31 maí 2004

Minnz er barasta hálf þreyttur eftir helgina. Á föstudaginn var venjubundin ferð í Mosó að horfa á Friends. Það verður skrýtið þegar þessi sería klárast, aldrei meira Friends. Maður á þó eftir að sanka að sér þáttunum á DVD held ég og lifa á þessu lengi.

Á laugardaginn var ég að þvælast aðeins með Rakel. Hún ætlar að prjóna peysu á mig og við fórum og keyptum garn og svona. Um kvöldið var reunion hjá Kvennóárgangnum mínum. Á laugardaginn voru akkúrat 5 ár síðan við kláruðum stúdentinn. Þetta var fámennt en góðmennt og gaman að hitta liðið aftur. Ég er barasta fegin að ég dreif mig.

Sunnudagurinn var svo tekinn snemma. Við fórum í Grundarfjörðinn í fermingarveislu hjá honum Njáli frænda mínum. Mér finnst afskaplega skrýtið að drengurinn sé kominn í fullorðinna manna tölu. Ég passaði hann alltaf þegar hann var púki. Það er alveg merkilegt hvað hann hefur elst og ég er alltaf jafn ung *hóst*. Þetta var fín veisla, við sátum bara úti á palli í geðveiku veðri. Það var gaman að hitta margt af liðinu, hitti Gunnar afabróðir og Immu og Jónu Kjartans. Hef ekki séð neitt af þeim í mörg ár. Mér finnst alltaf jafn skrýtið að hitta Gunnar, hann er bara alveg eins og afi. Talar alveg eins.

Þegar ég kom í bæinn var náttla brunað á djammið. Ása og Ingi komu í heimsókn fljótlega eftir að ég kom heim (og var búin að spóla í gegnum formúluna, won´t go there!) Það var stuð á okkur þremur og eldhúsið bókstaflega í rúst þegar ég vaknaði. Það voru samt allir öfga settlegir og engir skandalar gerðir.

Í dag er ég bara búin að vera að taka til og þvo. Ætla að reyna að þrífa og gera eitthvað af viti. Later.

28 maí 2004

Jæja, þá er loksins komin inn önnur einkun. Fékk 7,5 í mál og hugtök (íslenska). Ég er bara mjög sátt með það, stefndi á að fá 7 í lokaeinkun og takmarkinu er því náð :)

27 maí 2004

Ég var að lesa pistil á vikara.is eftir Pálma Gests þar sem hann gerir að umræðuefni hvort að Bolungarvík sé skrifuð með eða án r-s. Rökin sem hann færir eru að nafnið af víkinni sé dregið af bolungum sem lágu hér í fjörunni þegar landnámsmenn bar að. Flestir eru sammála um að í nafninu sé verið að vísa til bolunga í fleirtölu og þess vegna vill Pálmi meina að ekkert r eigi að vera í Bolungarvík. En hann gleymir einu. Ef við fallbeygjum orðið bolungur í fleirtölu þá segjum við:

Hér eru (margir) bolungar
um (margra) bolunga
frá (mörgum) bolungum
til (margra) bolunga

R eða ekki r ræðst því ekki á tölu orðsins heldur á falli þess í fleirtölu. Þeir sem skrifa Bolungarvík með r eru með því að vísa til nefnifalls í fleirtölu en þeir sem skrifa það r-laust vísa þá til eignarfalls fleirtölu.

Bolungarvík er þar með samsett orð (bolunga(r)-vík). Ef við skoðum önnur samsett orð, t.d. bílasala, matvöru-búð, fiska-búr þá er augljóst að fyrri hluti orðsins er ávallt í eignarfalli. Það færir rök fyrir því að r-lausi rithátturinn sé réttur.

Ég skrifa alltaf Bolungarvík, efast einhvern vegin um að ég breyti því, maður er fastur í sínum venjum. Ég þekki ekki nógu vel rökin fyrir þeim rithætti en það væri gaman að fá upplýsingar um hann ef einhver þekkir þau rök.

26 maí 2004

Aldrei má maður ekki neitt....

Mamma var í frænkuboði hjá Svennu ömmusystur í gær og var ekki par hrifin af henni dóttur sinni. Frænkurnar mínar lesa víst bloggið og mamma var að fá fréttir af mér í boðinu. Hún var víst ekki sátt við það en henni er barasta nær að lesa ekki bloggið mitt! Aldrei má maður ekki neitt segi ég bara - ég er ekki einu sinni með krassandi blogg!!

Ég veit ekki hvort þetta sé kennarasyndrome sem ég er komin með en undanfarnar vikur og mánuði hef ég mikið verið að velta fyrir mér stafsetningunni á orðinu ,,ítarlegur". Ég hef alltaf skrifað það með einföldu í en hef verið að rekast á það víða skrifað ýtarlegur, meira að segja í kennslubókum sem ég hef verið að lesa í vetur (nb. skrifuðum af kennurum mínum í KHÍ). Þetta pirraði mig mikið svo ég ákvað að spurja íslenskukennarann minn, Ragnar Inga Aðalsteinsson, að því hvernig þetta orð væri skrifað og hvort það giltu einhverjar sérstakar reglur um það. Eins og um orðið skrýtið sem má skrifa bæði með einföldu og y-i.

Það er skemmst frá því að segja að Ragnar Ingi sagði mér það að samkvæmt orðabókum væri þetta orð skrifað með einföldu í eða ítarlegur. Ég vil því koma því á framfæri því það er alveg skelfilega ljótt að sjá þetta orð skrifað með y-i....

24 maí 2004

Minnz er alveg öfga latur núna. Ég veit ekki hvort það sé þreyta eftir helgina eða hvað. Ég var bara róleg heima á föstudagskvöldið - alltaf sami engillinn ;) Á laugardaginn var ég að vinna og um kvöldið var smá partý heima. Ég held að við stelpurnar höfum endanlega gengið fram af honum bróður mínum í djammsögunum :p En það var stuð á okkur að sjálfsögðu. Í gær var formúlan. Ég horfði þangað til að Raikkonen datt út, þá heillaði Árni og rúmið meira. Ég missti því af því að sjá Schumacher detta út, djö... Hefði sko alveg viljað sjá það og helst henda Árna fram úr til að núa honum því um nasir :p Það var samt letidagur dauðans í gær. Við skötuhjúin sváfum allan daginn - grínlaust. Og samt var lítið mál fyrir mig að vera sofnuð aftur fyrir miðnætti og sofa á mínu græna í alla nótt. Það hlýtur eiginlega að vera einhver uppsöfnuð þreyta í gangi hjá okkur - þetta er ekki normalt.

Annars er maður lítið búinn að fylgjast með fréttum undanfarna daga. Það er víst búið að samþykkja fjölmiðlafrumvarpið. Það kemur svo sem ekki á óvart miðað við þá pólitík sem hefur verið stunduð á þinginu undanfarið. Nú verður Rólóragnar (eins og Kiddi segir) að láta til sín taka. Maður bara treystir á það!

En jæja, ég ætla að koma mér út í góða veðrið. Later

21 maí 2004

Minnz átti bara frí úr vinnunni í gær. Ég flatmagaði bara upp í rúmi fram yfir hádegi. Fór þá og sótti hann Kristinn Breka. Við kíktum á sportbílasýninguna í Höllinni. Það var svaka gaman hjá okkur alveg þangað til Lamborghini bíllinn var þaninn fyrir sjónvarpsmyndavélarnar. Púkinn er með lítið hjarta í svona málum og rauk út á nóinu og fékkst ekki til að fara inn í salinn aftur. Ég held hann hafi samt verið sáttur með sýninguna og hann var alveg á því að ,,Schumacher bíllinn" (Ferrari Enzo) hafi verið lang flottastur þrátt fyrir vinsamlegar ábendingar frænku hans um að Benzarnir hafi nú líka verið flottir...

Kiddi vildi svo endilega fá að fara heim til Erlu frænku þar sem við horfðum á Stubbana, fórum í bíló, lituðum og pússluðum. Að sjálfsögðu vorum við flottustu sportbílarnir og keyrðum hratt í bíló :P

Þegar ég var búin að skila púkanum vissi ég ekki alveg hvað ég átti af mér að gera - enda ekki vön að eiga svona frídaga. Ég og Agnes ákváðum að drífa okkur upp í Smáralind. Við fengum okkur að borða þar og fórum svo í bíó á Taxi 3. Algjör snilld eins og hinar Taxi myndirnar. Mæli alveg með henni. Þessar myndir eru eitthvað sem er möst að eiga upp í hillu.

Jæja, ætla að halda á með að vinna. Later

18 maí 2004

Jæja, þá eru prófin loksins, loksins búin. Ég eyddi gærdeginum í Kringlunni og Smáralind og eyddi smá af orlofspeningnum mínum. Keypti mér ma. framsóknargrænan jakka í Vero Moda. Spurning hvort að pabbi verði sáttur með það :p Ég fór svo með Ásu og Önnu Þóru út að borða á Galileó. Fengum voða gott að borða. Bekkurinn minn var svo á djamminu í bústað upp í Skorradal og við enduðum kvöldið á að kíkja þangað í heimsókn. Það var gaman að sjá ,,gömlu kellurnar" á eyrunum :P Við ungu stúlkurnar vorum hinar prúðustu og fórum fyrstar heim.

Núna er maður byrjaður að vinna og er svona að skríða saman. Það er búið að vera algjört spennufall og minnz er voðalega þreyttur eitthvað. En fyrir þá sem eru að kvarta undan bloggleti hjá mér þá bæti ég úr því von bráðar.

16 maí 2004

Seinasta prófið á morgun. Wish me luck!

14 maí 2004

Þetta er ekki skemmtilegur dagur. Vinir mínir eru farnir að tínast út af MSN, hétu þar margir fáránlegum nöfnum eins og ÉG ER BÚIN Í PRÓFUNUM!! Á bloggunum sem ég skoða oft stendur eitthvað svipað. Allir farnir að undirbúa massa helgi þar sem gott Eurovision partý verður undirstaðan.

En hvað skildi Perlan vera gera á föstudagseftirmiðdegi? Nú að læra undir próf! Og verður það eitthvað frameftir kvöldi. Það er víst líka planið fyrir helgina þó svo ég sleppi ekki Eurovision fyrir einhverjar skólabækur! Ég veit ekki hvort að þeir sem búa til próftöfluna í Kennó hafi viljað koma í veg fyrir kennaranemafyllerí þessa helgina með því að láta okkur klára á mánudegi en það mega þeir vita að ég er ekki sátt við þetta!!

Þið hin verðið bara að djamma fyrir mig á helginni - eins gott að þið gerið það almennilega ;)

Ég hvet þá sem eru á móti fjölmiðlafrumvarpinu í sinni núverandi mynd að skrifa undir áskorun til Forseta Íslands um að skrifa ekki undir lögn.

11 maí 2004

Nokkuð góð grein á Deiglunni um áróður fjölmiðla. Aðallega er verið að benda á hversu erfitt getur verið að henda reiður á áróðri gagnvart stjórnmálamönnum í fjölmiðlum og er grein Moggans um Ólaf Ragnar tekin sem dæmi. Fólk verður nefnilegast að muna að Mogginn lýgur kannski ekki en hann hagræðir sannleikanum - rétt eins og aðrir fjölmiðlar gera. Góð blaðamennska eða slæm.. Það er sjálfsagt hægt að deila mikið um það en þetta er góð áróðursgerð engu að síður.

10 maí 2004

Ég er snillingur!!!!

Ég fékk 8 í stærðfræðinni :D

09 maí 2004

Mig langar út í góða veðrið!!!!! Er ekkert að nenna að fara að lesa íslensku :( Ég verð að viðurkenna að púkinn kemur upp í manni og ég er mikið að spá í að plata einhvern í sund :p Prófin reddast alveg, erþaggi?

Hvernig væri svo gott fólk að fara að skrifa í gestabókina...... ;)

08 maí 2004

Jæja, þá er það tilkynningaskyldan. Ég er bara búin með eitt próf, munnlega prófið í stærðfræði. Það gekk alveg ágætlega skilst mér en ég bíð bara eftir einkuninni. Hún kemur víst eftir helgi. I´ll just keep my fingers crossed! Annars hefur dagskráin gengið út á að vinna á morgnana, læra eftir hádegi og reyna að skjótast í göngutúr á kvöldin. Það verður smá törn næstu 9 daga því ég fer í síðustu þrjú prófin á innan við viku - en það hlýtur að reddast eins og annað.

06 maí 2004

Ég hvet alla til að mæta á mótmælafund Starfsmannafélags Norðurljósa á Austurvelli kl. 5 í dag. Ég held að flestir geti sammælst um að fjölmiðlafrumvarpið er ekki réttlátt - þrátt fyrir að menn séu ekki endilega ósammála því að setja beri lög á fjölmiðla. Þarna er hins vegar gengið of langt. Lágmarkskrafa mín til þingsins er að frumvarpið taki breytingum í lýðræðislega átt í meðförum þess. Annars að það verði fellt og málefnalegra frumvarp lagt fram.

05 maí 2004

Rakel litla systir á afmæli í dag. Er 19 ára hnátan. Ég óska henni bara innilega til hamingju með daginn. Hafðu það gott skvís ;)

Er loksins búin í munnlega prófinu. Kennarinn og prófdómarinn sögðu að mér hefði bara gengið ágætlega. Ég dró frekar erfitt efni, þe. almenn brot. Gekk ágætlega að útskýra það svo sem en þegar kom að dæmum með líkönum og að búa þau til var mín tóm.. Svo dró ég líka sögu stærðfræðinnar - sem betur fer. Kunni hana upp á 10.

En ég ætla bara að taka mér frí frá skólanum eftir hádegi. Fór á fætur kl. 5 í morgun til að skutla Malaviförunum í flug og fór svo beint að læra fram að prófinu. Fer svo aftur í prófgírinn á morgun.

03 maí 2004

Pleh, er algjörlega að mygla yfir þessu blessaða stærðfræðilesefni. Það verður þvílíka hamingjan þegar þetta próf verður búið - og ennþá meiri hamingja ef ég næ því og þarf aldrei, aldrei, aldrei aftur að læra stærðfræði! Annars eiga allir að hugsa hlýlega til mín kl. 10:50 á miðvikudagsmorguninn - þá verð ég að pínast í munnlega stærðfræðiprófinu....

02 maí 2004

Það er kannski ágætt að taka það fram að skot mín á heit trúaða sjálfstæðismenn beinast að þeim en ekki öðrum sjálfstæðismönnum. Sem betur fer horfa margir sjálfstæðismenn á Davíð sem breyska manneskju - eins og hann er - í stað guðs í íslenskum stjórnmálum. Kannski er það meirihluti sjálfstæðismanna, ég vona það allavegana!

Og þá eru það framsóknarmenn. Málefnalega séð gæti ég talist framsóknarmanneskja en ég er ekki flokksbundin og mun ekki verða það á næstunni. Framsóknarflokkurinn er nefnilegast að vinna að því hægt og sígandi að stroka sig út hjá íslensku þjóðinni. Halldór er löngu hættur öllu málefnastarfi og vinnur núna ötullega að því að þóknast Davíð til að gulltryggja það að hann verði forsætisráðherra í haust. Mér hefur alltaf fundist Halldór hafa frekar trausta ásjónu stjórnmálamanns - þrátt fyrir að hann sé afar þumbaralegur greyið - en ég verð að viðurkenna að ég ber nákvæmlega ekki neitt traust til Halldórs eða framsóknarflokksins yfir höfuð í dag. Ég virði það við karl föður minn að hafa einn stjórnarþingmanna andmælt fjölmiðlafrumvarpinu opinberlega. Við feðgin erum ekki alltaf sammála í pólitík en hann stendur oftast á sínu sem er alltaf virðingarvert.

Ákall mitt til stjórnarþingmanna í gær var jafn mikið ákall - og jafnvel meira - til þingmanna framsóknar eins og þingmanna sjálfstæðisflokksins. Þeir eru nefnilegast verri en íhaldið oft á tíðum í að þóknast duttlungum Davíðs. Ég skal fyrirgefa sjálfstæðismönnunum og skilja þá, þetta er nú einu sinni formaðurinn þeirra. En hver er afsökun framsóknarmanna að ílengjast svona sem stuðningsmenn Davíðs???? Valdagræðgi er það fyrsta sem kemur upp í hug margra. Ég skil það upp að vissu marki en finnst það ákveðin skammsýni. Eftir að samfylkingin varð að stórum stjórnmálaflokki breyttust möguleikar til stjórnarmyndunar hér á landi. Vinstri grænir verða aldrei stórt afl held ég en framsókn og samfylking gætu myndað góða stjórn að mínu mati.

Staðan í samfélaginu er orðin þannig að fólk vill fella ríkisstjórnina og þeir sem kusu hana áfram í síðustu kosningum sjá margir hverjir eftir því. Fall stjórnarinnar yrði þó bara fall sjálfstæðisflokksins, framsókn hefur þá sérstöku stöðu að geta lent í oddaaðstöðu að loknum kosningum. En það er spurning hvað verður ef þeir gæta ekki að sér. Ef þeir fara ekki að standa á sínu og hætta að hlaupa eftir duttlungum Davíðs. Það er spurning hvort þeir myndu þurrkast út eins og Kvennalistinn gerði hérna um árið.

Þetta eru svo sem bara mínar pælingar og var ekki ætlunin að fá neina niðurstöðu í þær núna. En ég held að framsóknarmenn verði að gæta að sér og sínum. Með áframhaldandi undirlægjuhætti verða þeir kannski í stjórn þetta kjörtímabil en hvað svo? Er framtíðarsýnin svona stutt í íslenskum stjórnmálum? Er allt farið að snúast um völd í stað hugsjóna? Eru íslenskir stjórnmálamenn farnir að búa í sínum eigin pólitíska heimi án nokkurrar tengingar við raunveruleikann? Er þetta það sem kjósendur vilja sjá????

01 maí 2004

Jæja, ég hef alveg verið að tapa mér í djúpu pælingunum í gær. Maður verður víst að gera það stundum. Ég sendi á vini mína á póstlistanum mínum skoplega útgáfu af fjölmiðlafrumvarpinu í gær eða fyrradag. Það þarf víst ekki að útskýra að þar var verið að skjóta á Davíð. Það kom mér lítið á óvart að fá svar frá honum Bigga vini mínum þar sem hann sagðist vera fylgjandi frumvarpinu. Að pabbi hefði brugðist eins við og Davíð ef persóna hans hefði verið persónugerð fyrir allt hið illa í samfélaginu í fjölmiðlum.

Fyrir heit trúaða sjálfstæðismenn er þetta ekkert óeðlilegt viðhorf. Mér finnst bara sorglegt þegar fólk dettur í þá gryfju að gjörsamlega trúa á eina manneskju. Það stendur engin manneskja undir slíku. Davíð er góður og snjall stjórnmálamaður en vei þeim sem er á móti honum því hann mun gera allt sem í hans valdi stendur til að gera þeirri manneskju lífið leitt. Og það er ekki lítið vald sem maðurinn hefur. Hann hefur misst sig nokkrum sinnum undanfarið á eiginlega óverjandi hátt. Það er hálf sorglegt að horfa upp á heit trúaða liðið hans virkilega reyna að verja hann í algjörlega óverjandi aðstæðum.

Davíð hefur nefnilegast séð um það sjálfur undanfarin ár að sverta persónu sína í fjölmiðlum. Framkoma hans er oft á tíðum svo hrokafull og yfirgengileg að hún dæmir sig algjörlega sjálf. Mér finnst það hálf sorglegt og ég held að í framtíðinni eigi hann ekki eftir að fá góða dóma í sögunni. Hann er búinn að vera við völd of lengi og búinn að missa sig of oft til þess. Hann hefði í raun átt að draga sig í hlé í þar síðustu kosningum - þá var stjarnan hans ennþá það skær að hans hefði verið minnst sem góðs leiðtoga sem stóð sig bara nokkuð vel - þó svo að ég segi frá.

Stjórnunarstíll hans í dag minnir mig of mikið á stíl Berlusconis á Ítalíu - manns sem stjórnar ítölsku samfélagi eins og strengjabrúðum algjörlega eftir eigin höfði. Hann er líka farinn að minna mig á góðvin sinn Bush - þó svo hann megi eiga að hann er klárari en forseti Bandaríkjanna. Ekki að það þurfi mikið til en.. Við erum að sjá nákvæmlega það sama gerast í íslensku samfélagi í dag og á Ítalíu og jafnvel Bandaríkjunum. Orð Davíðs eru lög. Það verður spennandi að sjá hvenær sjálfstæðismenn taka eftir bjálkanum í sínu eigin auga - eða auga Davíðs öllu heldur. Þá virðist nefnilegast skorta sjálfstæðan vilja og sjálfstæða hugsun.

Ég auglýsi hér með eftir sjálfstæðri hugsun stjórnarþingmanna og vona að þeir sýni Davíð að maður getur keypt ölið á fleiri stöðum en hann er vanur að versla það og að þeir felli þetta blessaða frumvarp.