30 nóvember 2004

Ég er ekki sátt með það hvað það virðast margir heimsækja þessa síðu en enginn skrifar í gestabókina. Allir að kvitta fyrir komuna!!

Svo á Rebekka Líf afmæli í dag, er orðin 15 ára stelpan. Til hamingju með daginn elskan mín!

23 nóvember 2004

Nei ég er ekki dauð enn. Er bara búin að liggja yfir lærdómi síðustu viku og það mun víst verða svoleiðis alveg þangað til 16. desember. Var samt að klára stóra ritgerð í lífsleikni og þá finnst mér allt vera búið. Restin ætti því að verða lítið mál - allavegana fram að prófum!

15 nóvember 2004

Svartir dagar

Eftir stúdentsprófið var ég í nokkur ár að velta fyrir mér hvað mig langaði að læra og gera í framtíðinni. Ég vann í banka í tvö ár og fann að svoleiðis starf var ekki fyrir mig. Ég skellti mér í sálfræði, fannst það bara nokk skemmtilegt, soldið þurrt samt. Var ekki alveg viss hvort ég vildi halda áfram í sálfræðinni svo ég ákvað að prófa að kenna í eitt ár á meðan ég hugsaði málin. Mér var algjörlega hent út í djúpu laugina, ég gerði fullt af vitleysum en samt var þetta ein skemmtilegasta vinna sem ég hafði unnið við. Ég ákvað að þetta vildi ég læra.

Skólinn er skemmtilegur og ég hef brennandi áhuga á því sem ég er að gera. Ég get satt að segja ekki beðið eftir því að klára skólann og fara að vinna. Ég hef fylgst vel með kennaraverkfallinu því að kennararnir eru jú líka að berjast fyrir okkur sem erum enn í námi. Lending ríkisstjórnarinnar í málinu er hrein og klár vanvirðing við kennarastéttina í heild. Ég skil vel þá kennara sem sátu heima í dag. Ég hefði að vísu mætt í vinnu sjálf, en ég hefði líka sagt upp starfinu mínu. Ég ætla ekki að hætta í skólanum en ef þetta verður raunveruleikinn þegar ég útskrifast mun ég ekki fara að kenna, eins grátlegt og mér finnst að hugsa til þess.

Þessi blessaða ríkisstjórn hefur lítið sem ekkert gert í menntamálum og að mörgu leyti eru þeir að súpa seyðið af því núna. Eins ágætir og lögfræðingar kunna að vera eru þeir ekki bestu menntamálaráðherrarnir. Miðað við það sem maður hefur heyrt í fjölmiðlum undanfarna daga þá verða engar breytingar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Kennarar eru ekki fagstétt í menntamálum í þeirra huga það er nokkuð ljóst mál. Formaður menntamálanefndar segir að ef til uppsagna kennara komi þá komi maður í manns stað. Nemendur Kennaraháskólans standa með kennurum í sinni kjarabaráttu og ég held að það myndu ekki margir hlaupa spenntir í kennarastarf við núverandi aðstæður. GIBbinn ætti kannski að taka sér launalaust leyfi frá öllum störfunum sínum og prófa að kenna í svona eins og eina önn og prófa að lifa af kennaralaununum einum saman. Það væri fróðlegt að heyra hvað hann segði þá.

Það voru allir sammála um að lög væru bara frestun á vandamáli, engin lausn. Ég vona svo sannarlega að unnið verði af skynsemi að lausn á þessu vandamáli. Þetta er ekki bara vandamál kennara og sveitarfélaga, það þarf líka að vera líf í menntamálaráðuneytinu. Ég vona að Þorgerður Katrín fari að vakna af þyrnirósarsvefninum, láti til sín taka við lausn þessa máls og blási lífi í hálf dautt ráðuneytið. Mig langar nefnilegast svo að verða stoltur og góður kennari þegar ég verð stór. Mig langar til að hafa efni á því að vinna við það sem ég er að læra sem er ekki staðan í dag. Eru það svo stórkostlegar væntingar?

13 nóvember 2004

Dánarfregnir og jarðarfarir

Herra Kaktus er látinn. Andlátið bar því miður ekki brátt að og er rakið til slæmra lífsskilyrða. Jarðarförin hefur farið fram í kyrrþey. Herra Kaktus átti stutta en góða ævi og var eiganda sínum mikill gleðigjafi. Sorg eigandans er mikil og eru öll önnur blóm vinsamlegast afþökkuð þar sem ekkert annað blóm mun geta komið í stað Herra Kaktus.

12 nóvember 2004

Er Ísland bezt í heimi??


Úr dagbók einhvers

12. Ágúst - Fluttum til Íslands að vinna. Settumst að fyrir austan.
Ég er svo spenntur. Það er svo fallegt hérna, fjöllin eru dýrleg. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig þau líta út í vetur þegar það fer að snjóa.
14. Október - Ísland er fallegasta land í heimi. Laufin eru öll rauð og appelsínugul. Sáum hreindýr í dag. Þau eru svo falleg. Það er svo kyrrlátt hérna, algjör paradís. Ég ætla sko að búa hérna það sem eftir er.
11. Nóvember - Bráðum byrjar hreindýra veiðitímabilið. Ég get ekki ímyndað mér að einhver vilji drepa þessi fallegu dýr. Vona að það fari að snjóa. Ég elska þetta land.
15. Nóvember - Það snjóaði í nótt. Þegar ég vaknaði var allt hvítt.
Þetta er eins og póstkort. Við fórum út og hreinsuðum snjóinn af tröppunum og mokuðum innkeyrsluna. Fórum í snjóbolta slag (ég vann).
Þegar snjóruðningstækið ruddi götuna, þurftum við að moka aftur. Ég elska Ísland!
22. Nóvember - Meiri snjór í nótt. Snjóruðningstækið lék sama leikinn með innskeyrsluna okkar. Fínt að vera hérna.

15. Desember - Enn meiri snjór í nótt. Komst ekki út úr innkeyrslunni og í vinnuna. Það er fallegt hérna, en ég er orðinn ansi þreyttur á að moka snjó.
Helvítis snjóruðningstæki.
22. Desember - Meira af þessu hvíta drasli féll í nótt. Ég er kominn með blöðrur í lófana og illt í bakið af öllu þessu moki. Ég held að gaurinn á snjóruðningstækinu bíði við hornið þar til ég er búinn að moka innkeyrsluna.
Helvítis asninn.
24. Desember - Gleðileg Jól, eða þannig! Enn meiri anskotans snjór. Ef ég næ í helvítis fíflið sem keyrir snjóruðningstækið, þá sver ég að ég drep helvítið. Af hverju salta þeir ekki helvítis göturnar hérna meira.

18. Janúar - Meiri hvítur skítur í nótt. Búinn að vera inni í þrjá daga.
Bíllinn er fastur undir heilu fjalli af snjó sem fíflið á ruðningstækinu er búinn að ýta að innkeyrslunni okkar. Veðurfræðingurinn spáði 20 cm jafnföllnum snjó næstu nótt. Veistu hvað það eru margar skóflur?
19. Janúar - Helvítis veðurfræðingurinn hafði rangt fyrir sér. Við fengum
35 cm af skít í þetta skipti. Ef það heldur svona áfram þá bráðnar þetta drasl ekki fyrr en um mitt sumar. Snjóruðningstækið festi sig í götunni og helvítis fíflið kom og spurði hvort ég gæti lánað honum skóflu.
Eftir
að hafa sagt honum að ég væri búinn að brjóta sex í vetur við að moka í burtu snjónum sem hann ýtti jafnóðum inn í innkeyrsluna, munaði að ég bryti eina enn á hausnum á honum.
4. Febrúar - Komst loksins út úr húsi í dag. Fór í búðina að versla og á leiðinni til baka hljóp hreindýr fyrir bílinn. Skemmdir upp á tugi þúsunda.
Vildi að þessum kvikindum hefði verið útrýmt síðasta haust.

3. Maí - Fór með bílinn á verkstæði í bænum. Ótrúlegt hvað þetta ryðgar af öllu þessu saltdrasli sem þeir strá á vegina.
19. Maí - Flutti til Spánar. Skil ekki að nokkur maður með viti skuli vilja búa á skítaskeri eins og Íslandi!

11 nóvember 2004

Ég hef aldrei verið hrifin af sokkabuxum. Þær eru þröngar og óþægilegar og það er komið lykkjufall á þær eftir tvær klósettferðir - og þá er 700 kall farinn fyrir lítið. Ef ég fer í pilsi á djammið þá hef ég alltaf bara sleppt sokkabuxunum ef ég hef mögulega komist upp með það. Núna á ég hins vegar stutt pils og það er ekki fræðilegur að fara í því á djammið án þess að vera í sokkabuxum. Ég fór í þessu pilsi út á laugardaginn og þá byrjaði helv.. sokkabuxnavesenið. Sokkabuxur ná nebblast upp í mitti en pils og buxur í dag liggja almennt á mjöðmunum. Maður rúllar því alltaf strengnum á sokkabuxunum niður svo þær komi ekki upp fyrir buxna- eða pilsastrenginn.

Þá kemur aftur í móti annað vandamál. Sokkabuxurnar liggja núna talsvert neðar en þær eiga að gera og skerast inn í mjaðmirnar. Það gerðist núna á laugardaginn. Ég var voða fín í stuttu pilsi og svarta bolnum mínum og eins og ég væri með snæri strekkt inn í mjaðmirnar á mér. Ég var lengi að vesenast með hvernig ég gæti lagað þetta því þetta var það áberandi að mér datt ekki til hugar að fara svona út úr húsi. Á endanum klippti ég strenginn á sokkabuxunum niður að pilsastrenginum og málið var leyst. Þá var miklu auðveldara að rúlla sokkabuxunum niður og með því að klippa þessa einu línu meðfram sauminum þá losnaði um þrýstinginn og fellinguna. Ég er búin að þvo þessar sokkabuxur síðan og þær rakna ekkert upp við þetta - þó svo að amma hafi sagt að þær myndu gera það.

Það er hins vegar annað mál með þykkar sokkabuxur. Þær haldast aldrei uppi og ef ég vil vera fín í pilsi einhvern daginn þá er ég alltaf eins og versti skítbuxi innan undir pilsinu og ég þarf að fara reglulega á klósettið til að hysja buxurnar upp um mig. Amma leysti þetta vandamál fyrir mig. Auka nærbuxur utan yfir sokkabuxurnar og málið er leyst. Maður verður gella yst sem innst :)

09 nóvember 2004

Jæja, þá er ég loksins að verða orðin almennileg eftir þessa blessuðu endajaxlatöku. Ég var hjá tannsa áðan að láta taka kanilplásturinn. Ég fékk hjá honum einhverja massa sprautu til að skola holuna eftir tönnina. Þeir sem þekkja mig vita að ég er með sprautufóbíu dauðans og ég á pottþétt aldrei eftir að þora að koma við þessa sprautu. En nú er þetta búið - sem betur fer!

Á laugardaginn fór ég á Sálarballið. Ægir var svo elskulegur að redda mér tveimur boðsmiðum svo ég bauðst til þess að vera driver fyrir Pétur - hehe. Það var þegið með þökkum, ótrúlegt en satt! Það var alveg ótrúlegur troðningur á þessu balli en það var samt gaman. Sálin klikkar aldrei.

Annars er ég bara búin að vera öfga löt. Er að fara í nudd á eftir þannig að það verður heavy slökun í kvöld og farið snemma að sofa :)

04 nóvember 2004

Ég var að koma frá tannsanum. Hann var að taka saumana hjá mér. Ég fékk líka að vita af hverju ég er búin að vera svona kvalin undanfarna daga. Sárið hafði rifnað upp öðru megin. Hann setti einhvern strimil sem er verkjastillandi og sótthreinsandi yfir og ég á að mæta aftur á mánudaginn til að láta fjarlægja hann. Strimillinn er með sterku kanilbragði svo munnurinn minn er bara kominn í jólaskapið. Ég er hins vegar hálf dofin eitthvað. Veit ekki hvort það er áhrif frá tímanum sem ég er í eða hvort að verkjalyfið er að kicka svona vel. Ég á svo að fara að kenna present continuous í ensku máli og málnotkun á eftir. Ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því. Vona bara að Robert verði góður við mig og gefi mér góða krítík.

Jæja, er alveg að mygla hérna. Var að borða banana með kanilbragði sem var ekki gott. Ætlaði að skola munninn með vatni en þetta kanilbragð virðist vera lífseigara en andskotinn. Heyrðu, veit einhver hvernig ég get sett mynd inn á bloggið sem er af eðlilegri stærð? Ekki svona gígantísk eins og myndin sem ég var með. Er ekki hægt að setja inn myndir úr my pictures??

02 nóvember 2004

Getur einhver sagt mér hvernig ég geri linkana mína þannig að þeir opnist á nýrri síðu??