30 ágúst 2006

Hann Kristinn Breki á afmæli í dag og er orðinn 7 ára drengurinn. Ótrúlegt hvað börnin eldast alltaf hratt.... Til hamingju með afmælið elsku dúllan mín og hafðu það öfga skemmtilegt í dag :)

28 ágúst 2006

Læknar og sprengjur

Ég fór í fyrsta tékk til læknisins í dag síðan ég útskrifaðist af spítalanum. Það er bara allt í góðu standi og ég þarf ekki annan skammt af lyfjunum mér til mikillar gleði :) Þá á ég bara eftir að hitta hinn lækninn og þá er ég laus úr þessu læknastússi, næsta hálfa árið amk. Ég þurfti að bíða soldla stund á spítalanum í morgun og fór að rifja upp þessa viku sem ég var þar. Maturinn er náttúrulega sér kapítuli, ég hef bara aldrei séð eins undarlega samsetningu á mat og það kom mér á óvart hvað maturinn var í raun óhollur. Alltaf sætt með kaffinu, bæði um miðjan dag og á kvöldin o.s.frv. Það var happa glappa hvort ég gat fengið ávexti þegar ég bað um þá og það fannst mér mjög skrýtið. Að ávöxtum og grænmeti væri ekki haldið að sjúklingunum frekar en kökum og sætabrauði.

Svo var það blessaði stofugangurinn... Báðir læknarnir mínir voru, og eru, alveg frábærir og lítið mál að tala við þá en á stofugangi sá maður strolluna af læknanemum elta lækninn út um allan gang. Svo stóð liðið hálf vandræðalegt og stíft við rúmið hjá manni alveg þangað til það var komið að því að skoða skurðinn. Þá hölluðu sér allir fram til að sjá. Ég hef sjálfsagt verið með svaðalega spennandi skurð. Þetta voru stundir sem ég bókstaflega þoldi ekki þegar ég lá þarna inni og þegar ég horfði á fyrstu seríuna af Grey's Anatomy um daginn fékk ég þvílíkan hroll við að fylgjast með liðinu þar á stofugangi. Svo mikinn að það lá við að ég slökkti bara á þessari vitleysu. Ég skil alveg að það sé nauðsynlegt fyrir læknanema að læra og allt það en þá vil ég ekki sjá nálægt mér eða mínum í framtíðinni. Það er kannski sjens ef það verður bætt inn kennslu í mannlegum samskiptum inn í námið þeirra en pottþétt ekki fyrr.

En jæja, ég ætla að fara að koma mér heim, þetta er búið að vera langur dagur. Ég fór og kenndi seinni hópnum í dag og það gekk bara ágætlega. Þetta eru mjög ólíkir hópar en skemmtilegir á sinn hátt. Mér líst voðalega vel á þetta allt saman og ég held að mér eigi bara eftir að finnast þetta skemmtilegt. En það eru 8 dagar í Marmaris. Ég læt enga vitleysinga með sprengjur hafa af mér sumarfríið ;)

21 ágúst 2006

Mér er kalt!!!

Ég varð að skjalfesta það að mér væri kalt. Í fyrsta skipti síðan áður en ég fór á spítalann er ég að upplifa það að mér er hálfkalt í vinnunni og ég þurfti meira að segja að fara í peysu. Tími hlírabolanna er því greinilega að líða undir lok og ég að verða ég sjálf aftur :D

Laufengi 5

Helginni var eytt í að gera íbúðina heimilislega og var aldeilis spýtt í lófana í gær þegar fréttist að fyrsti gesturinn í gestaherbergið væri væntanlegur í dag. Það hafðist allt saman og það er orðið ansi huggulegt hjá mér bara held ég. Hildur skvís vígir gestaherbergið í kvöld og verður hjá mér út vikuna. Amma er svo væntanleg í næstu viku svo það er bara traffík hjá mér. Mun meiri en var nokkurn tíman í Hafnarfirðinum held ég bara ;) En það er orðið heimsóknarfært þannig að þið höfuðborgarsvæðisrotturnar megið fara að kíkja í heimsókn líka. Svo er úti á landi liðið mitt alltaf velkomið í gestaherbergið ;)

Annars eru 15 dagar í Marmaris :)

19 ágúst 2006

Hann pabbi minn á afmæli í dag. Til hamingju með daginn pabbi minn og hafðu það öfga gott í dag :)

18 ágúst 2006

Flutt!

Fékk lyklana í gær og öll búslóðin var drifin í nýju íbúðina. Stend núna á haus við að þrífa gömlu íbúðina og þessa nýju líka - merkilegt hvernig sumir geta skilað af sér... Ætla ekki nánar útí þau leiðindi hér, ég er allavegana búin að flytja dótið og næstu dagar fara í að gera allt íbúðarhæft :)

15 ágúst 2006

Debet og kredit

Mér datt í hug í einhverju bríaríi að sækja um stundakennslu í bókfærslu í Valhúsaskóla, fékk djobbið og byrja í næstu viku. Þetta eru nú bara 4 tímar á viku, easy peasy, og verður örugglega bara gaman. Ég á að vísu eftir að kíkja þangað og skoða skólann og hitta skólastjórann en það á pottþétt eftir að lífga upp á veturinn að reyna að kynna þá félaga debet og kredit fyrir misáhugasömum 10. bekkingum.....

14 ágúst 2006

Bloggleti

Ég hef ekki verið sú duglegasta í blogginu í sumar og þrátt fyrir að óteljandi pælingar hafi farið í gegnum hugann þá hef ég ekki verið í neinum gír að setja þær hérna inn. Það dóu líka margar heilafrumur í svæfingunni í vor og minnið hefur ekki verið upp á sitt besta í sumar. Sem sést best á því að eftir að ég lærði að breyta um font á blogginu þá man ég aldrei hvaða font ég ætlaði að nota... En nú er farið að styttast í flutninga og ég á að fá afhent á miðvikudaginn. Á að mæta í nýju íbúðina klukkan 3 á miðvikudaginn og ef ég hef engar athugasemdir við fráganginn á íbúðinni fæ ég lyklana þá. Ég er að verða búin að koma búslóðinni ofan í kassa og er farin að iða af spenningi að komast úr Hafnarfirðinum. Lái mér hver sem vill.....

Annars eru bara 22 dagar í Marmaris. Gaman að vera alltaf að telja niður í eitthvað ;)

09 ágúst 2006

Að ári mun ég vakna upp í Vestmannaeyjum..

Er loksins komin til byggða eftir pottþétta þjóðhátíð. Eyjar 2006 voru tær snilld og þið sauðirnir sem mættuð ekki á svæðið misstuð af miklu.

02 ágúst 2006

Ekki á morgun heldur hinn

Bara 2 dagar í þjóðhátíð gott fólk! Hvíta tjaldið fannst og því er allt farið á fullt við að undirbúa mat og annað í tjaldið. Eyjafiðringurinn er orðinn óbærilegur og ég er löngu farin til Eyja í huganum...