

17 nóvember 2006

Eragon

Ég tók andköf af spenningi fyrst þegar ég las þessa frétt á mbl. Í fljótfærni minni hélt ég að þriðja bókin um Eragon væri loksins komin. En nei, þetta er bara bók númer tvö á íslensku - sem ég er auðvitað löngu búin að lesa á ensku. Þannig að ég verð að bíða enn um sinn eftir bók númer þrjú.

14 nóvember 2006

Ég vil benda fólki á að hlusta á Laufskálann síðan í gær á ruv.is. Þar var verið að spjalla við hann Valdimar Víðisson, frænda minn, sem er skólastjóri í Grunnskólanum á Grenivík. Ég hlustaði á þáttinn í gær og hann stóð sig frábærlega og margt varið í það sem hann hafði að segja.

Annars hef ég ekki mikið að segja þessa dagana, vaskur og jólapróf framundan. Ég hef ekki nennt að tjá mig um þessi innflytjendamál hérna aðallega vegna þess að mér finnst umræðan á sorglegu plani. Mér finnst fólk alveg jafn sorglegt sem vill halda öllum útlendingum frá landinu og þeir sem stimpla alla sem rasista sem vilja ræða þessi mál. Í mínum huga er hvorki gott að loka landinu fyrir útlendingum né að hafa aðgang þeirra að landinu alveg frjálsan og ég neita að láta stimpla mig sem rasista fyrir að vilja ekki frjálst flæði innflytjenda til landsins.

13 nóvember 2006

Ekki hæf til útgerðar

Helginni var eytt með vinnufélögunum á Sólheimum í Grímsnesi. Það var hinn besta skemmtun og kann ég mömmu og Sveinbirni bestu þakkir fyrir. Sérstaklega fyrir að hafa tekið mig með heim aftur. Það sem stendur upp úr eftir ferðina er að konan hafi ekki verið hæf til útgerðar og þarf fólk að fara á Draugasetrið á Stokkseyri til að fá frekari útskýringar á því. Eins urðu glottin eftir á Sólheimum, ásamt lífrænt ræktaða bjórnum, rauðvíninu og hvítvíninu - sem er reyndar vel hægt að mæla með. Fólk þarf samt að gera sér ferð á Sólheima til að fá sér flösku af slíku góðgæti, tilvalið að ná sér í glott í leiðinni og glotta eins og fífl alla leiðina heim ;)

09 nóvember 2006

Sektin er komin í hús...

...Það verða engar jólagjafir frá mér í ár.

06 nóvember 2006

Erla móða og Tómas Orri

Þá er litli kúturinn kominn með nafn. Tómas Orri varð fyrir valinu og á það alveg einstaklega vel við litla kútinn sem hefur verið kallaður Tommi togvagn af okkur í fjölskyldunni síðan hann fæddist :p Læt fylgja hérna mynd af honum í skírnarkjólnum með sinni einstaklega myndarlegu móðursystur ;)



03 nóvember 2006

Þessi hefur þokkalega verið á þörfinni. Greyið maðurinn, hehehe....

02 nóvember 2006

Kveðja

Við kveðjum í dag mann sem hefur reynst fjölskyldunni minni afar vel og alltaf verið til staðar þegar við þurftum á að halda. Mig langar að setja hérna inn ljóðið sem Dagný systir fann til að setja í minningargreinina frá okkur systkinunum um leið og ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur í Keflavíkina. Þú veist hvar við erum Sigrún mín ef það er eitthvað sem við getum gert.

Hér við lífsins leiðarenda
leitar klökkur hugurinn.
Hjartans þakkir því skal senda
þér, og kveðjur vinur minn.
Meðan ég er moldum yfir
man ég okkar kynni vel.
Þín í anda áfram lifir
alúð, tryggð og vinarþel.
(höf. Óþekktur)

01 nóvember 2006

Læknar og spítalar

Ég hef aldrei verið hrifin af læknum og enn síður af spítölum en hef því miður talsvert þurft að nýta mér þjónustu þeirra þetta árið. Mér hefur oft verið hugsað til frasans ,,við erum með besta heilbrigðiskerfið í heiminum". Það er nefnilegast langt í frá að svo sé og það er ég búin að reka mig á aftur og aftur. Ég myndi hins vegar hiklaust halda því fram að starfsfólkið innan heilbrigðisgeirans væri með því besta sem gerist og það er að vinna frábært starf við oft ansi ömurlegar aðstæður.

En það eru undantekningar á því eins og á öllu öðru. Á mánudagskvöldið þurfti ég að fara niðrá Læknavaktina á Smáratorgi og var þjónustan þar svo innilega fyrir neðan allar hellur að ég get bara ekki annað en sagt frá því. Ég hringdi þangað fyrst til að leita ráða vegna afar slæms höfuðverkjar sem var að hrjá mig og indæl hjúkka sagði mér að koma strax til þeirra sem ég og gerði. Mamma fór með mér því ég var í engu ástandi til að keyra sjálf. Það var enginn að bíða í móttökunni svo við fórum strax til ritarans og var mér þá svo illt að ég hálf grét og stóð varla í lappirnar. Ekki var það nógu áríðandi til að ég fengi afgreiðslu strax og konan fór að kalla upp fólk sem var að greiða fyrir læknisvottorð og eitthvað þvíumlíkt. Mamma lét mig því setjast og beið eftir að kæmi að okkur. Þegar ég kom svo inn til læknisins var hausinn við það að springa og flökurleikinn bætti ekki úr skák og ég leit heldur illa út. Gat ekki setið upprétt í stólnum og var bókstaflega við það að leka niður. Læknirinn hins vegar skammaðist bara út í mig hvað ég hefði tekið af verkjalyfjum um daginn og ætlaði nú bara ekkert að gera. Mamma var hins vegar frek og vildi vita hvort þetta væru einkenni blóðtappa en honum fannst þetta augljóslega hið mesta vesen í okkur en tók blóðþrýstinginn til að friða mömmu. Sendi okkur svo bara út aftur og sagði mér að fara niðrá slysó. Spurði ekki að neinu og gerði ekki neitt.

Á slysó fór ég framfyrir í röðinni og var farið nánast beint með mig inn á skoðunarherbergi þar sem ég fékk að leggjast niður og hjúkkan tók blóþrýstinginn. Svo tók við bið. Og bið. Ég fékk verkjalyf eftir 2 tíma og var í rauninni bara sprautuð niður og þá voru líka teknar blóðprufur. Og þá tók við ennþá meiri bið eftir niðurstöðunum úr þeim. En þrátt fyrir alla biðina á slysó þá var starfsfólkið frábært - þegar það var á staðnum. Það svaraði þolinmótt öllum okkar spurningum og upplýsti okkur mjög vel um það sem stóð til að rannsaka og hvað það þýddi allt saman.

Ég skil ekki ennþá af hverju læknirinn á Læknavaktinni spurði engra spurninga og af hverju hann gerði ekki neitt. Ég veit bara að ég fer ekki þangað inn fyrir dyr aftur og þó svo ég þurfi að bíða í marga klukkutíma þá fer ég bara beint niðrá slysó næst þegar eitthvað bjátar á.