01 nóvember 2009

Minning

Auja amma mína og Gunnar afi minn hefðu bæði átt afmæli í dag ef þau hefðu lifað. Amma hefði orðið áttræð og afi 79. Ég mæli með þessu myndbandi í tilefni dagsins. Ég á því miður ekki stafrænar myndir af þeim hjónum svo Abba verður að duga að sinni. Blessuð sé minning ömmu og afa.

21 október 2009

Þrítug og þrusuflott ;-)

Þá er maður orðinn þrítugur og ég held svei mér þá að ég hafi bara aldrei verið betri. Ég hafði það gott á afmælisdaginn og fékk afskaplega fallegar og góðar gjafir. Það er gaman að eiga afmæli og finna hvað maður á góða að :-) Mamma og systkini mín gáfu mér saumavél og nú bíð ég spennt eftir tækifæri til þess að prófa gripinn. Hefði þurft að eiga eins og nokkra efnisbúta til þess að prófa sporin og svona en það kemur allt saman.

Annars er alltaf meira en nóg að gera á þessum bænum og þessa vikuna eru næturvaktir á dagskrá. Það er rólegt á suðurgangi eins og er og tíminn er nýttur í að svara tölvupóstum og hnýta lausa enda. Það er því ekki mikið annað í fréttum en vinna og aftur vinna. Ég vildi bara nota tækifærið og þakka fyrir góðar kveðjur á afmælisdaginn. Þangað til næst hafið það súpergott :-)

11 október 2009

Pælingar í amstri dagsins

Það er aldeilis búið að vera nóg að gera undanfarið. Ég er flutt aftur heim til mín og það hefur dágóður tími farið í það að koma sér fyrir. Það er þó ekki allt tilbúið en það tekur víst allt sinn tíma. Annars er ég mest lítið heima hjá mér því það hefur verið mikið að gera í vinnunni. Ég hjálpa mömmu eftir bestu getu í bókhaldinu á milli vakta á Eir og þá er oft lítill tími fyrir eitthvað annað. Ég er þó að reyna að sinna endóinu eftir bestu getu og Samtökin héldu afar vel lukkaðan fræðslufund í gær. Þar var fjallað um andlegu hlið þess að greinast með krónískan sjúkdóm eins og endómetríósu. Ég var að vinna og komst ekki á fyrirlesturinn en ég var búin að fá að sjá hann áður og hann var ótrúlega vandaður og góður og það var margt sem náði til mín.

Það er algengt að fólk með svona króníska sjúkdóma einangri sig félagslega og ég gerði það. Ég hafði það ekki í mér að mæta í fjölskylduboð og á aðra slíka viðburði og sitja undir spurningum um það hvenær ég ætlaði að koma með eitt lítið. Það var alveg nóg að vera að takast á við lífið án þess að sitja undir eins ónærgætnum spurningum og þessari. Auðvitað meinar fólk vel en það breytir því ekki að svona spurningar eru mjög persónulegar og það er í mínum huga hreinn dónaskapur að spurja fólk sem er manni jafnvel ekki svo náið jafn nærgöngulla spurninga. Þeir sem þekkja til mín vita hvar ég stend í þessum málum og flestir hafa virt það. Það er einna helst fólk sem þekkir mig lítið og fylgist lítið með mér sem spyr. Með því að blogga um það er ég að vona að vekja fólk til umhugsunar. Fólk spyr oft mest af gömlum vana. Ég hef staðið mig að því að gera þetta sjálf. Ég baðst svo sem afsökunar strax að vera að spurja að þessu og það var hægt að hlæja að þessu eftir á en það sýnir samt hvað þetta getur verið mikill vani og einfaldlega hugsunarleysi.

Annað sem fylgir því að greinast með sjúkdóm er að stuðningur vina og vandamanna er alltaf mestur fyrst á eftir. Svo byrjar fólkið að detta út. Þannig var það líka hjá mér og það er ekkert óeðlilegt við það. Fæstir hafa úthald til að sinna öðrum einstaklingi þannig til lengri tíma. Ég hef breyst mikið síðan ég greindist og vinahópurinn hefur breyst líka. Ég er virkilega þakklát þeim vinum mínum sem stóðu við bakið á mér í gegnum allt það sem gekk á í lífinu mínu árið 2006. Það hélt mér gangandi á þeim tíma hvað ég átti góða að. En það eru 3 ár síðan og það er misjafnt hversu mikið af þessu fólki stendur mér nærri í dag. Það er engum um að kenna í þeim efnum, þannig er lífið bara.

Ég er samt að verða meðvitaðri um það hvaða áhrif það hefur haft á mig að hafa veikst og þurft að lifa með þessum sjúkdómi og hvað ég get gert betur. Það er oft hægara sagt en gert, sérstaklega þegar maður er búinn að loka sig af eins og ég hef gert. Það er ekkert auðvelt standa upp og fara út á meðal fólks aftur. Reyna að virkja vinasambönd sem maður hefur jafnvel lítið sem ekkert sinnt. En kosturinn er að maður veit hverjir vinir manns eru. Hverjir það eru sem standa eftir og eru þarna enn eftir allt sem á undan er gengið. Maður þakkar svo fyrir að hafa fengið að kynnast þeim sem eru búnir að sigla sína leið og vonar að þeim farnist vel í lífinu.

En það er margt annað í gangi en svona pælingar. Ég er búin að fá niðurstöður úr mastersritgerðinni og þann 20. nóvember nk. fæ ég formlega að kalla mig master í alþjóðasamskiptum. Svo verð ég víst þrítug eftir viku og ef það er ekki tilefni til að lyfta sér upp í góðra vina hópi þá veit ég ekki hvað þarf til. Svo heppilega vill til að ég á fríhelgi á Eir svo tækifærið verður nýtt til þess að gera eitthvað skemmtilegt. En ég á víst ekki frí í dag og það er kominn tími til þess að hafa sig til fyrir vaktina. Þangað til næst.

03 október 2009

Þetta litla dýr á myndinni hérna fyrir ofan á afmæli í dag. Tómas Orri heitir snáðinn og er orðinn 3ja ára - eða 3 puttar eins og hann segir sjálfur. Til hamingju með daginn litla krús og hafðu það svakalega skemmtilegt í dag :-)

27 september 2009

Tvöfalt afmæli

Það er mikið að gera hjá mér í afmælunum á haustin og ég hef hreinlega ekki undan við að pósta inn kveðjunum.



Elsku besta Hildur mín átti afmæli í gær og ég sendi hamingjuóskir í Eyjarnar í tilefni dagsins. Vonandi hafðirðu það svakalega gott skvís!


Þorgeir Valur, aka Geiri, er þrítugur í dag og hefur heldur betur róast með árunum drengurinn. Sú var tíðin sem hann bauð í klámpartý en nú verður pent kaffiboð í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn elsku Geiri og hafðu það svakalega gott í dag :-)

21 september 2009

Þessi litla skvísa, hún Karen Líf, á afmæli í dag og er orðin hvorki meira né minna en 11 ára. Ég sendi hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins. Til hamingju með afmælið elsku Karen og hafðu það svakalega gott í dag :-)

19 september 2009

Tvöfalt afmæli

Þessi indælu skötuhjú, Röggi bró og Anu, eiga afmæli í dag og á morgun. Röggi á afmæli í dag 19. september og Anu á morgun þann 20. Þau fá innilegar hamingjuóskir í tilefni dagsins alla leið frá Klakanum og ég vona að þau séu búin að eiga ánægjulega afmælishelgi. Til hamingju með daginn bæði tvö! Njótið helgarinnar!

11 september 2009

Nattevagten

Jæja, þá er ég stödd á vaktinni um miðja nótt. Þriðja og seinasta nóttin í bili. Þetta er ágætis tilbreyting frá hefðbundnum morgun- og kvöldvöktum og ég hef náð að koma ýmsu í verk. Það er þó ekki mikill tími til að slóra enda nóg að gera á stóru heimili. Ég er ein mestan part nætur en svokölluð léttavakt kemur og hjálpar mér að snúa og skipta. Það er engin létta vinna þó svo að léttavaktin hjálpi til við það. Annars kann ég ágætlega við mig hérna á Eir. Ég er lítið farin að huga að því að leita að annarri vinnu. Ég skoða jú atvinnuauglýsingarnar og er búin að láta skrá mig á helstu vinnumiðlanirnar en ég hef ekki séð neitt bitastætt enn sem komið er.

Mál málanna þessa dagana er íbúðin mín en ég er ekki ennþá flutt alla leiðina heim. Íbúðin kom ekkert sérlega vel undan vetri og það þarf að mála alla íbúðina. Svo þarf að bónleysa og bóna gólfin og það er meira en nóg að standa í því að skvera íbúðina meðfram því að vera í tveimur vinnum. En þetta kemur allt með kalda vatninu og ég reyni að hlusta á hana móður mína þegar hún segir mér að þolinmæðin borgi sig - en ég hefði viljað flytja inn helst í gær og þetta gengur allt of hægt fyrir minn smekk.

Annars er mest lítið að frétta af þessum bænum. Hildur mín er að koma í bæinn á morgun og við ætlum að slæpast eitthvað á milli vakta hjá mér á helginni. Ég hlakka mikið til að fá hana í heimsókn enda löngu komin tími á hitting hjá okkur stöllum. En segjum þetta gott í bili. Ég ætla að halda áfram í snúningunum. Þangað til næst.

09 september 2009

Haukur Örn, mágur minn, á afmæli í dag og er auðvitað á besta aldri drengurinn. Hann fær sendar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn og hafðu það öfga gott í dag :-)

30 ágúst 2009

Það eru víst komin 10 heil ár síðan þetta litla dýr á myndinni hérna fyrir ofan kom í heiminn. Hann er auðvitað ekkert lítill lengur enda kominn í tveggja stafa tölu og orðinn 10 ára. Til hamingju með daginn elsku Kristinn Breki! Hafðu það svakalega gott í dag :-)

19 ágúst 2009

Elsku besti pabbi minn á afmæli í dag og er auðvitað á ágætum aldri. Ég á því miður enga mynd af kallinum í vinnutölvunni en ég sendi honum engu síður bestu kveðjur í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn elsku pabbi og hafðu það svakalega gott í dag :-)

11 ágúst 2009

Löngu mætt á Klakann

Þá er maður búinn að vera á Íslandinu í rúmar 2 vikur og þær hafa liðið dáldið hratt. Ég fór eiginlega beint til Eyja og svo beint úr Eyjum á ættarmót. Ég byrjaði svo að vinna á Hjúkrunarheimilinu Eir í gær þar sem ég vinn á lokaðri alzheimer deild. Ég kann ágætlega við mig þarna og er bara sátt við að vinna þarna þangað til ég fæ aðra vinnu. Það gefur mér tíma til þess að finna út hvað mig langar mest til að gera og er auðvitað margfalt betra en að fara á atvinnuleysisbætur. Ég verð svo með eitthvað bókhald í hjáverkum enda veitir ekki af því að drýgja tekjurnar sem fara ekki mikið yfir lágmörkin.

Þjóðhátíðin var sú besta hingað til og það er óhætt að segja að ég hafi skemmt mér konunglega í góðra vina hópi. Ættarmótið heppnaðist líka vel og það var gaman að hitta svona margt fólk á einu bretti. Núna er ég að aðlagast nýrri vinnu og lífinu á Klakanum á nýjan leik. Efst á listanum er að finna bíl til þess að koma mér á milli staða og það er að reynast erfiðara en ég bjóst við. Framboð af ódýrum bílum er ekkert en það er nóg framboð af yfirveðsettum bílum sem eigendurnir geta ekki borgað með. En ég á eftir að finna út úr því og vonandi fyrir helgi. Það er allavegana nóg að gera og ég skrifa meira þegar ég verð búin að koma mér almennilega í Íslandsgírinn. Þangað til næst.

23 júlí 2009

Allt búið

Þá er ég búin að skila inn mastersritgerðinni og lítið annað eftir en að koma sér heim á Klakann. Það er óneitanlega dálítið erfitt að sleppa tökunum og skila. Það hafa ýmsar hugsanir flogið í gegnum hugann í dag. Merkti ég ekki örugglega viðaukann inn? Ætli ég hafi gleymt að laga e-a innsláttarvillu? Ætti ég ekki að renna yfir þetta einu sinni enn til þess að vera nú alveg viss um að þetta sé í lagi? Þá skiptir litlu þó svo að aðrir en ég hafi fínkemmt ritgerðina í leit að villum og að ég hafi líka gert það sjálf. Þegar maður er búin að liggja yfir einhverju verkefni svona lengi er erfitt að setja punkt og hætta. En það þýðir lítið að velta sér upp úr slíkum hugsunum núna. Ritgerðin er farin úr mínum höndum og ég held að ég geti verið ánægð með hana. Í það minnsta gerði ég mitt besta og maður getur víst aldrei gert betur en það.

Morgundagurinn mun fara í það að losa mig við sem mest af dótinu mínu hérna úti. Ég hafði miklar áhyggjur af því að þurfa að henda mestu af eldhúsdótinu mínu - og það er tómt vesen að henda hérna - en það virðist vera að bjargast fyrir horn. Stelpan sem ætlaði hinsvegar að kaupa húsgögnin þurfti að hætta við það með litlum fyrirvara því hún er ekki enn komin með íbúð og ég er ekki enn búin að finna út úr því hvernig ég fer að því að losa mig við þau. En ég krossa bara fingur og vona að það reddist. Vonandi næ ég allavegana að leysa úr þessu á morgun og næ að chilla aðeins á laugardaginn. Við íslensku stelpurnar hérna erum að spá í að skella okkur til Gent að slæpast og það væri gaman að geta náð því.

Á sunnudaginn hoppa ég svo upp í lestina til Amsterdam og lenti á Íslandinu seint um kvöldið. Það verður stutt stopp hjá mömmu því ég fer til Eyja afar seint á fimmtudagskvöldið eftir viku. Tíunda Þjóðhátíðin framundan og alveg pottþétt sú besta hingað til. Sjáumst í Dalnum :-)

17 júlí 2009

Hann Daníel "litli" frændi minn á afmæli í dag og er orðinn 14 ára drengurinn. Ég sendi hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn frændi og hafðu það svakalega gott í dag :-)

16 júlí 2009

Allt Crazy in da Brainhouse

Jæja, þá er ritgerðin loksins orðin tilbúin í yfirlestur og ég get farið að anda léttar :-)

Dótið mitt var svo sótt í dag svo það er algjört spennufall í augnablikinu. Samskip klikkaði reyndar big time. Það var samið um að ég fengi 2ja daga fyrirvara á því hvenær dótið yrði sótt. Þar sem skipið fer á þriðjudaginn var ég nokkuð viss um að það yrði í þessari viku og var því í startholunum. Þegar ég hafði hinsvegar ekki heyrt orð frá Samskipsmönnum í gær ákvað ég að senda þeim póst og athuga hvenær þeir ætluðu eiginlega að koma. Fékk símtal nokkrum mínútum seinna þar sem þeir spurðu hvort þeir mættu ekki bara koma núna klukkan 3 - eftir tæpa 2 tíma... Ég held að gaurinn hafi áttað sig á því hversu skammur fyrirvari það var þegar ég spurði hann hvort hann væri í alvörunni að gefa mér 2ja TÍMA fyrirvara í staðin fyrir 2ja DAGA fyrirvara. Hann bauðst þá til að senda bíl seinnipartinn í dag en gat ekki gefið mér upp klukkan hvað.

Ég átti ekki von á öðru en að það yrði hringt með einhverjum smá fyrirvara til þess að láta mig vita hvenær bíllinn kæmi - ég meina, ekki ætluðu þeir mér að bíða með allt dótið niðrá gangstétt í allan dag? - og var bara í rólegheitunum þegar dyrabjallan hringdi og bíllinn var bara kominn - og klukkan rétt rúmlega 12! Greyið bílstjórinn vissi greinilega minna en ég svo ég dreif allt dótið niður og hann hjálpaði mér að raða í bílinn og við reyndum að gera gott úr þessu. En þetta var verulega óþægilegt og Samskip fær klárlega falleinkunn fyrir þetta.

Svo er bara allt vitlaust á Klakanum eftir að þingið samþykkti að sækja um ESB. Ég er nú alveg skýrt og skorinort á móti aðild Íslands að ESB en ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þessi læti. Þessi leið sem ríkisstjórnin valdi var fyrirsjáanleg málamiðlun vegna mismunandi afstöðu flokkanna til ESB og alls ekki óásættlanleg sem slík. Það er allt viðræðuferlið eftir fyrir utan þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa um samninginn og það er nú bara ekkert gefið með það að við fáum samning sem þjóðin samþykkir. Mér finnst þetta því ekki vera neinn sorgardagur í Íslandssögunni. Þetta er bara eðlilegt og fyrirsjáanlegt skref sem kannanir hafa nota bene sýnt að er meirihluti fyrir (Meirihluti vill aðildarviðræður til þess að sjá hvað ESB býður uppá þó svo að meirihluti hafni samt aðild). Ég spái því nú samt að við eigum eftir að taka Noreg á þetta og fella samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá getum við farið að tala um stóra daga í Íslandssögunni.

En allavegana, það er spennufall dauðans í höfuðborg Evrópu í dag. 10 dagar í Klakann og 14 dagar í Þjóðhátíð. Það er ekki laust við að það sé kominn fiðringur ;-)

09 júlí 2009

Hann Pétur Marel vinur minn á afmæli í dag og er því sá næsti í vinahópnum til þess að fylla þrjá tugi. Ég sendi honum hamingjuóskir í tilefni dagsins frá útlandinu. Hafðu það gott í dag og enn skemmtilegra í afmælispartýinu :-) Sjáumst í Eyjum!

08 júlí 2009

Is International Law a Good Predictor of State Behaviour?

Ég ætla að bregða aðeins út af þeim vana að blogga ekki um pólitík og fjalla aðeins um Icesave. Aðallega vegna þess að ég rakst á komment við einhverja frétt sem sagði að venjulega dragi maður menn fyrir dóm þegar maður væri ósáttur við þá og af hverju það væri ekki gert við Breta og Hollendinga. Í FPA í vetur var einn fyrirlestur um alþjóðalög undir sama titli og þessi færsla. Það var engin tilviljun að þetta er sett fram sem spurning. Groom svaraði spurningunni fyrir okkur líka. Alþjóðalög geta venjulega spáð fyrir um hegðun ríkja í viðkomandi málefnum. Ríki væru ekki aðilar að alþjóðalögum ef þau vildu ekki fara eftir þeim. EN á þessu eru undantekningar og flest ríki vilja semja um mál sem skipa mjög miklu máli fyrir ríkið sjálft. Að því leyti er dómstólaafstaða Íslendinga sérstök í Icesave málinu. Fæstar þjóðir væru til í að taka áhættuna á að láta dómstól ákvarða niðurstöðu málsins þegar hægt væri að hafa puttana meira í niðurstöðunni með því að semja sjálfir.

Svo er það hinn vinkillinn. Í milliríkjadeilum getur annað ríkið ALDREI stefnt hinu fyrir alþjóðadómstól (Öryggisráð SÞ er ekki dómstóll sem slíkur). Alþjóðadómstóllinn í Haag tekur t.d. aðeins mál til meðferðar sem að BÆÐI ríkin samþykkja að fari þangað. Þetta má sjá á heimasíðu dómstólsins. Þannig að ef að Bretar og Hollendingar segja nei við dómstólaleið í Icesave þá er bara ekkert sem Ísland getur gert við því. Ísland hafnaði dómstólaleið í Þorskastríðunum og það var ekkert sem Bretar gátu gert við því - nema bara reyna að semja.

Alþjóðalög urðu ekki til í því formi sem við þekkjum þau í dag fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Það eru engin viðurlög þannig séð fyrir að brjóta þau, nema kannski stríð ef þau þykja þeim mun alvarlegri, og lagabókstafurinn er einfaldlega ekki það sterkur að hann skipti verulegu máli þegar alvarlegar milliríkjadeilur koma upp. Auðvitað hefði það verið mjög áhugavert ef Icesave hefði farið fyrir dóm - það hefði væntanlega verið fyrsta meiriháttar milliríkjadeilan sem gerði slíkt - en lagabókstafurinn er einfaldlega ekki aðalatriði í þessari deilu hversu furðulega sem það kann að hljóma í eyrum sumra. Þetta snýst um pólitík og litla Ísland er bara lítill fiskur í stórum sjó þegar kemur að alþjóðastjórnmálum. Það skiptir litlu máli þó svo við getum fært mjög góð rök fyrir þeirri afstöðu okkar að það sé ekki sanngjarnt að ESB taki enga ábyrgð á sínu gallaða regluverki í þessu máli. Þegar stóru kallarnir setja byssuna á hausinn á okkur og segja okkur að borga samt þá getum við ósköp lítið gert.

Á tímum kalda stríðsins var Ísland mjög mikilvægt á alþjóðavettvangi og íslensk stjórnvöld nýttu sér það grimmt í Þorskastríðunum. Við gátum hótað úrsögn úr NATO og því að senda herinn burt og það voru alvöru vopn í höndunum á okkur - og þau virkuðu. Eftir fall Sovétríkjanna og brotthvarf hersins þá höfum við einfaldlega ekki slík þungaviktarvopn í höndunum. Menn geta gagnrýnt samninganefndina fyrir að hafa ekki náð betri samningi og jújú kannski hefði það verið mögulegt, ég hef ekki kynnt mér það til hlítar. En menn verða að horfa á hlutina í samhengi og átta sig á hversu fá pólitísk vopn Ísland hafði undir höndum þegar sest var að samningaborðinu. Við hefðum getað sent breska sendiherrann úr landi - sem mér finnst að hefði átt að gera þó það næði aldrei lengra en að vera táknrænn gjörningur - og við hefðum getað hótað úrsögn úr NATO. Slík hótun hefur ekki sama gildi núna og á tímum kalda stríðsins en hefði kannski skilað einhverju. Á tímum Þorskastríðanna voru íslensk stjórnvöld með áróðursmaskínu í gangi í Bretlandi til þess að styðja málstað Íslendinga og sú vinna skilaði góðum árangri. Kannski hefði það borgað sig að gera slíkt hið sama í Icesave en það verður að viðurkennast að það hefði ekki verið auðvelt verk að útbúa góða herferð á þeim grunni.

Menn geta því rifið kjaft heima á Fróni og þóst vera stórir kallar en það leysir ekki neitt. Það er bæði ósanngjarnt og blóðugt að þurfa að taka ábyrgð á þessum skuldum - en við höfum ekkert val. Deilan sýnir glöggt hver staða Íslands er á alþjóðavettvangi í dag - við erum núll og nix eins og ég las einhverstaðar og við höfum einfaldlega ekki mikið efni á því að vera að rífa kjaft. Mér finnst það vera ábyrgðarhlutverk hjá Alþingi að samþykkja þennan samning því öll uppbygging er byggð á því að þetta fari í gegn. Þessi slagur er tapaður en þá er ekki málið að liggja eins og barn í frekjukasti og væla það heldur að standa upp aftur og vinna þann næsta. Ég vona að þannig verði Íslands minnst í framtíðinni - sem þjóðar sem var illa kýld niður árið 2008 en stóð alltaf upp aftur og hélt alltaf áfram.

07 júlí 2009

The Winner Stands Alone

Ég var örugglega seinasta manneskjan í heiminum til þess að frétta af andláti Michaels Jackson. Ég var í Bretlandi að taka viðtal við prófessorinn daginn sem hann lést, var í engu netsambandi og kveikti ekki á sjónvarpi. Ég sá fréttirnar fyrst þegar ég kom aftur til Brussel á föstudagskvöldinu. Ég missti því af öllum viðbrögðunum sem fylgdu í kjölfar andlátsfréttarinnar og ég las bara þær helstu þegar ég kom heim enda ekki hægt að þvæla sér í gegnum óteljandi Jackson fréttir á einu kvöldi. Ég ákvað svo af hálfgerðri rælni að kveikja á sjónvarpinu áðan og horfði á hluta af minningarathöfninni um Jackson. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur aðdáandi Michaels Jackson en það snerti mig að horfa á þessa athöfn - þó svo að sumir þættir hennar hefðu alveg mátt missa sín. Þetta var maður sem lifði í kastljósi fjölmiðla frá 5 ára aldri, upplifði aldrei eðlilega barnæsku og fékk aldrei að kynnast eðlilegu lífi. Hann gat ekki labbað um göturnar eða gert neitt af því sem öðrum þykir eðlilegt án þess að fjölmiðlar eltu hann á röndum. Hann var einn mesti listamaður sem hefur verið uppi en hann var líka fangi sinnar eigin frægðar.

Ég las nýlega nýjustu bók Paulo Coelho sem heitir The Winner Stands Alone. Þar fjallar Coelho um þá hlið á glamúrnum og frægðinni sem almenningur fær ekki að sjá. Hann fjallar um stórstjörnur sem eru fastar í heimi frægðar og eru háðar athyglinni og glamúrnum. Hann fjallar um þá sem ströggla við að komast inn í glamúrheiminn og hvernig þeim verður við að upplifa raunveruleika þess heims þegar markmiðin eru alveg að nást. Að upplifa að ekkert er eins og þeir bjuggust við að það yrði. Ég hef lesið misjafna dóma um þessa bók en mér fannst hún góð. Mjög góð. Það má yfirfæra hluta hennar yfir á Ísland ársins 2007 þegar allir vildu vera stærri og meiri en næsti maður. Eiga stærri jeppa, stærra hús, stærri einkaþotu. Margt í bókinni má einnig heimfæra á líf Michaels Jackson. Hún skilur eftir ýmsar hugleiðingar sem öllum er hollt að pæla í.

Í minningarathöfninni áðan sagði prestur nokkur setningu sem greip mig. Hann sagði til barna Michael Jackson eitthvað á þessa leið "There was nothing strange about your father. What was strange were the things he had to deal with". Við gleymum því all oft þegar fluttar eru fréttir af þeim ríku og frægu að þetta er fólk eins og ég og þú. Slúðurblöðin seljast í bílförmum og það virðist engu máli skipta hvort fréttirnar eru sannar eða ósannar. Það þyrstir alla í fréttir af þeim ríku og frægu og flestir eru fljótir að dæma - og þá virðist engu máli skipta hvort að fréttirnar eru sannar eða ósannar. Við horfðum Michael Jackson falla af stallinum nánast í beinni. Við sáum Britney Spears hrynja saman nánast í beinni. Með sama áframhaldi eiga dæmin eftir að verða fleiri og fleiri.

Ég hef það fyrir reglu að kaupa aldrei slúðurblöð og ég fylgist ekki með slúðurdálkunum á netmiðlunum. Mér er alveg sama hvort einhver stórstjarnan sé ómáluð, of mikið máluð, í ljótum fötum, með appelsínuhúð eða hafi skellt sér á djammið. Með því að kaupa þessi blöð og lesa svona fréttir styðjum við sorpbransann og sviptum fólk eins og Michael Jackson og Britney Spears réttinum á einkalífi. Réttinum til þess að vera til eins og ég og þú. Það var því heilmikið til í því sem presturinn sagði, Jackson var ekki endilega skrýtinn - en heimurinn sem hann þurfti að takast á við var - og er - mjög skrýtinn. Hann var einn dáðasti listamaður okkar tíma en þrátt fyrir það var hann einn. Og þar hitti Coelho naglann á höfuðið: The Winner Stands Alone.

05 júlí 2009

Bara 3 vikur eftir!

Jæja, þá eru bara 3 vikur eftir hérna í höfuðborg Evrópu. Þrátt fyrir hitabylgjuna sem var í vikunni þá er ritgerðin á áætlun. Inngangskaflarnir eru búnir og komið að meginuppistöðu ritgerðarinnar sem er greining á tveimur ethnographic rannsóknum á adult literacy. Ég áætla ca. 6.000 orð í þetta og ætla mér að vera klár með þennan pakka á næstu helgi. Þá hef ég rúman tíma í seinustu 2500 orðin sem eru bara samantekt og niðurstöður þannig að ég stefni ennþá ótrauð á að senda ritgerðina í yfirlestur 17. júlí. Ég er búin að panta prentun og innbindingu og þeir lofa mér því að þeir verði eldsnöggir að þessu enda hásumarið ekki annatími á kampusnum. En það er nokkuð ljóst að það verður nóg að gera fram að 17. júlí því dótið mitt verður sótt í þeirri viku líka svo ég þarf að fara að byrja á því að pakka niður. Alltaf jafn skemmtilegt....

Það er ekki laust við að það sé kominn fiðringur í mann yfir því að þetta sé allt að verða búið og komast loksins heim. Þetta eru auðvitað mikil tímamót og alls ekki ljóst hvað tekur við heima á Klakanum. En ég er sátt við að kveðja Brussel þó svo mér sé búið að líða vel hérna og hafi aft afskaplega gott af því að búa í útlandinu. Dvölin hefur oft á tíðum verið meiri skóli en skólinn sjálfur en svoleiðis er það bara. Þetta er dýrmæt reynsla sem fer beint í bankann og gerir mann sterkari. Það verður svo næsti áfangi í skóla lífsins að takast á við óvissuna sem fylgir því að koma heim í ástandið þar. En lífið er fullt af tækifærum - maður þarf bara að koma auga á þau og nýta þau og með því hugarfari fer ég heim á Djöflaeyjuna. Bestu kveðjur úr Brusselborg þar sem hitastigið er loksins, loksins að verða "eðlilegt". Þangað til næst.

01 júlí 2009

Meltdown

Þriðja daginn í röð er sól og blíða og tæplega 30 stiga hiti hérna í Brussel. Maður hreyfir sig ekki án þess að svitna og heilinn er bókstaflega soðinn. Ég hef ekki náð að skrifa mikið í dag en 1/10 er samt að verða kominn í hús. Ég er ekki strand efnislega séð, mig vantar bara loftkælingu til þess að fá kjör vinnuaðstæður! Þar sem það var orðið dáldið mikið kaos á eldhúsborðinu hjá mér (sem ég læri við) þá nýtti ég daginn til þess að stækka borðið og flokka heimildirnar. Vinnusvæðið er því orðið mun vistlegra og ég er búin að hafa til heimildirnar sem ég þarf að byrja á því að nota á morgun. Stefnan er að ritgerðin verði klár í yfirlestur 17. júlí og það væri vel þegið að fá að vita af einhverjum sem er mjög góður í ensku og er tilbúinn til þess að lesa yfir fyrir mig gegn einhverri smávægilegri greiðslu eða góðum glaðningi ;-)

En þrátt fyrir hitann er allt á áætlun. Ég ætla að vera komin að greiningunni á case study-unum sem ég nota á helginni og nota svo megnið af næstu viku í greininguna sjálfa. Ég krossa samt fingur fyrir kólnandi veðri og helst rigningu. Það má svo koma svona bongóblíða aftur seinustu vikuna mína í Brussel. Þá verður ritgerðin mín prentun og innbindingu, dótið mitt komið í skip á leiðinni heim og ég fæ nokkra daga til þess að chilla áður en alvara lífsins tekur við á Djöflaeyjunni. Það er svo bara vonandi að veðurguðirnir verði við þessum óskum. Þá væri lífið nú ljúft!

30 júní 2009

Hún Hrafnhildur mín á afmæli í dag og er orðin þrítug, hvorki meira né minna. Innilega til hamingju með daginn elsku Hrafnhildur og hafðu það svakalega gott í dag :-)

29 júní 2009

Það er alveg magnað hvað litla dýrið á myndinni hérna fyrir ofan eldist (á meðan frænka hans er alltaf jafn gömul) en hann er 19 ára í dag. Til hamingju með daginn elsku Njáll og hafðu það svakalega gott í dag! Knús og sveittar kveðjur úr hitanum í Brussel til allra í Grundarfirðinum.

26 júní 2009

Lokahnykkurinn

Jæja, þá eru mamma og amma farnar heim á klakann. Við höfðum það bara gott og gerðum mikið. Fórum til Waterloo þar sem Napóleon var sigraður árið 1815, versluðum í Antwerpen og röltum um Brussel. Borðuðum belgískar vöfflur og súkkulaði, drukkum rauðvín og spiluðum rakka. Við enduðum ferðina í Amsterdam þar sem við kíktum í fleiri búðir og mér tókst það sem ég hafði stefnt að - að kaupa mér skó og það þrenn pör! Það var nú reyndar enginn draumur í dós en hafðist. Við fórum svo í skoðunarferð um Amsterdam og fórum í hús Önnu Frank og það var meiriháttar upplifun. Gaman að fara þangað og óhætt að mæla með því.

Þegar ég kom heim frá Amsterdam tók við undirbúningur fyrir Bretlandsferð en þangað fór ég til þess að taka viðtal við prófessor í adult education fyrir mastersritgerðina. Það ferðalag gekk mjög vel og ég fékk m.a. lánaðar bækur sem eiga eftir að nýtast mér vel við skriftirnar. Efnið hefur soldið þróast frá upprunalegum hugmyndum en ég er komin með það í kollinn núna hvernig ég ætla að hafa þetta. Fókusinn verður á adult literacy og development og ég ætla að nota eina case study til þess að fara ofan í saumana á efninu frekar. Pælingin er hvort að adult literacy sé sú frelsun fyrir fólk í vanþróuðum ríkjum sem UNESCO og sumir fleiri vilja vera láta og ég ætla að nota case study/rannsóknina til þess að rökstyðja mál mitt og til að stýra því hvaða þætti af umræðunni ég fjalla um enda er þetta allt of yfirgripsmikið efni til þess að fjalla um til hlítar í einni ritgerð. Þannig að núna leggst ég yfir ritgerðina og byrja að skrifa og hætti ekki fyrr en öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Ég hef 4 vikur til stefnu til þess að skrifa, láta lesa yfir, binda inn og skila því ég á pantað flug heim til Íslands þann 26. júlí. Ég hef engar áhyggjur af því að það náist ekki og finnst bara ágætt að fá smá pressu. Lokaskil á ritgerðinni eru reyndar ekki fyrr en 10 . ágúst en ég ætla á Þjóðhátíð og ritgerðarskilunum verður fagnað vel þar :-) Annars fékk ég tölvupóst frá skólanum í dag sem staðfesti það formlega að ég hefði náð öllum kúrsunum sem ég tók í vetur og ég fékk formlegt leyfi til þess að hefja vinnuna við mastersritgerðina. Einkunnirnar fyrir prófin eru reyndar ekki komnar á netið en það er svo sem ekki aðalatriðið þegar maður veit að vinnan í vetur hefur skilað tilætluðum árangri og bara lokahnykkurinn eftir til þess að masterinn sé í höfn.

Þannig að það er allt í góðum gír í höfuðborg Evrópu og nú verður bara skrifað og skrifað og skrifað.... Þangað til næst.

14 júní 2009

Kellurnar komnar til Brussel

Jæja, þá eru mamma og amma komnar til Brussel eftir ansi hreint viðburðarríkan dag í gær. Ég ætlaði að sækja þær á flugvöllinn í Amsterdam svo þær þyrftu ekki að vesenast í lestina og svona sjálfar. Það gekk hinsvegar ekki betur en svo að ég var föst í Antwerpen í 2 tíma þar sem það var rafmagnsbilun á lestarteinunum. Þá var okkur smalað upp í yfirfulla innanlandslest sem fór með okkur e-rt lengst út í rassgat í Belgíu þar sem rútur áttu að ferja liðið yfir til Hollands í innanlandslestir þar. Þannig að þegar mamma og amma lentu þá var ég ennþá í Belgíu og alveg ljóst að það yrðu nokkrir klukkutímar í að ég kæmist til Schiphol. Annað hvort þurftu kellurnar því að bíða eftir mér eða koma sér sjálfar til Brussel.

Við ákváðum að þær skyldu athuga með möguleika á því að komast sjálfar til Brussel. Það gekk ágætlega hjá þeim og þær sátu alveg óvart á fyrsta farrými í lestinni og höfðu það fínt. Sú lest stoppaði hinsvegar á endastöð í Hollandi og sem betur fer var þar lest á leið til Brussel sem þær gátu hoppað upp í. Það var ekkert fyrsta farrými þar heldur var lestin yfirfull og þar þurftu þær að dúsa í einn og hálfan tíma þangað til þær komu til Brussel. Ég þurfti að koma mér úr lautarferðinni sem ég lenti í og ég kom til Brussel klukkutíma á undan kellunum. Við vorum því allar dauðþreyttar eftir langan lestardag í gær og erum hættar við að fara í Waterloo í dag af því að það nennir engin af okkur að fara aftur í lest í dag. Deginum verður því eytt utandyra á rölti um miðborg Brussel.

10 júní 2009

Áfram Ísland!

Þá er maður kominn heim af leiknum. Þetta var nú enginn eðal handbolti en strákarnir gerðu það sem þeir þurftu að gera og unnu leikinn. Leikurinn var lengst út í rassgati, ca klukkutíma keyrslu frá Brussel. Við ákváðum að fara í fyrra fallinu af stað og borða og svoleiðis áður en að leikurinn byrjaði. Við vorum hinsvegar föst í umferð í góðan klukkutíma og rétt náðum leiknum þegar hann var að byrja. Til allrar hamingju voru Belgarnir að selja grillaðar pulsur og hamborgara og ég söng þjóðsönginn með hamborgara í annarri hendinni og íslenska fánann í hinni. Afar smekkleg. Það voru nú ekki margir Íslendingar á leiknum en við reyndum að láta heyra vel í okkur og hvetja strákana áfram. Skemmtilegt kvöld þrátt fyrir lúðrasveit hússins sem hafði augljóslega aðrar skilgreiningar en við Íslendingarnir á því hvernig halda skal uppi góðri stemmingu á landsleik...

En ég ætla að ljúka þessu á góðri sögu sem ég heyrði á leiðinni heim af leiknum. Það var brotist inn til íslenskrar fjölskyldu hérna í Brussel um daginn sem er svo sem ekki efni í skemmtisögu. Þjófarnir gáfu sér góðan tíma til að fara yfir innanstokksmuni og velja úr hverju væri best að stela. Þeir brutu meðal annars sparibauk barnsins á heimilinu þar sem púkinn hafði verið að safna að sér evrum og krónum. Þjófarnir hafa augljóslega verið ágætlega að sér í heimsmálunum því þeir stálu bara evrunum úr bauknum en létu íslensku krónurnar alveg eiga sig. Það ætti því að vera nokkuð öruggt að geyma spariféð undir koddanum í öruggu skjóli frá íslenskum bankamönnum.

09 júní 2009

Þrumuveður

Það gengur þrumuveður yfir Brussel í augnablikinu og ég sit og kippist við í hvert sinn sem það kemur elding fyrir utan gluggann hjá mér. Það er GRENJANDI rigning og bölvaður hávaði í þrumunum og ég er voðalega glöð með að vera bara inni hjá mér núna. Annars er allt í ágætis gír hérna í útlandinu, ég er komin af stað með ritgerðina og kláraði að lesa heimildirnar sem ég er búin að sanka að mér í gær. Ég kom mér ekki í það að byrja að skrifa í dag heldur hafa hlutirnir verið að meltast á meðan ég hef verið að versla og græja það sem þarf til að allt verði klárt þegar mamma og amma koma á laugardaginn. Ég ætla hinsvegar að nota dagana fram að helgi til þess að setja eitthvað kjöt á grindina sem ég er komin með í hausnum. Ég er svo búin að ganga frá því að ég fer til Austur Englands í lok júní til þess að taka viðtal við einn prófessor fyrir ritgerðina og eftir það verður setið við skriftir þangað til að öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Á morgun er ég að fara á handboltaleik ásamt fleiri Íslendingum en Belgía og Ísland eru að fara að keppa í undankeppni EM. Það er víst mikið um meiðsl í íslenska liðinu en ég vona að við eigum nú samt eftir að taka Belgana í smá kennslustund í því hvernig á að spila handbolta. Væri ekki amalegt fyrir þjóðarstoltið. Svo koma mamma og amma á laugardaginn eins og áður sagði og þær verða hérna til 21. júní. Það ætti að verða nóg að gera hjá okkur, við ætlum til Waterloo, Antwerpen og vera eina helgi í Amsterdam fyrir utan það að túristast um Brussel. Ég hlakka mikið til að fara til Amsterdam og planið er að skóa sig upp fyrir næstu árin. Það er ekki alltaf sældarlíf að vera hávaxin og það er með því leiðinlegasta sem ég geri að kaupa skó. Það er ekkert gaman að fara í búðir þegar það er aldrei neitt til sem passar. En Hollendingar eru hávaxnir og það er búið að benda mér á skóbúðir þar sem ég ætti að geta valsað um og fundið fullt af skóm sem passa svo ég krossa bara fingur.

En jæja, ég ætla að fara að gera eitthvað af viti hérna. Þangað til næst, Áfram Ísland!

31 maí 2009

Salat dagsins

Skólinn var með nokkurskonar árshátíð á föstudagskvöldið. Hátíðin er kölluð International Dinner og er held ég bara tilefni til að hittast áður en við förum öll sitt í hvora áttina. Margir eru þegar farnir og ætla að vinna ritgerðirnar sínar heima svo ekki var allur skólinn þarna en mætingin var samt sem áður ágæt. Þetta var mjög gaman, fínn matur og góður félagsskapur. Ég valdi grænmetismatseðilinn og aðalrétturinn var mjög góður en salatið sem við fengum í forrétt var ábyggilega eitt sérstakasta salat sem mér hefur verið boðið upp á eins og sjá má á myndinni hérna fyrir neðan!



Þetta var semsagt bara tómatur og mozarella sem bragðaðist reyndar ágætlega sem var auðvitað fyrir öllu. Skemmtilegt kvöld og maður á vonandi eftir að halda sambandi við einhverja af skólafélögunum þegar maður verður kominn heim.

Annars er fókusinn allur á mastersritgerðinni. Ég er byrjuð á rannsóknarvinnunni og það er farinn að skýrast hjá mér fókusinn hvernig ég ætla að gera þetta. Planið er að gera comparative study (samanburðarrannsókn?) á mismunandi kennsluaðferðum sem eru notaðar við fullorðinsfræðslu í þróunaraðstoð. Þar ætla ég að bera saman tæknilegar aðferðir sem kenna bara lestur og skrift og félagslegar aðferðir þar sem fókusinn er á hvernig er hægt að gera fólkið hæfara til þess að lifa í sínu umhverfi, nýta bakgrunnsþekkinginu og fleira til þess að byggja nýja reynslu og kunnáttu. Mig langaði til þess að skrifa um menntun og þróunaraðstoð en þar sem allur fókusinn hefur verið á grunnmenntun barna langaði mig til þess að skrifa um eitthvað annað. Fullorðinsfræðsla hefur víðast hvar orðið útundan þrátt fyrir háa tíðni ólæsis á meðal fullorðinna og því fór ég að skoða hana.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands er með fullorðinsfræðsluverkefni í gangi í Úganda og Malawi og ég fékk aðgang að skýrslum um þau. Þar á meðal var úttekt á verkefnunum þar sem sérfræðingur í fullorðinsfræðslu fór yfir aðferðarfræðina og árangur hennar. Mér fundust niðurstöðurnar sláandi og það er margt sem hægt er að gera betur t.d. með breyttum kennsluaðferðum og aukinni fræðslu fyrir leiðbeinendur í verkefnunum. Fólk sem hefur tekið þátt í svona fullorðinsfræðslu hagnast lítið af því, það var fátækt fyrir og eftir námskeiðin er það ennþá fátækt en kann að lesa og skrifa og sú hæfni virðist ekki vera þeim til framdráttar. Þannig að þarna er margt mjög spennandi og það verður gaman að kafa ofan í það í ritgerðarvinnunni.

Ég er búin að koma mér í samband við breskan sérfræðing í fullorðinsfræðslu sem hefur unnið mikið að þróunarmálum og vonandi gengur það upp að ég geti farið til Bretlands og tekið við hann viðtal og fengið frekari upplýsingar. Það er nefnilegast ekki um auðugan garð að gresja hér í Brussel því prófessorinn minn hefur ekkert stúderað menntun og þróunarmál (hún er samt sérfræðingur í þróunarmálum) svo hún hefur lítið getað leiðbeint mér með fræðilegu hliðina á kennsluaðferðum og þvíumlíku þó svo hún aðstoði mig auðvitað eins og hún getur.

Það er svo farið að styttast í að mamma og amma komi í heimsókn en ég hlakka mikið til að fá loksins gesti. Það hefur enginn komið síðan pabbi var hérna í september svo það verður skemmtileg tilbreyting að túristast um Brussel og nágrenni í góðum félagsskap. Þangað til verð ég hinsvegar á haus í ritgerðinni því það er ekki seinna vænna að komast vel af stað þar.

Að lokum sendi ég hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins en Daníel komst víst í fullorðinna manna tölu í dag. Til hamingju með daginn frændi!

26 maí 2009

Þrumuveður

Eitt mesta þrumuveður í áraraðir gekk yfir Belgíu í nótt og má sjá frekari fréttir og myndir hér. Lest fauk af teinunum, tré rifnuðu upp með rótum og um 30.000 eldingar létu sjá sig. 10.000 af þeim létu til sín taka á jörðu niðri og kveiktu meðal annars í einu húsi. Hávaðinn var víst rosalegur og var eins og himinn og jörð væru að farast í þá 3 tíma sem veðrið gekk yfir. Ég rumskaði hinsvegar ekki við lætin og svaf bara vel í nótt. Það má til gamans geta að ég vakna við minnsta hljóð í símanum mínum en svo tekst mér að sofa af mér heilt þrumuveður. Skemmtilegt.

25 maí 2009

Status Update

Maður er búinn að eiga hálfgert letilíf síðan að prófunum lauk í síðustu viku. Ég tók mér tveggja daga pásu og hafði það bara notalegt áður en ég tók upp bækurnar á ný og fór að lesa og undirbúa mastersritgerðina. Hef nú samt verið að því í hálfgerðum rólegheitum. Veðrið hefur verið upp á sitt besta í Brussel undanfarna daga og ég kom mér vel fyrir á veröndinni með bækurnar. Keypti mér svona sólbekk til þess að geta nú legið og haft þetta almennilegt! Ég var nú ekki tilbúin að spreða í rosa græju svo þetta er hálfgerður garmur en ég krossa bara fingur að hann dugi undir rassinn á mér þangað til ég kem heim. Ég var ansi rjóð á bringunni og handleggjunum eftir einn sólardaginn og ákvað að fjárfesta í sólarvörn og after sun til þess að verða nú frekar frískleg en brunnin. Það er svo bara vonandi að maður fái sem flesta sólardaga í sumar svo maður geti nú notið þess að vera í útlandinu.

Annars er mest lítið í fréttum héðan af meginlandinu fyrir utan það að það kviknaði víst í Commissioninni í síðustu viku. Það fór nú samt algjörlega fram hjá mér. Við ætlum að hittast nokkur úr skólanum og horfa á úrslitin í Meistaradeildinni á miðvikudaginn og svo er hálfgerð árshátíð skólans á föstudaginn, svokallaður international dinner. Ætti að verða gaman þar. Svo er ég bara að reyna að búa mér til góða rútínu svo að ég komist nú vel í gírinn með ritgerðarvinnuna og nái að verða komin heim fyrir Þjóðhátíð. Það væri toppurinn að skila ritgerðinni og mæta beint í Dalinn til að halda upp á það. Lífið er yndislegt á Þjóðhátíð í Eyjum. Það er nú bara þannig.

19 maí 2009

Búin í prófum!

Jæja, þá eru prófin búin og þessum hluta námsins þar með lokið. Ekkert nema mastersritgerðin eftir. Prófin gengu ágætlega, annað mun betur en hitt en ég á ekki von á öðru en ég nái öllu saman. Núna er planið að taka smá pásu frá öllu sem heitir skóli áður en ég helli mér út í rannsóknarvinnu fyrir ritgerðina. Það er bara vonandi að veðrið haldist gott á meðan en mér skilst að það sé búið að vera mun betra heima heldur en hérna úti. Ekki það að hér sé eitthvað skítaveður, milt og gott sumarveður bara en sólin mætti sýna sig meira.

Þrátt fyrir próflestur skellti ég mér í Eurovision partý á laugardaginn. Bresk stelpa í skólanum var með partý og það fór mest fyrir Grikkjunum sem mættu málaðir í fánalitunum til að styðja hann Sakis sinn. Íslenska lagið féll ekki alveg í kramið hjá hópnum sem var ekki mikið fyrir svona ballöður og sama má eiginlega segja um norska lagið. Ég og Rosanna (frá DK) skemmtum okkur langbest yfir stigagjöfinni þó svo að Danir hafi svo sem ekki riðið feitum hesti frá keppninni (hún ætlar aldrei aftur til Svíþjóðar því Svíar gáfum Dönum engin stig í ár..). Grikkirnir voru með svaka keppnisskap og það voru rosaleg viðbrögðin þegar einhverjar vinaþjóðirnar "svikust" um að gefa þeim 12 stig - ég tala nú ekki um ef tólfan fór til Tyrklands. En litla Ísland stóð svo sannarlega fyrir sínu og þjóðarstoltið náði nýjum hæðum. Það lærðu allir að segja Áfram Ísland og Heija Norge fékk að hljóma inn á milli. Frábært kvöld!

En jæja, ég er farin út í góða veðrið og ætla að njóta þess að vera laus við allan próflestur. Þangað til næst.

10 maí 2009

Mætt aftur til Brussel

Þá er góðu fríi á Íslandi lokið og ég er mætt aftur til Brussel. Ferðalagið gekk bara vel fyrir utan smá flugveiki. Já flugveiki, ótrúlegt en satt. Ég hefði ælt ef flugvélin hefði verið í loftinu mínútu lengur en það var talsverð ókyrrð í aðfluginu að Schiphol. Ekkert alvarlegt samt en nóg til þess að triggera þessa skemmtilegu aukaverkun að hormónunum mínum sem ég á það til að finna fyrir þegar það er farið að líða að næsta skammti. Hef meira að segja orðið "bílveik" í metróinu hérna úti. Mjög skemmtilegt. Annars átti ég mjög góðar stundir heima á Klakanum og komst ekki yfir allt sem ég ætlaði að gera, náði ekki að hitta alla sem planað var að hitta eða heyra í þeim sem áætlað var að heyra í. En svoleiðis er lífið bara og núna er málið að hella sér af fullum krafti út í seinustu törnina og kveðja svo Brussel sátt.

Á morgun á ég að skila 4 ritgerðum sem eru að mestu leyti klárar. Þarf að fínisera smá í fyrramálið áður en ég skutla þeim í skólann. 18. og 19. maí eru svo próf þannig að næsta vika fer í að læra fyrir þau. Eftir það kem ég aðeins til með að hafa eitt verkefni og það er mastersritgerðin. Henni á að skila 10. ágúst en ég ætla mér að hafa ritgerðina klára í lok júlí og vera flutt heim til Íslands fyrir Verslunarmannahelgi. Það má svo búast við að hin árlega Þjóðhátíðarveiki verði farin að gera vart við sig á þeim tíma og aldrei að vita nema maður skelli sér á sína 10. Þjóðhátíð. Við sjáum til ;-)

En þetta er orðið gott í bili enda langur dagur og margir kílómetrar að baki. Bestu kveðjur heim.

05 maí 2009

Hún Rakel litla systir mín á afmæli í dag og er víst orðin 24 ára þó svo að ég hafi ekki hugmynd um hvernig hún fór að því að verða svona gömul... Það er eitthvað lítið af myndum af henni á vinnutölvunni en ég fann þessa ágætu mynd af okkur systrum sem var tekin á Marmaris á sínum tíma. Til hamingju með daginn elsku Rakel og hafðu það gott í dag :-)

02 maí 2009

Status Update

Það er kannski við hæfi að láta vita af sér hérna. Mér finnst ég ekkert þurfa að vera á netinu þegar ég er á Íslandi og það er svo lítið mál að hafa samband við alla. Annars hefur tíminn hreinlega flogið og bara rétt rúm vika í Brussel. Ég er búin að vinna, heimsækja mann og annan, passa litla púka og er núna að klára að ganga frá ritgerðunum fjórum sem á að skila 11. maí. Það verður að segjast eins og er að það er hreinlega fullt starf og rúmlega það að koma svona heim í frí, svo þétt hefur planið verið. En seinasta hollið er framundan og ég ætla að njóta þess að vera úti í belgíska sumrinu. En það er vika þangað til svo þeir sem ég hef ekki hitt ennþá hafa smá tíma til að ná í skottið á mér. Þangað til næst.

20 apríl 2009


Stóra systir mín á afmæli í dag og aldurinn er auðvitað algjört aukaatriði. Til hamingju með daginn og hafðu það gott í dag!

12 apríl 2009

Málsháttur dagsins

Hálfnað verk þá hafið er. Gleðilega páska!

08 apríl 2009

Brussel - Amsterdam - Keflavík - Mosfellsbær

Þá er að verða komið að langþráðri heimferð. Lestin fer frá Midi stöðinni kl. 7.52 í fyrramálið og ég fæ að bíða aðeins á Schiphol þangað til ég kemst í flugvélina og legg af stað til Íslands. Stóru ritgerðirnar eru klárar og ég á bara eftir smotterísfrágang á minni ritgerðunum sem ég hreinlega nennti ekki að gera í gær. Ég mæti í vinnu strax á föstudaginn langa og mér fannst ég eiga skilið að fá tvo daga í að slæpast áður en ég færi í bókhaldið aftur. Ég fer í allra síðustu kennslustundina í mastersnáminu á eftir og Liverpool heldur vonandi upp á það fyrir mig með því að vinna á Anfield í kvöld. Annars virðist Brussel ætla að kveðja mig með grenjandi rigningu - svona svo ég sakni hennar örugglega ekki. Annars skilst mér að ég og bleika sumarkápan mín munum mæta í snjó á Klakanum á morgun en við komum allavegana ekki til með að týnast í snjónum svo maður líti á björtu hliðarnar.

Mamma er búin að biðja mig um að taka ekki of mikið af fötum með heim. Jájá. Ég hef allavegana gert mitt besta til þess að ákveða í hvaða fötum ég ætla að vera næstu fjórar vikurnar og svo krossa ég bara fingur að það rúmist innan þeirra 20 kílóa sem maður má fljúga með. Alltaf jafn skemmtilegt verkefni. Annars sjáumst við bara á Íslandinu á morgun. Gleðilega páska :-)

05 apríl 2009

Aaaalveg að koma heim!

Ég er hvorki týnd né tröllum gefin, bara niðursokkin í ritgerðir og þá eyðir maður ekki tímanum í að blogga. Á 1600 orð eftir af seinustu ritgerðinni og það er á stefnuskránni að klára hana í dag. Ætla svo að lagfæra fyrstu ritgerðina mína í vikunni áður en ég fer heim á fimmtudaginn og gera hana betur klára undir skil. Svo er málið bara að þvo og skrúbba íbúðina og þá verð ég klár í heimferð. Sjáumst á Klakanum eftir 4 daga :-)

29 mars 2009

Aldarminning

Mamma er ekki sú eina sem á afmæli í dag því að hún Magga amma, sem langömmukerran mín er jafnan kennd við, hefði orðið 100 ára í dag hefði hún lifað. Hún fæddist á Litlabæ í Skötufirði en Litlabæ má sjá á myndinni hérna fyrir ofan. Af þessu tilefni verður ættarmót hjá afkomendum Möggu ömmu og Sigurgeirs afa í sumar og vonandi næ ég að mæta þangað. Annars er ég viss um að Magga amma er með mér og kerrunni í anda þó svo ég sé komin ansi langt frá Vestfjörðunum.



Megi guð blessa minningu Möggu ömmu og Sigurgeirs afa.

Elsku besta mamma mín á afmæli í dag og það er auðvitað löngu hætt að skipta máli hvað hún er gömul. Ég sendi hamingjuóskir heim á klakann í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn elsku mamma og hafðu það alveg svakalega gott í dag :-)

23 mars 2009

Is International Law a Good Predictor of State Behaviour?

Er að leita að frekari heimildum um þetta efni til þess að geta rumpað af næstu ritgerð. Þegar ég sló inn "international law" í Jstor gagnagrunninn fékk ég upp þó nokkrar greinar um samskipti tengdamæðra við tengdadætur sínar. Maður hlýtur að draga af því þá ályktun að það sé alþjóðlegt lögmál að þau samskipti séu ekki alltaf upp á marga fiska.... Eða hvað?


19 mars 2009

Hvað er lýðræði?

Það var hittingur hjá Marty í kvöld og umræðuefni kvöldsins var hvort að lýðræði væri töfralyfið við vandamálum heimsins. Aldrei þessu vant vorum við ótrúlega sammála og það var enginn til í að kvitta upp á það að lýðræði væri allra meina bót. Hinsvegar vorum við sammála um það að lýðræðið væri það besta sem við ættum, hversu meingallað sem það kynni að vera. Þetta voru mjög skemmtilegar pælingar, bara það til dæmis að velta því fyrir sér hvaða gildi samfélag þyrfti að hafa til þess að geta talist lýðræði. Gildi eins og skoðanafrelsi, kosningaréttur og frjáls fjölmiðlun. Sem sagt ekki þessi hefðbundna þrískipting ríkisvalds sem maður lærir um í skólanum heldur bara hvernig lýðræðisleg samfélög eru í raun og veru. Í lýðræðisríkjum ræður til dæmis meirihlutinn, samt eru mýmörg dæmi um það að forsetar komist til dæmis til valda án þess að hafa meirihluta þjóðarinnar á bakvið sig og stjórnmálaflokkar sem meirihlutinn gaf ekki atkvæði sitt geta setið í ríkisstjórn kjörtímabil eftir kjörtímabil. Er það lýðræði? Á að vernda minnihlutahópa sérstaklega þegar þeir verða áþreifanlega undir, eða á meirihlutinn alltaf að ráða? Á að vera herskylda/þegnskylda?

Ég hef ekkert legið á því að mér finnst íslenskt samfélag vera siðferðislega gjaldþrota. Skítt með peningana, við getum unnið okkur út úr því og komið okkur réttum megin við núllið. Það verður hinsvegar miklu meira mál að ná ærunni aftur. Að öðlast virðingu annarra þjóða og komast á það stig að við sem þjóð getum borið virðingu fyrir okkur sjálfum á nýjan leik. Menn eru að karpa um stjórnlagaþing og hvað það kostar en ég spyr á móti, hvað kostar að gera það ekki? Eftir umræðu kvöldsins er ég samt ekkert sérstaklega hlynnt því að það verði kosið til einhvers stjórnlagaþings þar sem hlutirnir verða ákveðnir fyrir okkur. Ég held að það hafi allir Íslendingar gott af því að velta því fyrir sér hvað lýðræði er í þeirra huga og hvort og þá hvernig sú skilgreining eigi við íslenskt samfélag í dag. Ég held að það væri líka áhugavert að nota lífsleiknitíma grunnskólanna til þess að leyfa börnunum að velta því fyrir sér hvað lýðræði er og heyra hvaða pælingar þau hafa.

Við þurfum nefnilega að ákveða í hvernig samfélagi við viljum búa og hvaða gildi við viljum halda í heiðri og það kemur flokkapólitík ekkert við. Ég get ekki ímyndað mér að það þurfi að kosta svo mikla peninga að búa til opinn umræðuvettvang fyrir fólkið í landinu um hvað lýðræði er og hvernig við viljum hafa það. Væri jafnvel hægt að nýta eitthvað af því fólki sem er á atvinnuleysisskrá til þess að halda utan um þær hugmyndir sem þar koma fram og stýra svona verkefni. Auk þess eigum við Ríkisútvarp og sjónvarp sem getur miðlað upplýsingunum áfram til fólksins í landinu og stækkað umræðuvettvanginn enn frekar. Það er fólkið sem skapar samfélagið og ef það þarf að endurbyggja það þá er það fólkið sjálft sem þarf að vinna vinnuna. Við þurfum ekki tveggja milljarða stjórnlagaþing. Við þurfum bara að taka höndum saman og ákveða hvernig við viljum að Nýja Ísland verði. Fólkið í landinu er mesti auðurinn sem Ísland á og það á að fá að taka þátt í því að endurbyggja nýtt samfélag í landinu. Í mínum huga er það lýðræði.

17 mars 2009

Já auðvitað...

Nektardans og tískusýningar eru auðvitað sami hluturinn... Ef mig misminnir ekki lét þessi ágæti maður líka hafa það eftir sér einhvern tíman að hann væri að gera mikið góðverk með því að flytja inn stelpur frá austantjaldslöndunum til þess að strippa fyrir sig. Væri að bjarga þeim frá bágum kjörum í heimalandinu. Og það er náttúrulega það sem allt góðhjartað fólk gerir, lætur þá sem eru í nauð strippa fyrir peninga. Kemur mansali nákvæmlega ekkert við! Auðvitað...

15 mars 2009

Status Update

5.000 orð af 16.000 klár og eitt stykki ritgerð þar með komin í hús. Ætla að taka mér pásu frá lærdómi í kvöld og byrja á því að tækla næstu 5.000 orð sem eru á dagskrá á morgun. Er búin að breyta örlítið um efni þar til þess að nýta mér heimildavinnuna sem fór í fyrstu ritgerðina. Var að klára hlutverk Georgíu í samskiptum ESB og Rússlands og byrja á samskiptum ESB og Georgíu á morgun. Lítið annað í fréttum þar sem ég sit og skrifa flesta daga á milli þess sem ég tala við sjálfa mig og kettina sem mæna reglulega inn um gluggann hjá mér. Já og mæti í skólann auðvitað, má ekki gleyma því!

08 mars 2009

Vorið er komið og grundirnar gróa

Þá held ég að ég geti að vorið sé komið til Brussel. Á minn mælikvarða allavegana. Lækkaði á ofninum í íbúðinni áðan í fyrsta skiptið síðan það fór að kólna í haust og ég er hætt að vera undir sæng á meðan ég er að læra. Að vísu segja skólafélagar mínir að vorið sé á næsta leyti, það sé ekki alveg komið en ég er ekki jafn kröfuhörð á skilgreiningarnar. Það eru ekki nema rétt rúmar 4 vikur í næsta frí svo ég er farin að huga að því sem ég þarf að klára áður en ég fer heim. Ber þar helst að nefna þessar blessuðu ritgerðir, þarf að koma 16.000 orðum á prent fyrir 9. apríl. Er komin með sirka 700 svo ég get allavegana sagt að ég sé byrjuð. Sló hlutunum hinsvegar upp í kæruleysi í gær og skellti mér á djammið. Austurrísk vinkona mín var með partý og það voru þó nokkrir úr skólanum þar. Fórum svo á stað sem heitir Ethnic sem er víst vinsæll djammstaður hjá krökkunum í skólanum. Segir allt sem segja þarf um djammið á mér hérna úti að ég hef aldrei farið þangað áður.

Það spilaði þó stóra rullu að ég skellti mér þangað eftir partýið að staðurinn er hérna uppá Louise svo ég gat labbað heim. Afar hentugt. Það verður þó líklegast ekki mikið meira djamm til viðbótar áður en ég fer heim því ég hef bara 4 helgar til að skrifa þau 15.300 orð sem mig vantar upp á til að klára verkefni annarinnar. Það verður því ræs snemma í fyrramálið og sett í fluggírinn í skriftunum.

05 mars 2009

Ísland og ESB

Það var FPA í dag eins og venjulega á fimmtudögum. Á ákveðnum tímapunkti barst umræðan að Íslandi og ESB og kennarinn sagði að Ísland yrði væntanlega búið að sækja um aðild innan skamms. Ekki í fyrsta sinn sem ég heyri þetta hérna úti en núna ákvað ég að gjamma inn í og sagði kennaranum að það væri orðum aukið því nýjustu skoðanakannanir sýndu að meirihluti landsmanna væri andvígur aðild að ESB. Hann varð hissa á því og hafði ekkert heyrt af því í fjölmiðlum á Bretlandi eða hérna á meginlandinu.

Ég hef notað tímann síðan ég kom hingað út til að viða að mér upplýsingum um ESB til þess að geta myndað mér skoðun á málinu. Það verður að segjast eins og er að fréttaflutningur heima á Íslandi er dáldið úti á túni í þessum efnum og eiginlega ekki hægt að mynda sér skoðun með því að byggja aðeins á honum. En núna er ég hinsvegar komin að niðurstöðu og ég held að það væri með því vitlausasta sem Íslendingar gerðu á þessum tímapunkti að sækja um aðild.

Í fyrsta lagi er líka kreppa í ESB. Við þurfum ekki nema að horfa til Írlands til að sjá það að Evran bjargar ekki öllu og það er ekki útséð með hvernig málin eiga eftir að þróast þar í landi. Eistrarsaltslöndin eru með gjaldmiðlana sína "peggaða" við evruna og þau eru ekki í góðum málum svo ekki sé vægar tekið til orða. Þar hafa heimilin, líkt og á Íslandi, tekið lán í stórum hluta í erlendri mynt hjá evrópskum bönkum, aðallega austurrískum og ítölskum. Gjaldmiðlarnir þeirra hafa fallið líkt og íslenska krónan og lánin þeirra þar með rokið upp úr öllu valdi. Alveg eins og á Íslandi. Margir evrópskir bankar, aðallega í Austurríki og á Ítalíu, hafa lánað í stórum stíl til Austur Evrópu og háar upphæðir koma til með að gjaldfalla í ár. Það er ekki útlit að hægt verði að greiða þau lán og afleiðingarnar gætu verið rosalegar, sérstaklega fyrir Austurríki. Þá er einnig vert að minnast á það að ýmis lönd ESB eru að glíma við mikla alvarleika í sínu efnahagslífi, t.d. Spánn og Grikkland.

Það er því ekki útséð með það hvernig fjármálakreppan á eftir að leika ESB. Þetta er í raun fyrsti alvarlegi atburðurinn sem löndin 27 standa frammi fyrir að þurfa að leysa og nú reynir á hversu sterk böndin á milli ríkjanna eru. Sarkozy hafði ekki fyrir því að funda með fulltrúm allra aðildarríkjanna þegar kreppan kom upp og kallaði bara til sín fulltrúa stærstu fjögurra ríkjanna. Ég man að forsætisráðherra Finnlands kvartaði þá yfir því að Sarkozy hefði ekki haft fleiri með í ráðum. Menn töluðu þá um samhæfðar aðgerðir en það hefur farið minna fyrir þeim og hver hefur verið að bardúsa í sínu horni. Nú eru Tékkar með forsæti yfir ESB. Þeir hafa boðað til funda út af ástandinu og maður verður að sjá hvað kemur út úr því. Það verður fróðlegt að sjá hvort forysta þeirra er nógu sterk til þess að taka almennilega á vandanum.

ESB glímir við önnur vandamál fyrir utan fjármálakreppuna. Eftir að Rúmenía og Búlgaría gengu í sambandið árið 2007 er mansal orðið að veruleika INNAN sambandsins. Háværar raddir eru um það að stækkanirnar árin 2004 og 2007 hafi verið vanhugsaðar og ríkin sem þá komu inn í raun ekki tilbúin til þess að ganga í sambandið. Bæði voru þau flest nýorðin sjálfstæð og þau voru ekki komin langt á veg í þróun lýðræðis. Auk þess vantaði upp á að þau væru orðin nógu ESB-vædd ef hægt er að taka svo til orða, þe. þau viðmið og gildi sem ESB hefur í hávegum voru ekki orðin nógu stór hluti af menningu ríkjanna til þess að aðildin gengi smurt fyrir sig. Vegna þessara vandamála eru margir á þeirri skoðun að ekki eigi að stækka ESB frekar en orðið er næstu ár og jafnvel áratugi. Halda eigi áfram því ferli sem Króatía og Tyrkland eru í en síðan ekki söguna meir fyrr en löndin á Balkanskaganum verða orðin nógu þróuð til þess að hægt sé að fara í formlegt aðildarferli.

Vissulega er Ísland nær ESB í viðmiðum og gildum en lönd Austur Evrópu. Við yrðum minnsta aðildarríki sambandsins og hlutfallslega myndu fylgja því nokkur áhrif á Evrópuþinginu þar sem íslenskir Evrópuþingmenn væru með færri kjósendur á bakvið sig en í stærri löndum. En litlu löndin sem eru nú þegar í ESB, og eru flest mun fjölmennari en Ísland, kvarta yfir því að hafa ekki nógu mikil áhrif. Þær vaða ekki svo auðveldlega í Þýskaland, Frakkland, Bretland og Ítalíu þegar stóru þjóðirnar eru búnar að ákveða hvernig hlutirnir eiga að vera. Þrátt fyrir að allt hafi hrunið á Íslandi, hefur fólk áhuga á því að þessar fjórar þjóðir hafi eitthvað með það að segja hvað við gerum? Ísland á sína bandamenn innan ESB en það þýðir ekki að okkur verði tekið fagnandi og með opnum örmum ef við sækjum um. Þegar ég sagði danskri vinkonu minni hérna úti að ég væri ekki hlynnt því að Ísland færi þarna inn fékk ég yfir mig reiðilestur. Ísland mætti þakka fyrir það að það væri einhver áhugi hjá ESB fyrir því að taka við okkur. Við gætum sjálfum okkur um það kennt að allt hefði farið til fjandans hjá okkur og hefðum reynt að rústa Danmörku í leiðinni. Hefur einhver áhuga á því að fara þarna inn á þessum formerkjum?

Ég gat svo sem kvittað undir það með þessari vinkonu minni að við gætum sjálfum okkur um kennt. Þess vegna þurfum við sjálf að koma okkur út úr þessu og standa upp á lappirnar aftur. ESB býður okkur engar töfralausnir. Það sem við þurfum að gera er að standa saman sem þjóð og koma okkur í gegnum þetta. Það vita allir að það verður töff en ég held að það efist enginn Íslendingur um það að við förum í gegnum þessa kreppu og stöndum sterkari á eftir. Það má svo endurmeta það hvort það sé ástæða til að sækja um aðild þegar við erum komin á lappirnar aftur. Núna eigum við hinsvegar einfaldlega nóg með okkar og eftir því sem best verður séð, á ESB líka fullt í fangi með sitt.

02 mars 2009

Einelti og ofbeldi

Mikið svakalega var það óheppilegt af skólastjóra Sandgerðisskóla að láta hafa það eftir sér að of mikið væri gert úr árásinni sem átti sér stað á skólalóðinni þar fyrir helgi. Auðvitað hlýtur þetta atvik að eiga sér sögu sem á ekki erindi til fjölmiðla og hún sem skólastjóri getur ekki sagt frá en það breytir ekki alvarleika málsins. Ef henni þykir svo of mikið gert úr þessu þá hlýtur maður að spurja sig hvað hún telji nógu alvarlegt til þess að fjölmiðlar fjalli um það með þeim hætti sem nú hefur verið gert. Þessi skólastjóri er hinsvegar ekki í öfundsverðri stöðu. Skólakerfið er ekkert að kikna undan úrlausnum í svona málum. Hún getur jú vísað drengjunum úr skóla í einhvern tíma en það tekur ekki á rótum vandans og getur jafnvel í versta falli aukið á hann.

Einelti og annað ofbeldi hefur alltaf verið soldið afgangs í íslensku skólakerfi og mýmörg dæmi um eineltismál sem skólar hafa höndlað alveg skammarlega illa. Menn virðast ýta þessu dáldið á undan sér og ég leyfi mér að efast um það að menn hafi einhvern tíman sest niður og reynt að horfa á úrlausnarefni á heildstæðan hátt. Vissulega var Olweusaráætlunin trend sem fór víða en málin fara ekki alltaf í góðan farveg þó svo maður hafi voða fína áætlun um hvernig maður ætlar að taka á þeim. Ég ætla þó ekki að níða skóinn af starfsfólkinu innan skólakerfisins þrátt fyrir að þeir hafi oft á tíðum staðið sig afar illa í þessum málum. Kennarar fá enga þjálfun í námi sínu til þess að takast á við einelti, ofbeldi eða erfiðar félagslegar aðstæður nemenda. Kennaranámið snýst bara um þau fög sem á að kenna og það vantar hreinlega alla praktík í námið. Kennarar hafa því litlar forsendur til þess að taka á erfiðum málum á faglegan hátt. Þrátt fyrir það held ég að menn reyni alltaf að gera sitt besta þó svo að aðstæðurnar séu oft erfiðar og það megi deila um árangurinn.

Það eru þó til ljós í myrkrinu. Í Kennó var ég í tímum hjá konu, Kristínu Lilliendahl, sem hefur stúderað einelti á meðal stelpna, svokallaða félagslega ýga hegðun (social agression, varla hægt að þýða þetta á íslensku en ýg hegðun er fræðiheitið). Stelpur nota nefnilegast aðrar aðferðir við að leggja í einelti en strákar. Þær lemja síður en baktala, útiloka frá hópnum og nota aðrar þvíumlíkar aðferðir. Myndin Mean Girls með Lindsey Lohan er byggð á bókinni Queen Bees and Wannabees sem fjallar akkúrat um þetta. Þetta skrifaði ég um í lokaritgerðinni minni í Kennó og svo sem ekkert af ástæðulausu enda verið fórnarlamb svona aðfara sjálf. Það er ekkert djók að upplifa það, máttur kjaftasagna og félagslegrar útilokunar er mikill. Það var ein manneskja í Bolungarvík sem stóð með mér í gegnum þetta tímabil. Ein. Þeir eru svo teljandi á fingrum annarrar handar sem sáu ástæðu til þess að biðja mig afsökunar á framferði sínu eftir á. Allt mátti þetta rekja til einnar manneskju og ég veit að hún tók fleiri fyrir en mig.

Þrátt fyrir að þetta hafi allt átt sér stað eftir að minni grunnskólagöngu var lokið hefði skólinn sem slíkur getað gert ýmislegt með fyrirbyggjandi aðgerðum. Bara með því að hafa stúderað þetta í lokaritgerðinni get ég spottað svona týpur nánast um leið og ég hitti þær og ég veit hvar ég get leitað mér upplýsinga um leiðir til þess að tækla þær á jákvæðan máta. Höfundur Queen Bees and Wannabees hefur unnið mikið starf í Bandaríkjunum og það er nánast óplægður akur á Íslandi að vinna fyrirbyggjandi vinnu í þessum málum t.d. í gegnum Lífsleikni kennslu. Markmiðið með ritgerðinni á sínum tíma var að vekja athygli á efninu og við vonuðum að einhverjir myndu fylgja í kjölfarið og vinna ítarlegri greiningu á þessum málum á Íslandi. Kristín hefur unnið mikið og gott starf og hefur verið óþreytandi við að vekja athygli á þessum málum. Ritgerðin okkar er svo til á bókasafni Kennó og ég á hana líka til á tölvutæku formi.

Það er því margt hægt að gera og margt í boði. Rosalind Wiseman, höfundur Queen Bees and Wannabees, býður t.d. kennurum upp á námskeið í aðferðum hennar við að tækla félagslega ýga hegðun. Kennarar og skólayfirvöld verða hinsvegar að hafa frumkvæði að því að sækjast eftir slíku efni sjálf. Því miður. Vonandi verður þessi stutti pistill hvati að því að einhverstaðar fari bolti af stað.

01 mars 2009

Ritgerðir enn og aftur

Er búin að nota helgina í að skoða heimildir og melta ritgerðarefni. Ég ákvað að láta tvær smærri ritgerðir bíða örlítið og fókusera á að finna efni í þær tvær stóru sem ég þarf að skrifa sem og að njörva betur niður efni í mastersritgerðina. Í EU in the World ætla ég að skrifa um tengsl ESB og Úkraínu og fókusera sérstaklega á það að Úkraína vonast sterklega til þess að verða aðildarríki ESB þrátt fyrir að það sé kveðið skýrt á um það í stefnusamningi um samskipti ríkjanna að slíkt sé ekki í boði. ESB er að senda Úkraínu frekar misvísandi skilaboð í þessum efnum og þar sem afar ólíklegt verður að teljast að ESB verði stækkað mikið frekar í bili þá held ég að þeir þurfi að hugsa út fyrir rammann og bjóða Úkraínumönnum aðra gulrót.

Í European Foreign and Security Policy ætla ég að skrifa um tengsl Rússlands og ESB. Fór á málþing um þetta á miðvikudaginn þar sem tveir virtir fræðimenn sem höfðu gjörólíka afstöðu til málsins töluðu. Það var mjög fróðlegt að hlusta á þá og þær umræður sem sköpuðust í kjölfarið. Mönnum ber engan vegin saman um hvort að ógn stafi af Rússum eða ekki og því ætti að verða fróðlegt að kafa frekar ofan í þetta. Sérstaklega með tilliti til veru Íslands í Nató. Ef það er engin ógn frá Rússlandi hvers vegna á Ísland þá að eyða fullt af peningum í aðild að Nató? Sérstaklega á þessum síðustu og verstu.

Í mastersritgerðinni ætla ég svo að skrifa um læsi og mikilvægi þess í fullorðinsfræðslu sem hluta af þróunaraðstoð. Ísland hefur unnið að slíku verkefni í Úganda og ég ætla að skoða það nánar og nota í ritgerðinni. Í mínum huga er þetta kjarninn í þróunaraðstoð og fyrsta skrefið í því að hjálpa fólki til að hjálpa sér sjálft. Menn geta rétt ímyndað sér hvaða dyr opnast hjá fólki þegar það hefur lært að lesa og skrifa. Ekki einungis í beinni þekkingarleit heldur bara í daglegu lífi. Menn geta lesið á umferðarskilti, utan á umbúðir, aflað sér upplýsinga um almennt hreinlæti og svo mætti lengi telja.

Þetta hefur því verið frekar róleg helgi. Það var hittingur hjá Marty á fimmtudagskvöldið sem var skemmtilegur að vanda. Það má segja að við séum þar að vinna meðvitað gegn group thinking. Við erum sjaldnast sammála um það sem við erum að ræða og ef við erum of sammála er alltaf einhver sem tekur það að sér að hleypa lífi í umræðuna og finna rök á móti. Það nýtist sumum t.d. í mastersritgerðunum þegar við höfum talað um efni sem þeir ætla að skrifa um. Það er mjög gagnlegt að heyra sjónarmið sem ganga gegn þeim málflutningi sem maður hefur sjálfur og geta þar með gert ráð fyrir hluta af þeirri gagnrýni sem ritgerðin getur fengið. Það geta nefnilegast allir dottið í group thinking og orðið samdauna sínum eigin rökum. Þó svo að Chavez og Mugabe séu ýkt dæmi þá þýðir það ekki að allir séu jafn ýktir og þeir. Geir Haarde var t.d. klárlega fastur í eigin hugsun og má alveg færa rök fyrir því að það hafi fellt ríkisstjórnina. Á meðan Ingibjörg Sólrún kom með mjög klárt pólitískt move og tefldi Jóhönnu fram sem forsætisráðherraefni þá var Geir fastur í því hvernig hlutirnir hafa alltaf verið gerðir og var ekki til umræðu um annað. Ef hann hefði getað horft á hlutina öðrum augum þá hefði stjórnin líklega haldið.

En ég græt það svo sem ekki, íhaldið má vera í hvíld frá ríkisstjórn næstu áratugina mín vegna :p Maybe I should have verða líklega eftirmæli Geirs í pólitík. Stutt og laggóð. En ég á víst að vera að horfa meira til Rússlands en Íslands akkúrat núna. Ætla að halda áfram með lærdóminn. Þangað til næst.

28 febrúar 2009

Litli frændi minn, hann Sigurgeir Sturla, á afmæli í dag og er orðinn 17 ára drengurinn og bílprófið því á næsta leiti. Ég sendi hamingjuóskir í Grundarfjörðinn í tilefni dagsins. Hafðu það gott í dag frændi!

26 febrúar 2009

Victims of Group Thinking

Ég var í Foreign Policy Analysis í dag og þar var meðal annars fjallað um group thinking. Ég held að Bjarni Ármanns hafi íslenskað það ágætlega í Kastljósviðtali sem hjarðhegðun. Leiðtoginn leggur línurnar og þeir sem eru í kringum hann samsinna öllu sem hann segir. Ekki endilega gegn betri vitund, heldur "hrífast" menn með andrúmsloftinu og leiðtoganum og hugsa ekki á gagnrýnin hátt um stefnu hans eða það sem um er rætt. Eru svo fastir í eigin hugsun að þeim tekst ekki að hugsa út fyrir rammann og sjá önnur sjónarmið. Dæmi um slíka hjarðhegðun má sjá í Zimbabve hjá Mugabe. Þeir eiga væntanlega ekki auðvelt uppdráttar sem tala gegn stefnu hans þar í landi. Annað dæmi er Hugo Chavez í Venesúela og Bush í Bandaríkjunum.

Íslendingurinn í mér glotti undir þessum umræðum. Davíð Oddsson er gott íslenskt dæmi um hjarðhegðun sem og sú pólitík sem hefur verið stunduð á Íslandi síðustu 20 ár eða svo. Flokkarnir eru flestir ef ekki allir fastir í eigin hugsun, geta ekki hugsað út fyrir rammann sem þeir hafa sett sér og er fyrirmunað að setja sig í spor annarra og skilja sjónarmið þeirra. Íslensk stjórnmál eru victims of group thinking - á góðri íslensku. Fyrir þá sem vilja lesa sér meira um þetta er bent á bók eftir Irving Janis sem heitir einmitt Victims of Group Think.

Þegar ég kom svo heim úr skólanum sá ég það í fjölmiðlum að pabbi hefði sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Viðbrögð við því voru nokkuð fyrirsjáanleg og hafa sést áður. Flokkaflakkari sem á ekkert erindi í pólitík. Rekst ekki vel í flokki. Stendur á sinni sannfæringu. Í ljósi lærdóms dagsins þá spyr ég mig hvort það sé betra til eftirspurnar, miðað við stöðu íslenskra stjórnmála í dag, að hafa fylgt hjörðinni eftir gagnrýnislaust eða að hafa synt á móti straumnum og rekist illa í flokki? Hvort er auðveldara að láta sig fljóta með straumnum eða synda á móti honum og standa á sínu? Í mínum huga er það alveg ljóst að hjörðin má missa sín á Alþingi. Við þurfum hinsvegar á hinum að halda, sem þora þegar aðrir þegja, hvar í flokki sem þeir standa.

Pabbi hefur að mínu mati unnið vinnuna sína vel síðan hann fór inn á þing. Staðan hefur oft verið tæp en ég held að ástæðan fyrir því að hann hefur alltaf farið inn aftur sé sú að hann vinni vel fyrir sitt kjördæmi. Þegar fólk veit hvurra manna ég er fæ ég oft að heyra ýmsar sögur af pabba. Sú nýjasta sem ég heyrði var að hann hafi verið eini þingmaður kjördæmisins sem hafi svarað þeim málefnum sem send voru til hans (og allra annarra þingmanna kjördæmisins) og reynt að stuðla að framgangi þess málaflokks inn á þingi. Sá aðili sem sagði mér þetta hefur aldrei kosið pabba enda eiga þingmenn að vinna að hagsmunum fleiri en sinna eigin kjósenda. Eins og kjördæmaskipanin er í dag eiga þingmenn að vera málsvarar síns kjördæmis og ég held að það sé ekki hægt að taka það af pabba að þar hafi hann staðið sig vel.

Litlir fuglar hvísla svo að mér annað slagið að þeir hafi kosið pabba þó svo að það viti það enginn. Þeir koma undantekningalaust úr fjölskyldum þar sem allir eiga að kjósa sjálfstæðisflokkinn og það er nánast dauðasök að svíkja lit. Annað gott dæmi um hjarðhegðun. Þá verð ég alltaf voðalega fegin að eiga fjölskyldu sem dettur ekki í hug að segja mér hvað ég á að kjósa og þar sem virðing er borin fyrir mismunandi skoðunum. Ég hef sagt það áður að ég á ekki eftir að gráta þá stund þegar pabbi hættir í pólitík. Hinsvegar hefur aldrei verið jafnmikil þörf fyrir fólk á þingi sem getur staðið á sínu og hugsað á sjálfstæðan og gagnrýnin hátt. Þá er kannski bara ágætt að hafa aldrei verið fastur í viðjum hjarðhegðunar íslenskra stjórnmála. Flokkaflakkari er því ekki endilega það versta sem hægt er að vera.

23 febrúar 2009

Amma og Bogga


Flestir þeir sem þekkja mig vita að ég og amma mín og nafna erum miklar vinkonur. Við spjöllum saman í síma að minnsta kosti einu sinni í viku og höldum góðu sambandi þó svo að langt sé á milli okkar. Amma hefur meira að segja afrekað það að koma með mér á Þjóðhátíð, sælla minninga, en ég hef haft það fyrir sið að hringja í ömmu í brekkusöngnum og syngja með henni í gegnum símann. Ég reyndi nokkrum sinnum að hringja í ömmu í seinustu viku og aldrei var kellan heima. Ég var farin að velta því fyrir mér að lýsa eftir henni á blogginu eða Facebook en svo fann ég hana hjá Boggu.

Þær systur eru mjög nánar og eru hvor annarri mikill félagsskapur. Illa hefur það fram yfir ömmu og Boggu að eiga mest af börnunum sínum og barnabörnum ennþá í Víkinni. Bogga hefur hinsvegar bara Óla Svan og Öldu ennþá á staðnum en við erum öll flogin burt börnin og barnabörnin hennar ömmu. Það er því ómetanlegt fyrir þær að eiga hvor aðra að. Núna er Bogga að fara að flytja í Hvíta húsið til hennar ömmu. Ekki í sömu íbúð reyndar en núna verða þær undir sama þaki sem ég held að öllum sem að þeim standa finnist alveg frábært. Bogga er víst með svo fínan sturtuklefa í nýju íbúðinni að amma getur farið upp til hennar í sturtu. Þar er hinsvegar lítil aðstaða til þess að bjóða fólki í mat en þá er heppilegt að fara niður til ömmu og elda og borða þar. Ég efast ekki um að nýtingin á íbúðunum verður góð þó svo þær verði eflaust mikið inná gafli hjá hvor annarri.

Þegar ég verð gömul ætla ég að verða eins og amma og Bogga. Ég ætla að fara í sundið, göngutúrana og fara á böll á Ísafjörð eins og þær - þó svo þau séu um miðjan dag. Svo ætla ég að sauma, prjóna og elda og horfa á handboltann þegar landsliðið er að spila. Það er alveg pottþétt að mér á aldrei eftir að leiðast enda held ég að þeim leiðist sjaldan blessuðum. Ég skora á þá Bolvíkinga sem þetta lesa að gefa ömmu og Boggu gott knús frá mér næst þegar þeir rekast á þær. Bjóða þeim jafnvel upp í dans eða taka með þeim eins og eitt lítið lag. Þær hefðu bara gaman af því. Bestu kveðjur heim í Víkina til fjallanna minna og fólksins :-)

22 febrúar 2009

Ritgerðir og aftur ritgerðir

Þá er enn ein vikan að líða undir lok hérna í borginni. Þessi var nú með eindæmum róleg. Ég þurfti bara að mæta í skólann á þriðjudaginn þar sem búið var að gefa frí í tímunum sem ég er í á miðvikudögum og fimmtudögum. Næsta vika verður þó bara lengri fyrir vikið. Það verður tvöfaldur tími á miðvikudaginn til að vinna upp það sem við misstum úr í vikunni og þá er ég líka að fara á málþing um Rússland og Evrópusambandið. Fór fyrir tæpum hálfum mánuði á málþing um Afganistan og Pakistan sem var mjög fróðlegt og málfundurinn um Rússland er hluti af sömu fyrirlestraröð sem fjallar um Asíu og tengd málefni. Seinasta miðvikudag fór ég svo á fyrirlestur um Human Trafficking (þýðist það ekki bara sem mansal?) og hvernig tekið er á þeim málum innan ESB og í Belgíu. Það var mjög fróðlegur fyrirlestur og væri gaman að heyra hvernig þeim málum væri háttað heima á Íslandi. Það er eitthvað sem segir mér að við gætum lært mikið af Belgum og hvernig þeir taka á þessum málum.

Ég er svo að fara að hitta leiðbeinandann út af mastersritgerðinni í vikunni. Við eigum að skila 10-12 bls uppkasti að ritgerðinni eftir tæpar 3 vikur svo það er ekki seinna vænna að komast almennilega af stað í þá vinnu. Ég ætla mér að skrifa um þróunaraðstoð, menntun og menningu í mastersritgerðinni en er ekki alveg búin að njörva niður rannsóknarspurningu eða þrengja efnið meira en það. Er núna að skoða skýrslu á netinu um verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda og ætla að velta því aðeins fyrir mér áður en ég hitti prófessorinn. Svo er ég farin að velta fyrir mér efni í ritgerðirnar fjórar sem planið er að skila áður en ég kem næst heim. Hef reyndar bara frjálst val í einni þeirra, fæ lista af efni til að velja úr í hinum sem getur verið ágætt. Ætla að vera búin að velja mér endanlega efni undir lok næstu viku. Þó svo ég sé með ákveðnar hugmyndir þá ætla ég að klára næstu fyrirlestra áður en ég ákveð mig endanlega.

Annars er farið að styttast í vorið hérna á meginlandinu. Allar búðir orðnar fullar af vor- og sumarvörum í öllum regnbogans litum. Þrátt fyrir að hér sé stundum kalt þá finnst mér ég varla hafa upplifað neinn vetur. Ég hristi bara hausinn þegar skólafélagar mínir kvarta undan veðrinu og verð að viðurkenna að mér finnst þeir ekki kunna gott að meta. Kannski það sé eitthvað íslenskt element í manni að kvarta ekki og kveina þó svo að ekki sé sól og sæla á hverjum degi. Eða eins og ég sagði við einn vin minn hérna um daginn þegar hann var að kvarta undan rigningunni; þú værir ekki þakklátur fyrir sólina ef það væri aldrei rigning. Segi ég sem hef haldið því fram síðan ég flutti suður að það væri ALLTAF rigning í Reykjavík. En mér til málsbóta þá er ekki íslenskt rok í Belgíu sem skiptir alveg ótrúlega miklu máli í þessu samhengi.

En jæja, lærdómurinn bíður óþreyjufullur eftir mér. Bestu kveðjur heim í bollurnar og maskafjörið.

19 febrúar 2009

Þetta litla dýr, hann Arnar Páll, á afmæli í dag og er orðinn 5 ára púkinn. Hann fær risa knús og kossa frá Brussel í tilefni dagsins. Hafðu það svakalega skemmtilegt í dag litli kall!

18 febrúar 2009


Hjördísin mín klára á afmæli í dag og er orðin þrítug stúlkan. Hún fær hamingjuóskir, kossa og knús frá Brussel í tilefni dagsins. Hafðu það svakalega gott í dag skvís!

14 febrúar 2009

Án titils.

Lífið gengur sinn vanagang hér í Brussel. Vikan byrjaði ekki vel en ég fékk þær fréttir að heiman að Gunna, systir hans pabba, hefði látist úr krabbameini. Þrátt fyrir að samskiptin hafi ekki alltaf verið mikil þá er alltaf erfitt að fá svona fréttir því maður vill alltaf fólkinu sínu vel. Hugurinn hefur því verið mikið heima á Íslandi, sérstaklega hjá Kötu og Haffa sem eru búin að missa mikið. Það er svo dálítið sérstakt að vera einn í útlöndum þegar svona atburðir gerast. Ég hefði alveg verið til í að geta kíkt í gott spjall til ömmu og mömmu og fá að hafa fólkið mitt hjá mér. Það er jú það dýrmætasta sem maður á og maður er þakklátur fyrir það að eiga svona góða að. En síminn verður að duga fram að næsta fríi.

Skólinn gengur bara vel. Einkunnirnar fyrir ritgerðirnar sem ég skrifaði fyrir jól eru byrjaðar að detta inn og enn sem komið er er ég mjög sátt. Á eftir að fá fyrir tvær ritgerðir og krossa fingur að þær hafi líka gengið vel. Næsta vika fer mikið til í það að undirbúa þær ritgerðir sem ég á að skrifa þessa önnina og byrja á undirbúningsvinnu fyrir mastersritgerðina. Er búin að velja mér ritgerðarefni fyrir mastersritgerðina og er búin að fá úthlutað prófessor sem verður leiðbeinandi minn í gegnum ferlið. Sú er reyndar nýbyrjuð að kenna við skólann og ég hef ekki hugmynd um hver hún er en ég hef heyrt góðar sögur af henni. Það er sagt að það sé mikill kraftur í henni og það ætti að henta mér vel enda ég lítið í dútlinu þegar kemur að því að gera hlutina.

Þorrablót Íslendingafélagsins hérna í Brussel var í gær. Þetta var ágæt skemmtun og ég er fegin að ég dreif mig. Fékk nefnilegast móral um leið og ég var búin að borga miðann því þetta kostaði meira en ég er vön að eyða á viku í mat. Segi kannski ekki að þetta hafi verið hverrar evru virði en þetta var gaman. Það var einungis þorramatur á borðstólnum sem mér fannst nokkuð sérstakt enda hópur af útlendingum þarna. Ég gat borðað flatkökur, hangikjöt og harðfisk. Lagði ekki í sviðin enda nokkuð viss um að mamma eða amma hefðu ekki komið að matseldinni á þeim. Það var svo raðað til borðs og ég lenti alein á borði með fullt af fólki sem ég þekkti ekki neitt. Það reyndist þó vera söngelskasta borðið og þetta var ágætt þó svo ég hafi nú ekki átt mikla samleið með þessu liði að öðru leyti. Stebbi og Eyfi sungu svo nokkur lög og það var gaman af þeim eins og venjulega.

Á fimmtudagskvöldið var svo fyrsti hittingurinn hjá hóp sem einn doktorsneminn, hann Marty, er búinn að setja saman. Hann sá um umræðutíma í IRT og bauð okkur sem honum þótti virkust í þeim tímum til að hafa reglulega hittinga heima hjá sér til að skiptast á skoðunum á ýmsum málefnum. Mér fannst dáldið skondið að hann skyldi bjóða mér. Við vorum venjulega bara 3 í hópatímanum sem ég var í og höfðum lítið val um það hvort við vorum virk eða ekki. Við urðum einfaldlega að vera undirbúin og segja eitthvað. Þetta var hins vegar mjög gaman og það eiga eflaust eftir að vera mjög líflegar umræður í þessum hóp. Nógu mikið fóru þær á flug þegar við vorum að velja okkur efni til að tala um!

En jæja, ég fékk lánaða spennandi bók hjá konunni hans Marty og ætla að fara að hefja lesturinn. Þangað til næst, veriði góð hvort við annað.