29 desember 2008

Auðvitað löngu komin heim

Hef bara ekkert verið að gefa mér tíma í að blogga. Heimferðin gekk vel og það var nóg að gera fram á Þorláksmessu þegar ég fór vestur. Reyndar var ekki flogið svo ég tók bílaleigubíl og keyrði í góðum félagsskap vestur. Jólin voru afar ánægjuleg hjá okkur ömmu. Hæfileg blanda af notalegheitum á náttfötunum og jólaboðum. Ég ætlaði suður á laugardaginn en lagðist þá í ansi skemmtilega ælupest og það var kannski bara lán að það var ekki flogið þann daginn því ég hefði ekki getað staðið í lappirnar nógu lengi til þess að komast suður. Það var ekki flogið í gær heldur og ég endaði á því að keyra suður, drulluslöpp eftir æluna en ég lifði þetta af. Missti samt af THE Sálarpartýi og balli sem var búið að plana í margar vikur og get ekki sagt að ég sé sátt með það en það er víst lítið við því að gera. Missti líka af fjölskylduboðinu sem var planað að fara í í gær en það þýðir víst lítið að gráta það heldur. Núna er planið að safna kröftum eftir flensuna og koma sér af stað í vinnu. Kveðja svo árið í rólegheitum með fjölskyldunni.

Þar sem lítið fór fyrir jólakortum þetta árið sendi ég þér og þínum bestu kveðjur og óskir um gleðilega rest og farsæld og hamingju í tonnavís á komandi ári!

19 desember 2008

Á heimleið

Þá er loksins komið að því að ég komist heim í jólafrí. Ég skilaði tveimur ritgerðum inn í dag og á þá bara eina eftir sem ég ætla að klára í fríinu. Allt að verða klárt og bara smotterís frágangur eftir sem ég klára í fyrramálið. Ég vona að ég eigi eftir að geta lokað töskunni og mér finnst að ég eigi að fá verðlaun ef ég kemst alla leið á leiðarenda án þess að borga krónu (eða evru) í yfirvigt. Ef ég væri uppfinningamaður myndi ég finna upp svona Harry Potter tösku. Tösku sem væri lítil og nett, tæki endalaust við án þess að það sæist utan á henni eða að hún þyngdist um eitt gramm. Mig vantar pottþétt svoleiðis.

Stelpurnar eru nýfarnar. Við fórum saman út að borða og svo heim í smá spjall. Verður skrýtið að hitta þær ekki á hverjum degi. En ég hitti þær aftur í janúar og þangað til fæ ég að hitta allt fólkið mitt sem ég er búin að sakna svo mikið. Ég verð lent á Íslandinu góða eftir tæpa 16 tíma. Þá mega jólin koma :-)

18 desember 2008

Að láta valta yfir sig

Ég er aðeins byrjuð að skrifa ritgerð um kenningar í alþjóðasamskiptum og nota Þorskastríðið sem dæmi. Ein af heimildunum mínum er greining á pólitískum viðbrögðum Ísland og Bretlands á þessum tíma. Það er eitt sem ég hef verið ansi hugsi yfir síðan ég las Þorskastríðsgreinina. Þegar bresk herskip fylgdu breskum togurum inn í íslenska landhelgi á Þorskastríðsárunum hótuðu íslensk stjórnvöld því að herstöðinni í Keflavík yrði lokað sem og að Ísland myndi segja sig úr Nató. Þá var því einnig hótað að skerða stjórnmálasamband ríkjanna verulega. Af hverju fór ekki svipuð maskína í gang þegar Icesave kom upp?

Mótmæli Íslands í Þorskastríðunum voru byggð á tveimur greinum í Nató sáttmálanum. Grein 2 segir að aðildarríki skulu efla efnahagslegt samstarf á milli ríkja og "seek to eliminate conflict in their international economic policies" á góðri íslensku. Grein 5 er þekkt sem trigger grein sáttmálans og segir að árás á eitt aðildarríki jafngildi árás á þau öll og að þau komi hvort öðru til hjálpar við slíkar aðstæður. Greinarhöfundur vitnar í óþekktan Íslending sem sagði að aðgerðir íslenskra stjórnvalda væru prófmál. Þær myndu sýna hvort Nató væri eingöngu hernaðarbandalag eða hvort það væri eitthvað þar fyrir Ísland líka. Nató reyndar gerði ekki neitt í því að leysa deiluna en það er svo önnur saga. Hótanirnar virkuðu fyrir því.

Icesave er annar conflictin sem Natóbandalagsþjóðirnar Ísland og Bretland eiga sín á milli. Ég held að það megi alveg líkja saman mikilvægi Þorskastríðanna og Icesave fyrir Íslendinga þó svo að málin séu ólík. Það mætti jafnvel færa rök fyrir því að viðbrögð Breta við Icesave, t.d. með beitingu hryðjuverkalaganna, brjóti í bága við greinar Natósáttmálans sem eru nefndar hér að ofan, sérstaklega þá nr. 2. Sumir myndu jafnvel halda því fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi jafngilt árás á Ísland og þar með brotið gegn grein númer 5.

Hvað gera íslensk stjórnvöld? Þau lúffa, segja já og amen og semja um Icesave. Mótmæli eru veikburða og gefa ekki gott dæmi um góða samningatækni. Ég myndi allavegana ekki vilja að þeir sem sömdu fyrir Íslands hönd í Icesave myndu semja um nokkurn skapaðan hlut fyrir mig. Aldrei þessu vant er ég sammála Guðna Ágústssyni sem sagði einhvers staðar að Ísland hefði átt að reka sendiherra Breta úr landi og hóta úrsögn úr Nató. Það má vera að taktík Breta hafi verið lúaleg og beri Gordon Brown ekki fagurt vitni en það gera viðbrögð íslenskra stjórnvalda ekki heldur. Þau hefðu betur mátt líta til viðbragða forvera sinna á tímum Þorskastríðanna. Þá létu Íslendingar ekki valta yfir sig og báru sigur úr býtum. Við vitum hins vegar ekki ennþá hvað Icesave samningurinn á eftir að kosta þjóðina mikið. Það er uppskeran sem fæst með því að láta valta yfir sig.

17 desember 2008

Lærilær

Er búin að standa á haus í lærdómi undanfarna daga. Er búin með 3 verkefni af 5 og stefni á að klára eitt enn áður en ég fer heim. Ef það gengur upp skila ég 2 ritgerðum á föstudaginn og á þá bara eftir að klára eina í fríinu. Held að ég geti verið sátt við það. Er núna orðin stútfull af kvefi og er að reyna að finna allann þann sjálfsaga sem ég á til að einbeita mér að því að klára Tíbetritgerðina. Stefni á að geta sent hana í yfirlestur á hádegi á morgun.

Á þriðjudaginn hringdi leigusalinn í mig og bað mig um að geyma fyrir sig sófa. Hún sagði að hann væri lítill svo ég hélt að ég kæmi honum örugglega fyrir. Þetta er hins vegar lítill tungusófi sem ekki er hægt að snúa hvernig sem er. Passar fínt fyrir framan sjónvarpið en þá var svefnsófinn sem ég var með fyrir orðinn að veseni. Svo ég er búin að spóla hérna um gólfið á ullarsokkunum mínum að reyna að ýta til húsgögnum og koma öllu fyrir og svei mér þá ef það er ekki búið að lukkast ágætlega. Læt Turi og Rosönnu dæma um það á föstudagskvöldið en þá ætlum við að hafa smá jólakveðjuhitting. Mamma sendi mér hangikjöt, graflax og íslenskt nammi sem þær fá að smakka. Sumt af namminu er reyndar búið ef ég á að segja alveg eins og er. Maður getur ekki haldið sig frá eldhússkápunum endalaust þegar maður veit af einhverju góðu þar...

13 desember 2008

Námsmat dagsins

"Þú stóðst þig vel og átt alla möguleika á að verða góður mediator. Hvet þig til þess að leggja það fyrir þig."

Fær maður vinnu við það á Íslandi í dag?

12 desember 2008

Tækniundur

Fyrir nokkru síðan hjálpaði Linda mér að downloada Skype. Ég hef ekkert notað það síðan enda kann ég ekkert á þetta blessaða apparat. Linda hringdi í mig einu sinni og ég vissi ekki hvurn andskotinn gekk á þegar tölvan byrjaði allt í einu að hringja. Núna erum við að undirbúa verklegu æfinguna í negotiation and mediation sem verður á morgun. Við erum fjögur saman sem erum mediatorar í okkar hóp og það er margt sem þarf að ákveða og undirbúa. Til þess að þurfa ekki að hanga saman í allan dag þá var ákveðið að nota Skype. Núna er ég búin að komast að því að maður getur talað saman á Skype eins og á MSN. Merkilegur andskoti. Svo er ég búin að læra að svara þegar það er hringt. Það tókst reyndar ekki í fyrstu tilraun en það hafðist að lokum. Þannig að núna held ég að ég sé að verða fær í flestan sjó þegar kemur að nýjustu tækni og vísindum svo að ef þið viljið adda mér á Skype heiti ég erlakris þar.

08 desember 2008

Komin í samband við umheiminn

Tæknikallinn kom í morgun og allt komið í lag, mér til mikillar gleði. Nú þarf að nýta tímann vel þangað til að ég kem heim. Ég hlýt að finna sjálfsagann þarna einhvers staðar svo ég geti skrifað og skrifað eins og enginn sé morgundagurinn. Annars eru 12 dagar í Íslandið og 15 dagar í Bolungarvíkina mína. Ég verð sem sagt hjá ömmu um jólin eins og oft áður og ég hlakka mikið til að komast vestur í kyrrðina og hreina loftið. Ég fer suður á þriðja í jólum og svo aftur út þann 18. janúar. Þannig að þeir sem vilja hitting á meðan ég er á klakanum mega fara að taka frá tíma. Að öðru leyti er ég lögst í lærdóm. Sjáum til hvort það verði eitthvað bloggað fram að heimferð.

05 desember 2008

Enn meira netleysi

Það kom tæknimaður til mín í gær sem ég hélt að myndi leysa málin af tærri snilld. En nei það gekk ekki upp. Belgacom tók víst upp á því hjá sjálfu sér að taka mig úr sambandi við umheiminn og það þarf að koma tæknimaður frá þeim til að tengja mig aftur. Hann kemur á mánudagsmorgunninn og það er því netlaus helgi framundan og yfirdrifið nóg af lærdómi til að ljúka. Ég fór í skólann í gær og leitaði að heimildum í ritgerðirnar mínar og prentaði allt heila klabbið út. Svo helgin verður vel nýtt fyrir ritgerðarskrif, engin truflun í Facebook, MSN eða neinu slíku ;-) Er reyndar að fara á workshop á morgun sem heitir Powerful communication sem ég hef akkúrat engan tíma fyrir en mig langaði samt svo að fara á. Sem sýnir það að maður getur alltaf búið til tíma fyrir það sem mann langar til að gera.

Annars eru 15 dagar í Íslandið. Ég stefni á að klára ritgerð 1 af 3 á helginni og byrja á þeirri sem verður númer 2. Kannski að netleysið sé bara blessun í dulargervi eftir allt saman....

01 desember 2008

Netleysi

Er búin að vera netlaus heima síðan á fimmtudaginn sem hefur vakið mikla lukku eða þannig. Ég er algjörlega fötluð án netsins og ef tæknimaðurinn fer ekki að koma og gera við lendi ég í tómum vandræðum með lærdóminn. Þurfi að fara í skólann til að downloada lesefni vikunnar og tékka á póstinum mínum en fer svo aftur heim til þess að læra enda engin almennileg aðstaða til þess að gera það í skólanum. Var að fá hlutverkið mitt í simulation verkefninu og fékk mediatorinn. Lang erfiðasta hlutverkið með langmestu vinnunni. Skemmtilegt. En það þýðir víst lítið að væla það, bara spýta í lófana og klára þetta. Mikið svakalega verður gott að setjast upp í lestina til Amsterdam eftir 19 daga.