29 mars 2008

Elsku besta mamma mín á afmæli í dag. Til hamingju með daginn elsku mamma og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)

21 mars 2008

Málsháttur gærdagsins

Allt sem þú þarft í lífinu er þekkingarskortur og sjálfstraust.

19 mars 2008

Aldrei fór ég vestur

Þá eru komnir páskar og þeim verður eytt í vinnunni að vanda. Alveg grábölvað hjá almættinu að hafa páska rétt á undan virðisaukaskattsskilum. Ekki nokkur leið að láta svona upplagðan vinnutíma fara til spillis. Hef ekki verið fyrir vestan um páska síðan 2003. Hefði samt alveg verið hægt að plata mig vestur þetta árið. SSSól í Edinborgarhúsinu hljómar bara vel - þó svo að Félagsheimilið í Hnífsdal hefði hljómað betur. Svo er auðvitað hátíðin fyrir þá sem aldrei fóru suður. En ég hef auðvitað aldrei farið á hana. Ég fór nefnilegast suður.

14 mars 2008

Tæknivædd gella

Ég held að það verði hreinlega að skjalfestast hérna að stúlkukindin er búin að festa kaup á forláta tónlistarspilara. Eftir miklar tæknilegar ráðleggingar frá Pétri ákvað ég að kaupa Ipod Nano. Aðallega af því að hann var til bleikur. Kvöldinu hefur verið eytt í fikt á nýja besta vininn. Það gengur. Tókst meðal annars að setja allar myndirnar mínar þarna inn án þess að hafa hugmynd um hvernig ég fór að því - eða hvernig ég á að taka þær út sem er svo sem seinna tíma vandamál. Þegar ég verð svo búin að níðast á öllum vinum mínum til þess að læra á þetta apparat er aldrei að vita nema ég fari hreinlega að nota það svona þegar tilefni gefst til. Það er víst ekkert sérstaklega móðins að eiga svona græju og láta hana rykfalla ofan í skúffu. Í tilefni dagsins er svo mynd af græjunni sem er að sjálfsögðu bleik í stíl við tölvuna.

Það er alveg ógeðslega vont bragð

af frímerkjum. Þar sem liðið hérna í vinnunni er ýmist veikt eða í fríi þarf ég að sjá um póstinn og allt sem honum tilheyrir. Ég nenni ekki alltaf fram til að bleyta svampinn fyrir 1-2 frímerki (erum með á límmiðum það sem er hægt að fá sem límmiða) og sleiki þau því bara. Þrátt fyrir viðbjóðslegt bragð. Sem minnir mig á það þegar mamma fékk mig og Hrafnhildi til þess að sleikja óendanlegt magn af frímerkjum og setja á umslög þegar við vorum púkar. Ekki man ég hvað það var sem þurfti svona nauðsynlega að komast í póst en við sinntum okkar starfi af kostgæfni og fengum tíkall í staðinn til þess að fara í Einarsbúð og kaupa okkur tyggjó. Minningin um óbragðið í munninum lifir ennþá þrátt fyrir tyggjóið.

09 mars 2008

LÍN - vinur námsmannsins?

Eins og hefur komið fram á síðunni þá er ég að fara erlendis í nám í haust. Það er óneitanlega kominn spenningur í mig og ég skoða mikið á netinu tengt skólanum og Brussel. Krossa bara fingur að ég eigi ekki eftir að týnast á djamminu þar eins og Waris Dirie - en það er nú önnur saga. Í vikunni fékk ég Prospectus frá skólanum í pósti sem gildir fyrir næsta vetur og settist niður að lesa. Margt skemmtilegt sem kom þar fram og ég varð bara spenntari fyrir því að fara út. Alveg þangað til ég fór og skoðaði heimasíðu LÍN. Þá varð reikningsdæmið allt svo miklu þyngra.

Þegar ég byrjaði í Kennó 2003 fékk ég heilar 30.000 kr á mánuði í námslán og var þá skráð inn í kerfið sem einstaklingur í leiguhúsnæði. Þar sem ég var að koma af vinnumarkaðinum fékk ég svona mikla skerðingu á námslánin enda mátti ekki þéna nema um 250.000 kr á ári á þessum tíma án þess að námslánin skertust. Þar sem ég hafði enga fyrirvinnu á meðan ég var í skólanum var ekkert annað í stöðunni en að fá sér vinnu með skólanum. Sem þýddi meiri skerðingu á námslánin önnina á eftir og endaði ég á að vinna 50-80% vinnu með skólanum öll þrjú árin. Ekkert afar skynsamlegt en kerfi LÍN bauð ekki upp á annað ef ég ætlaði mér ekki að sofa í bílnum og sníkja mat af mínum nánustu.

Ég er búin að vinna mikið í ár og í fyrra reyndar líka, aðallega til þess að borga niður skuldir eftir seinasta nám og til þess að safna mér pening svo ég geti farið erlendis í nám - já eða bara í nám yfir höfuð. Vinnan þykir hins vegar ekki göfga manninn hjá LÍN og þar sem ég hef verið dugleg að vinna til þess að eiga eitthvað í handraðanum annað en skuldir þegar ég verð komin út þá fæ ég skerðingu á námslánin mín vegna tekna. 10% af heildartekjum takk fyrir pent. Skiptir þá engu hvort maður hefur þénað eina milljón eða fjórar. Ef ég leigi svo íbúðina mína út á meðan ég er í skólanum telst það sem tekjur í minn vasa og skerðir námslánin mín enn frekar. Það virðist vera metnaður hjá LÍN að passa upp á að allir hafi það nú jafn skítt á meðan þeir eru í námi.

Í NLP heitir hugsunin sem LÍN batteríið er planað eftir frá hugsun. Í grófum dráttum má útskýra það þannig að það er stöðugt verið að passa upp á að enginn fái of mikið í staðinn fyrir að fókusera á það að allir hafi nóg. Það er stór munur á því að vera alltaf að hlaupa frá einhverju eða stefna að einhverju. Í dag er grunnframfærsla LÍN lægri en fullar örorkubætur frá Tryggingastofnun. Ég hef ekki heyrt neinn nema Pétur Blöndal halda því fram að öryrkjar hafi úr nægu að moða. Ég held að rökin hans dæmi sig sjálf. Nýlega var í fréttum að menntunarstig íslensku þjóðarinnar væri langt fyrir neðan meðaltal OECD ríkjanna. Íslendingar fara í hrönnum í nám til Danmerkur og annarra landa þar sem mun betur er búið að námsmönnum en hér heima á Fróni. Í dag er fátt annað en fjölskyldan sem togar fólk heim aftur eftir nám. Húsnæði er ódýrara erlendis og aðbúnaður barnafjölskyldna oft mun betri.

Væri ekki þjóðráð hjá íslenskum stjórnvöldum að fara að styðja íslenska námsmenn og fjárfesta af einhverju viti í framtíð íslensku þjóðarinnar? Afnema tekjutengingu LÍN og hækka grunnframfærsluna þannig að hún sé í einhverju samhengi við hvað það kostar að lifa á Íslandi í dag? Hvetja námsmenn t.d. með því að fella niður endurgreiðslu námslána ef ákveðnum námsárangri er náð og taka að einhverju leyti upp styrkjakerfi í stað þess að horfa á það sem sjálfsagt mál að fólk eigi ekki bót fyrir boruna á sér á meðan það er í námi og refsa því fyrir hverja krónu sem það vinnur sér inn? Í NLP heitir sú hugsun hugsun. Þar er verið að stefna í áttina að einhverju og byggja upp. Þá fyrst fara hlutirnir að gerast. Þá fyrst verður LÍN vinur námsmannsins. Skyldi ég eiga eftir að lifa það?

05 mars 2008

Formúlan

Þá er farið að styttast í að Formúlan byrji aftur eftir hlé. Það er óneitanlega kominn fiðringur og ég vona að mínir menn eigi eftir að standa sig í stykkinu. Núna þarf ég samt að stilla á Sýn til að horfa. Tímatökur og keppni verða í óruglaðri dagskrá en þættir og annað efni um formúluna verða í lokaðri dagskrá. Ég verð að viðurkenna að þrátt fyrir að það sé tekið upp á því að sýna frá æfingum og sýna fleiri þætti um formúluna þá borga ég ekki tæpar 10.000 kr á mánuði fyrir að fá aðgang að því. Þetta heitir hreint og klárt okurverð heima hjá mér.

Þegar RÚV var með formúluna voru næturkeppnir alltaf endursýndar í hádeginu daginn eftir. Eins og venjulega er byrjað á næturkeppnum. Hvergi hef ég séð það auglýst að þessum sið verði haldið áfram. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að ef Sýn komi til með að endursýna keppnirnar verði endursýningin í læstri dagskrá enda held ég að þeir skilmálar að keppnirnar verði að vera sýndar í opinni dagskrá eigi einungis við um beinar útsendingar. Svo maður þarf væntanlega að rífa sig upp á rassgatinu eldsnemma á sunnudagsmorgnum til að horfa á formúluna framvegis þegar næturkeppnir eru í gangi. Það er því ekki stórbætt þjónusta við þá formúluáhugamenn sem fíla ekki að láta taka sig í ósmurt...