27 júní 2003

Jæja, ætlaði bara að láta vita að ég væri á lífi. Er búin að vera að vinna soldið mikið undanfarið og bara verið að njóta góða veðursins sem hefur verið viðvarandi hérna í Víkinni og verður vonandi áfram. Ég er að vinna alla helgina en á frí næstu helgi. Ég vinn bara aðra hverja helgi í júlí, fæ frí á verslunarmannahelginni og vinn svo þrjár helgar í röð - og er svo hætt. Þá fer ég að huga að því að koma suður og koma mér almennilega fyrir þar.

Í augnablikinu er ég að leita mér að íbúð. Ef ég fæ ódýra tveggja herbergja þá stekk ég á hana en annars var ég að ræða við hann Jóa vin minn hvort við ættum að leigja saman. Ætla að heyra í honum betur yfir helgina. Held að það gæti alveg gengið upp sko. En þetta kemur allt betur í ljós síðar.

Kolla er að koma vestur með púkana sína. Þau eru núna á fótboltamóti í Borgarnesi og annað hvort Njáll eða Sigurgeir kemur vestur með Önnu og Bjarna á sunnudaginn. Restin kemur svo með Baldri á þriðjudaginn og ég ætla að fá mér rúnt í Brjánslæk að sækja þau. Bara gaman að því. Mamma ætlar svo að reyna að koma á næstu helgi og þá verður eflaust eitthvað skemmtilegt brallað. Hina fríhelgina mína í júlí verð ég að aðstoða í brúðkaupi hérna í bænum. Frænka mín og samkennari er að fara að gifta sig. Maðurinn hennar er írskur og við hinir enskukennararnir ætlum að taka að okkur að þýða ræðurnar sem verða fluttar í veislunni og hjálpa til við ýmislegt. Það verður bara gaman.

Já, og þá eru allar fríhelgar mínar þetta sumarið planaðar! Alveg rosalega mikið líf eitthvað!! En ég þarf að fara að byrja að pakka niður því ég verð að vinna frekar mikið í ágúst. Ætla að láta mömmu taka eitthvað af dóti þegar hún kemur og pabba líka næst þegar hann kemur. Annars eru allir velkomnir - svona af því að ég hef fengið svo margar heimsóknir hingað - hingað í lok ágúst til að hjálpa mér að flytja ;) Af því að það er alltaf svo vinsælt..

17 júní 2003

ÉG KOMST INN Í KENNÓ!!!!!!!

Það liggur við að ég byrji að pakka niður strax! Er ekkert smá ánægð :) Ég get allavegana byrjað að dunda mér við að pakka niður í kassa þegar ég á frí. Ætla líka að athuga hvort að bókalistarnir séu komnir inn á netið. Ætla að redda mér bókum og byrja að læra.

Annars er það helst að frétta af mér að mér leiddist alveg hrikalega hérna á föstudaginn. Var búin að þrífa allt sem hægt var að þrífa - fann meira að segja einnota myndavélina sem ég týndi á páskunum... Þegar ég var búin að þrífa hringdi ég í mömmu til að tékka á því hvort að Röggi væri á leiðinni vestur. Svo reyndist ekki vera svo ég hringdi í pabba til að tékka hvort hann væri farinn af stað suður og skellti mér með honum. Við keyrðum suður á föstudagskvöldið og aftur vestur í dag. Þetta var bara fínt. Ég kíkti aðeins á djammið á laugardaginn. Rölti um allan bæinn og skoðaði mannlífið. Mér fannst þetta djamm í bænum vera orðið heldur þunnt eitthvað. Sá það alveg að ég er ekki að missa af neinu með því að vera hérna fyrir vestan. Þetta var samt fínt en eitthvað fór lítið fyrir myndarlegum aðilum af hinu kyninu. Ég var allavegana ekkert að sjá þá!!
Annars hafði ég það bara gott heima hjá mömmu. Kíkti bara rétt aðeins í búðir og verslaði pínku lítið.

Ég hef nú ekki mikið fylgst með fréttum en heitasta málið í dag er víst einhver barnaníðingur skilst mér. Eitthvað er fólk að pirra sig á því að það skuli vera nafnleynd í svona kynferðisbrotamálum. Ég á að vísu ekki börn en þarna styð ég yfirvöld. Það er góð ástæða fyrir því að þetta er svona. Í Bretlandi voru nöfn og búseta barnaníðinga birt í fjölmiðlum og úr því varð mikil múgæsing. Reiðir foreldrar fóru að taka lögin í sínar hendur og barnaníðingarnir fóru í felur. Það erfiðaði starf lögreglunnar til mikilla muna því að fyrir þessa birtingu var þessi skrá til hjá yfirvöldum og þau fylgdust með þessum mönnum. Eftir að þessar upplýsingar láku út vissi ekki einu sinni löggan hvar barnaníðingarnir voru og það getur ekki verið til hagsbóta fyrir nokkurn mann. Ég held að það besta sem foreldrar geti gert sé að tala opinskátt um kynlíf við börn sín, þ.e. á þann hátt að þau skilji að þetta sé eðlilegur hlutur hjá FULLORÐNU fólki og ef einhver fullorðin vilji fá að snerta þau eða eitthvað álíka eigi þau að segja frá því. Ég held að það sé engin lausn að birta nöfn barnaníðinga því að fæstir af þeim hafa verið dæmdir. Það verður að gefa börnunum smá kredit og útskýra hlutina fyrir þeim á þann hátt að þau skilji. Þetta hugsa ég að fæstir - ef einhver - geri því að almennt finnst fólki óþægilegt að tala um kynferðismál. En ef foreldrarnir ræða ekki kynferðismál við börnin sín þá gerir það bara einhver annar - og hver veit hvaða hugmyndir sá aðili kemur inn hjá þeim..

Gunnar Smári, ritstjóri Fréttablaðsins, skrifaði ansi fróðlegan leiðara í blaðið í síðustu viku. Þar var hann að fjalla um þá kröfu sem er vaxandi í samfélaginu að þyngja beri dóma á Íslandi. Þar sagði hann að það væri eins og það væri manninum eðlislægt að vilja hefnd, auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, og velti því fyrir sér hvort það væri rétta leiðin í átt að fækkun glæpa í samfélaginu. Þar tók hann Bandaríkin sem dæmi. Það er eitt af fáum vestrænum ríkjum sem leyfir dauðarefsingar. Dómar þar eru þungir en samt er hvergi hærri morðtíðni á vesturlöndum og glæpatíðni er há. Málið er nefnilegast að ef þú ætlar að gera eitthvað af þér þá spáirðu ekki mikið í því hver refsingin er - aðeins hvernig þú getur komist hjá henni. Hvort að refsingin sé léttvæg eða þung skiptir ekki máli - þú ætlar bara ekkert að nást.

Forsenda þessa leiðara var dómurinn yfir strákunum sem drápu Ísfirðingin. Sá dómur sjokkeraði samfélagið - mig þar á meðal - og fólk var slegið yfir því að þeir skyldu ekki fá þyngri dóm. En þessi leiðari fékk mig til að hugsa. Hvernig viljum við fá þessa stráka út í samfélagið aftur? Á bara að senda þá á Hraunið sem lengst svo þeir verði bara enn klikkaðri þegar þeir koma út?? Skila þyngri dómar sér í minni glæpatíðni?? Ég persónulega vil sjá þessa stráka verða nýta þjóðfélagsþegna sem sleppa því að berja mann og annan í framtíðinni. Ég sé það ekki alveg gerast eftir að þeir hafa dvalið nokkur ár á Hrauninu. Mér finnst ekki forsvaranlegt að dæma fólk fyrir glæpi, stinga því í fangelsi, láta það dúsa þar í ákveðinn tíma og verða svo hissa þegar þetta fólk brýtur af sér aftur þegar það er komið út í samfélagið á ný.

Innan sálfræðinnar er fag sem kallast Atferlisfræði og gengur það m.a. út á hvernig er hægt að stjórna hegðun. Frægustu uppgötvanir þessarar greinar hafa flestir heyrt um, hundarnir hans Pavlov og slefið og Skinner og rotturnar. Lengi vel var talið að refsingar skiluðu sínu við stjórnun hegðunar en í dag er ekki mælt með því að þær séu notaðar. Refsingar skapa nefnilegast oft fleiri vandamál heldur en þær leysa. Í dag er algengast að styrkja æskilega hegðun en hunsa þá óæskilegu. Ég hef reyndar aldrei verið mikill atferlissinni en ég tel samt að við getum lært heilmikið af þessum fræðum og nýtt t.d. í afbrotafræðum. Það væri skynsamlegra að auka endurhæfingu innan fangelsa á Íslandi frekar heldur en að þyngja bara dómana. Ég sé ekki alveg pointið í því að dæma einhvern í 10 ára fangelsi fyrir hræðilegan glæp ef hann kemur helmingi verri út úr fangelsinu og fremur jafnvel enn verri glæp næst þegar hann kemur á göturnar. Þá er honum kannski stungið inn í 15 ár og kerfið búið að búa til krimma.

En það þarf ekki bara að búa til betra kerfi í kringum þá sem eru það ólánsamir að þeir lenda í afbrotum og þurfa hjálp við að lenda á réttri braut. Á Íslandi vantar allan stuðning við þá sem lenda í ofbeldisverkum og aðstandendur þeirra. Það fólk þarf líka að vinna úr sínum málum og læra það að hefndin er ekki allt. Fæstir af þeim sem brjóta af sér eru samviskulausir, andfélagslegir persónuleikar. Það er bara fólk eins og ég og þú og það tók ranga stefnu í lífinu. Vissulega skilur maður aðstandendur sem vilja ofbeldismanninum allt hið illa. En hverju skilar það? Hatrið og vanlíðanin minnkar ekki neitt við það að ofbeldismanninum sé refsað. En ef maður er í þeim sporum að einhver hefur gert e-ð á manns hlut eða e-s sem stendur manni nálægt þá er hjálpin ekki beint í hverju horni og það er auðvelt að festast í vanlíðan og hatri.

Svo ég taki þetta nú saman þá held ég að við ættum að fara varlega í því að óska eftir því að dómar á Íslandi verði þyngdir. Hins vegar er full ástæða til þess að skoða þá stefnu sem er ríkjandi í fangelsismálum okkar. Hvaða endurhæfing fer fram innan veggja fangelsisins? Er það markmið að fá betri þegna út í samfélagið að lokinni fangavist að nást? Einnig þarf að huga að aðstandendum bæði ofbeldismanna og þolenda ofbeldisins. Það hlýtur að vera okkar persónulegi réttur að félagslega kerfið hugi að okkur ef við lendum í þessum aðstæðum. Fyrir utan það að það ætti einfaldlega að vera skylda samfélagsins að bregðast við þegar svona aðstæður koma upp. Í vor hefur komið upp mikil umræða um að það vantaði eitthvað athvarf/hóp eða þess háttar fyrir aðstandendur ofbeldis. Ég vona bara að sá bolti sé farinn að rúlla og að íslenska ríkið komi að því dæmi almennilega.

12 júní 2003

Alveg er heppnin að leika við mig núna. Námskeiðinu sem ég átti að vera á í dag og á morgun var aflýst og því er ég bara búin að vera að slæpast. Það var reyndar bara gott að eiga frí. Ég var orðin dáldið þreytt eftir síðustu vinnutörn. Svaf bara út í morgun og var svo bara að slæpast með ömmu. Ég er að spá í að vakna snemma á morgun og þrífa hjá mér og drífa mig svo í göngutúr. Ég nennti ekki með gönguhópnum í dag svo ég ætla að bæta það upp á morgun. Röggi er að spá í að koma á helginni. Hann á frí núna eins og ég. Hann vill endilega kíkja á eitthvað djamm. Mér skilst að það sé bokkuball í Súðavík á laugardaginn annars held ég að það sé ekkert um að vera. Enda stórt ball á síðustu helgi og annað á þeirri næstu. 16. júní er samt á mánudaginn og þá er hefð fyrir djammi hér. Krakkadjamm á Suðureyri og vonandi eitthvað skemmtilegt ball á Ísafirði. En það kemur allt saman í ljós. Ég reyni að finna mér eitthvað skemmtilegt til dundurs!

Það eru bara 50 dagar í Þjóðhátíð!! Það er kominn enginn smá fiðringur í mig. Er alveg farin að plana allt í huganum. Er búin að ákveða hvað ég gef Kidda og Hildi í ár og hvað ég ætla að leggja af mörkum í matarkostinn í hvíta tjaldinu. Ég vona bara að Agga og Hjördís mæti á svæðið. Hjördís er búin að láta panta fyrir sig og bara má ekki beila!! Ég ætla að reyna að kynda undir Öggu - þjóðhátíðin yrði ekki söm án hennar!! Fyrir þá sem vilja fylgjast með þjóðhátíðarundirbúningnum bendi ég á síðuna hans Bigga - dalurinn.is. Hún er góð og kemur manni í gírinn.

Formúla í Montreal á sunnudaginn. Ég er orðið opinbert formúlunörd. Pantaði mér McLaren úlpu af mclaren.com og fékk hana í vikunni. Hún er rosa flott - þó svo ég segi sjálf frá and I wear it with pride :-)

Daddara, mér leiðist! Er að bíða eftir svari frá Kennó og ef það verður jákvætt þá byrja ég strax á því að dunda mér við að pakka niður í kassa. Ekki það að Víkin mín sé eitthvað ömurleg. Mér líður rosalega vel hérna og ég kvíði því að fara suður. Það er bara takmarkað hvað maður getur verið einn, vinalaus og fjölskyldulaus lengi... Ég er samt alveg rosalega fegin að ég ákvað að vera hérna í vetur. Ég er búin að þroskast heilmikið og læra alveg heilan helling. Það sem mestu skiptir er að ég er búin að læra það að vera ein. Eitthvað sem ég hef aldrei getað. Það er ekkert vandamál það stórt að ég ráði ekki við það. Það hefur verið erfiðast að fást við umtalið hérna. Það er ekki beint alltaf talað vel um kennarana hérna. Það gleymist stundum að kennarar eru líka fólk. En ég er samt sátt við seinasta vetur. Ég gerði alltaf eins vel og ég gat hverju sinni - og þá er ekki hægt að fara fram á meira.

En ég ætlaði ekki að fara að kryfja síðasta vetur núna. Það er eflaust best að fara að koma sér í háttinn fyrst ég ætla að vakna snemma á morgun. Já eða ég ætla allavegana að reyna...

09 júní 2003

Þá er ég loksins búin á þessum næturvöktum. Er búin að skipta næturvöktunum sem ég á á næstu helgi, á þal. frí á næstu helgi en vinn helgina þar á eftir. Það er alltaf jafn gott þegar maður er búin á seinustu vaktinni, maður er orðinn eins og undin tuska. Veðrið er búið að vera alveg geggjað í dag - þó svo að ég hafi að mestu sofið það af mér. Var ekkert að meika að fara fram úr. Dreif mig samt til ömmu í kvöldmat og þegar ég sá hvað veðrið var gott dreif ég mig í göngutúr. Hitinn fór hæst í 18° í dag en í kvöld var ennþá 10 stiga hiti. Alveg æðislegt!! Það er bara vonandi að sumarið verði sem mest svona!! Átti að fara á kvöldvakt á morgun en var beðin um að skipta við eina og taka morgunvakt í staðin. Mér hrýs reyndar hugur við því að þurfa að vakna í fyrramálið en það verður gott að eiga frí annað kvöld. Ég vinn miðvikudaginn á Skýlinu líka, svo fer ég á námskeið í skólanum á fimmtudag og föstudag og svo er ég komin í fjögurra daga frí!! Af því að ég skipti næturvöktunum sko. Ég veit reyndar ekkert hvað ég á að fara að bralla þessa fjóra daga, Ella verður farin í Reykjarfjörð þar sem hún verður í sumar. Ég er að vona að mamma komi vestur, þá get ég dundað eitthvað með henni. Annars eru allir velkomnir í heimsókn sko ;) ;)

Annars er smá hint til Öggu að fara að velja sér lit á garni í peysuna svo ég geti byrjað á henni. Þá hef ég allavegana það til að dunda við. Var að klára að prjóna trefil á mömmu. Er að spá í að prjóna mér svoleiðis líka. Vantar bara garn, ætla að skoða það í vikunni. Þarf að vera búin að redda þessu fyrir næstu næturvaktir. Tíminn alveg flýgur þegar maður hefur eitthvað í höndunum. Annars var ég að spá að fara í smá heilsuátak. Ætla bara að borða nammi og drekka gos á laugardögum og vera dugleg að fara í göngutúra. Það er gönguhópur hérna þrisvar í viku og ég ætla að nýta mér hann þegar ég get. Ég hef ekkert getað farið í tvær vikur núna því ég er alltaf að vinna þegar þetta er. En núna ætla ég að láta reyna á sjálfsagann - hann hlýtur að vera til í mér einhvers staðar!

Jæja, ég ætla að drífa mig í sturtu og svo beint í háttinn. Vona bara að ég geti sofnað snemma - ég svaf nefnilegast allof lengi í dag...

07 júní 2003

Jæja, þá er fyrsta næturvakt sumarsins orðin að raunveruleika. Sit inná vakt með tölvuna og er alveg að sofna!! Var ekkert að geta lagt mig í kvöld sem mér hefnist fyrir núna. Klukkan að ganga 5 og erfiðasti tími vaktarinnar framundan. Sérstaklega þegar maður er nett þunnur eins og ég núna. Ég er því ekki búin að afreka mikið á vaktinni. Það er búin að vera ein bjalla. Síðan er ég búin að hafa til lyfin og leggja á borðið. Ég var svo lengi að finna út hvaðan eitthvað píp kom en eftir mikla leit og umhugsun komst ég að því að rafhlaðan í reykskynjaranum upp á háalofti var búin. Það var alveg svakalega gott þegar ég var búin að finna það út!! Nett pirrandi hljóð!! Ég byrjaði reyndar vaktina á að reyna að koma í veg fyrir annað geðveikt pirrandi hljóð. Það dropar svo úr vaskinum inn í eldhúsi að það er ekki venjulegt. Alltaf þegar það er kvartað yfir þessu og Óli Ben (húsvörðurinn) kemur þá hættir það. Þetta er alveg að gera mig vitlausa!! Ég þarf síðan að skrifa á fermingarkort. Restin af bekknum mínum fermist á sunnudaginn og ég ætla að senda öllum kort. Ætlaði að vera svo sniðug að nota næturvaktina til þess. Er samt ekkert að nenna því núna. Er eiginlega of þreytt. Geri það bara á vaktinni á morgun.

Var reyndar að spá í að reyna að skipta henni. Hrafnhildur var að koma vestur og það er ball í Hnífsdal með Í svörtum fötum. Var alveg á því í gær að skipta vaktinni en þynnkan í dag hefur þynnt þær áætlanir aðeins út. Langar ekkert voðalega mikið að sjá áfengi núna - hvað þá að bragða á því! Þannig að þá hef ég smá gálgafrest á þessum kortum. Svo er ég líka að prjóna trefil fyrir mömmu. Voða sætan. Var byrjuð að prjóna áðan en eftir nokkrar umferðir missti ég niður lykkju (r) og náði ekki að laga það.. Og þar fór það... Amma hjálpar mér með það á morgun og þá get ég haldið áfram annað kvöld - og skrifað á kortin. Þá tek ég mér bara spólu á sunnudaginn. Alveg búin að plana þetta. Þessar næturvaktir eru soldið mikið dauðar.. Er búin að hlusta á alla hrjóta og engin rumskar - kannski sem betur fer.

Daddara... Bolungarvík að næturlagi er alveg að gera sig. Það er einhvern vegin alltaf svo gott veður á nóttunni. Maður hlustar á sönginn í fuglunum og reynir að fylgjast með hverjir eru á rúntinum og svona. Úr eldhúsglugganum hérna sé ég húsið mitt - og það getur verið soldið erfitt að vita af rúminu sínu þarna hinum megin við vegginn!! Jæja, ég er farin að halda að Agga hafi haft rétt fyrir sér - að ég geti röflað út í hið óendanlega um ekki neitt.. Það var samt einhvern vegin sniðugra að skrifa á bloggið heldur en að sitja og tala við sjálfa mig. Já eða standa. Ég gæti gert það líka. En jæja, ég ætla að fara inn í stofu og horfa á videó. Tók upp dagskrána á Stöð 2 í kvöld. Horfði á Friends áðan og ætla að horfa núna á þarna þættina sem koma á eftir. Skemmtið ykkur þið sem eruð að djamma en þið hin getið bara haldið áfram að sofa. Ég efast um að ég hafi vakið ykkur - enda nokkuð lunkin eftir allar þessar næturvaktir að fylgjast með öllu án þess að nokkur maður taki eftir því...

06 júní 2003

Ég er svo þunn að ég er að deyja!! Í gær var síðasti vinnudagurinn hjá kennurum hérna og af því tilefni fórum við í óvissuferð. Við byrjuðum á því að fjölmenna á Shellskálann í pulsu og ís og hittumst síðan við löggustöðina kl. 5. Þar vorum við send af stað í smá leik. Okkur var skipt upp í hópa og fengum það verkefni að skíra hópinn okkar og botna vísu. Minn hópur hét Ælurnar - af því að við vorum settar saman í hóp af því að við erum alltaf svo sjóveikar - og vísan okkar var voða flott. Stuðluð og rímuð og allt! Síðan fórum við í minigolf. Ég sem hef aldrei komið við golfkylfu áður.. En það gekk nú bara ágætlega hjá okkur - við unnum allavegana liðakeppnina!! Þá lá leiðin niðrí sundlaug þar sem við flatmöguðum í pottunum. Við vorum svo sótt niðrí sundlaug og keyrð yfir í Skálavík þar sem að Kaja gangavörður á sumarbústað þar var grillað og djammað til miðnættis. Það var svaka stemming í hópnum og mikið hlegið og ennþá meira drukkið enda voru allir rúllandi. Við enduðum svo nokkrar í partýi heima hjá mér og þar var djúsað aðeins lengur. Ég man nú voða lítið eftir því.. Þar var víst mikil umræða um hjálpartæki ástarlífsins og mín skellti sér bara inn í herbergi og sótti eggið og sýndi þeim!! Það var nú ekkert notað en hefur vonandi bara losað um einhverja fordóma gagnvart svona... Eða eitthvað.. Ég kláraði allavegana skólaárið með stæl því þetta var alveg meiriháttar gaman. Á eftir að sakna allra þarna geðveikt mikið.

Jæja, ætla að fara að koma mér til ömmu og reyna að koma einhverju niður.. Hún var voða séð og ætlar að elda súpu og svoleiðis af því að það er svo gott fyrir magann eftir svona! Fer svo heim að leggja mig og fer á næturvakt í nótt.

03 júní 2003

Jæja, þá fer ég loksins að klára þetta skyndihjálparnámskeið. Hef átt frekar erfitt með að halda mér vakandi á því hingað til.. Bara þrír tímar á morgun og þá er ég búin. Ætla að koma með kökur og brauðtertur á eftir og klára svo að ganga frá stofunni. Er svo á kvöldvakt annað kvöld og á svo bara frí fram að helginni. Á næturvaktir alla helgina en það er reyndar spurning með hvort það verði kennaradjamm - og þá hvenær. Ætla að redda mér fríi svo ég geti farið á það. Ætla ekki að missa af því að sjá allt liðið djamma!!

Ég hef sjaldan heyrt annað eins bull og að það eigi að koma íslenskt American Idol. Það er ekki eins og það sé svo erfitt að verða ,,heimsfrægur" á Íslandi.. Allt landið er eins og eitt hverfi í borg í BNA og ekki alveg hægt að áætla að þetta gangi upp hér þó svo þetta gangi upp í henni Ameríku.

Í dag var verið að hleypa af stað verkefninu Þjóð gegn þunglyndi. Þótt fyrr hefði verið segi ég bara. Ég hef aldrei skilið af hverju forvarnir gegn geðsjúkdómum eru ekki meiri í íslensku heilbrigðiskerfi. Þetta verkefni var kynnt í Íslandi í dag í kvöld. Þar komu fram geðlæknir og geðhjúkrunarfræðingur. Ég er náttúrulega vel upp alin í sálfræðinni og var ekki alveg sammála þeim. Tryggingastofnun greiðir niður tíma hjá geðlækni en ekki hjá sálfræðingi - sem er alveg fáránlegt. Ef svona verkefni er sett af stað verður það að vera hluti af því að sálfræðiþjónustan fari inn í tryggingakerfið. Það verður að gera alla þá hjálp sem fólki býðst sýnilega og aðgengilega. Heilsugæslustöðvarnar eiga að vera aðalmiðstöðvarnar í þessu verkefni sem mér finnst ekki nógu gott. Hluti af þeirri ástæðu að við Íslendingar eigum heimsmet í notkun geðlyfja er sú að fólk fer til síns heimilislæknis og fær þunglyndislyf þar. Læknirinn hefur nánast engan bakgrunn í sálfræði og pælir ekki í því að hægt væri að leysa málið öðruvísi en með lyfjagjöf. Þess vegna hefði ég viljað sjá þátt sálfræðinga stærri þarna. Flestir sálfræðingar leggja meiri áherslu á að leysa málin með öðrum hætti en lyfjagjöf. Vissulega getur hún verið nauðsynleg en oft er hægt að nota aðrar leiðir.

Málefni Raufarhafnar eru mikið í fjölmiðlum þessa dagana. Ég fæ alveg sting þegar ég heyri af þessu. Þetta fær mann til að hugsa hvað ef þetta gerist hér? Í Víkinni minni?? Ég vona bara að stjórnvöld fari nú að sýna einhverja alvöru byggðastefnu og geri eitthvað róttækt í þessu máli. Það er engum í hag ef öll byggð færist yfir á suðvesturhornið. Bæði kostar það helling fyrir byggðarlögin þar í uppbyggingu og er slæmt fyrir þjóðarbúið því að þessi litlu sjávarpláss hafa verið að skila miklum peningum þangað - þó svo að allt of margir sjái það ekki. Meðal annars með bættum samgöngum hefur tekist að snúa svona byggðaþróun við í öðrum löndum og ég er alveg viss um að það takist hér líka. Íbúarnir þurfa samt líka að sýna ákveðið frumkvæði í atvinnusköpun en þá þarf ríkisvaldið náttúrulega að skapa þeim grundvöll til þess.

Jæja, var í ljósum áðan og á eftir að fara í sturtu. Ætla svo að henda mér í háttinn.

02 júní 2003

Jæja, þá er best að fara að setja eitthvað hérna inn. Kveikti ekki á tölvu alla helgina. Var að vinna og auk þess að leika við Njál og Karen. Njáll gisti hjá mér á laugardaginn og Rakel kom vestur seint á laugardagskvöldið. Ég og amma fórum með krakkana í siglinguna á laugardaginn og svo fór ég með þau í sund á eftir. Við fórum svo öll í svið til ömmu og lágum síðan í nammi og snakki um kvöldið og horfðum á James Bond. Á Sjómannadaginn var ég að vinna í 12 tíma - en ég náði samt að horfa á formúluna, fara niðrá bryggju og sjá hátíðahöldin og fara í sjómannadagskaffið á milli vakta! Enda var ég alveg búin á því þegar ég kom úr vinnunni í gærkvöldi. Í morgun var svo vinna í skólanum. Við erum á skyndihjálparnámskeiði. Í kvöld voru svo skólaslitin. Ég klára skyndihjálparnámskeiðið á miðvikudaginn og þá er ég búin í skólanum fyrir utan námskeiðin sem ég fer á í sumar. Það verður ágætt að vera í vinnu sem maður tekur ekki með sér heim - og fá að sofa út einstaka sinnum á morgnana!! Ég á næst helgarfrí 20.-22. júní fyrir þá sem vilja skella sér vestur til mín - blikkblikk agga-!!!!!

Fyrir helgina var verið að dæma þá sem drápu Ísfirðinginn í fyrra. Ég er ekki alveg að skilja út á hvað dómurinn gengur. Tveggja og þriggja ára frangelsi fyrir að lemja gaur það mikið í spað að hann dó. Og það var tekið fram að það var verið að dæma annan gaurinn fyrir tvær aðrar líkamsárásir - þess vegna fékk hann þriggja ára fangelsi. Ég ætla bara rétt að vona að þessum dómi verði áfrýjað til Hæstaréttar og hann þyngdur verulega!!

Atvikið sem Kolla lenti í á leiðinni vestur hefur verið aðeins í fréttum yfir helgina. Þar er sagt að fatlaður maður hafi verið á bílnum og hann beðið starfsmann bátsins að leggja bílnum fyrir sig án þess að segja honum frá því að bílnum hefði verið breytt þannig að bensíngjöfin væri vinstra megin (tengdapabbi Kollu er einfættur). Það er sorglegt að sjá svona fréttaflutning þegar maður veit staðreyndir málsins. Þegar Njáll (tengdapabbinn) var að keyra bílnum inn í bátinn og ætlaði að leggja honum þá er starfsmaður inn í bátnum sem vísar hvar maður á að leggja. Njáll átti að leggja mjög þröngt og starfsmaðurinn sagði honum að hann gæti bara farið út farþegamegin því þar var meira pláss. Njáll er einfættur og notar hækjur og því ekki hlaupið fyrir hann að gera það og hann bendir starfsmanninum á það. Sá segir þá að hann skuli bara leggja bílnum fyrir hann. Njáll biður hann um að fara varlega því að bensíngjöfin sé vinstra megin en gaurinn var greinilega ekkert að hlusta og stígur á fullum krafti á bensíngjöfina þegar hann kemur inn í bílinn og klessir hann og þrjá aðra bíla. Fréttin kemur frá rekstraraðilum Baldurs sem vilja greinilega fría sig ábyrgð í þessu máli. Ég vona bara að það gangi vel hjá Njáli og Kollu að fá bílin bættan og bílaleigubílinn sem þau þurftu að taka borgaðan!

Dagný og Haukur eru líklegast búin að redda íbúð fyrir mig fyrir næsta vetur. Hún er í Erluhólum!! Mikið búið að hlægja að því. Þau ætla að skoða þetta nánar í vikunni, skoða íbúðina og svona. Ég vona bara að þetta gangi upp - ákveðinn léttir þegar maður verður búinn að finna íbúð og græja það allt. Svo ætlar ein sem er að vinna með mér á Skýlinu að benda tengdapabba dóttur sinnar á mig en hann er að leigja út nokkrar íbúðir. Þetta hlýtur að reddast allt saman!

Jæja, er búin að vera alveg dauð í dag og er barasta að spá í að fara að sofa snemma fyrst að ég get það!