31 maí 2006

Ég hef ekkert verið að fjalla um það hérna á blogginu af hverju ég þurfti að leggjast inn á spítala og fara í þessa aðgerð. Ég hef verið að hugsa það hvort ég eigi að vera að tala um það á eins opinberum vettvangi og netið er því að svona veikindi eru alltaf prívat mál. Þórdís vinkona benti mér hins vegar á um daginn að sum mál eru aldrei rædd þegar einmitt nauðsynlegt er að ræða þau. Að vissu leyti má heimfæra það á mín veikindi og ég ætla að skella inn færslu um þau á morgun. Það er vonandi að það eigi eftir að hjálpa einhverjum sem er eða á eftir að ganga í gegnum það sama.

En svona til gamans er hérna íslenskur texti við lagið Beautiful með James Blunt, bara fyndinn ;)


Líf mitt er frábært, ást mín er hrein

ég sá engil, ég er viss um það.

Hún brosti til mín í neðanjarðarlestinni

hún var með öðrum manni

en ég mun ekki missa svefn yfir því, því ég er með áætlun.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Ég sá andlitið þitt á fjölförnum stað

og ég veit ekki hvað ég á að gera

af því ég mun aldrei vera með þér.


Já, hún náði auganu mínu, þegar ég labbaði hjá,

hún gat séð í andliti mínu að ég var RÍÐANDI HÁR.

Og ég held ekki að ég muni sjá hana aftur

en við áttum stund sem mun endast að eilífu.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Ég sá andlitið þitt á fjölförnum stað

og ég veit ekki hvað ég á að gera

því ég mun aldrei vera með þér.


Þú ert falleg, þú ert falleg, þú ert falleg, það er satt.


Það hlýtur að vera engill, glottandi út í bæ.

Þegar hún hugsaði það upp að ég ætti að vera með þér.


En það er kominn tími til að andlita sannleikann.

Ég mun aldrei vera með þér.

30 maí 2006

Þá eru kosningarnar búnar og ég kaus í Bolungarvík í síðasta sinn - í bili allavegana. Það er alltaf jafn skondið að fylgjast með viðbrögðum frambjóðenda eftir að úrslit verða ljós og hlusta á yfirlýsingar þeirra um að þeir hafi unnið góðan sigur, varnarsigur eða það sem þeim dettur í hug að kalla niðurstöðurnar - þrátt fyrir að hafa jafnvel bara skíttapað. Það fauk hins vegar í mig að lesa viðbrögð Elíasar Jónatans við kosningaúrslitunum heima. Þar missti íhaldið meirihlutann í bæjarstjórninni í fyrsta sinn held ég bara (þori samt ekki að fullyrða það) og ástæður þess má að sjálfsögðu rekja til framboðs Önnu Ed. eins og Elías sagði. En það sem varð til þess að fauk í mig var þegar Elías sagði að íhaldið hefði nú fengið 58% atkvæða ef framboð Önnu Ed hefði ekki komið til og eignaði þar með sjálfstæðisflokkinum öll atkvæði A-listans. Það er hins vegar afar hæpið hjá honum að eigna sér þessi atkvæði. Miðað við úrslitin 2002 tók A-listinn 12% af íhaldinu og 8% af K listanum. Þrátt fyrir að A-listinn hafi verið klofningsframboð frá íhaldinu þá var þetta fyrst og fremst persónulegur sigur Önnu Ed og ég held að það sé afar hæpið fyrir báða hina listana að halda því fram að þeir hafi ,,átt" atkvæðin sem fóru þangað. Það er nefnilegast þannig í pólitík að maður á aldrei atkvæði, maður verður að vinna fyrir þeim. Þar sem sitjandi meirihlutar unnu góða sigra, t.d. í Hafnarfirði og Keflavík, höfðu menn einfaldlega verið að vinna vel og fengu því góða kosningu aftur.

Ég kaus A-listann heima einfaldlega af því að ég hef trú á Önnu Ed til að rífa bæjarfélagið upp og gera það sem þarf að gera. Ég yrði ekki hrifin af því ef hún myndaði meirihluta með íhaldinu en það kæmi mér svo sem ekkert á óvart. Íhaldið getur því ekki eignað sér mitt atkvæði þó svo það hafi fallið hjá A listanum að þessu sinni og K listinn á það ekki heldur. Ég á nefnilegast mitt atkvæði og minn rétt til að kjósa sjálf og atkvæðið mitt fæst ekki gefins nema menn hafi sannarlega unnið fyrir því.

26 maí 2006

Jæja, ég er auðvitað löngu komin heim af spítalanum, alveg tvær vikur síðan. Það eru hins vegar svo svaðalega öflugir eldveggir í tölvunum hjá mér og mömmu að ég kemst ekki inn á blogger í þeim. Núna er ég orðin ágætlega rólfær og skaust niðrí vinnu til að fara á einn fund og blogga smá.

Í gær voru þrjár vikur síðan ég var skorin og það er óhætt að segja að allt hafi gengið glimrandi vel. Ég er hætt á öllum verkjalyfjunum og kláraði sýklalyfjakúrinn í gær. Það var sett upp hjá mér forðalyf í aðgerðinni sem er virkt í þrjá mánuði en ég hef fundið lítið fyrir aukaverkunum af því hingað til sem betur fer. Það er aðallega að ég fái hitaköst og það er alveg ný upplifun fyrir mig að geta ekki sofið af því að ég er að drepast úr hita! Það kemur svo í ljós eftir rúma 2 mánuði hvort ég þurfi annan skammt af þessu lyfi en ég er að vona að ég sleppi við það. Það eru svo þrjár vikur í að ég megi fara að gera eitthvað af viti og víst ennþá lengra í að ég nái upp almennilegu þoli. En leiðin er bara upp á við héðan í frá :)

En jæja, ég ætla að koma mér heim og hvíla mig því ég er að fara í búðarráp með Kollu á eftir. Kíkið endilega á bloggið hans Rögga bró sem virðist vera að vakna frá dauðum ;)

01 maí 2006

Jæja, það er víst löngu kominn tími til að blogga. Það er farið að líða að aðgerðinni og ég fer undir hnífinn á fimmtudaginn. Ég verð á deild 13-D á Landsspítalanum við Hringbraut og ekki einungis má heldur hreinlega Á að koma að heimsækja mig ;) Mér hefur verið sagt að heimsóknartímarnir séu sveigjanlegir en það verður ekki hægt að koma í heimsókn fyrr en ég er komin af vöknun og það verður líklegast ekki fyrr en á föstudaginn. Ég veit ekki annað en ég fái að vera með símann minn svo það er hægt að senda sms eða hringja frá og með föstudeginum. Ég fer svo heim til mömmu þegar ég útskrifast af spítalanum og verð þar að jafna mig fyrst um sinn. Að sjálfsögðu er heimsóknarskylda þangað líka ;) Góðar bækur og DVD myndir og seríur eru vel þegnar þar sem fyrir liggur að ég verði lítið rólfær næstu 3 vikur.

Annars segi ég bara hafiði það gott elskurnar mínar, ég blogga næst þegar ég verð komin heim af spítalanum.