31 janúar 2009

Status Update frá Brussel

Hér gengur lífið sinn vanagang. Skólinn kominn af stað og styttist í að maður fari að huga að ritgerðarverkefnum annarinnar. Hér er hið fínasta vetrarveður, enginn snjór, lítill vindur og kalt sem hentar vel þegar maður er búinn að lofa sjálfum sér að ganga sem mest á milli staða. Ég hef verið dugleg við að fara í göngutúra og labba það sem ég þarf að fara síðan ég kom út aftur og er loksins farin að rata almennilega um miðborg Brussel. Fann meira að segja Mannequin Pis þegar ég fór í göngutúr niðrí bæ á sunnudaginn. Hafði aldrei rambað á hann áður og verð að segja eins og allir sem hafa séð þessa styttu - einkennistákn Brussel gæti varla verið minna...

Svo lærir maður alltaf eitthvað nýtt. Konan í þvottahúsinu sem ég fer alltaf í kenndi mér að brjóta saman teygjulök á mánudaginn. Ekki seinna vænna að læra það! Svo sá ég alveg nýja aðferð við að þrífa upp bleytu í búðinni í gær. Það var stór gulur pollur á gólfinu við einn kassann. Ekki veit ég hvað það var en gaurinn sem þreif þetta upp kom vopnaður kústi og fægiskóflu ásamt fullri fötu af sagi. Dreifði svo saginu yfir alla bleytuna og sópaði svo herlegheitunum upp. Mér fundust þetta frekar furðulegar aðfarir en þetta er kannski ekki vitlausara en hvað annað. Svo lærði ég það í gærkvöldi að hraðbankar og allir almenningsstaðir þar sem heimilislausir gætu mögulega fundið sér athvarf eru lokaðir eftir 11 á kvöldin. Það meikar jú kannski eitthvað sense að heimilislausir megi ekki liggja hvar sem er en mikið andskoti var það pirrandi að þurfa að labba á milli hraðbanka til að leita að einhverjum sem var opinn. En þjónustulundin kemur seint til með að sliga Belga svo mikið er víst.

Kíkti út í gærkvöldi með góðum vinum. Planið var að fara út að dansa og það gerðum við. Fórum á stað sem spilaði gamla og góða smelli í bland við franskt diskó og við fíluðum okkur í tætlur. DJinn spilaði svo mikið af 90s tónlist að maður var nánast orðin 15 ára aftur. Ég gerði heiðarlega tilraun til að kenna stelpunum Stellu frasa áður en við fórum út. Skellt'essu í þig. Svo færðu annan - ef þú færð annan. Það þarf ekkert að fara mörgum sögum af því hvernig það gekk. Það er hins vegar stefnt á hitting fljótlega þar sem hinn frábæri menningararfur íslensku þjóðarinnar - Stella í orlofi - verður kynnt fyrir þeim sem hafa áhuga. Að sjálfsögðu með enskum texta og ég bíð spennt eftir enskri útgáfu af uppáhaldsfrösum íslenska vinahópsins. Aldrei að vita nema "skellt'essu í þig" og "Frú Stella, ég tarf ekki sjúss" séu jafn óborganlegir á enskri tungu og þeir eru á hinu ástkæra ylhýra.

En látum þetta gott heita að sinni. Það er kósýkvöld framundan hjá mér og lærdómur á morgun. Þangað til næst.

28 janúar 2009

Elsku Þórdísin mín á afmæli í dag og er hvorki meira né minna en þrítug stúlkan. Hún fær RISA knús frá Brussel í tilefni dagsins. Hafðu það svakalega gott í dag skvís!

24 janúar 2009

Nýtt Ísland?

Það er búið að vera magnað að fylgjast með appelsínugulu búsáhaldabyltingunni sem hefur tröllriðið öllu heima þessa vikuna. Miðað við andrúmsloftið í samfélaginu var viðbúið að það myndi sjóða upp úr fyrr eða síðar og þrátt fyrir að svartir sauðir hafi leynst í hópnum þá held ég að megi segja að þetta hafi farið skikkanlega fram. Það er sorglegt að heyra af veikindum Geirs en mér finnst samt magnað að bæði Geir og Ingibjörg ætli sér að sitja áfram þrátt fyrir veikindin. Það er ástæða fyrir því að veikindafrí voru fundin upp og ástandið í landinu er ekki það gott að hægt sé að stýra því af sjúkrabeði með góðu móti.

Það sem mér finnst samt sorglegast er að Geir ætli sér að hætta sem formaður Sjálfstæðisflokksins af því að hann er veikur. Ekki af því að hann telji sig bera einhverja ábyrgð á því ástandi sem nú ríkir. Það sem stjórnmálamenn virðast ekki vera búnir að átta sig á er að Ísland er ekki einungis fjárhagslega gjaldþrota heldur einnig siðferðislega. Siðferðislega gjaldþrotið er jafnvel stærra en hitt. Fólk hefur fengið nóg af skorti af siðferði í íslenskri pólitík þar sem flokkshollustan gengur fyrir öllu og vinum og vandamönnum raðað í feit embætti. Þar sem völdin skipta öllu máli en ekki velferð fólksins í landinu. Þess vegna eru háværar kröfur um nýtt Ísland.

Svar Sjálfstæðisflokksins við því var vandlega útpælt PR stunt þar sem Geir tilkynnti um veikindi sín og að það yrðu kosningar í vor. Ræða sem ég efast stórlega um að Geir hafi skrifað sjálfur enda var þetta of plottað til þess. Þarna var tónninn settur fyrir kosningabaráttu og ekki gat maður séð vott af nýju Íslandi í honum. Þetta var bara gamla Ísland í uppfærðri útgáfu. Ekki veit maður hvort að hinir flokkarnir fari niður á þetta plan og haldi sig við sömu lúalegu pólitíkina og hefur verið stunduð á Íslandi hingað til en það er ekkert sem bendir til þess að menn séu að breyta vinnubrögðum sínum. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki geð í mér til að fylgjast með kosningabaráttu þar sem photosjoppaðir pólitíkusar halda því fram að allt fari til fjandans ef þeir fá ekki að stýra landinu eða að allt komi til með að fara til fjandans ef að "hinir" komist að völdum - þrátt fyrir að allt hafi bókstaflega farið til fjandans á þeirra eigin vakt.

Allir flokkarnir eru með sínar kreddur um hvernig allt fari til fjandans ef þeir fá ekki að stjórna, hvað hinir séu nú vitlausir og þeir sjálfir mikið betri. Sú lífseigasta sem ég man eftir er frá íhaldinu um að enginn geti stjórnað efnahagi landsins eins vel og þeir. Ef að það er rétt hjá þeim þá held ég að það hafi verið rétt hjá Geir Haarde að biðja guð að blessa Ísland því þá er þjóðin illa stödd svo ekki sé meira sagt. Hins vegar held ég að allar þessar kreddur séu lítið meira en orðin ein og það er sorglegra en orð fá lýst ef þær eiga að ráða ferðinni eina kosningabaráttuna í viðbót.

Það er nefnilegast gott fólk í öllum flokkum og sjaldnast hefur allt farið til fjandans þó svo að "hinir" hafi haldið um stjórnvölinn í einhvern tíma. Ég held að reynslan sýni okkur frekar að hlutirnir fari fyrst að fara til fjandans þegar menn sitja of lengi og tapa tengslum við umbjóðendur sína - fólkið í landinu. Ég á mér enga draumastjórn eftir þessar kosningar hins vegar á ég mér þann draum að krafa fólksins í landinu um nýtt Ísland nái fram að ganga og að við stjórnvölinn setjist fólk sem ætlar sér af heilindum að vinna að því ásamt fólkinu í landinu að byggja upp nýtt þjóðfélag á rústum þess gamla. Að gamla flokkapólitíkin líði undir lok og að menn starfi saman að heilindum að hagsmunum þjóðarinnar. Þjóðar sem veiti stjórnvöldum sínum það aðhald sem hún þarf og viðhaldi þar með því siðferði sem þjóðin vill sjá.

Ég held að komandi kosningar eigi eftir að setja tóninn að því samfélagi sem Íslendingar vilja sjá. Ég vona svo sannarlega að Íslendingar eigi eftir að fylgja kröfunni um breytt þjóðfélag eftir alla leið og að kosningabaráttan eigi eftir að bera því vitni að leikreglurnar í íslenskri pólitík hafi breyst til batnaðar. Ég vona að við fáum í alvörunni að sjá nýtt Ísland. Samfélag byggt á þeim siðferðilegu gildum sem við viljum halda í heiðri. Samfélag sem getur staðið undir því að vera eitt þriggja minnst spilltustu landanna í heiminum í dag. Samfélag sem fyllir mann stolti yfir því að vera Íslendingur. Samfélag sem er óumdeilanlega nýtt Ísland.

22 janúar 2009

Nýtt lýðveldi

Ég skora á þig að skrifa undir þessa áskorun.

21 janúar 2009

Back to Business

Jæja, kom aftur til Brussel á sunnudaginn eftir allt of stutta dvöl á Íslandinu að mínu mati. Var ekki alveg tilbúin til þess að fara út aftur en maður er hins vegar fljótur að aðlaga sig um leið og maður er kominn út aftur. Ég breytti íbúðinni aðeins rétt áður en ég fór heim og kann mikið betur við íbúðina svona. Var bara hlýlegt að koma hingað aftur. Skólinn byrjaði svo á mánudaginn með ritgerðarskilum. Það var mjög spes andrúmsloft í skólanum þann daginn og mikið djamm á liðinu þegar það var búið að skila. Ég notaði svo gærdaginn til þess að koma mér í gang. Fékk mér göngutúr í búðina til að kaupa í matinn enda nákvæmlega ekki neitt til að borða hjá mér og fór í þvottahúsið líka. Svaka dugleg bara.

Svo er skólinn að komast í gang. Er búin að velja mér fög fyrir önnina og verð í þremur fögum, auk mastersritgerðarinnar. Þau heita EU in the World, European Foreign and Security Policy og Foreign Policy Analysis. Ég ætti því að fá góða fræðslu um Evrópusambandið sem ég held að veiti ekki af á þessum síðustu og verstu. Ég verð með nokkuð þægilega stundaskrá og tíminn ætti að mörgu leyti að nýtast mér betur en fyrir jól sem er bara flott. Við eigum að skila drafti að proposali fyrir mastersritgerðina á föstudaginn. Ég er ekki búin að negla niður efni en hef ýmsar hugmyndir sem ég get sett á blað og skilað inn. Eftir þessi skil verður okkur úthlutað prófessor sem mun fara yfir efnið með okkur og leiðbeina okkur í ritgerðarskrifunum. Proposalinu á svo að skila í mars svo maður hefur tíma þangað til til að negla almennilega niður efni, finna heimildir og vinna grunn að ritgerðinni.

Annars er lífið bara ljúft hérna úti. Veðrið er bara milt og fínt og ekki margar vikur í það að það fari að vora hérna á meginlandinu. Maður saknar ekki íslenska vetrarins svo mikið er víst :-)

12 janúar 2009

Minning


Elsku afi minn, Rögnvaldur K. Guðmundsson, hefði orðið 75 ára í dag hefði hann lifað. Hann kvaddi okkur allt of snemma og oftar en ekki hefur það hvarflað að mér hvernig líf okkar í fjölskyldunni hefði þróast öðruvísi ef hann væri með okkur enn í dag. Ég er þakklát fyrir tímann sem við áttum með honum og ég held að við systkinin getum seint fullþakkað honum þá ákvörðun hans að verja seinustu árunum með barnabörnunum sínum. Minning hans lifir í hjörtum okkar allra og ég veit að hann fylgist með okkur og vakir yfir okkur þegar við þurfum á því að halda. Blessuð sé minning hans.

06 janúar 2009

Fjármálaráðgjöf

Ég fékk símtal áðan frá KB Ráðgjöf en ég var með viðbótarlífeyrissparnaðinn minn hjá Vista. Á línunni var óðamála sölufulltrúi sem vildi ráðleggja mér hvað ég ætti að gera við sparnaðinn minn núna á tímum fjármálakreppu. Ég var næstum búin að skella upp úr. Auðvitað er maður til í að fá fjármálaráðgjöf frá þeim sem tókst að setja heilt þjóðfélag á hausinn.

Það er skemmst frá því að segja að ég afþakkaði fjármálaráðgjöfina eins vinsamlega og ég gat.