30 júní 2009

Hún Hrafnhildur mín á afmæli í dag og er orðin þrítug, hvorki meira né minna. Innilega til hamingju með daginn elsku Hrafnhildur og hafðu það svakalega gott í dag :-)

29 júní 2009

Það er alveg magnað hvað litla dýrið á myndinni hérna fyrir ofan eldist (á meðan frænka hans er alltaf jafn gömul) en hann er 19 ára í dag. Til hamingju með daginn elsku Njáll og hafðu það svakalega gott í dag! Knús og sveittar kveðjur úr hitanum í Brussel til allra í Grundarfirðinum.

26 júní 2009

Lokahnykkurinn

Jæja, þá eru mamma og amma farnar heim á klakann. Við höfðum það bara gott og gerðum mikið. Fórum til Waterloo þar sem Napóleon var sigraður árið 1815, versluðum í Antwerpen og röltum um Brussel. Borðuðum belgískar vöfflur og súkkulaði, drukkum rauðvín og spiluðum rakka. Við enduðum ferðina í Amsterdam þar sem við kíktum í fleiri búðir og mér tókst það sem ég hafði stefnt að - að kaupa mér skó og það þrenn pör! Það var nú reyndar enginn draumur í dós en hafðist. Við fórum svo í skoðunarferð um Amsterdam og fórum í hús Önnu Frank og það var meiriháttar upplifun. Gaman að fara þangað og óhætt að mæla með því.

Þegar ég kom heim frá Amsterdam tók við undirbúningur fyrir Bretlandsferð en þangað fór ég til þess að taka viðtal við prófessor í adult education fyrir mastersritgerðina. Það ferðalag gekk mjög vel og ég fékk m.a. lánaðar bækur sem eiga eftir að nýtast mér vel við skriftirnar. Efnið hefur soldið þróast frá upprunalegum hugmyndum en ég er komin með það í kollinn núna hvernig ég ætla að hafa þetta. Fókusinn verður á adult literacy og development og ég ætla að nota eina case study til þess að fara ofan í saumana á efninu frekar. Pælingin er hvort að adult literacy sé sú frelsun fyrir fólk í vanþróuðum ríkjum sem UNESCO og sumir fleiri vilja vera láta og ég ætla að nota case study/rannsóknina til þess að rökstyðja mál mitt og til að stýra því hvaða þætti af umræðunni ég fjalla um enda er þetta allt of yfirgripsmikið efni til þess að fjalla um til hlítar í einni ritgerð. Þannig að núna leggst ég yfir ritgerðina og byrja að skrifa og hætti ekki fyrr en öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Ég hef 4 vikur til stefnu til þess að skrifa, láta lesa yfir, binda inn og skila því ég á pantað flug heim til Íslands þann 26. júlí. Ég hef engar áhyggjur af því að það náist ekki og finnst bara ágætt að fá smá pressu. Lokaskil á ritgerðinni eru reyndar ekki fyrr en 10 . ágúst en ég ætla á Þjóðhátíð og ritgerðarskilunum verður fagnað vel þar :-) Annars fékk ég tölvupóst frá skólanum í dag sem staðfesti það formlega að ég hefði náð öllum kúrsunum sem ég tók í vetur og ég fékk formlegt leyfi til þess að hefja vinnuna við mastersritgerðina. Einkunnirnar fyrir prófin eru reyndar ekki komnar á netið en það er svo sem ekki aðalatriðið þegar maður veit að vinnan í vetur hefur skilað tilætluðum árangri og bara lokahnykkurinn eftir til þess að masterinn sé í höfn.

Þannig að það er allt í góðum gír í höfuðborg Evrópu og nú verður bara skrifað og skrifað og skrifað.... Þangað til næst.

14 júní 2009

Kellurnar komnar til Brussel

Jæja, þá eru mamma og amma komnar til Brussel eftir ansi hreint viðburðarríkan dag í gær. Ég ætlaði að sækja þær á flugvöllinn í Amsterdam svo þær þyrftu ekki að vesenast í lestina og svona sjálfar. Það gekk hinsvegar ekki betur en svo að ég var föst í Antwerpen í 2 tíma þar sem það var rafmagnsbilun á lestarteinunum. Þá var okkur smalað upp í yfirfulla innanlandslest sem fór með okkur e-rt lengst út í rassgat í Belgíu þar sem rútur áttu að ferja liðið yfir til Hollands í innanlandslestir þar. Þannig að þegar mamma og amma lentu þá var ég ennþá í Belgíu og alveg ljóst að það yrðu nokkrir klukkutímar í að ég kæmist til Schiphol. Annað hvort þurftu kellurnar því að bíða eftir mér eða koma sér sjálfar til Brussel.

Við ákváðum að þær skyldu athuga með möguleika á því að komast sjálfar til Brussel. Það gekk ágætlega hjá þeim og þær sátu alveg óvart á fyrsta farrými í lestinni og höfðu það fínt. Sú lest stoppaði hinsvegar á endastöð í Hollandi og sem betur fer var þar lest á leið til Brussel sem þær gátu hoppað upp í. Það var ekkert fyrsta farrými þar heldur var lestin yfirfull og þar þurftu þær að dúsa í einn og hálfan tíma þangað til þær komu til Brussel. Ég þurfti að koma mér úr lautarferðinni sem ég lenti í og ég kom til Brussel klukkutíma á undan kellunum. Við vorum því allar dauðþreyttar eftir langan lestardag í gær og erum hættar við að fara í Waterloo í dag af því að það nennir engin af okkur að fara aftur í lest í dag. Deginum verður því eytt utandyra á rölti um miðborg Brussel.

10 júní 2009

Áfram Ísland!

Þá er maður kominn heim af leiknum. Þetta var nú enginn eðal handbolti en strákarnir gerðu það sem þeir þurftu að gera og unnu leikinn. Leikurinn var lengst út í rassgati, ca klukkutíma keyrslu frá Brussel. Við ákváðum að fara í fyrra fallinu af stað og borða og svoleiðis áður en að leikurinn byrjaði. Við vorum hinsvegar föst í umferð í góðan klukkutíma og rétt náðum leiknum þegar hann var að byrja. Til allrar hamingju voru Belgarnir að selja grillaðar pulsur og hamborgara og ég söng þjóðsönginn með hamborgara í annarri hendinni og íslenska fánann í hinni. Afar smekkleg. Það voru nú ekki margir Íslendingar á leiknum en við reyndum að láta heyra vel í okkur og hvetja strákana áfram. Skemmtilegt kvöld þrátt fyrir lúðrasveit hússins sem hafði augljóslega aðrar skilgreiningar en við Íslendingarnir á því hvernig halda skal uppi góðri stemmingu á landsleik...

En ég ætla að ljúka þessu á góðri sögu sem ég heyrði á leiðinni heim af leiknum. Það var brotist inn til íslenskrar fjölskyldu hérna í Brussel um daginn sem er svo sem ekki efni í skemmtisögu. Þjófarnir gáfu sér góðan tíma til að fara yfir innanstokksmuni og velja úr hverju væri best að stela. Þeir brutu meðal annars sparibauk barnsins á heimilinu þar sem púkinn hafði verið að safna að sér evrum og krónum. Þjófarnir hafa augljóslega verið ágætlega að sér í heimsmálunum því þeir stálu bara evrunum úr bauknum en létu íslensku krónurnar alveg eiga sig. Það ætti því að vera nokkuð öruggt að geyma spariféð undir koddanum í öruggu skjóli frá íslenskum bankamönnum.

09 júní 2009

Þrumuveður

Það gengur þrumuveður yfir Brussel í augnablikinu og ég sit og kippist við í hvert sinn sem það kemur elding fyrir utan gluggann hjá mér. Það er GRENJANDI rigning og bölvaður hávaði í þrumunum og ég er voðalega glöð með að vera bara inni hjá mér núna. Annars er allt í ágætis gír hérna í útlandinu, ég er komin af stað með ritgerðina og kláraði að lesa heimildirnar sem ég er búin að sanka að mér í gær. Ég kom mér ekki í það að byrja að skrifa í dag heldur hafa hlutirnir verið að meltast á meðan ég hef verið að versla og græja það sem þarf til að allt verði klárt þegar mamma og amma koma á laugardaginn. Ég ætla hinsvegar að nota dagana fram að helgi til þess að setja eitthvað kjöt á grindina sem ég er komin með í hausnum. Ég er svo búin að ganga frá því að ég fer til Austur Englands í lok júní til þess að taka viðtal við einn prófessor fyrir ritgerðina og eftir það verður setið við skriftir þangað til að öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Á morgun er ég að fara á handboltaleik ásamt fleiri Íslendingum en Belgía og Ísland eru að fara að keppa í undankeppni EM. Það er víst mikið um meiðsl í íslenska liðinu en ég vona að við eigum nú samt eftir að taka Belgana í smá kennslustund í því hvernig á að spila handbolta. Væri ekki amalegt fyrir þjóðarstoltið. Svo koma mamma og amma á laugardaginn eins og áður sagði og þær verða hérna til 21. júní. Það ætti að verða nóg að gera hjá okkur, við ætlum til Waterloo, Antwerpen og vera eina helgi í Amsterdam fyrir utan það að túristast um Brussel. Ég hlakka mikið til að fara til Amsterdam og planið er að skóa sig upp fyrir næstu árin. Það er ekki alltaf sældarlíf að vera hávaxin og það er með því leiðinlegasta sem ég geri að kaupa skó. Það er ekkert gaman að fara í búðir þegar það er aldrei neitt til sem passar. En Hollendingar eru hávaxnir og það er búið að benda mér á skóbúðir þar sem ég ætti að geta valsað um og fundið fullt af skóm sem passa svo ég krossa bara fingur.

En jæja, ég ætla að fara að gera eitthvað af viti hérna. Þangað til næst, Áfram Ísland!