29 mars 2009

Aldarminning

Mamma er ekki sú eina sem á afmæli í dag því að hún Magga amma, sem langömmukerran mín er jafnan kennd við, hefði orðið 100 ára í dag hefði hún lifað. Hún fæddist á Litlabæ í Skötufirði en Litlabæ má sjá á myndinni hérna fyrir ofan. Af þessu tilefni verður ættarmót hjá afkomendum Möggu ömmu og Sigurgeirs afa í sumar og vonandi næ ég að mæta þangað. Annars er ég viss um að Magga amma er með mér og kerrunni í anda þó svo ég sé komin ansi langt frá Vestfjörðunum.



Megi guð blessa minningu Möggu ömmu og Sigurgeirs afa.

Elsku besta mamma mín á afmæli í dag og það er auðvitað löngu hætt að skipta máli hvað hún er gömul. Ég sendi hamingjuóskir heim á klakann í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn elsku mamma og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)

23 mars 2009

Is International Law a Good Predictor of State Behaviour?

Er að leita að frekari heimildum um þetta efni til þess að geta rumpað af næstu ritgerð. Þegar ég sló inn "international law" í Jstor gagnagrunninn fékk ég upp þó nokkrar greinar um samskipti tengdamæðra við tengdadætur sínar. Maður hlýtur að draga af því þá ályktun að það sé alþjóðlegt lögmál að þau samskipti séu ekki alltaf upp á marga fiska.... Eða hvað?


19 mars 2009

Hvað er lýðræði?

Það var hittingur hjá Marty í kvöld og umræðuefni kvöldsins var hvort að lýðræði væri töfralyfið við vandamálum heimsins. Aldrei þessu vant vorum við ótrúlega sammála og það var enginn til í að kvitta upp á það að lýðræði væri allra meina bót. Hinsvegar vorum við sammála um það að lýðræðið væri það besta sem við ættum, hversu meingallað sem það kynni að vera. Þetta voru mjög skemmtilegar pælingar, bara það til dæmis að velta því fyrir sér hvaða gildi samfélag þyrfti að hafa til þess að geta talist lýðræði. Gildi eins og skoðanafrelsi, kosningaréttur og frjáls fjölmiðlun. Sem sagt ekki þessi hefðbundna þrískipting ríkisvalds sem maður lærir um í skólanum heldur bara hvernig lýðræðisleg samfélög eru í raun og veru. Í lýðræðisríkjum ræður til dæmis meirihlutinn, samt eru mýmörg dæmi um það að forsetar komist til dæmis til valda án þess að hafa meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig og stjórnmálaflokkar sem meirihlutinn gaf ekki atkvæði sitt geta setið í ríkisstjórn kjörtímabil eftir kjörtímabil. Er það lýðræði? Á að vernda minnihlutahópa sérstaklega þegar þeir verða áþreifanlega undir, eða á meirihlutinn alltaf að ráða? Á að vera herskylda/þegnskylda?

Ég hef ekkert legið á því að mér finnst íslenskt samfélag vera siðferðislega gjaldþrota. Skítt með peningana, við getum unnið okkur út úr því og komið okkur réttum megin við núllið. Það verður hinsvegar miklu meira mál að ná ærunni aftur. Að öðlast virðingu annarra þjóða og komast á það stig að við sem þjóð getum borið virðingu fyrir okkur sjálfum á nýjan leik. Menn eru að karpa um stjórnlagaþing og hvað það kostar en ég spyr á móti, hvað kostar að gera það ekki? Eftir umræðu kvöldsins er ég samt ekkert sérstaklega hlynnt því að það verði kosið til einhvers stjórnlagaþings þar sem hlutirnir verða ákveðnir fyrir okkur. Ég held að það hafi allir Íslendingar gott af því að velta því fyrir sér hvað lýðræði er í þeirra huga og hvort og þá hvernig sú skilgreining eigi við íslenskt samfélag í dag. Ég held að það væri líka áhugavert að nota lífsleiknitíma grunnskólanna til þess að leyfa börnunum að velta því fyrir sér hvað lýðræði er og heyra hvaða pælingar þau hafa.

Við þurfum nefnilega að ákveða í hvernig samfélagi við viljum búa og hvaða gildi við viljum halda í heiðri og það kemur flokkapólitík ekkert við. Ég get ekki ímyndað mér að það þurfi að kosta svo mikla peninga að búa til opinn umræðuvettvang fyrir fólkið í landinu um hvað lýðræði er og hvernig við viljum hafa það. Væri jafnvel hægt að nýta eitthvað af því fólki sem er á atvinnuleysisskrá til þess að halda utan um þær hugmyndir sem þar koma fram og stýra svona verkefni. Auk þess eigum við Ríkisútvarp og sjónvarp sem getur miðlað upplýsingunum áfram til fólksins í landinu og stækkað umræðuvettvanginn enn frekar. Það er fólkið sem skapar samfélagið og ef það þarf að endurbyggja það þá er það fólkið sjálft sem þarf að vinna vinnuna. Við þurfum ekki tveggja milljarða stjórnlagaþing. Við þurfum bara að taka höndum saman og ákveða hvernig við viljum að Nýja Ísland verði. Fólkið í landinu er mesti auðurinn sem Ísland á og það á að fá að taka þátt í því að endurbyggja nýtt samfélag í landinu. Í mínum huga er það lýðræði.

17 mars 2009

Já auðvitað...

Nektardans og tískusýningar eru auðvitað sami hluturinn... Ef mig misminnir ekki lét þessi ágæti maður líka hafa það eftir sér einhvern tíman að hann væri að gera mikið góðverk með því að flytja inn stelpur frá austantjaldslöndunum til þess að strippa fyrir sig. Væri að bjarga þeim frá bágum kjörum í heimalandinu. Og það er náttúrulega það sem allt góðhjartað fólk gerir, lætur þá sem eru í nauð strippa fyrir peninga. Kemur mansali nákvæmlega ekkert við! Auðvitað...

15 mars 2009

Status Update

5.000 orð af 16.000 klár og eitt stykki ritgerð þar með komin í hús. Ætla að taka mér pásu frá lærdómi í kvöld og byrja á því að tækla næstu 5.000 orð sem eru á dagskrá á morgun. Er búin að breyta örlítið um efni þar til þess að nýta mér heimildavinnuna sem fór í fyrstu ritgerðina. Var að klára hlutverk Georgíu í samskiptum ESB og Rússlands og byrja á samskiptum ESB og Georgíu á morgun. Lítið annað í fréttum þar sem ég sit og skrifa flesta daga á milli þess sem ég tala við sjálfa mig og kettina sem mæna reglulega inn um gluggann hjá mér. Já og mæti í skólann auðvitað, má ekki gleyma því!

08 mars 2009

Vorið er komið og grundirnar gróa

Þá held ég að ég geti að vorið sé komið til Brussel. Á minn mælikvarða allavegana. Lækkaði á ofninum í íbúðinni áðan í fyrsta skiptið síðan það fór að kólna í haust og ég er hætt að vera undir sæng á meðan ég er að læra. Að vísu segja skólafélagar mínir að vorið sé á næsta leyti, það sé ekki alveg komið en ég er ekki jafn kröfuhörð á skilgreiningarnar. Það eru ekki nema rétt rúmar 4 vikur í næsta frí svo ég er farin að huga að því sem ég þarf að klára áður en ég fer heim. Ber þar helst að nefna þessar blessuðu ritgerðir, þarf að koma 16.000 orðum á prent fyrir 9. apríl. Er komin með sirka 700 svo ég get allavegana sagt að ég sé byrjuð. Sló hlutunum hinsvegar upp í kæruleysi í gær og skellti mér á djammið. Austurrísk vinkona mín var með partý og það voru þó nokkrir úr skólanum þar. Fórum svo á stað sem heitir Ethnic sem er víst vinsæll djammstaður hjá krökkunum í skólanum. Segir allt sem segja þarf um djammið á mér hérna úti að ég hef aldrei farið þangað áður.

Það spilaði þó stóra rullu að ég skellti mér þangað eftir partýið að staðurinn er hérna uppá Louise svo ég gat labbað heim. Afar hentugt. Það verður þó líklegast ekki mikið meira djamm til viðbótar áður en ég fer heim því ég hef bara 4 helgar til að skrifa þau 15.300 orð sem mig vantar upp á til að klára verkefni annarinnar. Það verður því ræs snemma í fyrramálið og sett í fluggírinn í skriftunum.

05 mars 2009

Ísland og ESB

Það var FPA í dag eins og venjulega á fimmtudögum. Á ákveðnum tímapunkti barst umræðan að Íslandi og ESB og kennarinn sagði að Ísland yrði væntanlega búið að sækja um aðild innan skamms. Ekki í fyrsta sinn sem ég heyri þetta hérna úti en núna ákvað ég að gjamma inn í og sagði kennaranum að það væri orðum aukið því nýjustu skoðanakannanir sýndu að meirihluti landsmanna væri andvígur aðild að ESB. Hann varð hissa á því og hafði ekkert heyrt af því í fjölmiðlum á Bretlandi eða hérna á meginlandinu.

Ég hef notað tímann síðan ég kom hingað út til að viða að mér upplýsingum um ESB til þess að geta myndað mér skoðun á málinu. Það verður að segjast eins og er að fréttaflutningur heima á Íslandi er dáldið úti á túni í þessum efnum og eiginlega ekki hægt að mynda sér skoðun með því að byggja aðeins á honum. En núna er ég hinsvegar komin að niðurstöðu og ég held að það væri með því vitlausasta sem Íslendingar gerðu á þessum tímapunkti að sækja um aðild.

Í fyrsta lagi er líka kreppa í ESB. Við þurfum ekki nema að horfa til Írlands til að sjá það að Evran bjargar ekki öllu og það er ekki útséð með hvernig málin eiga eftir að þróast þar í landi. Eistrarsaltslöndin eru með gjaldmiðlana sína "peggaða" við evruna og þau eru ekki í góðum málum svo ekki sé vægar tekið til orða. Þar hafa heimilin, líkt og á Íslandi, tekið lán í stórum hluta í erlendri mynt hjá evrópskum bönkum, aðallega austurrískum og ítölskum. Gjaldmiðlarnir þeirra hafa fallið líkt og íslenska krónan og lánin þeirra þar með rokið upp úr öllu valdi. Alveg eins og á Íslandi. Margir evrópskir bankar, aðallega í Austurríki og á Ítalíu, hafa lánað í stórum stíl til Austur Evrópu og háar upphæðir koma til með að gjaldfalla í ár. Það er ekki útlit að hægt verði að greiða þau lán og afleiðingarnar gætu verið rosalegar, sérstaklega fyrir Austurríki. Þá er einnig vert að minnast á það að ýmis lönd ESB eru að glíma við mikla alvarleika í sínu efnahagslífi, t.d. Spánn og Grikkland.

Það er því ekki útséð með það hvernig fjármálakreppan á eftir að leika ESB. Þetta er í raun fyrsti alvarlegi atburðurinn sem löndin 27 standa frammi fyrir að þurfa að leysa og nú reynir á hversu sterk böndin á milli ríkjanna eru. Sarkozy hafði ekki fyrir því að funda með fulltrúm allra aðildarríkjanna þegar kreppan kom upp og kallaði bara til sín fulltrúa stærstu fjögurra ríkjanna. Ég man að forsætisráðherra Finnlands kvartaði þá yfir því að Sarkozy hefði ekki haft fleiri með í ráðum. Menn töluðu þá um samhæfðar aðgerðir en það hefur farið minna fyrir þeim og hver hefur verið að bardúsa í sínu horni. Nú eru Tékkar með forsæti yfir ESB. Þeir hafa boðað til funda út af ástandinu og maður verður að sjá hvað kemur út úr því. Það verður fróðlegt að sjá hvort forysta þeirra er nógu sterk til þess að taka almennilega á vandanum.

ESB glímir við önnur vandamál fyrir utan fjármálakreppuna. Eftir að Rúmenía og Búlgaría gengu í sambandið árið 2007 er mansal orðið að veruleika INNAN sambandsins. Háværar raddir eru um það að stækkanirnar árin 2004 og 2007 hafi verið vanhugsaðar og ríkin sem þá komu inn í raun ekki tilbúin til þess að ganga í sambandið. Bæði voru þau flest nýorðin sjálfstæð og þau voru ekki komin langt á veg í þróun lýðræðis. Auk þess vantaði upp á að þau væru orðin nógu ESB-vædd ef hægt er að taka svo til orða, þe. þau viðmið og gildi sem ESB hefur í hávegum voru ekki orðin nógu stór hluti af menningu ríkjanna til þess að aðildin gengi smurt fyrir sig. Vegna þessara vandamála eru margir á þeirri skoðun að ekki eigi að stækka ESB frekar en orðið er næstu ár og jafnvel áratugi. Halda eigi áfram því ferli sem Króatía og Tyrkland eru í en síðan ekki söguna meir fyrr en löndin á Balkanskaganum verða orðin nógu þróuð til þess að hægt sé að fara í formlegt aðildarferli.

Vissulega er Ísland nær ESB í viðmiðum og gildum en lönd Austur Evrópu. Við yrðum minnsta aðildarríki sambandsins og hlutfallslega myndu fylgja því nokkur áhrif á Evrópuþinginu þar sem íslenskir Evrópuþingmenn væru með færri kjósendur á bakvið sig en í stærri löndum. En litlu löndin sem eru nú þegar í ESB, og eru flest mun fjölmennari en Ísland, kvarta yfir því að hafa ekki nógu mikil áhrif. Þær vaða ekki svo auðveldlega í Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalíu þegar stóru þjóðirnar eru búnar að ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera. Þrátt fyrir að allt hafi hrunið á Íslandi, hefur fólk áhuga á því að þessar fjórar þjóðir hafi eitthvað með það að segja hvað við gerum? Ísland á sína bandamenn innan ESB en það þýðir ekki að okkur verði tekið fagnandi og með opnum örmum ef við sækjum um. Þegar ég sagði danskri vinkonu minni hérna úti að ég væri ekki hlynnt því að Ísland færi þarna inn fékk ég yfir mig reiðilestur. Ísland mætti þakka fyrir það að það væri einhver áhugi hjá ESB fyrir því að taka við okkur. Við gætum sjálfum okkur um það kennt að allt hefði farið til fjandans hjá okkur og hefðum reynt að rústa Danmörku í leiðinni. Hefur einhver áhuga á því að fara þarna inn á þessum formerkjum?

Ég gat svo sem kvittað undir það með þessari vinkonu minni að við gætum sjálfum okkur um kennt. Þess vegna þurfum við sjálf að koma okkur út úr þessu og standa upp á lappirnar aftur. ESB býður okkur engar töfralausnir. Það sem við þurfum að gera er að standa saman sem þjóð og koma okkur í gegnum þetta. Það vita allir að það verður töff en ég held að það efist enginn Íslendingur um það að við förum í gegnum þessa kreppu og stöndum sterkari á eftir. Það má svo endurmeta það hvort það sé ástæða til að sækja um aðild þegar við erum komin á lappirnar aftur. Núna eigum við hinsvegar einfaldlega nóg með okkar og eftir því sem best verður séð, á ESB líka fullt í fangi með sitt.

02 mars 2009

Einelti og ofbeldi

Mikið svakalega var það óheppilegt af skólastjóra Sandgerðisskóla að láta hafa það eftir sér að of mikið væri gert úr árásinni sem átti sér stað á skólalóðinni þar fyrir helgi. Auðvitað hlýtur þetta atvik að eiga sér sögu sem á ekki erindi til fjölmiðla og hún sem skólastjóri getur ekki sagt frá en það breytir ekki alvarleika málsins. Ef henni þykir svo of mikið gert úr þessu þá hlýtur maður að spurja sig hvað hún telji nógu alvarlegt til þess að fjölmiðlar fjalli um það með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Þessi skólastjóri er hinsvegar ekki í öfundsverðri stöðu. Skólakerfið er ekkert að kikna undan úrlausnum í svona málum. Hún getur jú vísað drengjunum úr skóla í einhvern tíma en það tekur ekki á rótum vandans og getur jafnvel í versta falli aukið á hann.

Einelti og annað ofbeldi hefur alltaf verið soldið afgangs í íslensku skólakerfi og mýmörg dæmi um eineltismál sem skólar hafa höndlað alveg skammarlega illa. Menn virðast ýta þessu dáldið á undan sér og ég leyfi mér að efast um það að menn hafi einhvern tíman sest niður og reynt að horfa á úrlausnarefni á heildstæðan hátt. Vissulega var Olweusaráætlunin trend sem fór víða en málin fara ekki alltaf í góðan farveg þó svo maður hafi voða fína áætlun um hvernig maður ætlar að taka á þeim. Ég ætla þó ekki að níða skóinn af starfsfólkinu innan skólakerfisins þrátt fyrir að þeir hafi oft á tíðum staðið sig afar illa í þessum málum. Kennarar fá enga þjálfun í námi sínu til þess að takast á við einelti, ofbeldi eða erfiðar félagslegar aðstæður nemenda. Kennaranámið snýst bara um þau fög sem á að kenna og það vantar hreinlega alla praktík í námið. Kennarar hafa því litlar forsendur til þess að taka á erfiðum málum á faglegan hátt. Þrátt fyrir það held ég að menn reyni alltaf að gera sitt besta þó svo að aðstæðurnar séu oft erfiðar og það megi deila um árangurinn.

Það eru þó til ljós í myrkrinu. Í Kennó var ég í tímum hjá konu, Kristínu Lilliendahl, sem hefur stúderað einelti á meðal stelpna, svokallaða félagslega ýga hegðun (social agression, varla hægt að þýða þetta á íslensku en ýg hegðun er fræðiheitið). Stelpur nota nefnilegast aðrar aðferðir við að leggja í einelti en strákar. Þær lemja síður en baktala, útiloka frá hópnum og nota aðrar þvíumlíkar aðferðir. Myndin Mean Girls með Lindsey Lohan er byggð á bókinni Queen Bees and Wannabees sem fjallar akkúrat um þetta. Þetta skrifaði ég um í lokaritgerðinni minni í Kennó og svo sem ekkert af ástæðulausu enda verið fórnarlamb svona aðfara sjálf. Það er ekkert djók að upplifa það, máttur kjaftasagna og félagslegrar útilokunar er mikill. Það var ein manneskja í Bolungarvík sem stóð með mér í gegnum þetta tímabil. Ein. Þeir eru svo teljandi á fingrum annarrar handar sem sáu ástæðu til þess að biðja mig afsökunar á framferði sínu eftir á. Allt mátti þetta rekja til einnar manneskju og ég veit að hún tók fleiri fyrir en mig.

Þrátt fyrir að þetta hafi allt átt sér stað eftir að minni grunnskólagöngu var lokið hefði skólinn sem slíkur getað gert ýmislegt með fyrirbyggjandi aðgerðum. Bara með því að hafa stúderað þetta í lokaritgerðinni get ég spottað svona týpur nánast um leið og ég hitti þær og ég veit hvar ég get leitað mér upplýsinga um leiðir til þess að tækla þær á jákvæðan máta. Höfundur Queen Bees and Wannabees hefur unnið mikið starf í Bandaríkjunum og það er nánast óplægður akur á Íslandi að vinna fyrirbyggjandi vinnu í þessum málum t.d. í gegnum Lífsleikni kennslu. Markmiðið með ritgerðinni á sínum tíma var að vekja athygli á efninu og við vonuðum að einhverjir myndu fylgja í kjölfarið og vinna ítarlegri greiningu á þessum málum á Íslandi. Kristín hefur unnið mikið og gott starf og hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þessum málum. Ritgerðin okkar er svo til á bókasafni Kennó og ég á hana líka til á tölvutæku formi.

Það er því margt hægt að gera og margt í boði. Rosalind Wiseman, höfundur Queen Bees and Wannabees, býður t.d. kennurum upp á námskeið í aðferðum hennar við að tækla félagslega ýga hegðun. Kennarar og skólayfirvöld verða hinsvegar að hafa frumkvæði að því að sækjast eftir slíku efni sjálf. Því miður. Vonandi verður þessi stutti pistill hvati að því að einhverstaðar fari bolti af stað.

01 mars 2009

Ritgerðir enn og aftur

Er búin að nota helgina í að skoða heimildir og melta ritgerðarefni. Ég ákvað að láta tvær smærri ritgerðir bíða örlítið og fókusera á að finna efni í þær tvær stóru sem ég þarf að skrifa sem og að njörva betur niður efni í mastersritgerðina. Í EU in the World ætla ég að skrifa um tengsl ESB og Úkraínu og fókusera sérstaklega á það að Úkraína vonast sterklega til þess að verða aðildarríki ESB þrátt fyrir að það sé kveðið skýrt á um það í stefnusamningi um samskipti ríkjanna að slíkt sé ekki í boði. ESB er að senda Úkraínu frekar misvísandi skilaboð í þessum efnum og þar sem afar ólíklegt verður að teljast að ESB verði stækkað mikið frekar í bili þá held ég að þeir þurfi að hugsa út fyrir rammann og bjóða Úkraínumönnum aðra gulrót.

Í European Foreign and Security Policy ætla ég að skrifa um tengsl Rússlands og ESB. Fór á málþing um þetta á miðvikudaginn þar sem tveir virtir fræðimenn sem höfðu gjörólíka afstöðu til málsins töluðu. Það var mjög fróðlegt að hlusta á þá og þær umræður sem sköpuðust í kjölfarið. Mönnum ber engan vegin saman um hvort að ógn stafi af Rússum eða ekki og því ætti að verða fróðlegt að kafa frekar ofan í þetta. Sérstaklega með tilliti til veru Íslands í Nató. Ef það er engin ógn frá Rússlandi hvers vegna á Ísland þá að eyða fullt af peningum í aðild að Nató? Sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Í mastersritgerðinni ætla ég svo að skrifa um læsi og mikilvægi þess í fullorðinsfræðslu sem hluta af þróunaraðstoð. Ísland hefur unnið að slíku verkefni í Úganda og ég ætla að skoða það nánar og nota í ritgerðinni. Í mínum huga er þetta kjarninn í þróunaraðstoð og fyrsta skrefið í því að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Menn geta rétt ímyndað sér hvaða dyr opnast hjá fólki þegar það hefur lært að lesa og skrifa. Ekki einungis í beinni þekkingarleit heldur bara í daglegu lífi. Menn geta lesið á umferðarskilti, utan á umbúðir, aflað sér upplýsinga um almennt hreinlæti og svo mætti lengi telja.

Þetta hefur því verið frekar róleg helgi. Það var hittingur hjá Marty á fimmtudagskvöldið sem var skemmtilegur að vanda. Það má segja að við séum þar að vinna meðvitað gegn group thinking. Við erum sjaldnast sammála um það sem við erum að ræða og ef við erum of sammála er alltaf einhver sem tekur það að sér að hleypa lífi í umræðuna og finna rök á móti. Það nýtist sumum t.d. í mastersritgerðunum þegar við höfum talað um efni sem þeir ætla að skrifa um. Það er mjög gagnlegt að heyra sjónarmið sem ganga gegn þeim málflutningi sem maður hefur sjálfur og geta þar með gert ráð fyrir hluta af þeirri gagnrýni sem ritgerðin getur fengið. Það geta nefnilegast allir dottið í group thinking og orðið samdauna sínum eigin rökum. Þó svo að Chavez og Mugabe séu ýkt dæmi þá þýðir það ekki að allir séu jafn ýktir og þeir. Geir Haarde var t.d. klárlega fastur í eigin hugsun og má alveg færa rök fyrir því að það hafi fellt ríkisstjórnina. Á meðan Ingibjörg Sólrún kom með mjög klárt pólitískt move og tefldi Jóhönnu fram sem forsætisráðherraefni þá var Geir fastur í því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið gerðir og var ekki til umræðu um annað. Ef hann hefði getað horft á hlutina öðrum augum þá hefði stjórnin líklega haldið.

En ég græt það svo sem ekki, íhaldið má vera í hvíld frá ríkisstjórn næstu áratugina mín vegna :p Maybe I should have verða líklega eftirmæli Geirs í pólitík. Stutt og laggóð. En ég á víst að vera að horfa meira til Rússlands en Íslands akkúrat núna. Ætla að halda áfram með lærdóminn. Þangað til næst.