28 maí 2008

Mannleg samskipti

Það er ofarlega á baugi í fréttatímum þessa dagana að lögreglumanni hafi verið vísað frá starfi tímabundið eftir að hafa tekið ungling kverkataki. Í fréttatíma Stöðvar 2 áðan kom fram að lögreglumenn hafa sjálfir óskað eftir því að fá kennslu í mannlegum samskiptum og það var það sem þeim þótti hvað mest ábótavant við starfið og námið í Lögregluskólanum.

Þegar ég var í Kennó þótti mér það merkilegt að það var ekki einn skyldukúrs sem snéri að aga og agastjórnun, viðtalstækni eða mannlegum samskiptum. Það er ekki hægt að neita því að þessir þættir eru kjarninn í kennarastarfinu og ef einstaklingur hefur ekki gott vald á þeim er ansi hætt við að hann verði glataður kennari - alveg sama hvað hann getur þulið mikinn fróðleik upp úr bókum. Núna er verið að lengja kennaranámið upp í 5 ár, sem er gott og blessað og afar þarft, en mér þykir það skjóta skökku við að verið sé að lengja námið án þess að bæta inn þó ekki væri nema einhverjum af ofantöldum þáttum. Eitthvað af þessu er kennt í valfögum en í mínum huga er það hreint og klárt djók. Enginn kennari hefur val um það hvort hann vilji halda uppi aga eða eiga samskipti við nemendur sína og foreldra þeirra. Að bjóða upp á þessi fög í vali er eins og að plástra svöðusár með allt of litlum plástri.

Ég held að það sé stór partur af að mörgu leyti slæmri ímynd kennara að þessum þætti sé ekki sinnt sem skyldi í Kennó. Ég hef engan hitt sem ekki hefur getað nefnt dæmi um kennara sem var gjörsamlega vanhæfur í mannlegum samskiptum og skilið eftir djúp sár á sumum nemenda sinna sem gróa jafnvel aldrei. Það þarf ansi marga góða kennara til að bæta upp slík áhrif. Ég held að það sé sama málið með löggurnar. Það er nefnilegast ekki meðfæddur eiginleiki að kunna samskiptatækni og að kunna að tækla erfiðar aðstæður og hann lærist ekki með því einu að setja upp lögregluhúfu eða taka upp kennaraprik.

Í Hjallastefnunni eru mannleg samskipti hluti af námsgreinunum. Margrét Pála hefur unnið mikið brautryðjendastarf og mér finnst frábært að vita til þess að til séu skólar á Íslandi sem hafa það að markmiði sínu að kenna nemendum sínum samskipti - jafnvel þó svo að þeir séu eingöngu á leikskólastigi og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Ég vona bara að við þurfum ekki að bíða eftir því að nemendur þeirra vaxi til vits og ára þangað til að kennsla í samskiptum færist upp skólastigið og til þeirra sem þurfa kannski helst á henni að halda.

16 maí 2008

Góð heilsa er gulli betri

Eftir að hafa legið í flensu í tæpar tvær vikur og verið nánast alveg orkulaus eftir eina svæfinguna enn var botninum náð. Líkaminn sagði hingað og ekki lengra, núna verður þú að gera eitthvað stúlkukind. Seinasta þriðjudag byrjaði ég því á sex vikna Súperform námskeiði á Grand Spa. Mæti alla virka daga klukkan 6.30 og það er óhætt að segja að það sé tekið vel á því. Harðsperrurnar segja mér að ég sé að gera eitthvað af viti og það er dáldið góð tilfinning að finna að maður getur gert meira í dag en í gær. Námskeiðinu lýkur 20. júní og fyrir júnílok ætla ég að standa við markmið síðasta sumars og fara upp á topp Esjunnar. Viltu koma með?

10 maí 2008

Ást er miklu meira en bara þriggja stafa orð

Ég var að koma heim af tónleikum. Við mamma fórum að sjá Hörð Torfa í Fríkirkjunni. Ég hef einu sinni áður farið á tónleika með Herði. Þá bauð pabbi mér með sér á tónleika með honum í Borgarleikhúsinu. Hann kom mér skemmtilega á óvart og því var það ekki spurning um að drífa sig þegar ég rakst á það að það væru tónleikar með honum í kvöld. Tilefni tónleikanna var að það eru 30 ár síðan Hörður stóð fyrir stofnun Samtakanna 78 og hann fór í grófum dráttum í gegnum sögu sína og þá ofboðslegu fordóma sem hann varð fyrir þegar hann kom út úr skápnum.

Mér finnst alveg magnað að hlusta á sögu hans. Daginn eftir að hann kom úr skápnum var hann búinn að missa vinnuna og íbúðina og stóð einn. Honum var vísað út af skemmtistöðum, fékk jafnvel ekki að fara inn á þá, var laminn og það var hrækt á hann úti á götu. Ofsóknirnar voru þvílíkar að hann varð að flýja land og hann var í tæp 20 ár í útlegð í Danmörku.

Mannvirðing og náungakærleikur hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið og kannski náði boðskapur Harðar því betur til mín en ella. Íslenskt samfélag hrækir kannski ekki á samkynhneigða í dag en samfélagið hefur ekki breyst meira en svo að það eru bara aðrir sem verða fyrir hrákanum. Mér finnst það umhugsunarefni hvernig samfélagið kemur fram við náungann og það væri óskandi að fleiri eyddu tíma sínum í að skoða bjálkann í sínu eigin auga og takast á við sjálfan sig í stað þess að einblína sífellt á flísina í auga náungans.

Ég er á því að Hörður Torfa sé einn vanmetnasti tónlistarmaður sem við Íslendingar eigum. Hann er söngvaskáld sem syngur um lífið eins og það hefur komið honum fyrir sjónir og það verður að segjast eins og er að það er mikill viskubrunnur um mannvirðingu, samskipti og kærleika. Boðskapur sem er aldrei nóg af. Náfrændi hans Harðar, Ævar Örn Jósepsson, hefur unnið að því í samvinnu við Hörð að skrá niður sögu hans. Ég veit ekki hvenær bókin verður klár en eitt er þó víst að saga hans verður fróðleg lesning. Ég mun allavegana klárlega kaupa mér eintak þegar hún kemur út. Ég mæli með því að þú gerir það líka.

05 maí 2008

Litla systir mín hún Rakel á afmæli í dag, orðin 23 ára stúlkan. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)