31 júlí 2008

Á morgun mun ég

vakna upp í Vestmannaeyjum, við vegamót hins andlega seims. Í fullum dal af fínum peyjum og fallegustu konum heims.

Það er að koma Þjóðhátíð og ég hlakka svoooo til! Er ekki lífið yndislegt? :-)

29 júlí 2008

Allt að gerast

Þá er íbúðin komin í leigu og allt á spani. Afhendi íbúðina að kvöldi hins 31. júlí - þegar ég verð búin að vinna minn seinasta vinnudag. Stefnan er svo tekin til Eyja síðar sama kvöld og óhætt að segja að sé kominn nettur Þjóðhátíðarfiðringur í mig. Þetta er allt að smella.

25 júlí 2008

Fólk er fífl

Það höfðu greinilega fleiri en ég hug á að labba Esjuna og það er sorglegt mál mannsins sem fannst þar látinn fyrr í dag. Sorglegast finnast mér þau viðbrögð bloggheima við leitinni að manninum. Upphrópanir eins og að maðurinn mætti labba þarna nakinn ef hann vildi og það væri algjör óþarfi að eyða peningum í að leita að manngreyinu, hann væri örugglega ekki heill á geði. Svona upphrópanir eru það heimskulegar að þær eru ekki svaraverðar og ég er nokkuð viss um það að annar tónn hefði verið í þessu fólki ef þetta hefði verið einhver þeim nákominn.

En fyrst að flestar upphrópanirnar snérust að peningum langar mig að benda á eitt. Þegar björgunarsveitir eru kallaðar út til leitar er ekki verið að eyða skattpeningum. Fólkið sem starfar í björgunarsveitunum gerir það í sjálfboðaliðastarfi og sveitirnar eru ekki á fjárlögum frá Ríkinu. Auðvitað kostar Ríkið rekstur Gæslunnar og þar af leiðandi þyrlunnar en ég verð að viðurkenna að ég treysti því ágæta fólki sem vinnur við þessi mál miklu betur til þess að vega og meta hvenær það er réttlætanlegt að kalla þyrlurnar út heldur en sjálfskipuðum besservissurum út í bæ sem fela sig á bakvið tölvuskjái.

Eins og viðbrögð bloggheima gefa merki um þá er fólk fífl og ég held að við ættum öll að vera þakklát því fólki sem er tilbúið til þess að eyða sínum frítíma í að leita að okkur fíflunum og bjarga okkur þegar við förum okkur að voða. Ef að þau væru ekki til staðar gerði það enginn annar.

22 júlí 2008

Björninn unninn

Ég náði langþráðu markmiði í dag þegar ég gekk upp á topp Esjunnar með silfurskóna mína í bakpokanum. Við Þórdís höfðum planað að fara saman í dag en hún er veik svo ég dreif mig bara sjálf. Það var að vísu mikil þoka í efri hluta Esjunnar en ég arkaði þetta samt. Þegar ég var komin í klettana villtist ég aðeins en rataði út úr því og fann stíginn að lokum. Hitti þar Íra sem lóðsaði mig upp á topp. Þegar upp var komið vildi hann ólmur vita hvaða fjall hann hafði verið að klífa. Ætti að vera vísbending til Ferðamálayfirvalda að hafa eitthvað af þessum fínu skiltum sem þarna eru á ensku! Írinn lóðsaði mig niður klettana aftur og alla leið niðrá stíginn. Honum fannst ég hugrökk. Frekar heimsk, hugsaði ég með sjálfri mér að hafa verið að þvælast þarna í klettabeltinu í svarta þoku alein án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að gera. En hugrökk hljómar auðvitað mikið betur. En upp fór ég á einum og hálfum tíma. Næst er að fara þetta í góðu veðri svo ég sjái eitthvað hvert ég er að fara!

18 júlí 2008

Átakið búið

Þá er 10 vikna átaki í ræktinni lokið. Ég fór á 2 super form námskeið í röð hjá Goran á Grand Spa og byrjaði þar strax eftir hvítasunnu. Síðan þá eru foknir 8 cm af mjöðmunum og 6 af maganum. 3 kíló af fitu hafa ákveðið að færa sig yfir í vöðvamassann en vigtin hefur hins vegar stigið upp um rúmlega kíló. Formið hefur farið frá því að vera arfa lélegt og slefar nú upp í gott ástand. Ég ætla að halda áfram að æfa í Grand Spa þangað til ég fer út og Esjan er stóra verkefni næstu viku ef veðurguðirnir lofa. Þegar ég verð komin í heimsborgina heldur líkamsræktin áfram enda ætlunin að vera í súperformi þegar líður að jólum. Ég ætla að komast í fleiri föt en bara kjólinn fyrir jólin.

Mér finnst ástæða að hrósa fyrir það sem vel er gert og það er óhætt að halda því fram að Grand Spa sé frábær staður. Þar hefur verið haldið vel utan um mig og passað upp á að ég væri að stunda þá hreyfingu sem ég þyrfti miðað við mín veikindi. Mataræðið hefur líka verið tekið í gegn og ég fer örugglega að breytast í kalkríkan próteinbolta miðað við allt kalkið og próteinið sem ég þarf að borða. Í fyrsta skiptið á ævinni er ég að kaupa mér kort í líkamsræktarstöð en það er óhætt að segja að ég hafi ekki alveg verið að fíla mig á þeim vígstöðvum hingað til. Grand Spa er hins vegar undantekningin sem sannar regluna. Hvort að það er smæðin, handklæðin eða heitu pottarnir og nuddið skal ég ekki segja en ég er búin að finna stað við mitt hæfi og þar dugar ekkert minna en það besta ;-)

17 júlí 2008

Daníel frændi minn á afmæli í dag og er orðinn 13 ára og því farið að styttast í ferminguna hjá drengnum. Ég sendi bestu kveðjur í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn frændi og hafðu það gott og skemmtilegt í dag :-)

13 júlí 2008

Just for the record

þá eru 18 dagar í Þjóðhátíð.

09 júlí 2008

Pétur Marel á afmæli í dag og það er gömul klisja og ný að það skiptir akkúrat engu máli hvað hann er orðinn gamall. Til hamingju með daginn og hafðu það öfga gott í dag :-)

07 júlí 2008

Í Bolungarvíkinni

Skellti mér heim í Víkina á seinustu helgi og skemmti mér í góðra vina hópi. Þetta var frábær helgi í algjörri bongó blíðu og það er bara vonandi að maður nái nokkrum góðum dögum í Víkinni í ágúst áður en maður fer í útlandið. Læt fylgja með nokkrar myndir fyrir þá sem eru ekki vinir mínir á Facebook ;-)Bjarnveig og Sigurborg í brekkusöng

Erla, Jón Eggert og Sigurborg

Sigurborg og ég

Sigurborg, ég og Valdimar

Góður hópur á leiðinni á ball

Riturinn séður af Bolafjalli

Á toppi tilverunnar