23 júlí 2009

Allt búið

Þá er ég búin að skila inn mastersritgerðinni og lítið annað eftir en að koma sér heim á Klakann. Það er óneitanlega dálítið erfitt að sleppa tökunum og skila. Það hafa ýmsar hugsanir flogið í gegnum hugann í dag. Merkti ég ekki örugglega viðaukann inn? Ætli ég hafi gleymt að laga e-a innsláttarvillu? Ætti ég ekki að renna yfir þetta einu sinni enn til þess að vera nú alveg viss um að þetta sé í lagi? Þá skiptir litlu þó svo að aðrir en ég hafi fínkemmt ritgerðina í leit að villum og að ég hafi líka gert það sjálf. Þegar maður er búin að liggja yfir einhverju verkefni svona lengi er erfitt að setja punkt og hætta. En það þýðir lítið að velta sér upp úr slíkum hugsunum núna. Ritgerðin er farin úr mínum höndum og ég held að ég geti verið ánægð með hana. Í það minnsta gerði ég mitt besta og maður getur víst aldrei gert betur en það.

Morgundagurinn mun fara í það að losa mig við sem mest af dótinu mínu hérna úti. Ég hafði miklar áhyggjur af því að þurfa að henda mestu af eldhúsdótinu mínu - og það er tómt vesen að henda hérna - en það virðist vera að bjargast fyrir horn. Stelpan sem ætlaði hinsvegar að kaupa húsgögnin þurfti að hætta við það með litlum fyrirvara því hún er ekki enn komin með íbúð og ég er ekki enn búin að finna út úr því hvernig ég fer að því að losa mig við þau. En ég krossa bara fingur og vona að það reddist. Vonandi næ ég allavegana að leysa úr þessu á morgun og næ að chilla aðeins á laugardaginn. Við íslensku stelpurnar hérna erum að spá í að skella okkur til Gent að slæpast og það væri gaman að geta náð því.

Á sunnudaginn hoppa ég svo upp í lestina til Amsterdam og lenti á Íslandinu seint um kvöldið. Það verður stutt stopp hjá mömmu því ég fer til Eyja afar seint á fimmtudagskvöldið eftir viku. Tíunda Þjóðhátíðin framundan og alveg pottþétt sú besta hingað til. Sjáumst í Dalnum :-)

17 júlí 2009

Hann Daníel "litli" frændi minn á afmæli í dag og er orðinn 14 ára drengurinn. Ég sendi hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn frændi og hafðu það svakalega gott í dag :-)

16 júlí 2009

Allt Crazy in da Brainhouse

Jæja, þá er ritgerðin loksins orðin tilbúin í yfirlestur og ég get farið að anda léttar :-)

Dótið mitt var svo sótt í dag svo það er algjört spennufall í augnablikinu. Samskip klikkaði reyndar big time. Það var samið um að ég fengi 2ja daga fyrirvara á því hvenær dótið yrði sótt. Þar sem skipið fer á þriðjudaginn var ég nokkuð viss um að það yrði í þessari viku og var því í startholunum. Þegar ég hafði hinsvegar ekki heyrt orð frá Samskipsmönnum í gær ákvað ég að senda þeim póst og athuga hvenær þeir ætluðu eiginlega að koma. Fékk símtal nokkrum mínútum seinna þar sem þeir spurðu hvort þeir mættu ekki bara koma núna klukkan 3 - eftir tæpa 2 tíma... Ég held að gaurinn hafi áttað sig á því hversu skammur fyrirvari það var þegar ég spurði hann hvort hann væri í alvörunni að gefa mér 2ja TÍMA fyrirvara í staðin fyrir 2ja DAGA fyrirvara. Hann bauðst þá til að senda bíl seinnipartinn í dag en gat ekki gefið mér upp klukkan hvað.

Ég átti ekki von á öðru en að það yrði hringt með einhverjum smá fyrirvara til þess að láta mig vita hvenær bíllinn kæmi - ég meina, ekki ætluðu þeir mér að bíða með allt dótið niðrá gangstétt í allan dag? - og var bara í rólegheitunum þegar dyrabjallan hringdi og bíllinn var bara kominn - og klukkan rétt rúmlega 12! Greyið bílstjórinn vissi greinilega minna en ég svo ég dreif allt dótið niður og hann hjálpaði mér að raða í bílinn og við reyndum að gera gott úr þessu. En þetta var verulega óþægilegt og Samskip fær klárlega falleinkunn fyrir þetta.

Svo er bara allt vitlaust á Klakanum eftir að þingið samþykkti að sækja um ESB. Ég er nú alveg skýrt og skorinort á móti aðild Íslands að ESB en ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þessi læti. Þessi leið sem ríkisstjórnin valdi var fyrirsjáanleg málamiðlun vegna mismunandi afstöðu flokkanna til ESB og alls ekki óásættlanleg sem slík. Það er allt viðræðuferlið eftir fyrir utan þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa um samninginn og það er nú bara ekkert gefið með það að við fáum samning sem þjóðin samþykkir. Mér finnst þetta því ekki vera neinn sorgardagur í Íslandssögunni. Þetta er bara eðlilegt og fyrirsjáanlegt skref sem kannanir hafa nota bene sýnt að er meirihluti fyrir (Meirihluti vill aðildarviðræður til þess að sjá hvað ESB býður uppá þó svo að meirihluti hafni samt aðild). Ég spái því nú samt að við eigum eftir að taka Noreg á þetta og fella samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá getum við farið að tala um stóra daga í Íslandssögunni.

En allavegana, það er spennufall dauðans í höfuðborg Evrópu í dag. 10 dagar í Klakann og 14 dagar í Þjóðhátíð. Það er ekki laust við að það sé kominn fiðringur ;-)

09 júlí 2009

Hann Pétur Marel vinur minn á afmæli í dag og er því sá næsti í vinahópnum til þess að fylla þrjá tugi. Ég sendi honum hamingjuóskir í tilefni dagsins frá útlandinu. Hafðu það gott í dag og enn skemmtilegra í afmælispartýinu :-) Sjáumst í Eyjum!

08 júlí 2009

Is International Law a Good Predictor of State Behaviour?

Ég ætla að bregða aðeins út af þeim vana að blogga ekki um pólitík og fjalla aðeins um Icesave. Aðallega vegna þess að ég rakst á komment við einhverja frétt sem sagði að venjulega dragi maður menn fyrir dóm þegar maður væri ósáttur við þá og af hverju það væri ekki gert við Breta og Hollendinga. Í FPA í vetur var einn fyrirlestur um alþjóðalög undir sama titli og þessi færsla. Það var engin tilviljun að þetta er sett fram sem spurning. Groom svaraði spurningunni fyrir okkur líka. Alþjóðalög geta venjulega spáð fyrir um hegðun ríkja í viðkomandi málefnum. Ríki væru ekki aðilar að alþjóðalögum ef þau vildu ekki fara eftir þeim. EN á þessu eru undantekningar og flest ríki vilja semja um mál sem skipa mjög miklu máli fyrir ríkið sjálft. Að því leyti er dómstólaafstaða Íslendinga sérstök í Icesave málinu. Fæstar þjóðir væru til í að taka áhættuna á að láta dómstól ákvarða niðurstöðu málsins þegar hægt væri að hafa puttana meira í niðurstöðunni með því að semja sjálfir.

Svo er það hinn vinkillinn. Í milliríkjadeilum getur annað ríkið ALDREI stefnt hinu fyrir alþjóðadómstól (Öryggisráð SÞ er ekki dómstóll sem slíkur). Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur t.d. aðeins mál til meðferðar sem að BÆÐI ríkin samþykkja að fari þangað. Þetta má sjá á heimasíðu dómstólsins. Þannig að ef að Bretar og Hollendingar segja nei við dómstólaleið í Icesave þá er bara ekkert sem Ísland getur gert við því. Ísland hafnaði dómstólaleið í Þorskastríðunum og það var ekkert sem Bretar gátu gert við því - nema bara reyna að semja.

Alþjóðalög urðu ekki til í því formi sem við þekkjum þau í dag fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Það eru engin viðurlög þannig séð fyrir að brjóta þau, nema kannski stríð ef þau þykja þeim mun alvarlegri, og lagabókstafurinn er einfaldlega ekki það sterkur að hann skipti verulegu máli þegar alvarlegar milliríkjadeilur koma upp. Auðvitað hefði það verið mjög áhugavert ef Icesave hefði farið fyrir dóm - það hefði væntanlega verið fyrsta meiriháttar milliríkjadeilan sem gerði slíkt - en lagabókstafurinn er einfaldlega ekki aðalatriði í þessari deilu hversu furðulega sem það kann að hljóma í eyrum sumra. Þetta snýst um pólitík og litla Ísland er bara lítill fiskur í stórum sjó þegar kemur að alþjóðastjórnmálum. Það skiptir litlu máli þó svo við getum fært mjög góð rök fyrir þeirri afstöðu okkar að það sé ekki sanngjarnt að ESB taki enga ábyrgð á sínu gallaða regluverki í þessu máli. Þegar stóru kallarnir setja byssuna á hausinn á okkur og segja okkur að borga samt þá getum við ósköp lítið gert.

Á tímum kalda stríðsins var Ísland mjög mikilvægt á alþjóðavettvangi og íslensk stjórnvöld nýttu sér það grimmt í Þorskastríðunum. Við gátum hótað úrsögn úr NATO og því að senda herinn burt og það voru alvöru vopn í höndunum á okkur - og þau virkuðu. Eftir fall Sovétríkjanna og brotthvarf hersins þá höfum við einfaldlega ekki slík þungaviktarvopn í höndunum. Menn geta gagnrýnt samninganefndina fyrir að hafa ekki náð betri samningi og jújú kannski hefði það verið mögulegt, ég hef ekki kynnt mér það til hlítar. En menn verða að horfa á hlutina í samhengi og átta sig á hversu fá pólitísk vopn Ísland hafði undir höndum þegar sest var að samningaborðinu. Við hefðum getað sent breska sendiherrann úr landi - sem mér finnst að hefði átt að gera þó það næði aldrei lengra en að vera táknrænn gjörningur - og við hefðum getað hótað úrsögn úr NATO. Slík hótun hefur ekki sama gildi núna og á tímum kalda stríðsins en hefði kannski skilað einhverju. Á tímum Þorskastríðanna voru íslensk stjórnvöld með áróðursmaskínu í gangi í Bretlandi til þess að styðja málstað Íslendinga og sú vinna skilaði góðum árangri. Kannski hefði það borgað sig að gera slíkt hið sama í Icesave en það verður að viðurkennast að það hefði ekki verið auðvelt verk að útbúa góða herferð á þeim grunni.

Menn geta því rifið kjaft heima á Fróni og þóst vera stórir kallar en það leysir ekki neitt. Það er bæði ósanngjarnt og blóðugt að þurfa að taka ábyrgð á þessum skuldum - en við höfum ekkert val. Deilan sýnir glöggt hver staða Íslands er á alþjóðavettvangi í dag - við erum núll og nix eins og ég las einhverstaðar og við höfum einfaldlega ekki mikið efni á því að vera að rífa kjaft. Mér finnst það vera ábyrgðarhlutverk hjá Alþingi að samþykkja þennan samning því öll uppbygging er byggð á því að þetta fari í gegn. Þessi slagur er tapaður en þá er ekki málið að liggja eins og barn í frekjukasti og væla það heldur að standa upp aftur og vinna þann næsta. Ég vona að þannig verði Íslands minnst í framtíðinni - sem þjóðar sem var illa kýld niður árið 2008 en stóð alltaf upp aftur og hélt alltaf áfram.

07 júlí 2009

The Winner Stands Alone

Ég var örugglega seinasta manneskjan í heiminum til þess að frétta af andláti Michaels Jackson. Ég var í Bretlandi að taka viðtal við prófessorinn daginn sem hann lést, var í engu netsambandi og kveikti ekki á sjónvarpi. Ég sá fréttirnar fyrst þegar ég kom aftur til Brussel á föstudagskvöldinu. Ég missti því af öllum viðbrögðunum sem fylgdu í kjölfar andlátsfréttarinnar og ég las bara þær helstu þegar ég kom heim enda ekki hægt að þvæla sér í gegnum óteljandi Jackson fréttir á einu kvöldi. Ég ákvað svo af hálfgerðri rælni að kveikja á sjónvarpinu áðan og horfði á hluta af minningarathöfninni um Jackson. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Michaels Jackson en það snerti mig að horfa á þessa athöfn - þó svo að sumir þættir hennar hefðu alveg mátt missa sín. Þetta var maður sem lifði í kastljósi fjölmiðla frá 5 ára aldri, upplifði aldrei eðlilega barnæsku og fékk aldrei að kynnast eðlilegu lífi. Hann gat ekki labbað um göturnar eða gert neitt af því sem öðrum þykir eðlilegt án þess að fjölmiðlar eltu hann á röndum. Hann var einn mesti listamaður sem hefur verið uppi en hann var líka fangi sinnar eigin frægðar.

Ég las nýlega nýjustu bók Paulo Coelho sem heitir The Winner Stands Alone. Þar fjallar Coelho um þá hlið á glamúrnum og frægðinni sem almenningur fær ekki að sjá. Hann fjallar um stórstjörnur sem eru fastar í heimi frægðar og eru háðar athyglinni og glamúrnum. Hann fjallar um þá sem ströggla við að komast inn í glamúrheiminn og hvernig þeim verður við að upplifa raunveruleika þess heims þegar markmiðin eru alveg að nást. Að upplifa að ekkert er eins og þeir bjuggust við að það yrði. Ég hef lesið misjafna dóma um þessa bók en mér fannst hún góð. Mjög góð. Það má yfirfæra hluta hennar yfir á Ísland ársins 2007 þegar allir vildu vera stærri og meiri en næsti maður. Eiga stærri jeppa, stærra hús, stærri einkaþotu. Margt í bókinni má einnig heimfæra á líf Michaels Jackson. Hún skilur eftir ýmsar hugleiðingar sem öllum er hollt að pæla í.

Í minningarathöfninni áðan sagði prestur nokkur setningu sem greip mig. Hann sagði til barna Michael Jackson eitthvað á þessa leið "There was nothing strange about your father. What was strange were the things he had to deal with". Við gleymum því all oft þegar fluttar eru fréttir af þeim ríku og frægu að þetta er fólk eins og ég og þú. Slúðurblöðin seljast í bílförmum og það virðist engu máli skipta hvort fréttirnar eru sannar eða ósannar. Það þyrstir alla í fréttir af þeim ríku og frægu og flestir eru fljótir að dæma - og þá virðist engu máli skipta hvort að fréttirnar eru sannar eða ósannar. Við horfðum Michael Jackson falla af stallinum nánast í beinni. Við sáum Britney Spears hrynja saman nánast í beinni. Með sama áframhaldi eiga dæmin eftir að verða fleiri og fleiri.

Ég hef það fyrir reglu að kaupa aldrei slúðurblöð og ég fylgist ekki með slúðurdálkunum á netmiðlunum. Mér er alveg sama hvort einhver stórstjarnan sé ómáluð, of mikið máluð, í ljótum fötum, með appelsínuhúð eða hafi skellt sér á djammið. Með því að kaupa þessi blöð og lesa svona fréttir styðjum við sorpbransann og sviptum fólk eins og Michael Jackson og Britney Spears réttinum á einkalífi. Réttinum til þess að vera til eins og ég og þú. Það var því heilmikið til í því sem presturinn sagði, Jackson var ekki endilega skrýtinn - en heimurinn sem hann þurfti að takast á við var - og er - mjög skrýtinn. Hann var einn dáðasti listamaður okkar tíma en þrátt fyrir það var hann einn. Og þar hitti Coelho naglann á höfuðið: The Winner Stands Alone.

05 júlí 2009

Bara 3 vikur eftir!

Jæja, þá eru bara 3 vikur eftir hérna í höfuðborg Evrópu. Þrátt fyrir hitabylgjuna sem var í vikunni þá er ritgerðin á áætlun. Inngangskaflarnir eru búnir og komið að meginuppistöðu ritgerðarinnar sem er greining á tveimur ethnographic rannsóknum á adult literacy. Ég áætla ca. 6.000 orð í þetta og ætla mér að vera klár með þennan pakka á næstu helgi. Þá hef ég rúman tíma í seinustu 2500 orðin sem eru bara samantekt og niðurstöður þannig að ég stefni ennþá ótrauð á að senda ritgerðina í yfirlestur 17. júlí. Ég er búin að panta prentun og innbindingu og þeir lofa mér því að þeir verði eldsnöggir að þessu enda hásumarið ekki annatími á kampusnum. En það er nokkuð ljóst að það verður nóg að gera fram að 17. júlí því dótið mitt verður sótt í þeirri viku líka svo ég þarf að fara að byrja á því að pakka niður. Alltaf jafn skemmtilegt....

Það er ekki laust við að það sé kominn fiðringur í mann yfir því að þetta sé allt að verða búið og komast loksins heim. Þetta eru auðvitað mikil tímamót og alls ekki ljóst hvað tekur við heima á Klakanum. En ég er sátt við að kveðja Brussel þó svo mér sé búið að líða vel hérna og hafi aft afskaplega gott af því að búa í útlandinu. Dvölin hefur oft á tíðum verið meiri skóli en skólinn sjálfur en svoleiðis er það bara. Þetta er dýrmæt reynsla sem fer beint í bankann og gerir mann sterkari. Það verður svo næsti áfangi í skóla lífsins að takast á við óvissuna sem fylgir því að koma heim í ástandið þar. En lífið er fullt af tækifærum - maður þarf bara að koma auga á þau og nýta þau og með því hugarfari fer ég heim á Djöflaeyjuna. Bestu kveðjur úr Brusselborg þar sem hitastigið er loksins, loksins að verða "eðlilegt". Þangað til næst.

01 júlí 2009

Meltdown

Þriðja daginn í röð er sól og blíða og tæplega 30 stiga hiti hérna í Brussel. Maður hreyfir sig ekki án þess að svitna og heilinn er bókstaflega soðinn. Ég hef ekki náð að skrifa mikið í dag en 1/10 er samt að verða kominn í hús. Ég er ekki strand efnislega séð, mig vantar bara loftkælingu til þess að fá kjör vinnuaðstæður! Þar sem það var orðið dáldið mikið kaos á eldhúsborðinu hjá mér (sem ég læri við) þá nýtti ég daginn til þess að stækka borðið og flokka heimildirnar. Vinnusvæðið er því orðið mun vistlegra og ég er búin að hafa til heimildirnar sem ég þarf að byrja á því að nota á morgun. Stefnan er að ritgerðin verði klár í yfirlestur 17. júlí og það væri vel þegið að fá að vita af einhverjum sem er mjög góður í ensku og er tilbúinn til þess að lesa yfir fyrir mig gegn einhverri smávægilegri greiðslu eða góðum glaðningi ;-)

En þrátt fyrir hitann er allt á áætlun. Ég ætla að vera komin að greiningunni á case study-unum sem ég nota á helginni og nota svo megnið af næstu viku í greininguna sjálfa. Ég krossa samt fingur fyrir kólnandi veðri og helst rigningu. Það má svo koma svona bongóblíða aftur seinustu vikuna mína í Brussel. Þá verður ritgerðin mín prentun og innbindingu, dótið mitt komið í skip á leiðinni heim og ég fæ nokkra daga til þess að chilla áður en alvara lífsins tekur við á Djöflaeyjunni. Það er svo bara vonandi að veðurguðirnir verði við þessum óskum. Þá væri lífið nú ljúft!