29 september 2008

Þá byrjar ballið

Þá er kynningarvikan búin og alvara lífsins að taka við. Ég er búin að velja mér kúrsa og kem til með að eiga frí alla mánudaga svo það er enginn skóli í dag. Ég verð reyndar bara í tveimur fögum vikulega, International Relations Theory og undirbúningskúrsi fyrir mastersritgerðina, en hinir tveir kúrsarnir sem ég valdi eru kenndir óreglulega. Annar, Negotiation and Mediation, verður tekinn mjög stíft eina helgi í mánuði. Prófessorinn býr í Berlín og því er fyrirkomulagið svona. Þetta er hins vegar mjög erfiður kúrs er okkur sagt og nógur lestur þó svo að tímarnir séu ekki vikulegir. Efnið er samt svo svaðalega spennandi að ég ákvað að skella mér í hann þrátt fyrir það og sleppa History of International Conflicts í staðinn. Sá kúrs er hins vegar kenndur á þriðjudögum, sem er skóladagur hjá mér, svo ég ætla að sitja fyrirlestrana í honum en við megum audita kúrsa, eins og það heitir á slæmri íslensku. Þá sitjum við fyrirlestra en þurfum ekki að lesa efnið eða gera verkefni. Þá fæ ég upprifjun á sögunni sem ég lærði hjá Ragga sögukennara í Kvennó og fæ jafnvel annan vinkil á efnið í leiðinni.

Hinn kúrsinn, International Economics, verður kenndur á föstudögum sirka hálfsmánaðarlega. Prófessorarnir sem sjá um hann koma frá Canterbury. Prófessorinn sem kynnti kúrsinn á kynningarvikunni náði mér alveg þegar kom að námsefnislistanum. Bara ein bók og ekkert vesen! Hentar fullkomlega með Negotiation kúrsinum þar sem er dágóður slatti af bókum sem þarf að lesa og prófessorinn gerir kröfur um að við lesum þær ALLAR. En efnið er líka áhugavert og ég tók það framyfir alla kúrsana um pólitík og umhverfisvernd.

Talandi um umhverfisvernd þá eru græn sjónarmið alveg svaðalega heit hérna. Ég er svo innilega ekki pólitískt ,,rétt“ þenkjandi í þeim efnum því að mér finnst umræðan um umhverfis- og dýravernd alveg sérstaklega leiðigjörn. Fyrir utan hvað það pirrar mig að þurfa að flokka ruslið hérna og mega ekki henda hverju sem er í ruslið – fyrir utan það er ég ekki alveg búin að ná því hvar Sorpa þeirra Belga er og þá síður hvort að Metróið gangi þangað – hvað þá að nenna að drösla því sem ég þarf að farga þangað.. Ekki það að ég vilji ekki ómengaða náttúru, mér finnst t.d. hugmyndin um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum vera gjörsamlega út í hött, en fyrr má nú rota en dauðrota í öllum púritanismanum...

Og pólitíkin.. Kannski ég eigi eftir að velja mér stjórnmálafræðikúrs eftir áramótin, það er aldrei að vita, en á meðan ég er ennþá glöð yfir að vera laus við fréttir af argaþrasi íslenskrar pólitíkur þá hef ég lítinn áhuga á því að demba mér útí stjórnmálafræðikúrsa á alþjóðavettvangi. Og þó svo það sé gaman að ræða heimsmálin við samnemendur úr öllum heimshornum og heyra alskonar sjónarmið þá er stúdentapólitíkin í skólanum heldur amerísk fyrir minn smekk. Svo sem í takt við meirihluta nemenda þar sem tveir þriðju þeirra koma frá Bandaríkjunum, en afsakið á meðan ég æli kemur frekar upp í hugann heldur en ji hvað þetta er áhugavert. Enda er ég ekki alin upp við það að smjaðra og kyssa rassa og þykjast ætla að styðja fólk sem ég ætla ekki að styðja eins og virðist því miður vera lenskan hér. Það er kannski auðveldasta leiðin að aðlaga sig að þessum viðhorfum og taka þátt í leiknum en það verður bara að segjast eins og er að ég fæ of mikinn aulahroll. Mér finnst svona hegðun einfaldlega röng og óheiðarleg svo að ég ætla að synda á móti straumnum og standa við mín prinsipp.

Annars gengur lífið sinn vanagang í landi bjórs, blúndna og súkkulaðis. Ég hef aðallega verið í súkkulaðideildinni hingað til og hef tekið miklu ástfóstri við súkkulaðibitakökurnar hérna. Smakkaði belgískt heitt súkkulaði á laugardaginn og verð nú reyndar að viðurkenna að þó svo það hafi verið afar bragðgott þá toppaði það ekki íslenskt heitt súkkulaði með rjóma. Enda fékk ég engan rjóma sem er önnur saga. Annars er planið að vera innandyra í dag og reyna að ná úr mér slappleikanum sem hefur verið að angra mig alla síðustu viku. Ekki seinna vænna að ná upp orkunni áður en alvaran tekur við...

28 september 2008

Smá saga

Það var einu sinni hópur froskaunga sem ætluðu að koma á fót kapphlaupi. Markmiðið var að komast upp á topp á háum turni. Margmenni hafði safnast saman til að fylgjast með hlaupinu og hvetja þátttakendur. Síðan var hlaupið ræst. Í sannleika sagt: Enginn áhorfendanna trúði því í raun að froskaungarnir gætu klifrað upp á topp turnsins. Það eina sem heyrðist voru setningar eins og: ,,Oh svo krefjandi!!! Þeir munu áreiðanlega ALDREI komast alla leið” eða ,,ekki séns á að þetta takist, turninn er allt of hár!”

Froskaungarnir hættu, hver á fætur öðrum….- nema einn….sem fljótt kleif hærra og hærra. Fólksmergðin hélt áfram að hrópa ,,þetta er allt of krefjandi!!! það mun enginn geta þetta!!”Fleiri og fleiri froskaungar urðu þreyttir og gáfust upp…Bara einn hélt áfram hærra og hærra… Hann vildi hreint og beint ekki gefast upp!! Fyrir rest höfðu allir hinir gefist upp á að klifra – fyrir utan þessi eini froskur, sem eftir mikið erfiði náði toppnum!

Nú vildu allir hinir þátttakendurnir auðvita fá að vita hvernig hann fór einginlega að því að vinna þvílíkt afrek – og ná í MARK!!!! Þá sagði lítil Froskastelpa úr hópnum þetta er bróðir minn og hann er heyrnarlaus!!!

Og lærdómurinn af þessari sögu er: Hlustaðu aldrei á fólk sem er alltaf neikvætt og bölsýnt…..vegna þess að það tekur frá þér ÞÍNA fallegustu drauma og óskir, sem þú berð í hjarta þínu! Hugsaðu allaf um kraft orðanna af því að allt sem þú heyrir og lest hefur áhrif á gjörðir þínar!Þess vegna: vertu ALLTAF JÁKVÆÐUR.Og fyrst og fremst:Vertu hreint og beint HEYRNARLAUS þegar einhver segir við þig að þú getir ekki látið ÞÍNA drauma rætast!!

Hugsaðu alltaf: Ég skal geta það!!!

27 september 2008

Hann Þorgeir á afmæli í dag og er orðinn 29 ára drengurinn. Hann er núna staddur útí New York í góðra vina hópi og ég sendi hamingjuóskir þangað í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn Geiri og hafðu það gott í dag :-)

26 september 2008

Hún Hildur mín á afmæli í dag og er auðvitað á besta aldri stúlkan. Ég sendi hamingjuóskir í Eyjarnar í tilefni dagsins. Til hamingju með daginn skvís og hafðu það svakalega gott í dag!

25 september 2008

Merkilegur andskoti

Mér finnast Belgar ekkert svakalega þrifnir, ég hef allavegana ekki náð að hoppa upp í skítastandardinn þeirra ennþá. Samt sem áður er einhver nágranninn minn sem ryksugar alltaf upp úr miðnætti. Stundum eldsnemma á morgnana líka. Núna er klukkan langt gengin í hálf eitt og það er verið að ryksuga grimmt. Merkilegur andskoti. Ég ætti kannski að biðja hann um að renna yfir gólfin hjá mér?

Loksins, loksins, loksins

Er ég komin með nettengingu heim. Ég er eins og lítið barn á jólunum ég er svo ánægð. Nú get ég hætt að kúldrast úti á verönd með grifflurnar, trefilinn og teppið og farið á netið bara þegar mér hentar. Þvílík þægindi! Svo fékk ég sjónvarpið í lag í dag líka (kapalinn tengdann) svo að ég get horft á formúluna á helginni og allt. Gæti lífið orðið mikið betra?

Annars gengur lífið bara ágætlega hérna í Belgíu. Mér líst mjög vel á skólann og það sem komið hefur fram á kynningarvikunni lofar góðu fyrir komandi skólaár. Skólinn heitir University of Kent, fyrir þá sem ekki vissu, og er með aðal campusinn sinn í Canterbury á Englandi. Þeir eru hins vegar með starfsstöðvar á nokkrum stöðum í Evrópu og allt framhaldsnám tengt alþjóðafræðum er kennt hér á campusnum í Brussel. Ég ætla mér að taka master í Alþjóða samskiptum og það er ársnám. Útskriftin verður í Canterbury Cathedral í Kent í nóvember á næsta ári. Það kemur svo bara í ljós hvað ég geri í framhaldi af því.

Í gær fór ég á svokallað Global Security Challenge sem skólinn minn var að hósta. Þetta er semsagt alþjóðleg keppni þar sem fyrirtæki geta komið á framfæri ýmiskonar lausnum í öryggismálum og í verðlaun eru 500.000 USD. Lokakeppnin verður í London í nóvember en í gær var lokakeppni í Evrópuhlutanum og fóru 2 fyrirtæki af 5 áfram í úrslitin í London. Þetta var mjög áhugaverð ráðstefna og þarna voru samankomnir nokkrir toppar í öryggismálum Evrópu og voru bæði frá ríkinu (lögreglu, her o.s.frv.) og frá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í öryggismálum fyrir hið opinbera og fyrirtæki. Blackwater, sem hefur starfað fyrir Bandaríkjastjórn í Írak, er dæmi um slíkt fyrirtæki þó svo að það hafi komið skýrt fram í gær að það væri ekki hátt skrifað í þeim geira. Ég efast um að ég eigi eftir að starfa í þessum geira í framtíðinni en þetta var mjög áhugavert engu að síður og upplýsandi. Væri ekki vanþörf á fyrir upplýsta umræðu af þessu tagi heima á klakanum þó svo ég sjái ekki þörfina fyrir heimavarnarliðið hans Björns Bjarnasonar.

Frönskutímar byrja svo í næstu viku. Ekki vanþörf á því. Maður getur ekki tekið Joey á þetta endalaust... Þann 11. nóvember býður einn prófessorinn við skólann upp á ferð til Ypres, sem er í flæmskumælandi hluta Belgíu. Bærinn rekur sögu sína fyrir kristsburð og er kannski hvað þekktastur fyrir það að þar voru harðar orustur háðar í fyrri heimsstyrjöldinni. Því stríði lauk einmitt 11. nóvember og af því tilefni er ferðin farin. Ég er búin að skrá mig í þessa ferð og hlakka bara til þess að fara. Svo er búið að bóka spennandi gestafyrirlesara í skólanum þessa önnina og margt fleira skemmtilegt framundan.

En jæja, ætla að fara og hafa það huggulegt yfir góðri bíómynd. Af því að ég get það núna. Spáið í lúxus! Það er svo auðvelt að gleðja mann....

22 september 2008

Fyrsti skóladagurinn

Þá er fyrsti skóladagurinn og ætli hann hafi ekki verið nokkuð týpískur. Standa í biðröð til þess að fá eyðublöðin sem átti að fylla út, önnur röð til að fá lykilkort að skólanum og enn önnur til þess að skrá sig. Fór svo og opnaði bankareikninginn í útibúinu sem er á campusnum. Þar hefur einn annar Íslendingur verið með bankareikning og það var búið að merkja við Reykjavík á heimskortinu. Þar sem ég er hins vegar borin og barnfæddur Bolvíkingur fékk Bolungarvík sinn stað á kortinu og trónir þar að sjálfsögðu efst.

Deginum lauk svo með tveggja og hálfs tíma göngu um campus svæðið. Við höfum aðgang að öllum campusnum hjá flæmska skólanum og að bókasafninu hjá þeim franska. Svo er svaka líkamsræktarstöð á campusnum sem við höfum aðgang að og nokkurs konar heilsugæslustöð sem á eftir að nýtast mér held ég ágætlega. Þetta lítur allt saman ágætlega út og mér list vel á skólann. Ég veit ekki hversu mikla samleið ég á með meirihlutanum af nemendahópnum en þau hafa talsvert meiri áhuga á börunum hérna heldur en ég. Ég hef nú samt farið einu sinni eða tvisvar og hitt þau til að vera ekki algjör félagsskítur en ég vona bara að það sé einhver í hópnum á mínu leveli. Væri skemmtilegra.

Annars er ég farin að þekkja mig ágætlega í borginni. Pabbi kom í nokkra daga í síðustu viku og við kláruðum að koma mér almennilega fyrir. Fundum líka skólann - sem tók sko tímana tvenna enda Belgar ekki þeir áreiðanlegustu í því að gefa leiðbeiningar svo ekki sé meira sagt... - og hann kenndi mér á metroið líka. Ég á svo aðeins eftir að skoða hverfið mitt, finna almennilegan stórmarkað og sundlaugina sem á að vera þar en þvottahúsið er ég búin að finna. Það var eiginlega möst því reykingar eru leyfðar á börunum hérna og maður er eins og úldin skunkur þegar maður kemur heim eftir að hafa kíkt aðeins út og algjört möst að henda öllu í þvott á eftir.

Skólinn fer svo á fullt á mánudaginn og það má búast við svakalegri keyrslu fram að jólum. Ég er hins vegar í fyrsta skipti síðan ég var í 1. bekk í menntó ,,bara" í skóla svo ég ætla að sjá hvort að ég geti nýtt virku dagana vel undir skólann og átt meira eða minna frí á helgum. Lúxus líf ;-) Annars er lítið planað á meðan evran er svona há en það er þó á dagskránni að fara skrepp til Amsterdam og jafnvel gista eina nótt svo maður verði ekki alveg úti á túni þegar maður fer heim um jólin og villist með lestinni.

Ég er ekki komin með netið ennþá en krossa fingur að ég fái það á föstudaginn. Þangað til nýti ég mér góðmennsku nágranna minna sem hafa ekki læst routerunum sínum. Þarf að vísu að sitja úti á verönd til að ná sæmilega tengingu og það er mishlýtt að sitja þar. En maður dúðar sig bara og sest út með tölvuna. Allt gert til að halda sambandi við umheiminn ;-) En þar sem það er farið að kólna aðeins og ég er orðin svöng ætla ég að koma mér inn með tölvuna og fá mér eitthvað í svanginn. Kveðjur frá Brussel þangað til næst.

21 september 2008

Karen Líf skvísa á afmæli í dag og er orðin 10 ára stúlkan. Ég sendi hamingjuóskir heim á klakann í tilefni dagsins og alla leiðina í Grundarfjörðinn. Til hamingju með daginn skvís og hafðu það öfga skemmtilegt í dag!

19 september 2008

Afmælisbörn dagsins og morgundagsins


Þetta myndarlega fólk, Röggi bró og Anu spúsa hans, eiga afmæli í dag og á morgun. Röggi bró er orðinn 27 ára og Anu verður hvorki meira né minna en þrítug á morgun. Ég sendi heillaóskir til Helsinki í tilefni dagsins með hvatningarkveðjum til hans bróður míns að fá sér netsíma Vodafone svo við getum nú spjallað saman án þess að styrkja símafyrirtækin allt of mikið ;-) Hafið það skemmtilegt yfir helgina krakkar.

18 september 2008

Anna Þóra á afmæli í dag og er á besta aldri stúlkan. Ég sendi kveðjur heim á klakann í tilefni dagsins. Hafðu það gott í dag skvís.

13 september 2008

Allt í góðu í stórborginni

Fyrir utan netsamskipti. Hefur gengið hálf brösuglega að komast á netið. En er á smá djammi með nokkrum Íslendingum og fékk að kíkja smá stund á netið og láta vita af mér. Ætti vonandi að fá netið heim eftir rúma viku og þá ætti ég að geta farið að blogga af einhverju viti. En ætlaði bara að hafa þetta stutt. Það er allt í gúddí fíling í stórborginni. Er komin með belgískt símanúmer í gemsann og netsíminn verður virkur um leið og netið. Bara að hafa samband á erlakris@gmail.com til þess að fá númerin.

11 september 2008

Komin til Brussel

Er loksins komin a afangastad, buin ad koma mer tokkalega fyrir og villist nu um borgina tvera og endilanga. Fann loksins litid og frekar sodalegt netkaffi eftir fremur langa leit. Held ad eg hafi verid buin ad finna allt annad i borginni en netkaffi. Allavegana, tad fer vel um mig og vedrid er hid finasta. Fint ad geta gengid um lettklaeddur eftir islenska rokid og rigninguna. En tetta verdur ekki lengra i bili, lyklabordid herna er alveg glatad. Aetla ad sja hvort eg rati heim aftur, blikkblikk. Kolla tu matt lata ommu vita ad tad se allt i godu. Solarkvedjur fra Brussel.

07 september 2008

Styttist í brottför

Þá er farið að líða að því að maður yfirgefi klakann og haldi á vit ævintýranna í Brussel. Kveðjustundirnar hafa verið margar undanfarnar 2 vikur og maður er að undirbúa taugarnar fyrir þriðjudagsmorguninn þegar verður endanlega klippt á naflastrenginn á milli mín og mömmu. Ég er búin að vinna fyrir hana í 5 ár og þó svo að ég gæti varla verið meira tilbúin til þess að breyta til og fara að gera allt aðra hluti þá verður skrýtið að vera ekki í þessum daglegu samskiptum.

En það er ekki eins og maður sé að fara til tunglsins og tæknin sér til þess að maður verði í daglegum samskiptum við vini og vandamenn. Bloggið sér svo til þess að hinir sem vilja fylgjast með manni geta gert það líka. Ég er komin með netsíma hjá Vodafone þar sem ég get hringt í alla heimasíma á Íslandi ókeypis og það er hægt að hringja í mig líka svo framarlega sem það er kveikt á tölvunni og hún nettengd. Bara að hafa samband til þess að fá númerið.

Vinkonur mínar hafa svo verið með mig í tölvutímum yfir helgina. Búið að kenna mér á webcamið á MSN, búið að setja upp gmail fyrir mig, kenna mér á Itunes og meira að segja leggja það til að ég fái mér flakkara. Reyndar spurning hvort að það náist áður en ég fer en það er aldrei að vita - maður er farinn að tæknivæðast svo hratt ;-)

En allavegana, þetta er síðasta bloggið af klakanum í bili. Næsta blogg kemur frá Brussel þegar ég verð búin að koma mér í nettengda tölvu. Það má gera ráð fyrir því að það taki þó nokkrar vikur að fá netið heim svo það veltur allt á því hvað ég verð dugleg á netkaffihúsunum og í skólanum þegar hann byrjar hvað ég verð dugleg að blogga. Ég reyni samt að pósta inn nýju gemsanúmeri þegar það verður klárt. En ég ætla að fara að njóta kyrrðarinnar hérna í sveitinni áður en ég fer að ganga frá eftir skemmtilegheit helgarinnar og drífa mig í bæinn. Sjáumst í Brussel ;-)