29 janúar 2007

Langir dagar..

Dagarnir eru langir núna og minnz er þreyttur. Ef þið heyrið ekki frá mér í einhvern tíma er það vegna þess að ég er drukknuð undir pappírsflóði í vinnunni. Skemmtilegt líf... Annars skellti ég mér í Basecampverið á laugardagskvöldið með Rakel og Kristni Breka og við horfðum þar á Eurovision. Það var hin besta skemmtun og ég mæli hiklaust með því að fólk kíki á þetta svona live. Það var svo samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að ég myndi blikka gaurana í Basecamp og fá miða aftur, þó svo það væri ekki nema á úrslitakvöldið.

Það er svo vika í vaskinn og þá fer maður kannski aðeins að líta upp frá tölvuskjánum. NLP námskeiðið er samt næstu 2 helgar á eftir og prógrammið þar er stíft en það verður sjálfsagt bara gaman. Svo er búið að panta hjá mér pössun seinustu helgina í febrúar svo það ætti að verða stuð hjá mér og litlu dýrunum. Það má allavegana bóka það að frænkan sofi lítið ;) Það verður svo örugglega málið að stinga af vestur um leið og ég á lausa helgi og láta dekstra við mig hjá henni ömmu minni. Bíð spennt eftir því.

28 janúar 2007

Hún Þórdís skvísa á afmæli í dag. Til lukku með daginn elskan mín og hafðu það úber gott í dag :)

25 janúar 2007

Er fólk fífl?

Ég bý ein og þarf þar af leiðandi stundum að takast á við hluti sem væri þægilegra að láta einhvern annan gera. Ég redda mér samt alltaf, hvort sem þarf að skrúfa lokið af krukku eða finna upptök skringilegra hljóða. Hætti mér meira að segja upp á háaloft á Skýlinu einu sinni á næturvakt því það var svo skrýtið hljóð sem ég heyrði. Gat upplýst morgunvaktina um að það vantaði batterí í reykskynjarann á háaloftinu. Ég ætti kannski bara að hringja á lögguna næst þegar ég þarf hjálp eins og þessi gerði.... Spurning hvort þeir tækju vel í það að koma og opna krukku fyrir unga stúlku í mikilli neyð því hana langar svo í nachos......

23 janúar 2007

Tók einhver upp..

Frakkaleikinn í gær og er tilbúinn til að lána spóluna til Finnlands? Það er ekki hægt að horfa á leikina í gegnum ruv.is ef maður býr í útlöndum og Röggi bró vaknaði upp við vondan draum að hafa misst af leiknum. Þannig að það yrði vel þegið ef einhver góðhjartaður þarna úti er til í að hjálpa drengnum að sjá einn besta leik sem íslenskt handboltalandslið hefur spilað ;)

22 janúar 2007

Ég veit núna...

hvenær ég er leiðinlegur nágranni. Það er þegar ég er að horfa á handbolta. Ég er búin að hrópa og kalla og hoppa um alla stofu og sjónvarpið auðvitað í botni. Held að ég hafi brennt meiru á meðan á leiknum stóð heldur en í jóganu áðan. Sá glitta í Huldu og Stefán nokkrum sinnum. Öfundaði þau ekkert... Nei hvern er ég að blekkja, það á náttúrulega bara að lemja svona fólk. Pant giftast strák sem fer með mig í brúðkaupsferð á HM í handbolta.

17 janúar 2007

Mbl menn samir við sig

Já, það er ekki alltaf vandaður fréttaflutningur á mbl. Í þessu tilfelli þykir það greinilega common sense að allir viti um hvaða mál er verið að tala. Svo er það alltaf spurningin, how common is that?

16 janúar 2007

Hljóð eða óhljóð?

Ég lá upp í rúmi í fyrrakvöldi og hugsaði, svona eins og maður gerir stundum. Ég fór að velta fyrir mér hljóðunum sem heyrast á milli íbúða í fjölbýlishúsum. Mér hefur nefnilega fundist heyrast svolítið mikið á milli íbúða hérna í blokkinni minni að undanförnu. Kannski er það ekkert meira en venjulega, ég er kannski bara farin að taka meira eftir því. Ég hef náttúrulega alltaf orðið vel vör við mæðgurnar á efri hæðinni eins og hefur verið sagt frá hér áður. Ég hugsa að það breytist seint. Ég held samt að ég sé að senda góða strauma upp því að ég mætti þeim í Heilsuakademíunni í gær. Mamman var að koma úr Rope yoga. Ekki í hnésokkunum góðu samt.

Svo eru það hjónin á neðri hæðinni. Hef svo sem aldrei séð þau - og aldrei heyrt í neinni konu svona þegar ég spái í því - en ég held samt að þetta séu hjón. Þetta er allavegana pottþétt gamall kall. Þau hlusta á fréttirnar á gömlu gufunni og hlustuðu á messurnar öll jólin. Svo hlýtur hann að vera eitthvað lasinn kallinn því hann hóstar svo mikið þegar hann fer að sofa. Og þegar hann vaknar - og stundum alla nóttina líka. Ég var að spá í að fara niður og bjóða honum hóstasaft í fyrrakvöldi en kunni svo ekki við það.

Svo er það stelpan við hliðina á mér. Ég held að hún eigi kall einhvers staðar út í bæ því hún er aldrei heima. Ég sé stundum kettina hennar tvo sem eru búnir að læra það að koma ekki of nálægt mínum hýbýlum. Sé hundinn eiginlega aldrei en heyri hann væla stundum. Svo heyri ég stundum síma hringja hátt og snjallt. Held samt að hann tilheyri mæðgunum víðfrægu á efri hæðinni.

Svo er það sá sem að pissar svo hátt og snjallt á morgnana - og stundum á kvöldin líka. Hlýtur að vera karlmaður því einhver er fallhæðin. Það fær mig alltaf til að glotta út í annað því að eitthvert skiptið kvörtuðu kellingarnar í Miðholtinu yfir því hvað það heyrðist hátt þegar bróðir minn pissaði á nóttunni. Það er spurning hvort að þetta sé hóstandi kallinn á neðri hæðinni. Læt það samt vera að reyna að komast að því.

Svo er auðvitað spurning hvaða ægilegu hljóð heyrist úr minni íbúð. Ég held nú samt að ég sé auðveldur nágranni, alltaf í vinnunni og kem bara heim til að sofa. Hlusta stundum á Sálina og gospel á kvöldin en aldrei eftir 10. Er svo vel upp alin. Ætli vekjaraklukkan mín sé ekki mest pirrandi, svona þegar ég er búin að snooza í tuttugasta skipti... Það er spurning. Ætli ég vilji nokkuð vita svarið við henni....

14 janúar 2007

Nýtt lúkk!

Haldiði að mín hafi ekki farið að fikta í bloggernum og skipt um útlit á síðunni. Mér finnst ég alveg úber klár núna ;) Reyndar fann ég ekki út hvernig ég átti að halda gamla skilaboðakerfinu en ég meina, maður getur ekki gert allt. Vona bara að þetta blogger skilaboðakerfi virki....

Annars var hún stóra systir mín að byrja að blogga aftur fyrir þá sem vilja fylgjast með því ;)

11 janúar 2007

Heilsumanía

Jæja, þá er fyrstu vikunni á Rope yoga námskeiðinu lokið og ég lifi enn. Það er nánast lygilegt hvað ég er í lélegu formi og hvað það þarf mikið átak hjá mér til að halda smá spennu í kviðvöðvunum. Það er eins og það sé ekkert þar sem vöðvarnir eiga að vera :-/ En mér finnst þetta skemmtilegt og ég er harðákveðin í að koma mér í betra form. Ef eitt námskeið dugir ekki til þá verður bara drifið sig á annað ;)

Ég fékk bókina um endometriosu og mataræði og heildrænar lækningar loksins í gær. Ég byrjaði auðvitað strax að lesa og þetta er svakalega áhugaverð bók. Það verður spennandi að sjá hvort að þetta eigi eftir að hjálpa mér eitthvað. Ég er svo sem löngu farin að pæla í mataræðinu og það þarf ekki svakalega umbyltingu hjá mér en það er margt sem ég get gert betur. Kjarninn er hreinn matur, þe. lífrænt ræktað, rautt kjöt í algjöru lágmarki og mikið af ávöxtum og grænmeti - svona ef einhver vill bjóða mér í mat ;)

Markmið morgundagsins er svo að skrá mig á
NLP námskeið sem verður haldið í febrúar. Í stuttu máli lærir maður að hafa stjórn á huganum og að hugsa í lausnum en ekki í vandamálum á svona námskeiði og það gerir öllum gott að læra það. Svona námskeið eru ekki gefins en það reyndist auðveldara að fjármagna það en ég hélt. Fræðslusjóður VR kemur þar sterkur inn.

Þannig að þegar 11 dagar eru liðnir af nýja árinu er heilsumanían á hraðri uppleið. Ekki það að það hafi verið strengd einhver áramótaheit á þessum bænum, rakettan mín hafði bara svona blússandi áhrif.

10 janúar 2007

Myndir

Ég fékk lánaða myndavélina hennar mömmu og þar inni voru Tyrklands myndir. Ég stóðst ekki mátið að henda nokkrum inn. Flestar eru þær frá Efesus og eru bara brot af því besta. Mæli eindregið með því að þið skellið ykkur þangað ;)




Við innganginn í Efesus

Nike gyðjan

Séð niður aðalgötuna

Karlasalernið í hóruhúsinu, það þurfti mikið pláss fyrir viðhengin ;)

Bókasafnið

Allir karlmenn sem komu til Efesus mældu fótinn við þetta fótspor. Ef fóturinn var stærri fengu þeir að fara beint í hóruhúsið. Annars þurftu þeir að fara á bókasafnið fyrst..

Hringleikahúsið

Sætar mæðgur að borða á Þremur Pálmum

Hávaxnasti Tyrkinn sem við hittum, bossinn á Beefeater

Svona eyddum við nokkrum kvöldum, þetta var rólegheitaferð..

Svona eyddum við einum degi, ansi ljúft..

07 janúar 2007

Jólin búin

og lífið hefst fyrir alvöru á morgun. Byrja að kenna og rope yogað byrjar á morgun líka. Geri ráð fyrir að vera með harðsperrur alla vikuna. Tók saman spítala- og læknanóturnar mínar um daginn og komst að því að ég eyddi 38þús krónum í það í fyrra. Get þakkað afsláttarkortinu mínu að það var ekki margfalt meira. En nú er það runnið úr gildi og ég stefni á að halda þessum kostnaðarlið í lágmarki þetta árið og vona að ég verði langt frá því að ná upp í annað afsláttarkort.

Annars á Rúnar hrós dagsins fyrir að hafa sótt skóna sína og vindsængina í gær. Þetta varð eftir í bílnum mínum þegar ég skutlaði honum í Dalinn á þjóðhátíð í fyrra og ég get þakkað manneskjunni sem ákvað að halda svart og hvítt þemapartý fyrir það að Rúnar sótti dótið loksins ;)

05 janúar 2007

Mig langar í föt!!!!!

Mig langar í ný föt og mig langar til útlanda til að versla þau. Fékk 15þús kr gjafabréf í Kringluna í jólagjöf og tók einn rúnt í gegnum Kringluna í gær. Bölvað draslið sem var til þar. Fann ekkert sem mig langaði í, ekki einu sinni á ,,nýju" rekkunum. Týpískt þegar maður á pening. Ég held að málið sé algjörlega að skella sér í borgarferð og versla þar til maður dettur dauður niður - eða svona hér um bil. Væri mest til í að skella mér til Helsinki og slá þar með tvær flugur í einu höggi en það er djöfulli dýrt að fljúga þangað og verður ekki byrjað að fljúga beint fyrr en um miðjan maí. Bömmer.

02 janúar 2007

Skaupið

Mikið var ég undrandi á því að sjá á netinu að fólk hefði almennt ekki verið hrifið af skaupinu. Ég skemmti mér konunglega yfir því, sérstaklega þegar þeir drekktu Valgerði :p Það eina sem ég sá að því var hvað það fjallaði mikið um virkjanamál. Það er málefni sem var svo gjörsamlega nauðgað í fjölmiðlum í fyrra að mér fannst óþarfi að hafa það svona áberandi í skaupinu líka. Löngu búin að fá leið á þessum virkjanaumræðum. En skaupið var fínt, alveg eing og mér finnst það oftast.

Ég held að það væri þjóðráð fyrir þá sem tuða um að láta leggja skaupið niður að temja sér nú bara jákvæða hugsun og horfa á skaupið með jákvæðu hugarfari - þá þarf mikið að klúðrast til að maður verði fyrir vonbrigðum. Maður getur nefnilegast ekki ætlast til þess að liggja í krampakasti allan klukkutímann sem skaupið stendur yfir þegar það á að höfða til sem flestra. Spurning um að minnka aðeins kröfurnar og hafa bara gaman af ;)