27 júlí 2005

Jæja, það er alltaf sama innihaldslausa blaðrið í mér hérna. Ég hef bara ekkert að segja frá þetta sumarið virðist vera. Mamma þrælar mér út í vinnunni og maður nennir litlu þegar maður kemur heim.

Ég ætla nú samt að biðja fólk um að taka frá 26. ágúst og koma með mér á Sálarball í Félagsheimilinu í Bolungarvík. Seinasta fríhelgin áður en að skólinn byrjar og bara möst fyrir alla að upplifa það að fara á ball í Bolungarvík ;)

En svo er Þjóðhátíð 2005 að skella á. Ég fer til Eyja á morgun og mæti beint í kjötsúpu til familíunnar minnar þar. Svo verður bara djammað þangað til ég kem heim á þriðjudaginn. Ég segi því bara gleðilega þjóðhátíð öll sömul og hagið ykkur vel á helginni ;)

22 júlí 2005

Jæja, ég er löngu búin með Potterinn. Kláraði hana á tveimur dögum. Þetta er ekki mest spennandi Harry Potter bókin en mér fannst hún samt góð. Það er greinilega verið að undirbúa síðustu bókina og mörgum spurningum er svarað í þessari bók. Endirinn var góður og ég bölvaði því í sand og ösku að þurfa að bíða í 2 ár eftir næstu bók! En það er búið að vera erfitt að þegja yfir hver deyr í bókinni og yfir öðru drama svo að drífið ykkur að lesa stelpur svo ég geti létt á mér!!

Svo eru bara 6 dagar í þjóðhátíð!!! Ég hlakka svooooo mikið til - ef það hefur farið fram hjá einhverjum ;) Það verður líka frábært að fá smá frí með kallinum mínum. alltaf gaman að því. Annars man ég ekkert hvað ég ætlaði að rífa mig hérna - ef það var þá eitthvað. Ég kem til með að búa á höfðanum fram að þjóðhátíð. Ætla samt að kíkja í partý til Péturs annað kvöld og hita smá upp fyrir þjóðhátíð. Annars ætla ég bara út í sólina og knúsa kallinn minn. Góða helgi allir :)

18 júlí 2005

Jæja, þá er það tilkynningaskyldan. Helgin var bara aldeilis ljómandi fín. Við kíktum til vina hans Guðjóns á föstudagskvöldið. Það verður að segjast alveg eins og er að þetta var ekki alveg mitt crowd og ég var týnd í einhverjum tölvuleikjaumræðum í smá stund áður en ég lagði mig aðeins. Hann Guðjón getur verið alveg óttalegt nörd stundum :p Ég þurfti svo að vinna á laugardaginn og fór svo heim til mín og þreif alla íbúðina hátt og lágt. Öfga dugleg alveg. Við skötuhjúin borðuðum svo með Jóni Svan og Sibbu og kíktum aðeins í pottinn áður en ég skellti mér á djammið með stelpunum. Við dönsuðum nánast af okkur rassinn á Hressó og sumir heilluðu hann Heiðar Austmann alveg upp úr skónum ;)

Í gær fór ég svo til hennar Þórdísar sem var svo elskuleg að kaupa fyrir mig Harry Potter úti í BNA á helginni. Ég stillti mig um að byrja á bókinni í gær, ætla að liggja yfir henni næstu kvöld á meðan Guðjón er að nördast í tölvunni. Við fórum í staðin til Halldórs og Öggu í gærkvöldi og horfðum á Indiana Jones. Mikið var Harrison Ford sætur þegar hann var ungur ;) Annars gerðust undur og stórmerki í gær. Ég fékk voða pen skot frá kallinum mínum um að bíllinn minn væri kannski ekki sá hreinasti og haldiði ekki bara að hann hafi allur verið þrifin að innan í gær! Og ég meira að segja hjálpaði til! Núna er bara að vera uber góð við kallinn svo hann bóni hann kannski fyrir þjóðhátíð ;)

En jæja, ég ætla heim að lesa Potter :D

15 júlí 2005

Núna er minnz hálf dofinn. Mér var svo illt í, já gómnum eiginlega, í gær. Fannst eins og það væri að koma niður endajaxl. Verkurinn versnaði bara og ég endaði á að hringja í tannsa og rétt náði honum áður en hann fór í sumarfrí. Niðurstaða hans var að endajaxlinn væri kominn niður en ræturnar á honum klemmdu einhvern vegin taugarnar á þessu svæði og þess vegna væri mér svona illt. Jaxlinum var því kippt úr og í staðin fyrir að ná smá sólbaði eftir vinnu lagðist ég upp í rúm og svaf í allt gærkvöld. Ég er ennþá hálf dofin eitthvað og illt líka en þetta hlýtur að lagast í dag. Verð vonandi nógu góð á morgun til að djamma aðeins með stelpunum ;)

En annars er nú bara allt gott að frétta og mér líður bara vel í Hafnarfirðinum. Ég keyri alltaf með fram höfninni á leiðinni heim og það finnst mér voða notalegt. Heimilislegt eitthvað. Ég sé svo útsiglinguna úr svefnherbergisglugganum hjá mér og sá einmitt einn togara fara út um daginn og það fannst mér notalegt. Minnti mig á næturvaktir á Skýlinu :P Um daginn þegar ég fór heim tók svona líka ilmandi fiskilykt á móti mér í höfninni og ég fékk smá Bolungarvíkurstemmingu í mig. Ég keyrði svo þarna fram hjá seinna um kvöldið með Gauja og hann bölvaði fiskifýlunni í sand og ösku. Svona getur fólk verið ólíkt.

Svo eru bara 13 dagar í að ég mæti til Eyja - og ég er ekki ennþá búin að heyra þjóðhátíðarlagið. Þvílíkur skandall hjá þjóðhátíðarnefnd að vera ekki búnir að koma því út. Hann Biggi minn ætlar samt að senda mér lagið um leið og hann fær það í hendur svo að vonandi fær maður að heyra það í dag. Þá ætti maður að komast endanlega í gírinn ;) Annars er það bara vinna, sminna fram að þjóðhátíð. Ég þarf að vinna allar helgar í júlí og helst frameftir á hverjum degi. Mamma sleppir mér rétt heim til að sofa. En það er svo sem ágætt, maður fær þá eitthvað útborgað næst ;)

08 júlí 2005

20 dagar í Þjóðhátíð og Sálin í kvöld á Nasa!! Anna Þóra snillingur reddaði okkur frímiðum og það er náttla ekki hægt að sleppa svoleiðis boði! Ég á reyndar að vinna á morgun svo maður verður bara settlegur í kvöld - eins og ég er nú alltaf, hehe - en þetta verður samt gaman.

Annars gengur lífið bara sinn vanagang í Hafnarfirðinum. Við Ása höfum verið að hengja upp myndir seinustu kvöld og var í fyrsta skipti kvartað undan hávaða í gærkvöldi. Konan á efri hæðinni kom á slaginnu 10 og spurði hvort við værum ekki að hætta. Engin leiðindi samt og við vorum að hætta hvort eð var en samt fyndið. Ég á víst svo mikið af myndum að restin af myndunum fer ekki upp fyrr en í kvöld og þá á eftir að setja upp gardínur í stofunni og endurraða aðeins. Ég þyrfti svo að vinna í happdrætti til að geta klárað alveg allt en þetta kemur víst með kalda vatninu.

Þjóðhátíðarlagið er víst væntanlegt eftir helgina eftir því sem að Biggi segir mér og ég bíð spennt eftir að heyra hver flytur og hvernig það er. En það er farið að styttast í að maður vakni upp í Vestmannaeyjum.....

01 júlí 2005

Jæja, þá er það tilkynningaskyldan. Það er allt ljómandi gott að frétta úr Hafnarfirðinum. Ég er að vinna í því að lifa í sátt við hrossaflugurnar og hin skordýrin sem hafa gert sig heimankomin hjá mér og í garðinum. Þeir sem þekkja mig vita að mér er afar illa við hrossaflugur - þó svo að ég viti það að þær séu sauðmeinslausar þá eru þetta eins og fljúgandi köngulær og það er bara ógeðslegt og hana nú! Mér gengur samt ágætlega að forðast þær en ef þær fljúga of nálægt mér er engin miskun sýnd og náð í flugnaeitrið. Ótrúlegt hvað það þarf mikið magn af eitri til að drepa eina svona flugu!

Það er heilmargt um að vera heima þessa helgina og ég verð að viðurkenna að mig dauðlangar vestur. Við Hrafnhildur hefðum vel getað djammað saman ;) En Gaui á afmæli á morgun og ég ætla nú ekki að fara að stinga af á afmælinu hans. Við eigum bara eftir að hafa það huggulegt skötuhjúin held ég og djamma jafnvel aðeins. Við Ása tökum bara taktana okkar á Sólon á morgun og ég næ vonandi að suða nóg í vinum mínum til að þeir komi með mér vestur seinna í sumar á ball. Svo er spurning hvort við Hrafnhildur skellum okkur á Akureyri þegar Ella á frí og prófum að djamma þar svona til tilbreytingar.

Núna er bara talið niður í þjóðhátíð 2005. Heilir 27 dagar í að ég mæti til Eyja :D Mikið svakalega hlakka ég til!! Það er búið að borga í dallinn og panta gistingu á Hótel Kidda og Hildi. Ég er alveg komin með fiðring niðrí tær og bíð spennt eftir að heyra þjóðhátíðarlagið í ár. Lífið er yndislegt og öll hin lögin viðhalda fílingnum þangað til.

Annars ætla ég bara að fara að drífa mig heim og knúsa kallinn minn og fá eitthvað gott að borða hjá honum. Ég vil svo bara þakka honum Atla Snillingi fyrir að hafa lagað síðuna mína. Kossar og knús elskan mín :*