30 október 2006

Fór á Mýrina í gær. Fannst hún bara nokkuð góð. Ég var ekkert upprifin af leikaravalinu þegar ég heyrði af því fyrst fyrir utan að ég hafði trú á Ágústu Evu í hlutverki Evu Lindar. Ingvar E. kom bara vel út sem Erlendur þrátt fyrir að ég hafi gert mér aðra mynd af honum. Ég keypti alveg karakterinn. Björn Hlynur var líka æði sem Sigurður Óli. Bara flottur. Ólafía Hrönn var hins vegar hreinn horror sem Elínborg. Ég keypti hana aldrei og satt best að segja fannst mér karakterinn verulega illa túlkaður hjá henni. Í mínum huga var Elínborg ekki svona hryssingsleg og tóm eins og mér fannst Ólafía Hrönn vera. Eins fannst mér LandRoverinn sem Erlendur keyrði um á einum of flottur eitthvað og engan veginn passa inn í heim Erlendar.

En myndin var í heildina séð góð og ég get tekið undir það að þetta sé besta mynd Baltasars. Hann er trúr bókinni og lagar söguþráð hennar vel að handritinu. Það var mikið af skemmtilegum karakterum og það stóðu sig allir frábærlega - nema Ólafía Hrönn greyið.

Annars er stemmarinn fyrir að blogga dottinn niður. Var að koma frá því að kenna og þetta var fjandi dýr tími þökk sé bölvuðum mótorhjólalöggunum á Hringbrautinni.....

24 október 2006

Allir að fylgjast með þessum samtökum í framtíðinni :)

23 október 2006

Í fréttum er þetta helst

Jæja, þá er heldur annasamri helgi lokið. Ég átti bara ljúfan afmælisdag sem var að mestu leyti eitt í vinnunni. Var ekki búin að vinna fyrr en að ganga 7 og átti svo bara rólegt kvöld heima, fór í ljós og horfði á Bráðavaktina ;)

Á föstudaginn fór ég á stofnfund samtaka kvenna með endometriosu eða legslímuflakk - sem þykir víst ekki huggulegt orð. Það var ágætt að mæta þangað og heyra reynslusögur annarra sem hafa gengið í gegnum svipaða lífsreynslu og ég. Sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu margar af þeim hafa eignast börn þrátt fyrir ófrjósemisdóminn sem margar konur með þennan sjúkdóm fá oft að heyra ansi ungar. Sérstakur gestur var formaður dönsku endometriosusamtakanna og það var afar fróðlegt að heyra í henni. Það hefur mikill árangur náðst í Danmörku í kynningu á sjúkdóminum en samt hafa ca 15% kvenna með hann verið sagt upp störfum sökum hans. Það hljómar ótrúlega en ég hef alltaf verið með móral í gegnum tíðina þegar ég hef legið veik heima með túrverki. Maður fær ótrúlega oft það viðhorf að þetta sé bölvaður aumingjaskapur í manni og að maður hljóti nú að geta harkað þetta af sér. Þrátt fyrir að maður hafi venjulega notið skilnings yfirmanna þá náði hann ekki mjög langt. Kannski ekki skrýtið miðað við hvað þessi sjúkdómur er lítið þekktur hér á landi en nú verður vonandi bætt úr því. Það var allavegana frábært að hitta allar þessar konur og fá staðfestingu á því að það sem maður hefur verið að bögglast með síðan maður byrjaði á blæðingum sé ekki eðlilegt og að það sé hægt að lifa öðruvísi en að vera uppdópaður í hvert sinn sem maður fer á túr.

Eftir stofnfundinn rauk ég heim til að elda fyrir Geira og Rakel en Geiri ætlaði að hjálpa mér að setja saman nýja stofuskápinn minn. Það gekk hins vegar ekki betur en svo að þegar við opnuðum kassana sást að það hafði verið sendur rangur litur og við spjölluðum því bara fram eftir kvöldi. Alltaf gaman að taka svona rólegheitakvöld með vinum sínum :)

Laugardagurinn fór svo í að undirbúa kaffiboð fyrir familíuna. Afrekaði að baka vöfflur í fyrsta skipti og prófaði að gera tvo brauðrétti alveg sjálf og ég held að þetta hafi heppnast alveg ágætlega. Kolla kom svo í bæinn með hluta af púkunum og gelgjurnar fengu að gista hjá frænku sinni. Alltaf gaman að fá gesti :)

Svo var seinasta formúla ársins í gær. Ég ákvað nú að horfa á hana svona til tilbreytingar, hef ekki nennt að fylgjast mikið með undanfarið. Schumi hættur núna, Raikkonen farinn til Ferrari og Vodafone farið að sponsa McLaren. Þarf ég að segja meira? Sé svo sem ekki á eftir Schuma en öll mín formúluprinsipp eru farin fyrir bý eftir þessa keppni. Hef næstu sex mánuði til að sofa á þeim.

Annars eru heitustu pælingarnar að halda innflutningspartý 4. nóvember. Eruði geim?

18 október 2006

Enn eitt árið....

þó svo að ég streitist mikið við.... Alltaf gaman að eiga afmæli :)

17 október 2006

Erla móða og litli frændi

með litla púk... sorrý, drenginn alveg nýjann. Algjör krús

Maður varð nú að fá að máta ;)

16 október 2006

Klár nemandi....

After careful scrutiny, it is our understanding that the student was given credit for the answer, but the board of education has warned math teachers to be more specific in the future.


13 október 2006

Pælingar...

Fyrir rétt hálfu ári síðan fór af stað með látum sú rússibanareið sem hefur einkennt lífið mitt síðan. Ég veiktist, ef hægt er að segja svo, og þurfti óvænt að standa í þeim veikindum ein. Með hjálp fjölskyldunnar og góðra vina náði ég að fara ágætlega stemmd inn á spítalann og mínir nánustu stóðu sem klettur við hliðina á mér á meðan ég var að komast á fætur aftur. Og breytingarnar héldu áfram, ég útskrifaðist úr skólanum, Agga eignaðist Úlf og ég flutti. Ég ákvað að taka að mér smá kennslu og er núna búin að breyta heldur betur til í vinnunni. Þegar ég horfi til baka finnst mér eins og þessi örlagaríki dagur fyrir hálfu ári síðan hafi verið í öðru lífi. Það er varla að mér finnist það hafa verið í mínu lífi.

Og ekki vantar tímamótin þessa dagana. 27 ára afmælið nálgast eins og óð fluga þrátt fyrir að mér finnist það vera í margra ára fjarlægð. Á meðan systir mín, sem er ári eldri en ég, hugsar um drengina sína þrjá hef ég ekki hugmynd um hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Ég bölva fólki í hljóði sem spyr mig hvenær ég ætli að koma með eitt lítið og speisa út í samræðum þar sem umræðuefnið er fæðingar og ungabörn. Kannski soldið kaldhæðnislegt með það í huga að ef ég ætla mér að eignast börn þá hefði verið best ef ég byrjaði að reyna í gær. En kannski ekkert skrýtið. Enda getið þið ímyndað ykkur svipinn á hugsanlegum vonbiðlum við að fá slíkar fréttir. Hver vill taka tímann þangað til rykið fer að þyrlast undan skónum þeirra?

En þrátt fyrir að þetta hljómi voða svartsýnislegt þá ligg ég ekkert í djúpu þunglyndi. Ég er sátt við lífið mitt eins og það er í dag og á vissan hátt finnst mér það skemmtilegt að hafa ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér. Að hafa nákvæmlega ekki neitt planað og bara njóta þess að vera til. Ég hefði viljað sleppa við pressuna frá læknunum og samfélaginu með þessar blessuðu barneignir. Þessi grey koma þegar þau eiga að koma og á þann hátt sem þau eiga að koma. Því trúi ég allavegana og ég er sátt við mitt hlutskipti. Aðgerðin gerði mig heldur ekki tilbúnari til að eignast börn. Afleiðingar hennar juku bara utanaðkomandi pressu á mig að eignast þau – alveg óðháð því að það vantar einn mikilvægan hlekk inn í mitt líf til að barneignir geti átt sér stað, þ.e. kærasta. Eina ástæðan fyrir því að ég velti þessu svona mikið fyrir mér er af því að allir aðrir virðast gera það.

Stundum finnst mér eins og það sé ætlast til þess að ég hlaupi beint út á djammið, snari einn myndarlegan og verði ólétt helst á fyrsta kvöldi. Eins og enginn skilji að ég hef engan áhuga á því. Eins og enginn skilji að þó svo mig langi til að eignast mína fjölskyldu í framtíðinni þá hafi ég engann áhuga á því að ana út í hlutina. Eins og enginn skilji hversu absúrd þetta hljómar allt saman í mínum eyrum.

Ég er mikið að spá í að sekta fólk um hundrað kall í hvert skipti sem ég er spurð út í barneignir. Já, eða út í kallamál. Þá kannski fer fólk að hætta þessu. Já, kannski ég geri það bara. Ekki samt hafa neinar áhyggjur, þið megið alveg leggja inn á mig ef þið eruð ekki með klink.

09 október 2006

Træt

Minnz er þreyttur. Eftir að hafa næstum dáið við að labba upp stigann til tannlæknisins um daginn þá varð mér ljóst að ég get ekki beðið lengur með að byggja upp líkamann eftir spítalavistina. Síðan þá hef ég farið einu sinni í sund og svo fór ég í göngutúr áðan. Hörku dugleg.... En þetta er allt í áttina og kannski verð ég farin að geta tekið stigann þegar veturinn er liðinn. Svo ef einhver er memm í að synda eða fara í göngutúr þá er um að gera að láta mig vita ;)

Annars er það helst í fréttum að ég er hætt að vinna hjá henni mömmu minni og farin að vinna hjá honum Sveinbirni. Það er nú bara í næsta herbergi en samt sem áður er verið að klippa á naflastrenginn og það er óneitanlega skrýtið að breyta svona til. Var svona pínu týnd í vinnunni í dag. En þetta hlýtur allt að koma og ég vona bara að þetta eigi eftir að ganga vel og gera okkur mæðgum gott. Hildur skvísa er svo að koma í bæinn á morgun og ætlar að gista hjá mér svo það verður vafalítið eitthvað skemmtilegt brallað eftir vinnu á morgun og spjallað fram eftir nóttu eins og okkur einum er lagið ;) Svo eru ýmis tilefni til pælinga þessa dagana, hendi kannski inn færslu ef mér tekst að koma þeim á blað.

04 október 2006

Myndir af litla labbakút

Jæja, þá koma loksins myndir af litla kútnum. Hann var 14 merkur og 51 cm (held ég alveg örugglega). Það vantar ekki hárið á þennan frekar en bræður hans ;)
Sætastur :)


Algjör krús :)


Hún Agnes beiba á afmæli í dag og er orðin þrítug snótin. Til hamingju með daginn elskan mín og hafðu það öfga gott í dag :)

03 október 2006

Lítill prins kominn í heiminn

Það kom lítill labbakútur í heiminn núna rétt fyrir hádegið. Þriðja barn Dagnýjar og Hauks fyrir þá sem ekki vita það. Myndir og málin koma inn um leið og ég fæ það í hendurnar.

Annars segi ég bara til hamingju með litla prinsinn kæra fjölskylda :D

Allt að gerast

Dagný systir fór á fæðingardeildina snemma í morgun og það er því allt að gerast :) Kiddi þarf því ekki að hafa áhyggjur af því að ég fái púkann í afmælisgjöf ;)

02 október 2006

Rólegheit

Helgin var tekin í rólegheitum. Var að vinna auðvitað og svo gisti Kristinn Breki hjá mér á laugardagskvöldinu. Var búin að lofa honum að fá að ,,djamma" einum með frænku sinni ;) Það var bara úber ljúft hjá okkur frændsystkinunum en hann hafði pínu áhyggjur af því að mér leiddist að búa svona aleinni. Bara dúlla.

Það er svo lítið að frétta af Dagnýju systur. Púkinn ætlar að láta bíða eftir sér. Ég spurði Kidda hvort að ég fengi kannski bara púkann í afmælisgjöf. Hann hló nú bara og hélt nú ekki. Ég fengi nú bara venjulega afmælisgjöf frá þeim. Alltaf sami snillinn ;)