29 desember 2008

Auðvitað löngu komin heim

Hef bara ekkert verið að gefa mér tíma í að blogga. Heimferðin gekk vel og það var nóg að gera fram á Þorláksmessu þegar ég fór vestur. Reyndar var ekki flogið svo ég tók bílaleigubíl og keyrði í góðum félagsskap vestur. Jólin voru afar ánægjuleg hjá okkur ömmu. Hæfileg blanda af notalegheitum á náttfötunum og jólaboðum. Ég ætlaði suður á laugardaginn en lagðist þá í ansi skemmtilega ælupest og það var kannski bara lán að það var ekki flogið þann daginn því ég hefði ekki getað staðið í lappirnar nógu lengi til þess að komast suður. Það var ekki flogið í gær heldur og ég endaði á því að keyra suður, drulluslöpp eftir æluna en ég lifði þetta af. Missti samt af THE Sálarpartýi og balli sem var búið að plana í margar vikur og get ekki sagt að ég sé sátt með það en það er víst lítið við því að gera. Missti líka af fjölskylduboðinu sem var planað að fara í í gær en það þýðir víst lítið að gráta það heldur. Núna er planið að safna kröftum eftir flensuna og koma sér af stað í vinnu. Kveðja svo árið í rólegheitum með fjölskyldunni.

Þar sem lítið fór fyrir jólakortum þetta árið sendi ég þér og þínum bestu kveðjur og óskir um gleðilega rest og farsæld og hamingju í tonnavís á komandi ári!

19 desember 2008

Á heimleið

Þá er loksins komið að því að ég komist heim í jólafrí. Ég skilaði tveimur ritgerðum inn í dag og á þá bara eina eftir sem ég ætla að klára í fríinu. Allt að verða klárt og bara smotterís frágangur eftir sem ég klára í fyrramálið. Ég vona að ég eigi eftir að geta lokað töskunni og mér finnst að ég eigi að fá verðlaun ef ég kemst alla leið á leiðarenda án þess að borga krónu (eða evru) í yfirvigt. Ef ég væri uppfinningamaður myndi ég finna upp svona Harry Potter tösku. Tösku sem væri lítil og nett, tæki endalaust við án þess að það sæist utan á henni eða að hún þyngdist um eitt gramm. Mig vantar pottþétt svoleiðis.

Stelpurnar eru nýfarnar. Við fórum saman út að borða og svo heim í smá spjall. Verður skrýtið að hitta þær ekki á hverjum degi. En ég hitti þær aftur í janúar og þangað til fæ ég að hitta allt fólkið mitt sem ég er búin að sakna svo mikið. Ég verð lent á Íslandinu góða eftir tæpa 16 tíma. Þá mega jólin koma :-)

18 desember 2008

Að láta valta yfir sig

Ég er aðeins byrjuð að skrifa ritgerð um kenningar í alþjóðasamskiptum og nota Þorskastríðið sem dæmi. Ein af heimildunum mínum er greining á pólitískum viðbrögðum Ísland og Bretlands á þessum tíma. Það er eitt sem ég hef verið ansi hugsi yfir síðan ég las Þorskastríðsgreinina. Þegar bresk herskip fylgdu breskum togurum inn í íslenska landhelgi á Þorskastríðsárunum hótuðu íslensk stjórnvöld því að herstöðinni í Keflavík yrði lokað sem og að Ísland myndi segja sig úr Nató. Þá var því einnig hótað að skerða stjórnmálasamband ríkjanna verulega. Af hverju fór ekki svipuð maskína í gang þegar Icesave kom upp?

Mótmæli Íslands í Þorskastríðunum voru byggð á tveimur greinum í Nató sáttmálanum. Grein 2 segir að aðildarríki skulu efla efnahagslegt samstarf á milli ríkja og "seek to eliminate conflict in their international economic policies" á góðri íslensku. Grein 5 er þekkt sem trigger grein sáttmálans og segir að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll og að þau komi hvort öðru til hjálpar við slíkar aðstæður. Greinarhöfundur vitnar í óþekktan Íslending sem sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru prófmál. Þær myndu sýna hvort Nató væri eingöngu hernaðarbandalag eða hvort það væri eitthvað þar fyrir Ísland líka. Nató reyndar gerði ekki neitt í því að leysa deiluna en það er svo önnur saga. Hótanirnar virkuðu fyrir því.

Icesave er annar conflictin sem Natóbandalagsþjóðirnar Ísland og Bretland eiga sín á milli. Ég held að það megi alveg líkja saman mikilvægi Þorskastríðanna og Icesave fyrir Íslendinga þó svo að málin séu ólík. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að viðbrögð Breta við Icesave, t.d. með beitingu hryðjuverkalaganna, brjóti í bága við greinar Natósáttmálans sem eru nefndar hér að ofan, sérstaklega þá nr. 2. Sumir myndu jafnvel halda því fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi jafngilt árás á Ísland og þar með brotið gegn grein númer 5.

Hvað gera íslensk stjórnvöld? Þau lúffa, segja já og amen og semja um Icesave. Mótmæli eru veikburða og gefa ekki gott dæmi um góða samningatækni. Ég myndi allavegana ekki vilja að þeir sem sömdu fyrir Íslands hönd í Icesave myndu semja um nokkurn skapaðan hlut fyrir mig. Aldrei þessu vant er ég sammála Guðna Ágústssyni sem sagði einhvers staðar að Ísland hefði átt að reka sendiherra Breta úr landi og hóta úrsögn úr Nató. Það má vera að taktík Breta hafi verið lúaleg og beri Gordon Brown ekki fagurt vitni en það gera viðbrögð íslenskra stjórnvalda ekki heldur. Þau hefðu betur mátt líta til viðbragða forvera sinna á tímum Þorskastríðanna. Þá létu Íslendingar ekki valta yfir sig og báru sigur úr býtum. Við vitum hins vegar ekki ennþá hvað Icesave samningurinn á eftir að kosta þjóðina mikið. Það er uppskeran sem fæst með því að láta valta yfir sig.

17 desember 2008

Lærilær

Er búin að standa á haus í lærdómi undanfarna daga. Er búin með 3 verkefni af 5 og stefni á að klára eitt enn áður en ég fer heim. Ef það gengur upp skila ég 2 ritgerðum á föstudaginn og á þá bara eftir að klára eina í fríinu. Held að ég geti verið sátt við það. Er núna orðin stútfull af kvefi og er að reyna að finna allann þann sjálfsaga sem ég á til að einbeita mér að því að klára Tíbetritgerðina. Stefni á að geta sent hana í yfirlestur á hádegi á morgun.

Á þriðjudaginn hringdi leigusalinn í mig og bað mig um að geyma fyrir sig sófa. Hún sagði að hann væri lítill svo ég hélt að ég kæmi honum örugglega fyrir. Þetta er hins vegar lítill tungusófi sem ekki er hægt að snúa hvernig sem er. Passar fínt fyrir framan sjónvarpið en þá var svefnsófinn sem ég var með fyrir orðinn að veseni. Svo ég er búin að spóla hérna um gólfið á ullarsokkunum mínum að reyna að ýta til húsgögnum og koma öllu fyrir og svei mér þá ef það er ekki búið að lukkast ágætlega. Læt Turi og Rosönnu dæma um það á föstudagskvöldið en þá ætlum við að hafa smá jólakveðjuhitting. Mamma sendi mér hangikjöt, graflax og íslenskt nammi sem þær fá að smakka. Sumt af namminu er reyndar búið ef ég á að segja alveg eins og er. Maður getur ekki haldið sig frá eldhússkápunum endalaust þegar maður veit af einhverju góðu þar...

13 desember 2008

Námsmat dagsins

"Þú stóðst þig vel og átt alla möguleika á að verða góður mediator. Hvet þig til þess að leggja það fyrir þig."

Fær maður vinnu við það á Íslandi í dag?

12 desember 2008

Tækniundur

Fyrir nokkru síðan hjálpaði Linda mér að downloada Skype. Ég hef ekkert notað það síðan enda kann ég ekkert á þetta blessaða apparat. Linda hringdi í mig einu sinni og ég vissi ekki hvurn andskotinn gekk á þegar tölvan byrjaði allt í einu að hringja. Núna erum við að undirbúa verklegu æfinguna í negotiation and mediation sem verður á morgun. Við erum fjögur saman sem erum mediatorar í okkar hóp og það er margt sem þarf að ákveða og undirbúa. Til þess að þurfa ekki að hanga saman í allan dag þá var ákveðið að nota Skype. Núna er ég búin að komast að því að maður getur talað saman á Skype eins og á MSN. Merkilegur andskoti. Svo er ég búin að læra að svara þegar það er hringt. Það tókst reyndar ekki í fyrstu tilraun en það hafðist að lokum. Þannig að núna held ég að ég sé að verða fær í flestan sjó þegar kemur að nýjustu tækni og vísindum svo að ef þið viljið adda mér á Skype heiti ég erlakris þar.

08 desember 2008

Komin í samband við umheiminn

Tæknikallinn kom í morgun og allt komið í lag, mér til mikillar gleði. Nú þarf að nýta tímann vel þangað til að ég kem heim. Ég hlýt að finna sjálfsagann þarna einhvers staðar svo ég geti skrifað og skrifað eins og enginn sé morgundagurinn. Annars eru 12 dagar í Íslandið og 15 dagar í Bolungarvíkina mína. Ég verð sem sagt hjá ömmu um jólin eins og oft áður og ég hlakka mikið til að komast vestur í kyrrðina og hreina loftið. Ég fer suður á þriðja í jólum og svo aftur út þann 18. janúar. Þannig að þeir sem vilja hitting á meðan ég er á klakanum mega fara að taka frá tíma. Að öðru leyti er ég lögst í lærdóm. Sjáum til hvort það verði eitthvað bloggað fram að heimferð.

05 desember 2008

Enn meira netleysi

Það kom tæknimaður til mín í gær sem ég hélt að myndi leysa málin af tærri snilld. En nei það gekk ekki upp. Belgacom tók víst upp á því hjá sjálfu sér að taka mig úr sambandi við umheiminn og það þarf að koma tæknimaður frá þeim til að tengja mig aftur. Hann kemur á mánudagsmorgunninn og það er því netlaus helgi framundan og yfirdrifið nóg af lærdómi til að ljúka. Ég fór í skólann í gær og leitaði að heimildum í ritgerðirnar mínar og prentaði allt heila klabbið út. Svo helgin verður vel nýtt fyrir ritgerðarskrif, engin truflun í Facebook, MSN eða neinu slíku ;-) Er reyndar að fara á workshop á morgun sem heitir Powerful communication sem ég hef akkúrat engan tíma fyrir en mig langaði samt svo að fara á. Sem sýnir það að maður getur alltaf búið til tíma fyrir það sem mann langar til að gera.

Annars eru 15 dagar í Íslandið. Ég stefni á að klára ritgerð 1 af 3 á helginni og byrja á þeirri sem verður númer 2. Kannski að netleysið sé bara blessun í dulargervi eftir allt saman....

01 desember 2008

Netleysi

Er búin að vera netlaus heima síðan á fimmtudaginn sem hefur vakið mikla lukku eða þannig. Ég er algjörlega fötluð án netsins og ef tæknimaðurinn fer ekki að koma og gera við lendi ég í tómum vandræðum með lærdóminn. Þurfi að fara í skólann til að downloada lesefni vikunnar og tékka á póstinum mínum en fer svo aftur heim til þess að læra enda engin almennileg aðstaða til þess að gera það í skólanum. Var að fá hlutverkið mitt í simulation verkefninu og fékk mediatorinn. Lang erfiðasta hlutverkið með langmestu vinnunni. Skemmtilegt. En það þýðir víst lítið að væla það, bara spýta í lófana og klára þetta. Mikið svakalega verður gott að setjast upp í lestina til Amsterdam eftir 19 daga.

26 nóvember 2008

Endalausar ritgerðir

Bara 24 dagar í að ég komi heim og á þeim tíma ætla ég mér að skrifa 3 ritgerðir sem hver á að vera 3-4.000 orð. Ekkert svakalegar lengdir en það þarf slatta undirbúning til að gera þetta vel og ég ætla nú gera meira en bara rétt að ná. Er búin að velja mér efni í 2 af ritgerðunum en er búin að vandræðast mikið með þá þriðju - og á einmitt að skila inn tillögu að henni til prófessorsins í dag! Heppilegt.... Hann reyndar veit að ég er í tómum vandræðum því það var samið um efnið sem ég ætlaði að skrifa um svo það gerist varla neitt stórkostlegt ef tillagan fer ekki inn fyrir miðnætti - en ef ég ætla mér að ná að klára þetta allt fyrir jólafrí þarf ég að gjöra svo vel og sparka mér í gang.

Ég á að skila einni ritgerð í hagfræði og er að spá í að skrifa þar um alþjóðavæðingu og mismunandi áhrif hennar á þróuð og vanþróuð ríki. Maður myndi ætla að alþjóðavæðing kæmi vanþróuðum ríkjum vel en svo er ekki. Þar sem þetta er í fyrsta skipti sem ég læri hagfræði og ég hef nánast ekkert vit á einhverjum módelum og slíku þá held ég að þetta sé nokkuð seif efni. Öruggara en gengi gjaldmiðla allavegana!

Önnur rigerðin er í IRT (international relations theory). Það er skyldukúrs þar sem við erum að læra um kenningarnar í IR. Þurfum að velja okkur konflikt og nota hann til að gagnrýna eina kenningu og nota svo aðra kenningu til þess að útskýra konfliktinn. Alveg svaðalega spennandi og ekki þurrt fyrir fimm aur... Þarna er ég að spá í að nota Þorskastríðin og er nokkurn vegin búin að velja mér kenningar til þess að nota með.

Þriðja ritgerðin er í negotiation and mediation og þar eigum við að velja okkur konflikt sem er í gangi núna, á milli tveggja eða fleiri aðila, velja okkur aðila til þess að ráðleggja og ritgerðin er svo ráðlegging til þess aðila um lausn deilunnar. Ég ætlaði alltaf að skrifa um Icesave og var búin að fá samþykki fyrir því en þá leystu þeir bara deiluna sem þýðir að ég má ekki skrifa um hana. Bölvaður dónaskapur að geta ekki beðið með það fram yfir daginn í dag! Það er ekki lítið mál að velja sér efni í þessu því það er ekki eins og maður horfi til Kongó eða Palestínu og Ísrael og hristi eins og eitt stykki lausn fram úr erminni. Ég er aðeins farin að horfa til Kína og Tíbet og hafði þá hugsað mér að ráðleggja sjálfum Dalai Lama. Er aðeins búin að lesa mér til um þann konflikt og er að melta með mér mögulegar lausnir.

Fyrir utan þetta allt þarf ég að gera simulation í n&m. Okkur verður úthlutað karakterum þar og fáum upplýsingar um hans stöðu og bakgrunn. Síðan þurfum við að setja okkur í samband við aðra í hópnum sem fengu annan karakter og þurfum að semja um málið. Það fer heill laugardagur í verklega hlutann í þessu eftir hálfan mánuð og svo þarf að skila inn skriflegri strategíu líka. Þetta er reyndar lúmskt gaman. Gerðum eina stutta svona æfingu í seinustu lotu og það var ótrúlegt hvað maður datt inn í karakterinn sinn. Minn var samt með pólitískt skítlegt eðli og það var ekki gaman að leika þann hluta og ég átti frekar bágt með að halda andlitinu þá. En það var gaman að prófa þetta og fá smá skilning á því hernig n&m fara fram og hvað hlutirnir snúast oft miklu meira um pólitík og valdapot heldur en málefnin sjálf.

En jæja, þá er ég búin að kortleggja þetta fyrir sjálfa mig sem verður vonandi til þess að tillögunni verði skilað inn í seinasta lagi á morgun og ritgerðarskrif byrji af fullum krafti strax á mánudag. Skjalfesti hér með það markmið að þetta verði allt klárt föstudaginn 19. desember. Gangi mér vel!

24 nóvember 2008

Úti er alltaf að snjóa

Labbaði í búðina áðan í GRENJANDI rigningu. Held að ég hafi eyðilagt leðurhanskana mína á leiðinni svo mikil var rigningin. Bað þess í hljóði á meðan ég var að versla í matinn að það yrði búið að stytta upp áður en ég labbaði heim. Hefði kannski þurft að vera ögn skýrari því það var svo sem hætt að rigna en það hafði bætt örlítið í vindinn og farið að snjóa! Það er því óhætt að segja að þetta hafi verið hressandi göngutúr, maður fékk það næstum því á tilfinninguna að maður væri kominn heim.

Það er því kalt í Brussel þessa dagana. Ég ligg undir teppi í aukapeysu og hosunum sem amma sendi mér og reyni að læra en mér er samt kalt. Næsta skref er að setja utan um gestasængina og sjá hvort að hún ylji meira en teppið. Það er óhætt að segja að það verði gott að komast heim í almennilega upphituð hús! 26 days and counting...

22 nóvember 2008

Snjókorn falla

Var að koma heim úr afar endurnærandi göngutúr um götur Brussel. Er búin að sitja og lesa hagfræði í dag og fannst það alveg kjörið að drífa mig út í göngutúr þegar það byrjaði að snjóa.




Það fór hins vegar ekki mikið fyrir snjónum eins og sjá má á myndinni og ég sá akkúrat engan snjó í göngutúrnum mínum. Mér fannst það samt hressandi að fá smá snjókomu ólíkt flestum samnemendum mínum sem eiga ekki til orð yfir það að það sé að snjóa hérna - og það undir lok nóvember. Það er auðvitað merkilegur andskoti.
Annars er þetta búið að vera ansi róleg vika og það er varla hægt að segja að ég hafi þurft að mæta í skólann. Ég notaði tækifærið og verslaði allar jólagjafirnar og er búin að pakka þeim inn líka. Núna er bara að koma öllu af stað í póst og sjá hvort ég geti ekki sent eitthvað með til að minnka líkurnar á yfirvigt þegar ég fer heim um jólin - sem verður eftir nákvæmlega 4 vikur. Ég er farin að hlakka mikið til að komast aðeins heim og það er ágætt að það verði meira en nóg að gera í skólanum þangað til. Tíminn líður þá bara aðeins hraðar.

Á næstu helgi ætlum við Linda til Kölnar á hinn víðfræga jólamarkað. Förum snemma á laugardagsmorgni og komum aftur á sunnudeginum. Ég held að þetta verði ágæt tilbreyting og gaman að fá að skoða Köln þó svo að stoppið sé stutt. Annars verður bara legið yfir námsbókunum fram að jólafríi og ég ætla að reyna að klára þessar 3 ritgerðir sem á að skila strax eftir jólafrí.

Ég hef sagt frá því hérna áður að það sé ansi mikið kattarfár á veröndinni hjá mér og hérna í kring. Mér er hætt að bregða við það þó svo að þeir standi og mæni inn til mín blessaðir. Ég hrökk hins vegar ansi illilega við í vikunni þegar það stóð hundur og horfði inn um gluggann hjá mér og gelti hátt. Mér brá svo að ég hrópaði upp og hundurinn hvarf mjög fljótlega. Hann kom hins vegar aftur í gær og þá náði ég að smella af honum mynd - svona því til sönnunar að ég væri ekki orðin klikkuð.
En jæja, hagfræðin bíður. Au revoir þangað til næst.

19 nóvember 2008

Ævisagan Tabú

Ævisaga Harðar Torfa er komin út og ég verð að segja að þetta er bók sem mig langar virkilega til að lesa. Ég held að hún sé holl lesning fyrir alla á þessum síðustu og verstu og mæli með henni í jólapakkann í ár.

14 nóvember 2008

Ypres - myndablogg

Jæja, ætla að gera aðra tilraun við að koma inn ferðasögunni til Ypres. Ætla að prófa að setja hana inn í myndaformi. Það eru hins vegar bara örfáar útvaldar myndir, þið verðið að fara á Facebook til að skoða restina ;-)


Ætli helvíti sé ekki ágætis lýsing á Vesturvígstöðvunum...

Poppies blóm sem er minningartákn um fyrri heimsstyrjöldina.
Þau voru alstaðar!


The Menin Gate.

Minnisvarði Breta um þá sem létust en eiga sér enga gröf. Þarna eru rituð

nöfn tæplega 55.000 manna.



Skotgrafirnar í Sanctuary Wood


Tyne Cot, breskur kirkjugarður.

Langemark, þýskur kirkjugarður. Þarna eru margfalt fleiri grafnir en í Tyne Cot,

þó svo það fari lítið fyrir því.

Mér finnst við hæfi að enda þetta á gröf óþekkts hermanns úr Tyne Cot.

Þetta var mögnuð ferð og maður gerir sér fyrst grein fyrir því núna hvað það dóu

alveg svakalega margir í þessu stríði. The Great War er þetta kallað en í mínum

huga er þetta mannlegur harmleikur, hvernig sem á það er litið.

13 nóvember 2008

Ypres - In Flanders' Fields

Ég var búin að setja inn langa færslu um ferðina til Ypres og fullt af myndum en blessaður bloggerinn neitaði að setja þetta inn. Ferðasagan kemur því síðar, ljóðið In Flanders' Fields og ein mynd verða að duga í bili. Myndin er úr þýska kirkjugarðinum Langemark.



In Flanders' Fields

In Flanders' Fields the poppies blow

Between the crosses, row on row,

That mark our place; and in the sky

The larks, still bravely singing, fly

Scarce heard amid the guns below.

We are the dead. Short days ago

we lived, felt dawn, saw sunset glow,

loved and were loved, and now we lie

in Flanders' fields.

Take up your quarrel with the foe:

To you from failing hands we throw

the torch, be yours to hold it high.

If ye break faith with us who die

we shall not sleep, though poppies grow

In Flanders' fields.

10 nóvember 2008

Ritgerðin klár

og ég er nánast búin að lesa allt lesefni sem var sett fyrir þessa vikuna líka. Það verður því rólegra andrúmsloft þessa vikuna heldur en var útlit fyrir fyrir helgi. Eða allavegana hjá mér. Er búin að heyra í nokkrum sem eru ekki byrjaðir á ritgerðinni enda fékk ég að heyra það þegar ég sagðist nánast vera búin. "You're so responsible it's scary". Ég læt það nú samt vera. Á meðan ég átti að vera að skrifa ritgerð í seinustu viku tók ég mig til og lærði að sækja mér þætti á netið til að horfa á og kláraði að horfa á heila 9 One Tree Hill þætti og var almennt séð algjörlega andlaus og löt. Ef maður er impressive í svoleiðis gír þá er spurning hvað liðið segir þegar það er einhver kraftur í manni :p

Um leið og fyrsta ritgerðin fer í hús raðast hinar upp. Þarf að skrifa þrjár í viðbót plús eitt stórt skilaverkefni í negotiation sem er bæði verklegt og skriflegt. Svo er það mastersritgerðin. Ég þarf að skila inn grind strax eftir jólafrí svo ég þarf að fara að pæla í umfjöllunarefni. Ástandið heima á klakanum er manni hugleikið þegar maður veltir því fyrir sér. Mig langar mikið að fá að analysera Icesave deiluna við Breta í lokaverkefninu í negotiation enda er deilan að mörgu leyti sérstök. Það er hins vegar ekki mælt með því sérstaklega að við tökum efni sem tengist okkar heimaþjóð en ég ætla samt að þjarma aðeins að prófessornum og sjá hvort hann hleypi mér ekki í gegn með þetta. Í mastersritgerðinni langar mig soldið að skrifa um hvað Ísland geti gert til þess að byggja upp nýja ímynd á alþjóðavettvangi. Hvaða sóknarfæri séu fyrir land og þjóð. Er samt ekki komin með hugmyndina svo langt að ég sé farin að sjá hvert ég ætti að sækja heimildir og hvernig væri hægt að byggja grunn að því. Ætla að melta þetta aðeins og tek það fram að ég þigg allar ráðleggingar með þökkum ;-)

Ég ætla svo að ljúka þessu á að skora á ykkur sem eruð að lesa að kvitta fyrir komuna í kommentkerfið. Veit um marga eins og Sólrúnu sem fylgjast með en eru ekki mikið fyrir að kvitta. Væri ekki tilvalið að bæta úr því núna? :-)

08 nóvember 2008

Bonjour Islande

This is Brussels calling. Ágætt að frétta héðan eins og venjulega og alltaf nóg að gera. Tíminn hefur verið undirlagður af fyrstu ritgerð vetrarins sem á að skila á föstudaginn. Ég er búin með akkúrat 700 orð af 2000 svo þetta gengur alveg. Ég þyrfti helst að klára ritgerðina á morgun því það er busy vika framundan svo það ætti að vera ljóst hvað ég verð að gera á helginni.

Á dagskrá næstu vikuna er ferðin til Ypres þar sem haldið verður upp á það að 90 ár eru frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar, skoðunarferð í Evrópuþingið, Negotiation og meira negotiation og enn meira negotiation. Þegar þessari negotiation lotu lýkur á næsta laugardag eru svo Mugison tónleikarnir. Verður vonandi góður endir á annasamri viku.

En jæja, ritgerðin býður eftir mér. Au revoir þangað til næst.

07 nóvember 2008

06 nóvember 2008

Falleg kveðja

Ég vakna þennan morgun og vel að hann sé góður,
vel að hann sé yndislegur, myrkur og hljóður.
Ég vel að kúra um stund og staðnæmast við það
hve stórkostlegt sé lífið ef fátt amar að.

Ég ákveð því að velja að vandamálin fá
vistuð séu hjá mér til þess eins að ljá
tilverunni ennþá fleiri tilbrigði og fleti,
ég tek þeim opnum örmum svo nýtt mér þau ég geti.

Og eftir litla stund ég vel að fara á fætur,
faðma þennan morgun og allar hans rætur,
hita mér gott kaffi, af kærleik þess ég nýt.
Kexið smyr með osti, í blöðin svo ég lít.

Að endingu ég segi við þig sem þetta lest:
Þetta er góður dagur, hafðu það sem best.
Ég óska þess að hugsanir fallegar þig finni.
Faðmlag þér ég sendi, og kveð þig nú að sinni.

höf. Unnur Sólrún

05 nóvember 2008

Tvöfalt stórafmæli


Það eiga tvær kjarnakonur afmæli í dag. Ella er orðin þrítug og hún Sossa mín er orðin fimmtug. Þær eru báðar að vinna í Grunnskóla Bolungarvíkur sem skartar sínu fegursta á myndinni hérna fyrir ofan. Ég get rétt ímyndað mér hvað það var gott að borða á kennarastofunni í dag! Til hamingju með daginn báðar tvær og vonandi eigið þið eftir að eiga góðan dag. Kossar og knús frá Brussel.

03 nóvember 2008

Speki dagsins


02 nóvember 2008

Loksins, loksins, loksins

Lewis Hamilton er heimsmeistari í Formúlu 1!!! Þetta var lokakeppni fyrir allan peninginn og úrslitin réðust á síðustu beygju. Í Brussel var hoppað, hlegið og grátið af gleði.


Viva McLaren!

31 október 2008

Hversu skítt er nógu skítt?

Tillögur SÍNE um aðstoð við námsmenn erlendis lágu fyrir í byrjun þessarar viku og Þorgerður Katrín er búin að afgreiða málið. Það má hrósa mönnum fyrir skjót viðbrögð. Ég varð hins vegar fyrir verulegum vonbrigðum með innihaldið en menn mega þó eiga það að það virðist vera í takt við það andrúmsloft sem hefur verið ríkjandi hingað til hjá LÍN. Það er þó óhætt að segja að það andrúmsloft er engum til hróss.

Aðeins lítill hluti af tillögunum miðar að því að bæta hag þeirra sem eru nú þegar í námi. Sækja þarf sérstaklega um aukalán til LÍN og það þarf að sýna fram á ófyrirséða röskun á högum námsmanns. Stjórn LÍN fjallar um hverja umsókn fyrir sig og það er ekki ljóst hvernig námsmenn eiga að rökstyðja röskun á högum og hvaða mælikvarði verður notaður. Hversu skítt er nógu skítt? Miðað við fjármagnið sem er ætlað í þetta verkefni er þó nokkuð ljóst að aðeins er verið að plástra þar sem þörfin er mest. Þeir sem eru ekki komnir út á bjargbrúnina ennþá verða að leita annarra leiða til að bjarga sér.

Tekjuskerðing þeirra sem hefja nám frá og með janúar 2009 lækkar úr 10% í 5%. Mikið fagnaðarefni að það skref hafi verið stigið en það hjálpar ekki þeim sem hófu nám í haust og urðu allir sem einn fyrir ófyrirséðum röskunum vegna kreppunnar á Íslandi. Það hefði verið farsælla hjá stjórnvöldum að lækka tekjuskerðinguna hjá öllum sem hófu nám í haust og aðstoða þar með mun fleiri námsmenn en þá sem koma til með að hljóta samþykki um aukalán hjá stjórn LÍN. Byrgja brunninn áður en fleiri detta ofan í hann.

Ég sé ekki að það sé neitt í þessum tillögum sem kemur til með að létta mér lífið fram að útskrift. Miðað við reynslu mína af þessu blessaða LÍN batterí þá hef ég ekki geð í mér til þess að sækja um aukalán til stjórnar LÍN og láta stjórnarmenn meta það hvort ég hafi það nógu skítt til þess að eiga rétt á framfærsluláni að andvirði eins til tveggja mánaða til viðbótar. Það er minna auðmýkjandi að betla einfaldlega evrur á Louise og ég gæti hreinlega haft meira upp úr því ef ég yrði heppin.

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að leggja áherslu á menntun þjóðarinnar og nú. Það er stjórnvöldum til skammar að henda aðeins út nokkrum björgunarhringjum þegar floti af björgunarbátum hefði verið nær lagi.

30 október 2008

Tilkynning um þjónustubreytingu á fluginu þínu

Við hjá Icelandair erum stöðugt að reyna að koma til móts við gesti okkar og kröfur þeirra. Síðustu mánuði hafa til dæmis staðið yfir umfangsmiklar breytingar á flugvélum okkar. Á þessu ári verða allar vélar Icelandair komnar með nýtt og fullkomið afþreyingarkerfi, ný og glæsileg sæti með auknu fótarými. Auk þess verður nýtt farrými komið í notkun, Economy Comfort.

Eitt af því sem breytist 1. nóvember er maturinn um borð. Við fengum Stefán Viðarsson á Hilton Reykjavík Nordica til að setjast yfir nýjan matseðil með okkur. Niðurstaðan er matseðill sem við hjá Icelandair erum mjög stolt af. Í stað staðlaðra máltíða verður gestum á Economy farrýminu boðið upp á að velja milli nokkurra tegunda af mat á vægu verði. Við höldum einnig lága verðinu á Economy með því að gefa gestum okkar val.

Um leið og við segjum þér af þessum breytingum þá viljum við segja þér að þar sem þú keyptir farmiðann fyrir 1. október er í boði samloka þér að kostnaðarlausu í flugi þínu.Við vonumst til að ferðin með okkur verði ánægjuleg og þú njótir þeirra nýjunga sem við bjóðum upp á.

Ég fékk þennan tölvupóst frá Icelandair í dag. Fékk fyrir hjartað þegar ég las fyrirsögnina því ég hélt að það væri verið að gera breytingar á fluginu sjálfu og það tímasetningin myndi þá ekki henta lestinni frá Brussel. Í staðinn er verið að segja mér það að nú þurfi maður að kaupa matinn um borð hjá Icelandair sem hefur verið innifalinn í verði farmiðans hingað til. En af því ég var svo forsjál að kaupa miðann heim um jólin fyrir 1. október fæ ég fría samloku! Mér finnst ég ekkert smá heppin.....

29 október 2008

Maraþonlestur

Tók mér smá pásu frá lestrinum til þess að vafra aðeins á netinu. Það er þokkalegur maraþonlestur í hagfræði þessa vikuna, 15 kaflar takk fyrir pent. Er búin með 10, ætla að klára einn eftir kvöldmatinn og rest á morgun. Er búin að vera að lesa um gengi gjaldmiðla, viðskiptajöfnuð við útlönd og sitt hvað fleira. Ég hef aldrei stúderað hagfræði áður og eftir svona maraþonyfirsetu er ég nær því að taka orð Björgólfs Thors mér í munn og segja að þetta sé bara bull heldur en að mér finnist þetta meika mikið sense. Það er allavegana óhætt að segja að hagfræði séu ekki hárnákvæm vísindi.

Ég er búin að liggja heima lasin síðan á mánudag. Held að mér sé að hefnast fyrir það að hafa þvælst í skólann sárlasin alla síðustu viku. En svona er lífið víst. Maður harkar samt af sér og reynir að lesa eitthvað fyrir skólann og það hefur gengið ágætlega í dag svo heilsan hlýtur að vera að hrökkva í lag. Fyrsta ritgerð vetrarins er farin að gerjast í kollinum á mér. Á að skila tillögu til kennarans á föstudaginn og ritgerðinni 14. nóvember svo það er ekki mikill tími til stefnu. Á að taka fyrir einhverja menningu og skoða hvernig hún aktar í negotiation. Ég er mikið að spá í að skrifa um Bretland sem ætti varla að koma á óvart.

Nóvember er svo að læðast aftan að mér og það vantar ekki verkefnin framundan. Margt skemmtilegt reyndar eins og ferð til Ypres 11. nóvember, skoðunarferð í Evrópuþingið þann 12. og önnur skoðunarferð þann 19. en þá fæ ég að skoða Nato. Svo eru bandarísku forsetakosningarnar þann 4. nóvember og eins og gefur að skilja ætla krakkarnir í skólanum að hittast og fylgjast með þeim. Svo er auðvitað aðalmálið en það eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Er búin að redda mér miða á þá og á ekki von á öðru en það verði bara gaman.

En jæja, hagfræðin bíður eftir mér töfrandi og spennandi - eða eitthvað. Ætla samt að athuga hvað Madame Örbylgjuofn býður mér upp á í kvöldmatinn áður en ég held lestrinum áfram.

Au revoir frá Brussel.

27 október 2008

Langömmukerran


Jæja, þá er ég loksins búin að fá mér langömmukerru sem fer með mér í búðina og í þvottahúsið. Ég er ekki frá því að ég og Magga amma hefðum tekið okkur vel út saman með kerrurnar okkar.

26 október 2008

Að vera Íslendingur í útlöndum

Það er farið að vera hálf súrrealískt að vera Íslendingur í útlöndum þessa dagana. Það er svo sem engin að böggast en í hvert sinn sem ég segist vera frá Íslandi fæ ég sömu svipbrigðin. Eins og ég hafi verið að segja þeim skelfilegar fréttir og í kjölfarið kemur venjulega ,,I'm sorry". Er hægt að þýða það öðruvísi en ég samhryggist? Meira að segja kennarinn minn í Negotiation sem er með vel þjálfað pókerfeis sýndi mér svipinn. Tók andköf og allan pakkann.

Svo eru það brandararnir. Komdu endilega í mat ef þú átt ekki pening fyrir mat. Á ég að borga fyrir þig leigubílinn heim? Hitti einn gaur sem hélt að ég væri frá Argentínu. Mér fannst það fyndið fyrst en svo kom brandarinn. Ísland, Argentína, sama tóbakið. Ísland væri hvort eð er í sama skítnum og Argentína þegar þeir fengu aðstoð frá IMF.

Mér er hætt að finnast þetta fyndið.

23 október 2008

Litli femínistinn

Ég var að byrja í nýjum kúrs í skólanum. Hann heitir Negotiation and Mediation og fjallar eðlilega um samningaumleitanir, friðarviðræður og þess háttar. Þetta er kennt í þremur lotum og hver lota hefst á sýningu e-s konar kvikmyndar. Í gærkvöldi sáum við heimildarmynd frá Kosovo sem fjallaði um mismunandi afstöðu kynjanna til öryggis og hvernig þau skilgreina hugtakið. Einnig var fjallað um stöðu kvenna í Kosovo og hvaða afleiðingar stríðið hefur haft á þá stöðu.

Konur í Kosovo mega ekki vera einar á almannafæri og ef fjölskyldan hefur ekki efni á því að mennta öll börnin sín þá eru það iðulega strákarnir sem fara í skóla. Stelpurnar eru hins vegar heima og sjá um heimilið. Þetta hefur skapað mörg vandamál eftir stríðið. Ekkjur eru t.d. mjög margar og iðulega ómenntaðar. Staða þeirra er óneitanlega mjög erfið þegar þær mega ekki vera einar á almannafæri og það eykur enn á erfiðleikana við að fá vinnu þegar maður er ómenntaður og á þar að auki ekki mann. Konur taka ekki þátt í friðarumleitunum í héraðinu og þær sem taka þátt í stjórnmálum eru að mestu leyti upp á punt.

Það sem situr í mér eftir kvöldið er að þegar er litið á fjölda kvenna í stjórnmálum og áhrifastöðum á Íslandi þá er staða okkar ekkert mikið betri en kvenna í Kosovo. Hlutfall kvenna á þinginu þar er um 30%, ef mig misminnir ekki er það ekki mikið hærra á Íslandi. Kona hefur aldrei verið forsætisráðherra og þrátt fyrir að við höfum átt fyrsta kjörna kvenforseta heimsins þá verður það að segjast eins og er að áhrif og völd forsetaembættisins eru ekki mikil. Konur í áhrifastöðum í þjóðfélaginu eru ekkert svakalega margar og mæta oft fordómum frá samfélaginu vegna þess að þær eru ekki nógu mikið heima með börnunum sínum. Auðvitað er grunnvinnan á Íslandi komin lengra, sérstaklega lagalega. Konur eru einnig í meirihluta þeirra sem leggja stund á háskólanám. Það á svo eftir að koma í ljós hvort að konur eigi eftir að sækjast í valdamikil og krefjandi störf í auknum mæli í samræmi við menntun sína.

Aukin menntun er lykillinn að auknum framförum. Það væri hægt að stuðla að auknum framförum og bættu samfélagi í Kosovo með því að leggja aukna áherslu á menntun kvenna. Þetta á ekki aðeins við Kosovo heldur mun fleiri lönd í heiminum. Það sem ég væri til í að vinna við það að stuðla að aukinni menntun kvenna og stuðla að fleiri tækifærum þeim til handa. Það væri draumur í dós. En ég hef næsta árið til þess að finna mér vinnu og pæla hvað mig langar til að gera. Ég er samt alveg pottþétt á því að ég er komin á rétta hillu og að ég hafi valið rétt þegar kom að því að velja mér framhaldsnám. Það er nokkuð góð tilfinning.

21 október 2008

Algjört unglamb

Það er allt fínt í fréttum héðan úr Brussel. Afmælisdagurinn var ljúfur og ánægjulegur og svei mér þá ef ég yngdist ekki um eitt árið í viðbót. Fékk íslenskt nammi og pítusósu frá Lindu og Soffíu og það er óhætt að segja að gjöfin hafi slegið í gegn. Núna japla ég á íslensku sælgæti og fæ mér almennilega pítu þegar ég ætla að gera eitthvað spari. Skólinn er kominn á fullt og ég sé fram á að hafa meira en nóg að gera á þeim vígstöðvum þangað til ég kem heim um jólin. Það bætist svo alltaf við það sem er á stefnuskránni þetta haustið. Næst á dagskránni eru Mugison tónleikar hérna í Brussel 15. nóvember. Verður fínt að fá smá skammt af vestfirskri orku beint í æð! Svo eigum við Linda alltaf eftir að finna tíma til að skreppa til Amsterdam og fara á jólamarkaðinn í Köln. Möst að gera það fyrir jólin.

Íbúðin mín er svo öll að verða kósý. Bolungarvíkurmyndir komnar á veggina og bara ogguponsulítið smotterí sem mig langar að gera í viðbót til þess að fá meiri hlýju. Fer í Ikea við tækifæri og bjarga því. Annars er gjaldmiðillinn á Hótel Erlu íslensk kokteilsósa og pítusósa. Myndi ekki slá hendinni á móti íslensku nammi heldur og það fást mörg stig í kladdann fyrir þá sem koma með harðfisk og smér. Fyrir þá sem vilja eðaltreatment er gjaldið svo Stella í orlofi á DVD. Það fást náttla ekki betri dílar á gistingu á þessum síðustu og verstu ;-)

Heimþráin hefur soldið verið að segja til sín. Þó svo að það sé yfirdrifið nóg að gera og fullt af skemmtilegu fólki í kringum mann þá er margt sem maður saknar að heiman. Væri alveg til í íslenska náttúru og íslenskt vatn! Skólafélagarnir fá auðvitað að sjá myndir að heiman. Ég er einstaklega hlutdræg og Bolungarvík og Vestfirðir eru þar í aðalhlutverki. Hafa fengið skínandi móttökur að sjálfsögðu. Einn skólafélaginn sagði við mig um daginn að Ísland þyrfti enginn lán til að bjarga efnahagnum, bara senda mig sem víðast með myndir að kynna land og þjóð og ferðamennirnir myndu streyma til landsins. Það er allavegana einn skólafélaginn á leið til Íslands í nóvember svo þetta er allt í áttina hjá mér.

Ég hef því ekki orðið fyrir því að heyra illa talað um Íslendinga hérna úti. Fólk er spurult um ástandið, finnst það alveg skelfilegt og vorkennir okkur Íslendingum. Áttar sig samt á því hvað Íslendingar eru magnað fólk og hvað það er merkilegt að kynnast þeim. Eins og einn gaurinn sagði við okkur Soffíu og Lindu í partýi á laugardaginn: ,,Vá, ÞRÍR ÍSLENDINGAR! Ég hef aldrei hitt svona marga Íslendinga í einu!". Segið svo að það séu ekki sóknarfæri í öllum glundroðanum.

Látum þetta gott heita að sinni. Bestu kveðjur heim.

17 október 2008

Gleymdur hópur

Það er búið að stofna grúppu á Facebook fyrir íslenska námsmenn erlendis. Við heyrum það í fjölmiðlum að Seðlabankinn segir að millifærslur á milli landa séu komnar í lag og SÍNE sagði okkur það á föstudaginn að þetta kæmist allt í lag fljótlega eftir helgi. Það kannast hins vegar enginn af þeim námsmönnum sem eru í grúppunni að millifærslurnar séu komnar í lag. Ekki einu sinni þeir sem eru í viðskiptum við Landsbankann en þar áttu millifærslur að vera komnar í lag fyrir viku. Ég sótti um símgreiðslu til skilanefndar Kaupþings á mánudaginn. Þurfti að veita ítarlegar upplýsingar af hverju ég væri að óska eftir símgreiðslu, til hvers ég ætlaði að nota peninginn og að ég væri námsmaður. Enda er búið að gefa það út að námsmenn erlendis séu í forgangi þegar kemur að erlendum millifærslum. Ég hef ekkert heyrt frá bankanum síðan ég sótti um og ég hef ekki hugmynd um hvað það verður langt þangað til að ég get fært eitthvað af peningunum mínum út.

Pabbi gat reddað mér fyrir horn í gegnum Sparisjóðinn heima en það eru ekki allir svo heppnir og eins og kemur fram á Facebook þá eru sumir orðnir ansi svangir. Maður er farinn að spurja sig hvar okkar málsvarar séu. Hvort að stjórnvöld á Íslandi séu búin að gleyma kjósendum sínum sem eru í námi erlendis. Það er alveg ljóst að yfirlýsingar um að millifærslur á milli landa séu komnar í lag eiga ekki við rök að styðjast. Hvernig væri að ganga í málið af dugnaði og koma þessu í lag? Fólk er virkilega orðið svangt og það er ekki eins og við getum tekið slátur...

16 október 2008

Tilvitnun dagsins á Eyjunni

Tilvitnun dagsins

Maður fer að halda að nú séu bara tvær leiðir út úr þessu - Icelandair og Iceland Express.

Einhver Birgir
Í athugasemd við frétt af 3,5% vaxtalækkun.

15 október 2008

Kattarfár

Undanfarna viku eða svo hefur verið hálfgert kattarfár á veröndinni hjá mér. Einn eftirmiðdaginn kúrðu þeir þrír saman kettirnir beint fyrir utan gluggann hjá mér og virtust hafa það huggulegt. Stundum sitja þeir fyrir utan og mæna á mig á meðan ég læri. Ég veit ekki hvaðan þessi nýtilkomni áhugi á veröndinni minni kemur því þeir hafa látið mig í friði hingað til. Núna get ég ekki opnað út án þess að þurfa að passa upp á að kattarstóðið komi allt inn til mín. Það verður þó að segjast eins og er að þó svo að annarra manna kettir fari almennt alveg svakalega í taugarnar á mér - sérsaklega ef þeir vilja koma inn til mín - þá er nú samt sætt að sjá þá félaga Kasper, Jesper og Jónatan kúra þarna saman.

14 október 2008

Það eru engir peningar í þessum banka...

Ég þurfti að fara í bankann í dag að borga reikninga og var með lausan pening til þess að borga þá. Það var hins vegar ekki hægt! Ég horfði skilningssljó á bankastarfsmanninn sem sagði mér að þetta væri peningalaust útibú og þeir tækju ekki við reiðufé. Ég gat ekki borgað reikningana hjá honum heldur. Hann var með greiðsluvél í andyrinu sem hann kenndi mér á. Ég varð því að taka af leigupeningunum mínum til þess að borga reikningana. Þeir peningar verða heilagri og heilagri eftir því sem það verður erfiðara að fá sendan pening frá Íslandi. Ég er ennþá að klóra mér í kollinum yfir því hvernig ég eigi að geta lagt inn á reikninginn fyrir því sem ég tók út í dag. Einhverjar hugmyndir hvernig maður leggur inn í banka sem geymir ekki reiðufé?

13 október 2008

Vatn í flöskum

Var að fá póst frá skólanum þar sem fólk er hvatt til þess að mæta á fund e-a græningjasamtaka hér í borg þar sem á að mótmæla sölu á vatni í flöskum. Ég var nú alveg komin með það á hreint áður en ég fékk þennan póst að ég væri ekki græn í viðhorfum en ég gat ekki annað en hlegið þegar ég las auglýsinguna frá þeim sem endaði á upphrópun sem er náttúrulega ekkert annað en skandall. Að veitingahús í Brussel hreinlega neiti að afgreiða fólk með kranavatn!

Mér er svo innilega sama hvað það fara margir lítrar af olíu í framleiðslu á vatni í flöskum, hversu lítið hlutfall skilar sér til endurvinnslu og hvað það er flutt víða um heim með tilheyrandi mengun. Það fær mig ekkert til að drekka kranavatnið hérna í Brussel! Svo einfalt er það. Vatnið hérna er með því skítugasta í allri Evrópu og meira að segja stuttklipptu strákarnir í skólanum tala um það hvað hárið á manni sé öðruvísi eftir að þeir fóru að fara í sturtu hér. Það er ekki öðruvísi til hins betra ef það fór eitthvað á milli mála. Ég þakka bara fyrir að fá ekki kranavatn á veitingahúsunum hérna! Ég á líka bágt með að trúa því að það sé ekki hægt að finna aðra lausn á málefnum flöskuvatns heldur en að drekka bara kranavatnið - alveg sama hversu ógeðslegt það er.

Annars minnir fyrirsögnin mig á frasa sem var stundum fleygt í bekknum mínum í grunnskóla. ,,Sel prump í dósum". Það er svo spurning hvor varan fengi verri útreið hjá græningjum. Vatn í flöskum eða prump í dósum.

12 október 2008

Komin heim frá Rotterdam

Þetta var frábær ferð þrátt fyrir tap íslenska liðsins og engin smá upplifun að horfa á hollenska liðið spila. Okkar menn stóðu sig líka vel og það var svekkjandi að þeir skyldu ekki hafa náð að skora eitt mark. Þeir áttu það svo sannarlega skilið. Við fengum sæti á mjög góðum stað beint fyrir aftan annað markið. Sáum því fyrra mark Hollendinga mjög vel og góðar tilraunir íslenska liðsins til að skora í seinni hálfleik líka. Íslendingarnir á vellinum voru náttúrulega algjörlega kaffærðir af þeim hollensku sem studdu sitt lið dyggilega. Frábært að upplifa stemninguna hjá þeim. Við Íslendingar þyrftum að koma okkur upp svona áberandi lit á landsliðin okkar og stuðningsmennina. Eitthvað sem sker sig alltaf úr eins og appelsínuguli liturinn hjá Hollendingum. Þeir voru margir hverjir kostulegir og hefðu verið flottir í dalnum á Þjóðhátíð!

Það setti smá strik í reikninginn að þegar Hollendingar skoruðu fyrra markið tóku tveir miðaldra karlmenn í íslenska hópnum upp flagg sem þeir höfðu búið til og á stóð: You might win the game but we have your money from Icesave. Þrátt fyrir að ég sjái svo sem húmorinn í þessu þá var þetta hvorki staðurinn né stundin fyrir djók af þessu tagi og flaggið var snarlega fjarlægt af vallarstarfsmönnum. Sumir Íslendingarnir höfðu áhyggjur af því að við yrðum fyrir aðkasti á vellinum vegna Icesave málsins í Hollandi enda verður það að segjast eins og er að ímynd landsins hefur skaðast svaðalega þessa seinustu viku og Íslendingar ekki auðfúsugestir allstaðar. Ég veifaði þó mínu íslenska flaggi af stolti og Hollendingar komu prúðmannlega fram við okkur á vellinum. Eitthvað sem sumir af íslenska hópnum hefðu mátt taka sér til fyrirmyndar...

En jæja, ætla að koma mér í bólið. Reyni að henda inn myndum á Fésbókina og jafnvel á bloggið á morgun.

11 október 2008

Áfram Ísland!

Var að koma heim úr afar skemmtilegu matarboði. Það var stelpukvöld hjá Turi og Swati, sem er indversk, eldaði fyrir okkur dásemdar kræsingar að hætti Indverja. Við vorum frá sex löndum held ég og við Turi, sem er dönsk, erum alveg með það á hreinu að við komum frá frjálslyndustu löndunum. En það er gaman að heyra sjónarmið annarra og hvernig lífið er annars staðar samanborið við klakann. Það verður að segjast eins og er að þrátt fyrir allt þá er maður glaður yfir að hafa fæðst á litla Íslandi. Við erum forréttindaþjóð þó svo við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því.

Á morgun er það svo Holland - Ísland. Ég er ekki lítið spennt yfir því að vera að fara á leikinn. Hef alltaf haft gaman af hollenska landsliðinu og það er bara vonandi að okkar menn standi eitthvað í þeim og við fáum skemmtilegan leik. Eða eins og maðurinn sagði; Betra er að fara á kostum en á taugum.

09 október 2008

Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru ekki hlutir

Ég er gjörsamlega uppgefin eftir að hafa fylgst með fréttaflutningi undanfarinnar viku. Það dregur mann hreinlega niður að lesa skoðanir og upphrópanir fólks um menn og málefni. Þrátt fyrir að þetta séu sögulegir tímar og það sé nauðsynlegt að fylgjast með því sem er að gerast þá ætla ég núna að draga línuna við þá sem hafa hóflegasta fréttastílinn. Hætta að lesa miðla þar sem misgáfað fólk segir skoðun sína á málefnum líðandi stundar og þar sem bölsýnin er alsráðandi. Það er lítið sem ég get gert til að breyta því ástandi sem er á Íslandi í dag, ekki frekar en fólkið sem bölsótast yfir því á netinu. Svo ég ætla bara að taka Pollýönnu á þetta. Leika gleðileikinn og pósta inn daglega einhverju jákvæðu, fallegu spakmæli eða einhverju sem ég get verið þakklát fyrir. Mikilvægustu hlutirnir í lífinu eru nefnilegast ekki hlutir.

Ég er þakklát fyrir það að hafa tækifæri til þess að mennta mig í höfuðborg Evrópu með þeim tækifærum sem því fylgir. Þrátt fyrir að það kreppi að og maður þurfi að forgangsraða öðruvísi þá eru það samt sem áður forréttindi að geta nýtt sér svona tækifæri. Svo það er sátt og þreytt stúlkukind sem leggst á koddann í kvöld.

Sá sem rís á fætur í hvert skipti sem hann fellur stendur uppréttur að lokum.

08 október 2008

Krónu fyrir evru?

Seðlabankinn segist ætla að fastsetja gengi krónunnar gagnvart evru í 131 kr. Samt sem áður kostar það mig núna 196 krónur að kaupa 1 evru í bankanum mínum. Ef fram heldur sem horfir slæst ég í hópinn með betlurunum á Louise og býð vegfarendum krónur í staðin fyrir evrur.

07 október 2008

Bjargræðiskort fyrir hnípna þjóð

Sem betur fer erum við Íslendingar svo illa stödd að húmorinn okkar sé horfinn. Ætti ekki að vera komið nóg af góðum sóknarfærum fyrir handritshöfuna Skaupsins í ár? Athugið að þið ættuð að geta klikkað á myndina til þess að sjá hana stærri.

06 október 2008

Áfram Ísland...

Ég held að maður hafi sem fæst orð um atburði dagsins heima á Íslandi. Verð samt að pirra mig yfir þjónustu Ríkisútvarpsins þegar kemur að útsendingum á netinu. Það er hreint óþolandi að þegar maður horfir á fréttir og Kastljós á netinu að það sé klippt á útsendinguna þegar henni á að vera lokið samkvæmt áður auglýstri dagskrá þrátt fyrir að þátturinn sé enn í útsendingu. Sérstaklega þegar dagarnir eru jafn viðburðaríkir og þeir hafa verið undanfarna viku og því oft heitar umræður sem eru í gangi í Kastljósinu þegar klippt er á útsendinguna. Ég trúi því ekki að það sé svo mikið mál að kippa þessu í liðinn.

Til að ljúka þessu á gleðilegri nótum þá má ég til með að upplýsa það að ég er að fara til Rotterdam á laugardaginn til að horfa á leik Íslands og Hollands í knattspyrnu karla. Það fer rúta af Íslendingum á leikinn héðan frá Brussel og ég á von á góðri skemmtun. Þrátt fyrir að Hollendingar eigi nú eflaust eftir að eiga betri dag en við þá held ég að það sé við hæfi að ljúka færslunni á orðunum: Áfram Ísland!

05 október 2008

Vangaveltur á rigningardegi í Brussel

Þá er rólegheita helgi að líða undir lok. Ég dreif mig í Ikea í gær og er afskaplega fegin að því sé lokið. Hef aldrei haft yndi af því að versla í búðum yfirfullum af fólki - eða af stöðum yfirfullum af fólki. Fékk allt sem mig vantaði í Ikea nema myndir á veggina. Plakötin sem voru í boði þarna voru einfaldlega ekki minn stíll. Mig langar líka mest að hafa myndir að heiman á veggjunum, íslenska náttúru eins og hún gerist best. Það fer lítið fyrir svoleiðis hér... Þannig að ef þú átt flotta mynd sem myndi sóma sér vel á veggnum hjá mér í Brussel þá væri ég ekki lítið þakklát ;-)

Á morgun verður almennt verkfall hér í Brussel og koma allar almenningssamgöngur til með að liggja niðri. Ég á að mæta í frönsku klukkan 9 í fyrramálið og þarf víst að leita annarra leiða til að koma mér í skólann. Það er blóðugt að þurfa að taka leigubíl fyrir eina kennslustund svo ég er búin að vera að skoða á korti hvaða leið ég gæti labbað. Planið var að fá sér göngutúr í dag og sjá hvað þetta tekur langan tíma því tilhugsunin um að villast um Brussel á mánudagsmorgni er ekki heillandi. Hér rignir hins vegar eins og hellt væri úr fötu og ég er ekki ennþá búin að hafa mig af stað í göngutúrinn. Við sjáum hvað setur þegar líður á daginn. Ef að rigninginn verður alveg lóðrétt er lítið annað hægt en að taka upp regnhlífina og rölta af stað. Um leið og ég er búin að hlaða ipodinn....

Það hefur ekki verið hægt að sjá það á götum Brussel að það sé fjármálakreppa í heiminum. Miðað við fólksfjöldann í verslunargötunum þá er allavegana ekki samdráttur í verslun hérna á svæðinu. En það skilst mér að sé líka málið heima á Íslandi. Fólkið hópaðist í Korputorg þrátt fyrir fréttir um að allt væri á hausnum. Það er dáldið súrrealískt að fylgjast með fréttaflutningnum í fjarlægð. Múgæsingurinn og móðursýkin er allsráðandi. Ráðamenn virðast vera eins og höfuðlaus her sem veit ekkert hvað hann á af sér að gera og trúin á getu þeirra er takmörkuð. Það sárvantar líka hæfan leiðtoga í stjórnina. Það geta allir komið fram og sagt að allt sé í gúddí fíling þó svo að yfir þá rigni eld og brennisteini. Það eru hins vegar ákveðnir karakterar sem geta fetað þá örmjóu línu að halda ró í mannskapnum og gera það sem þarf að gera. Vera sú föður/móðurlega ímynd sem þjóðin þarf þegar þrengir að. Það er ekki að sjá að slíkur karakter sitji í ríkisstjórn Íslands í dag.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða aðgerðum verður hrint í framkvæmd eftir helgina og hvort að þær eigi eftir að breyta einhverju. Ég held að allir hljóti að vona að þær komi til með að skipta máli og skila árangri, hagsmunir allra velta á því alveg sama hvar menn standa í pólitík. Framtíðarmarkmið hlýtur svo að vera að skapa þannig umhverfi á Íslandi að það verði fýsilegur kostur að setjast þar að. Það er orðið minna mál en áður að flytja út í heim með börn og buru og nóg af frambærilegum löndum sem bjóða upp á betri lífskjör og betri aðstæður fyrir ungt fólk sem er að stofna til fjölskyldu. Ég held að margir hljóti að velta því alvarlega fyrir sér að freista gæfunnar út í hinum stóra heimi við núverandi aðstæður og það er fátt sem freistar hinna, sem eru þegar farnir, að flytja heim aftur - nema þá einna helst nálægð við fjölskyldu og vini.

Ætli það sé ekki tilvalið að hætta á þessum nótum, herða sig upp og fara út í rigninguna. Með regnhlífina í annarri og ipodinn í hinni. Verðlauna sig svo eftir góðan göngutúr með hamborgara og frönskum og restinni af íslensku kokteilsósunni sem fékk að fylgja með í töskunni þegar ég fór út.

04 október 2008

Ef þú átt...

..flotta mynd af Bolungarvík, Vestfjörðum eða íslensku landslagi og getur sent mér á jpg formi á erlakris@gmail.com eða ek89@kent.ac.uk þá væri það innilega vel þegið. Mig vantar fallegar myndir á veggina hjá mér og plakötin í Ikea heilluðu ekki neitt. Mig langar mest að hafa myndir að heiman en á engar slíkar sem henta til stækkunar og upp á vegg.

Hún Agnes á afmæli í dag og er á besta aldri stúlkan. Til hamingju með daginn Agnes mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)

03 október 2008

Þetta litla dýr heitir Tómas Orri og hann á afmæli í dag. Hann er orðinn 2ja ára drengurinn og fær hamingjuóskir í tilefni dagsins frá Brussel. Hafðu það skemmtilegt í dag litla krús!

01 október 2008

Pardon my French

Fyrsti frönskutíminn var í gær. Það voru svo sem engin átök, bara skipt niður í hópa eftir getu. Svo fengum við byrjendurnir að sitja eftir og fengum smá tilsögn í framburði. Ég veit ekki hvort að minn framburður sé afar íslenskur en ég var alltaf með einhver aukahljóð sem maddaman var ekki sátt við. Mér var farið að líða eins og Joey í Friends undir restina. Fu flu fla fleeh... En þetta kemur víst allt með kalda vatninu.

Ég fór að versla skólabækur í dag og það var kannski lán í óláni að tvær bækur af þremur voru ekki til og koma ekki fyrr en eftir 10 daga í fyrsta lagi. Maður krossar allavegana fingur að gengið á þessari blessuðu Evru verði búið að lækka þá. Annars gerir maður allt sem maður getur til að spara og lifa helst bara á vatni og brauði á meðan gengið er svona svaðalegt. Þó svo ég hafi verið búin að safna mér pening sem átti að duga mér til framfærslu í þó nokkurn tíma áður en ég fór út þá eru þeir peningar nánast að verða verðlausir hérna á meginlandinu. En svo maður horfi nú á björtu hliðarnar þá gæti ég verið í verri málum og þetta á nú vafalítið eftir að reddast allt saman. Það verður svo að koma í ljós hvort að íslenskt efnahagskerfi bjóði mann velkominn aftur heim að ári...

Lífið er að komast í fastar skorður hérna í stórborginni. Stundaskráin er nokkurn vegin klár og lærdómurinn að komast á fullt. Það þarf ekki að spurja að því að ég ætla mér að rúlla þessu upp og standa mig með sóma. Ég á enn eftir að láta prenta fyrir mig myndir af mínum nánustu sem fá að fara í ramma og upp á veggi hjá mér og fara í Ikea eftir einhverju smotteríi. Mér finnst vanta dálitla hlýju í íbúðina og það kemur vonandi þegar það er komið eitthvað fallegt á veggina og ég er búin að gera þetta persónulegra.

Ég hef verið að versla allt í matinn í hálfgerðri 10-11 verslun þar sem það eru einu matvörubúðirnar nálægt mér. Ég hef verið að gúgla hvar ég kemst í ódýrari verslun með meira úrvali og þær eru allar aðeins í burtu frá mér. Ég skoðaði eina svoleiðis á einni lestarstöðinni niður í bæ í dag og stóð mig að því að skoða af áhuga svona langömmukerru til þess að nota þegar ég versla í matinn. Pokarnir hérna eru óttalegt drasl ef þeir eru í boði á annað borð og svo er þungt að bera poka langar leiðir svo það getur verið gott að draga bara kerru á eftir sér. Þrátt fyrir að svona kerrur séu mjög praktískar og afar hentug lausn fyrir mig þá finnst mér þær soldið langömmulegar. Ég man að Magga amma átti svona kerru en amma hefur aldrei átt svona svo ég muni til. Kannski þess vegna sem mér finnst þær langömmulegar en ekki ömmulegar...

En jæja, ég er orðin hálfþreytt eftir daginn og ætla að halla mér yfir imbanum. Er með kveikt á Liverpool - PSV í Meistaradeildinni og það er aldrei að vita nema ég nái að skilja eitthvað af lýsingunni sem er á flæmsku að þessu sinni...

29 september 2008

Þá byrjar ballið

Þá er kynningarvikan búin og alvara lífsins að taka við. Ég er búin að velja mér kúrsa og kem til með að eiga frí alla mánudaga svo það er enginn skóli í dag. Ég verð reyndar bara í tveimur fögum vikulega, International Relations Theory og undirbúningskúrsi fyrir mastersritgerðina, en hinir tveir kúrsarnir sem ég valdi eru kenndir óreglulega. Annar, Negotiation and Mediation, verður tekinn mjög stíft eina helgi í mánuði. Prófessorinn býr í Berlín og því er fyrirkomulagið svona. Þetta er hins vegar mjög erfiður kúrs er okkur sagt og nógur lestur þó svo að tímarnir séu ekki vikulegir. Efnið er samt svo svaðalega spennandi að ég ákvað að skella mér í hann þrátt fyrir það og sleppa History of International Conflicts í staðinn. Sá kúrs er hins vegar kenndur á þriðjudögum, sem er skóladagur hjá mér, svo ég ætla að sitja fyrirlestrana í honum en við megum audita kúrsa, eins og það heitir á slæmri íslensku. Þá sitjum við fyrirlestra en þurfum ekki að lesa efnið eða gera verkefni. Þá fæ ég upprifjun á sögunni sem ég lærði hjá Ragga sögukennara í Kvennó og fæ jafnvel annan vinkil á efnið í leiðinni.

Hinn kúrsinn, International Economics, verður kenndur á föstudögum sirka hálfsmánaðarlega. Prófessorarnir sem sjá um hann koma frá Canterbury. Prófessorinn sem kynnti kúrsinn á kynningarvikunni náði mér alveg þegar kom að námsefnislistanum. Bara ein bók og ekkert vesen! Hentar fullkomlega með Negotiation kúrsinum þar sem er dágóður slatti af bókum sem þarf að lesa og prófessorinn gerir kröfur um að við lesum þær ALLAR. En efnið er líka áhugavert og ég tók það framyfir alla kúrsana um pólitík og umhverfisvernd.

Talandi um umhverfisvernd þá eru græn sjónarmið alveg svaðalega heit hérna. Ég er svo innilega ekki pólitískt ,,rétt“ þenkjandi í þeim efnum því að mér finnst umræðan um umhverfis- og dýravernd alveg sérstaklega leiðigjörn. Fyrir utan hvað það pirrar mig að þurfa að flokka ruslið hérna og mega ekki henda hverju sem er í ruslið – fyrir utan það er ég ekki alveg búin að ná því hvar Sorpa þeirra Belga er og þá síður hvort að Metróið gangi þangað – hvað þá að nenna að drösla því sem ég þarf að farga þangað.. Ekki það að ég vilji ekki ómengaða náttúru, mér finnst t.d. hugmyndin um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum vera gjörsamlega út í hött, en fyrr má nú rota en dauðrota í öllum púritanismanum...

Og pólitíkin.. Kannski ég eigi eftir að velja mér stjórnmálafræðikúrs eftir áramótin, það er aldrei að vita, en á meðan ég er ennþá glöð yfir að vera laus við fréttir af argaþrasi íslenskrar pólitíkur þá hef ég lítinn áhuga á því að demba mér útí stjórnmálafræðikúrsa á alþjóðavettvangi. Og þó svo það sé gaman að ræða heimsmálin við samnemendur úr öllum heimshornum og heyra alskonar sjónarmið þá er stúdentapólitíkin í skólanum heldur amerísk fyrir minn smekk. Svo sem í takt við meirihluta nemenda þar sem tveir þriðju þeirra koma frá Bandaríkjunum, en afsakið á meðan ég æli kemur frekar upp í hugann heldur en ji hvað þetta er áhugavert. Enda er ég ekki alin upp við það að smjaðra og kyssa rassa og þykjast ætla að styðja fólk sem ég ætla ekki að styðja eins og virðist því miður vera lenskan hér. Það er kannski auðveldasta leiðin að aðlaga sig að þessum viðhorfum og taka þátt í leiknum en það verður bara að segjast eins og er að ég fæ of mikinn aulahroll. Mér finnst svona hegðun einfaldlega röng og óheiðarleg svo að ég ætla að synda á móti straumnum og standa við mín prinsipp.

Annars gengur lífið sinn vanagang í landi bjórs, blúndna og súkkulaðis. Ég hef aðallega verið í súkkulaðideildinni hingað til og hef tekið miklu ástfóstri við súkkulaðibitakökurnar hérna. Smakkaði belgískt heitt súkkulaði á laugardaginn og verð nú reyndar að viðurkenna að þó svo það hafi verið afar bragðgott þá toppaði það ekki íslenskt heitt súkkulaði með rjóma. Enda fékk ég engan rjóma sem er önnur saga. Annars er planið að vera innandyra í dag og reyna að ná úr mér slappleikanum sem hefur verið að angra mig alla síðustu viku. Ekki seinna vænna að ná upp orkunni áður en alvaran tekur við...

28 september 2008

Smá saga

Það var einu sinni hópur froskaunga sem ætluðu að koma á fót kapphlaupi. Markmiðið var að komast upp á topp á háum turni. Margmenni hafði safnast saman til að fylgjast með hlaupinu og hvetja þátttakendur. Síðan var hlaupið ræst. Í sannleika sagt: Enginn áhorfendanna trúði því í raun að froskaungarnir gætu klifrað upp á topp turnsins. Það eina sem heyrðist voru setningar eins og: ,,Oh svo krefjandi!!! Þeir munu áreiðanlega ALDREI komast alla leið” eða ,,ekki séns á að þetta takist, turninn er allt of hár!”

Froskaungarnir hættu, hver á fætur öðrum….- nema einn….sem fljótt kleif hærra og hærra. Fólksmergðin hélt áfram að hrópa ,,þetta er allt of krefjandi!!! það mun enginn geta þetta!!”Fleiri og fleiri froskaungar urðu þreyttir og gáfust upp…Bara einn hélt áfram hærra og hærra… Hann vildi hreint og beint ekki gefast upp!! Fyrir rest höfðu allir hinir gefist upp á að klifra – fyrir utan þessi eini froskur, sem eftir mikið erfiði náði toppnum!

Nú vildu allir hinir þátttakendurnir auðvita fá að vita hvernig hann fór einginlega að því að vinna þvílíkt afrek – og ná í MARK!!!! Þá sagði lítil Froskastelpa úr hópnum þetta er bróðir minn og hann er heyrnarlaus!!!

Og lærdómurinn af þessari sögu er: Hlustaðu aldrei á fólk sem er alltaf neikvætt og bölsýnt…..vegna þess að það tekur frá þér ÞÍNA fallegustu drauma og óskir, sem þú berð í hjarta þínu! Hugsaðu allaf um kraft orðanna af því að allt sem þú heyrir og lest hefur áhrif á gjörðir þínar!Þess vegna: vertu ALLTAF JÁKVÆÐUR.Og fyrst og fremst:Vertu hreint og beint HEYRNARLAUS þegar einhver segir við þig að þú getir ekki látið ÞÍNA drauma rætast!!

Hugsaðu alltaf: Ég skal geta það!!!

27 september 2008

Hann Þorgeir á afmæli í dag og er orðinn 29 ára drengurinn. Hann er núna staddur útí New York í góðra vina hópi og ég sendi hamingjuóskir þangað í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn Geiri og hafðu það gott í dag :-)

26 september 2008

Hún Hildur mín á afmæli í dag og er auðvitað á besta aldri stúlkan. Ég sendi hamingjuóskir í Eyjarnar í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn skvís og hafðu það svakalega gott í dag!

25 september 2008

Merkilegur andskoti

Mér finnast Belgar ekkert svakalega þrifnir, ég hef allavegana ekki náð að hoppa upp í skítastandardinn þeirra ennþá. Samt sem áður er einhver nágranninn minn sem ryksugar alltaf upp úr miðnætti. Stundum eldsnemma á morgnana líka. Núna er klukkan langt gengin í hálf eitt og það er verið að ryksuga grimmt. Merkilegur andskoti. Ég ætti kannski að biðja hann um að renna yfir gólfin hjá mér?

Loksins, loksins, loksins

Er ég komin með nettengingu heim. Ég er eins og lítið barn á jólunum ég er svo ánægð. Nú get ég hætt að kúldrast úti á verönd með grifflurnar, trefilinn og teppið og farið á netið bara þegar mér hentar. Þvílík þægindi! Svo fékk ég sjónvarpið í lag í dag líka (kapalinn tengdann) svo að ég get horft á formúluna á helginni og allt. Gæti lífið orðið mikið betra?

Annars gengur lífið bara ágætlega hérna í Belgíu. Mér líst mjög vel á skólann og það sem komið hefur fram á kynningarvikunni lofar góðu fyrir komandi skólaár. Skólinn heitir University of Kent, fyrir þá sem ekki vissu, og er með aðal campusinn sinn í Canterbury á Englandi. Þeir eru hins vegar með starfsstöðvar á nokkrum stöðum í Evrópu og allt framhaldsnám tengt alþjóðafræðum er kennt hér á campusnum í Brussel. Ég ætla mér að taka master í Alþjóða samskiptum og það er ársnám. Útskriftin verður í Canterbury Cathedral í Kent í nóvember á næsta ári. Það kemur svo bara í ljós hvað ég geri í framhaldi af því.

Í gær fór ég á svokallað Global Security Challenge sem skólinn minn var að hósta. Þetta er semsagt alþjóðleg keppni þar sem fyrirtæki geta komið á framfæri ýmiskonar lausnum í öryggismálum og í verðlaun eru 500.000 USD. Lokakeppnin verður í London í nóvember en í gær var lokakeppni í Evrópuhlutanum og fóru 2 fyrirtæki af 5 áfram í úrslitin í London. Þetta var mjög áhugaverð ráðstefna og þarna voru samankomnir nokkrir toppar í öryggismálum Evrópu og voru bæði frá ríkinu (lögreglu, her o.s.frv.) og frá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í öryggismálum fyrir hið opinbera og fyrirtæki. Blackwater, sem hefur starfað fyrir Bandaríkjastjórn í Írak, er dæmi um slíkt fyrirtæki þó svo að það hafi komið skýrt fram í gær að það væri ekki hátt skrifað í þeim geira. Ég efast um að ég eigi eftir að starfa í þessum geira í framtíðinni en þetta var mjög áhugavert engu að síður og upplýsandi. Væri ekki vanþörf á fyrir upplýsta umræðu af þessu tagi heima á klakanum þó svo ég sjái ekki þörfina fyrir heimavarnarliðið hans Björns Bjarnasonar.

Frönskutímar byrja svo í næstu viku. Ekki vanþörf á því. Maður getur ekki tekið Joey á þetta endalaust... Þann 11. nóvember býður einn prófessorinn við skólann upp á ferð til Ypres, sem er í flæmskumælandi hluta Belgíu. Bærinn rekur sögu sína fyrir kristsburð og er kannski hvað þekktastur fyrir það að þar voru harðar orustur háðar í fyrri heimsstyrjöldinni. Því stríði lauk einmitt 11. nóvember og af því tilefni er ferðin farin. Ég er búin að skrá mig í þessa ferð og hlakka bara til þess að fara. Svo er búið að bóka spennandi gestafyrirlesara í skólanum þessa önnina og margt fleira skemmtilegt framundan.

En jæja, ætla að fara og hafa það huggulegt yfir góðri bíómynd. Af því að ég get það núna. Spáið í lúxus! Það er svo auðvelt að gleðja mann....

22 september 2008

Fyrsti skóladagurinn

Þá er fyrsti skóladagurinn og ætli hann hafi ekki verið nokkuð týpískur. Standa í biðröð til þess að fá eyðublöðin sem átti að fylla út, önnur röð til að fá lykilkort að skólanum og enn önnur til þess að skrá sig. Fór svo og opnaði bankareikninginn í útibúinu sem er á campusnum. Þar hefur einn annar Íslendingur verið með bankareikning og það var búið að merkja við Reykjavík á heimskortinu. Þar sem ég er hins vegar borin og barnfæddur Bolvíkingur fékk Bolungarvík sinn stað á kortinu og trónir þar að sjálfsögðu efst.

Deginum lauk svo með tveggja og hálfs tíma göngu um campus svæðið. Við höfum aðgang að öllum campusnum hjá flæmska skólanum og að bókasafninu hjá þeim franska. Svo er svaka líkamsræktarstöð á campusnum sem við höfum aðgang að og nokkurs konar heilsugæslustöð sem á eftir að nýtast mér held ég ágætlega. Þetta lítur allt saman ágætlega út og mér list vel á skólann. Ég veit ekki hversu mikla samleið ég á með meirihlutanum af nemendahópnum en þau hafa talsvert meiri áhuga á börunum hérna heldur en ég. Ég hef nú samt farið einu sinni eða tvisvar og hitt þau til að vera ekki algjör félagsskítur en ég vona bara að það sé einhver í hópnum á mínu leveli. Væri skemmtilegra.

Annars er ég farin að þekkja mig ágætlega í borginni. Pabbi kom í nokkra daga í síðustu viku og við kláruðum að koma mér almennilega fyrir. Fundum líka skólann - sem tók sko tímana tvenna enda Belgar ekki þeir áreiðanlegustu í því að gefa leiðbeiningar svo ekki sé meira sagt... - og hann kenndi mér á metroið líka. Ég á svo aðeins eftir að skoða hverfið mitt, finna almennilegan stórmarkað og sundlaugina sem á að vera þar en þvottahúsið er ég búin að finna. Það var eiginlega möst því reykingar eru leyfðar á börunum hérna og maður er eins og úldin skunkur þegar maður kemur heim eftir að hafa kíkt aðeins út og algjört möst að henda öllu í þvott á eftir.

Skólinn fer svo á fullt á mánudaginn og það má búast við svakalegri keyrslu fram að jólum. Ég er hins vegar í fyrsta skipti síðan ég var í 1. bekk í menntó ,,bara" í skóla svo ég ætla að sjá hvort að ég geti nýtt virku dagana vel undir skólann og átt meira eða minna frí á helgum. Lúxus líf ;-) Annars er lítið planað á meðan evran er svona há en það er þó á dagskránni að fara skrepp til Amsterdam og jafnvel gista eina nótt svo maður verði ekki alveg úti á túni þegar maður fer heim um jólin og villist með lestinni.

Ég er ekki komin með netið ennþá en krossa fingur að ég fái það á föstudaginn. Þangað til nýti ég mér góðmennsku nágranna minna sem hafa ekki læst routerunum sínum. Þarf að vísu að sitja úti á verönd til að ná sæmilega tengingu og það er mishlýtt að sitja þar. En maður dúðar sig bara og sest út með tölvuna. Allt gert til að halda sambandi við umheiminn ;-) En þar sem það er farið að kólna aðeins og ég er orðin svöng ætla ég að koma mér inn með tölvuna og fá mér eitthvað í svanginn. Kveðjur frá Brussel þangað til næst.

21 september 2008

Karen Líf skvísa á afmæli í dag og er orðin 10 ára stúlkan. Ég sendi hamingjuóskir heim á klakann í tilefni dagsins og alla leiðina í Grundarfjörðinn. Til hamingju með daginn skvís og hafðu það öfga skemmtilegt í dag!

19 september 2008

Afmælisbörn dagsins og morgundagsins


Þetta myndarlega fólk, Röggi bró og Anu spúsa hans, eiga afmæli í dag og á morgun. Röggi bró er orðinn 27 ára og Anu verður hvorki meira né minna en þrítug á morgun. Ég sendi heillaóskir til Helsinki í tilefni dagsins með hvatningarkveðjum til hans bróður míns að fá sér netsíma Vodafone svo við getum nú spjallað saman án þess að styrkja símafyrirtækin allt of mikið ;-) Hafið það skemmtilegt yfir helgina krakkar.

18 september 2008

Anna Þóra á afmæli í dag og er á besta aldri stúlkan. Ég sendi kveðjur heim á klakann í tilefni dagsins. Hafðu það gott í dag skvís.

13 september 2008

Allt í góðu í stórborginni

Fyrir utan netsamskipti. Hefur gengið hálf brösuglega að komast á netið. En er á smá djammi með nokkrum Íslendingum og fékk að kíkja smá stund á netið og láta vita af mér. Ætti vonandi að fá netið heim eftir rúma viku og þá ætti ég að geta farið að blogga af einhverju viti. En ætlaði bara að hafa þetta stutt. Það er allt í gúddí fíling í stórborginni. Er komin með belgískt símanúmer í gemsann og netsíminn verður virkur um leið og netið. Bara að hafa samband á erlakris@gmail.com til þess að fá númerin.

11 september 2008

Komin til Brussel

Er loksins komin a afangastad, buin ad koma mer tokkalega fyrir og villist nu um borgina tvera og endilanga. Fann loksins litid og frekar sodalegt netkaffi eftir fremur langa leit. Held ad eg hafi verid buin ad finna allt annad i borginni en netkaffi. Allavegana, tad fer vel um mig og vedrid er hid finasta. Fint ad geta gengid um lettklaeddur eftir islenska rokid og rigninguna. En tetta verdur ekki lengra i bili, lyklabordid herna er alveg glatad. Aetla ad sja hvort eg rati heim aftur, blikkblikk. Kolla tu matt lata ommu vita ad tad se allt i godu. Solarkvedjur fra Brussel.

07 september 2008

Styttist í brottför

Þá er farið að líða að því að maður yfirgefi klakann og haldi á vit ævintýranna í Brussel. Kveðjustundirnar hafa verið margar undanfarnar 2 vikur og maður er að undirbúa taugarnar fyrir þriðjudagsmorguninn þegar verður endanlega klippt á naflastrenginn á milli mín og mömmu. Ég er búin að vinna fyrir hana í 5 ár og þó svo að ég gæti varla verið meira tilbúin til þess að breyta til og fara að gera allt aðra hluti þá verður skrýtið að vera ekki í þessum daglegu samskiptum.

En það er ekki eins og maður sé að fara til tunglsins og tæknin sér til þess að maður verði í daglegum samskiptum við vini og vandamenn. Bloggið sér svo til þess að hinir sem vilja fylgjast með manni geta gert það líka. Ég er komin með netsíma hjá Vodafone þar sem ég get hringt í alla heimasíma á Íslandi ókeypis og það er hægt að hringja í mig líka svo framarlega sem það er kveikt á tölvunni og hún nettengd. Bara að hafa samband til þess að fá númerið.

Vinkonur mínar hafa svo verið með mig í tölvutímum yfir helgina. Búið að kenna mér á webcamið á MSN, búið að setja upp gmail fyrir mig, kenna mér á Itunes og meira að segja leggja það til að ég fái mér flakkara. Reyndar spurning hvort að það náist áður en ég fer en það er aldrei að vita - maður er farinn að tæknivæðast svo hratt ;-)

En allavegana, þetta er síðasta bloggið af klakanum í bili. Næsta blogg kemur frá Brussel þegar ég verð búin að koma mér í nettengda tölvu. Það má gera ráð fyrir því að það taki þó nokkrar vikur að fá netið heim svo það veltur allt á því hvað ég verð dugleg á netkaffihúsunum og í skólanum þegar hann byrjar hvað ég verð dugleg að blogga. Ég reyni samt að pósta inn nýju gemsanúmeri þegar það verður klárt. En ég ætla að fara að njóta kyrrðarinnar hérna í sveitinni áður en ég fer að ganga frá eftir skemmtilegheit helgarinnar og drífa mig í bæinn. Sjáumst í Brussel ;-)

30 ágúst 2008


Einn af mínum uppáhalds frændum, hann Kristinn Breki, á afmæli í dag og er orðinn 9 ára drengurinn. Til hamingju með daginn elsku krúsin mín og hafðu það alveg svakalega skemmtilegt í dag :-)

24 ágúst 2008

Til hamingju Ísland

Ég held að það sé óhætt að gera orð Adolfs Inga að mínum og biðja guð um að blessa mæðurnar sem ólu þessa drengi upp. Þrátt fyrir tap í dag er maður óendanlega stoltur yfir því að vera Íslendingur. Ísland er klárlega stórasta land í heimi.

23 ágúst 2008

Myndir af Rue de Bosquet

Datt í hug að smella inn myndum af íbúðinni sem á eftir að vera heimili mitt næsta árið. Sjón er svo sögu ríkari ;-)











19 ágúst 2008

Hann pabbi minn á afmæli í dag og eyðir deginum í Víkinni fögru. Ég sendi bestu kveðjur í heimahagana í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn pabbi minn.

31 júlí 2008

Á morgun mun ég

vakna upp í Vestmannaeyjum, við vegamót hins andlega seims. Í fullum dal af fínum peyjum og fallegustu konum heims.

Það er að koma Þjóðhátíð og ég hlakka svoooo til! Er ekki lífið yndislegt? :-)

29 júlí 2008

Allt að gerast

Þá er íbúðin komin í leigu og allt á spani. Afhendi íbúðina að kvöldi hins 31. júlí - þegar ég verð búin að vinna minn seinasta vinnudag. Stefnan er svo tekin til Eyja síðar sama kvöld og óhætt að segja að sé kominn nettur Þjóðhátíðarfiðringur í mig. Þetta er allt að smella.

25 júlí 2008

Fólk er fífl

Það höfðu greinilega fleiri en ég hug á að labba Esjuna og það er sorglegt mál mannsins sem fannst þar látinn fyrr í dag. Sorglegast finnast mér þau viðbrögð bloggheima við leitinni að manninum. Upphrópanir eins og að maðurinn mætti labba þarna nakinn ef hann vildi og það væri algjör óþarfi að eyða peningum í að leita að manngreyinu, hann væri örugglega ekki heill á geði. Svona upphrópanir eru það heimskulegar að þær eru ekki svaraverðar og ég er nokkuð viss um það að annar tónn hefði verið í þessu fólki ef þetta hefði verið einhver þeim nákominn.

En fyrst að flestar upphrópanirnar snérust að peningum langar mig að benda á eitt. Þegar björgunarsveitir eru kallaðar út til leitar er ekki verið að eyða skattpeningum. Fólkið sem starfar í björgunarsveitunum gerir það í sjálfboðaliðastarfi og sveitirnar eru ekki á fjárlögum frá Ríkinu. Auðvitað kostar Ríkið rekstur Gæslunnar og þar af leiðandi þyrlunnar en ég verð að viðurkenna að ég treysti því ágæta fólki sem vinnur við þessi mál miklu betur til þess að vega og meta hvenær það er réttlætanlegt að kalla þyrlurnar út heldur en sjálfskipuðum besservissurum út í bæ sem fela sig á bakvið tölvuskjái.

Eins og viðbrögð bloggheima gefa merki um þá er fólk fífl og ég held að við ættum öll að vera þakklát því fólki sem er tilbúið til þess að eyða sínum frítíma í að leita að okkur fíflunum og bjarga okkur þegar við förum okkur að voða. Ef að þau væru ekki til staðar gerði það enginn annar.

22 júlí 2008

Björninn unninn

Ég náði langþráðu markmiði í dag þegar ég gekk upp á topp Esjunnar með silfurskóna mína í bakpokanum. Við Þórdís höfðum planað að fara saman í dag en hún er veik svo ég dreif mig bara sjálf. Það var að vísu mikil þoka í efri hluta Esjunnar en ég arkaði þetta samt. Þegar ég var komin í klettana villtist ég aðeins en rataði út úr því og fann stíginn að lokum. Hitti þar Íra sem lóðsaði mig upp á topp. Þegar upp var komið vildi hann ólmur vita hvaða fjall hann hafði verið að klífa. Ætti að vera vísbending til Ferðamálayfirvalda að hafa eitthvað af þessum fínu skiltum sem þarna eru á ensku! Írinn lóðsaði mig niður klettana aftur og alla leið niðrá stíginn. Honum fannst ég hugrökk. Frekar heimsk, hugsaði ég með sjálfri mér að hafa verið að þvælast þarna í klettabeltinu í svarta þoku alein án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að gera. En hugrökk hljómar auðvitað mikið betur. En upp fór ég á einum og hálfum tíma. Næst er að fara þetta í góðu veðri svo ég sjái eitthvað hvert ég er að fara!

18 júlí 2008

Átakið búið

Þá er 10 vikna átaki í ræktinni lokið. Ég fór á 2 super form námskeið í röð hjá Goran á Grand Spa og byrjaði þar strax eftir hvítasunnu. Síðan þá eru foknir 8 cm af mjöðmunum og 6 af maganum. 3 kíló af fitu hafa ákveðið að færa sig yfir í vöðvamassann en vigtin hefur hins vegar stigið upp um rúmlega kíló. Formið hefur farið frá því að vera arfa lélegt og slefar nú upp í gott ástand. Ég ætla að halda áfram að æfa í Grand Spa þangað til ég fer út og Esjan er stóra verkefni næstu viku ef veðurguðirnir lofa. Þegar ég verð komin í heimsborgina heldur líkamsræktin áfram enda ætlunin að vera í súperformi þegar líður að jólum. Ég ætla að komast í fleiri föt en bara kjólinn fyrir jólin.

Mér finnst ástæða að hrósa fyrir það sem vel er gert og það er óhætt að halda því fram að Grand Spa sé frábær staður. Þar hefur verið haldið vel utan um mig og passað upp á að ég væri að stunda þá hreyfingu sem ég þyrfti miðað við mín veikindi. Mataræðið hefur líka verið tekið í gegn og ég fer örugglega að breytast í kalkríkan próteinbolta miðað við allt kalkið og próteinið sem ég þarf að borða. Í fyrsta skiptið á ævinni er ég að kaupa mér kort í líkamsræktarstöð en það er óhætt að segja að ég hafi ekki alveg verið að fíla mig á þeim vígstöðvum hingað til. Grand Spa er hins vegar undantekningin sem sannar regluna. Hvort að það er smæðin, handklæðin eða heitu pottarnir og nuddið skal ég ekki segja en ég er búin að finna stað við mitt hæfi og þar dugar ekkert minna en það besta ;-)