31 mars 2003

Ég var að koma heim af fyrirlestrinum hans Stefán Karls. Þetta er ekkert smá magnað að hlusta á hann. Ég var sammála honum í einu og öllu. Ég er viss um að margir af þeim sem mættu þarna fengu dálítið sjokk enda eflaust með mjög staðlaðar hugmyndir um það hvað einelti sé og hvernig beri að taka á því. Hann tók þann sniðuga pól í hæðina að benda foreldrum á þeirra ábyrgð á börnunum sínum. Að börnin læra það sem fyrir þeim er haft - heima hjá sér miklu frekar heldur en í skólanum. Ofdekur sem form af vanrækslu er nefnilegast nýjasta vandamálið á Íslandi í dag. Fólk má ekkert vera að því að sinna börnunum sínum. Það pælir ekki einu sinni í því sem er verið að ræða fyrir framan þau. Enda veit maður skoðanir margra foreldra barnanna sem maður er að kenna án þess að tala nokkurn tíma við þá. Hann benti líka á það að krakkarnir eru ekki eins vitlausir og margir halda. Það er bara fullorðna fólkið sem kemur fram við þau eins og þau séu eitthvað treg. Hann tók líka þá foreldra fyrir sem stjana undir rassgatið á börnunum sínum eins og þau séu eitthvað heilög og tók þá dæmi sem ég hef aldrei skilið. Hvað er dæmið með foreldra sem sjá nauðsyn í því að keyra börnum sínum í skólann - í Bolungarvík?!?!? Það þykir sjálfsagt mál að keyra og sækja börnin í skólann - í bæ þar sem maður er í mesta lagi 20 mínútur á milli staða! Alla mína skólagöngu var ég aldrei keyrð í skólann og þrisvar sinnum keyrð heim. Einu sinni ældi ég í skólanum og taldist því löglega veik, þegar afi dó var ég sótt og einu sinni var svo kolvitlaust veður að við vorum send heim. Siggi hennar Þóru - sem bjó við hliðina á okkur - keyrði okkur heim. Mamma hefði hlegið að mér ef ég hefði fengið að hringja heim og beðið um að vera sótt eða eitthvað álíka. Í skólanum í dag hringir meirihlutinn af krökkunum í foreldra sína á skólatíma til að láta sækja sig eða koma með eitthvað að heiman. Ég held að þetta sýni að það er komin ný kynslóð af foreldrum sem heldur sig, því miður, vera að gera börnunum sínum greiða með því að snúast í kringum þau og gera allt fyrir þau. Kannski út af því að þau voru ekki að fá neitt upp í hendurnar þegar þau voru að alast upp og þau vilja gera akkúrat öfugt við foreldra sína án þess að gera sér grein fyrir hvað þau eru að gera börnunum. Það er ekki skrýtið að það er alltaf verið að tala um aukin agavandamál í skólum.

Jæja, varð bara að koma þessu frá mér. Held áfram með þetta á morgun.

SVENNA SYSTIR HENNAR ÖMMU ER SEXTUG Í DAG. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN SVENNA MÍN!

Jæja, þá er vinnuvikan byrjuð. Þessa vikuna verður engin hefðbundin kennsla heldur einkennist vikan af undirbúningi fyrir árshátíðina sem verður á laugardaginn. Ég var alveg að fara yfir um í morgun. Það er þvílíkur losarabragur á þessu og maður veit ekkert hvað maður á að vera að gera. Ég er reyndar búin að fá að vita að ég verð með minn hóp út í félagsheimili kl. 8 í fyrramálið. Ég ætla bara að vona að það gangi vel. Það verður hátíð hjá mér á sunnudaginn þegar þetta verður allt saman búið. Það er meira að segja formúla! Rosalega ætla ég að hafa það gott :)

Inn á kennarastofu er mikil umræða núna um offitu. Hvað er offita og allt það. Það er ein hérna sem er vel í holdum og hún var að gantast með að hún væri með andstæðuna við anorexíu. Þegar hún liti í spegilinn þá sæi hún alveg tággranna manneskju... Það er spurning hvort að sá sjúkdómur sé til..

Jæja, ég ætla að fara að drífa mig heim. Þarf að fara á fyrirlestur hjá Stefáni Karli um einelti í kvöld og ætla að sjá hvort ég nenni að mæta í leikfimi á eftir..

29 mars 2003

HÚN MAMMA MÍN Á AFMÆLI Í DAG. TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN MAMMA!!

Ég var að djamma í gær. Var að vinna á ballinu með Í svörtum fötum. Við vorum reyndar byrjuð að fá okkur í glas um áttaleytið en maður var nú samt í vinnuhæfu ástandi allt kvöldið. Mætingin á ballið var bara alveg ágæt þó svo að það hefðu mátt vera fleiri. Eftir ball var maður eiginleg alveg búinn á því. Við vorum búin að ganga frá um fjögur og ég var komin heim um hálf fimm leytið held ég. Ég er svo búin að vera hálf þreytt í dag, kíkti aðeins til pabba og Elsu, en þau eru í bænum yfir helgina. Ætla svo að fara að henda mér í sturtu. Það er í skoðun hvort við Ella ætlum út í kvöld. Við ætlum að sjá til hvernig við verðum stemmdar seinna í kvöld. Það er eitthvað FM djamm inn í Sjalla, svo er lokahóf KFÍ í Krúsinni þannig að það ætti að vera nóg af fólki á djamminu.

Fyrir þá sem eru að velta fyrir sér hvert þeir eiga að fara um páskana þá get ég bent ykkur á það að Írafár og SSSól verða að spila á Ísafirði. Siggi Björns verður svo á Vagninum á Flateyri. Það ætti því að verða hefðbundið páskadjamm hérna þó svo að snjóinn komi kannski til með að vanta...

27 mars 2003

Ég fór í leikfimi í dag.. Er búin að skrópa í leikfimi allt of lengi og er gjörsamlega búin á því.. Ekki sniðugt.. Þarf greinilega að vera miklu duglegri að mæta, enda ætla ég að taka mig á núna. Ég fór inn á netið til að drepa tímann þangað til að Sex and the City byrjar. Það er alveg ómögulegt að hafa þessa þætti svona seint á kvöldin, það er komin háttatími hjá mér þegar þetta byrjar. Ég held að þetta séu ellimerki hjá mér. Einu sinni var ég alltaf svo spræk á kvöldin en núna verð ég að vera komin upp í rúm um tíuleytið annars er ég ónýt í vinnunni daginn eftir. Ekki nema að krakkarnir séu svona miklar orkusugur. Það er náttúrulega heppilegri skýring heldur en að ég sé orðin gömul :p

Núna er að koma pása á dekurlífið hjá mér. Amma er nefnilegast að fara suður á morgun og verður í rúma viku.. Ég er strax farin að hafa áhyggjur af því hvað ég eigi að fá mér að borða.. Það verður allavegana eitthvað fljótlegt á morgun því ég á að vera mætt inn á Ísafjörð kl 9. Eins og ég var búin að segja er ball í Hnífsdal á morgun, Í svörtum fötum verða að spila. SUF - Samband ungra framsóknarmanna - heldur ballið og ég bauð fram aðstoð mína á barnum. Reyndar gegn því að ég fæ að djamma á barnum - og fæ danspásur svona annað slagið. Svo verður bara hrunið í það eftir ball skilst mér. Ætti að verða mikið stuð. En ef einhver vorkennir mér rosalega og vill koma og elda fyrir mig næstu vikuna þá er það velkomið :p

Jæja, ég er ekkert að segja af viti hérna.. Best að reyna að horfa á NYPD Blue til að drepa tímann fram að Sex and the City..

26 mars 2003

Jæja, þá er maður sestur með tölvuna fyrir framan sjónvarpið. Það er stelpukvöld á Stöð 2 og horfir maður náttúrulega. Það er samt eitt sem ég hef athugavert við miðvikudagskvöldin í sjónvarpinu. Í fyrsta lagi er Bráðavaktin hætt á RÚV og Einn, tveir og elda á Stöð 2. Ekki það að ég hafi horft á Einn, tveir og elda en að setja Sigga Hall inn í staðinn.... Á stelpukvöldi... Fyrst það verður að vera kokkaþáttur á þessum tíma, var þá ekki hægt að finna einhvern skemmtilegan og flottan.... Ég meina Siggi Hall er ekki mikið fyrir augað, hann er kannski stundum hallærislega skemmtilegur - þó svo það sé meira að maður sé að hlægja að því hvað hann er eitthvað ömurlegur greyið. Hann er langt frá því að vera eitthvað flottur - minnir mann frekar á illa krumpaðan hund.. En jæja, hann verður væntanlega ekki endalaust á skjánum greyið...

Ég var að horfa á fréttirnar á RÚV áðan. Þar var verið að fjalla um ættleiðingar erlendis frá. Verið var að fjalla um að búið væri að ættleiða 140 börn frá Indlandi og rætt við hjón sem ættleiddu barn þaðan í vetur. Nú eru hvað 25 ár held ég síðan var byrjað að ættleiða börn frá erlendum löndum til Íslands og þetta þykir ekkert tiltökumál þannig lagað séð í dag að ættleiða barn. Fréttamaðurinn spurði samt foreldrana hvort þau kviðu því að ala upp barn af erlendum uppruna á Íslandi... Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa þegar ég heyrði þessa spurningu. Hún hefði kannski verið skiljanleg fyrir svona 20 árum síðan en kommon - er ekki komið árið 2003?? Ættleiðingar hafa reyndar tíðkast óvenju mikið í mínu umhverfi. Nú er mamma ættleidd og systir hennar, svo ættleiddi góð vinkona mömmu börn frá Sri Lanka og Indlandi. Svo var amma náttúrulega ættleidd og eitthvað af frændfólki mínu. Ég hef því kannski frjálslegri skoðanir á þessum málum en margir aðrir, en samt finnst mér þetta alveg fáránlegt. Ég meina þau börn sem hafa verið ættleidd hingað til landsins eru jafn miklir Íslendingar og við hin sem erum fædd hérna. Fordómar gagnvart þessu í samfélaginu eru ekki miklir. Að sjálfsögðu eru alltaf einhverjir afturhaldsseggir sem eru á móti öllu svona en það á samt ekki við um samfélagið í heild sinni. Maður hefur ekki orðið var við annað en að fólk samgleðjist pörum sem eignast langþráð börn með þessum hætti.

Í fyrrakvöld byrjaði að snjóa... Og það bara snjóaði og snjóaði.. Núna er allt orðið hvítt. Ég sem var alveg orðin sátt við það að það væri bara komið vor. Maður hefði samt svo sem getað sagt sér þetta sjálfur. Það kemur aldrei vor fyrir páska... Þannig að ég bíð bara spennt eftir páskunum því ég er alveg viss um að þá komi vorið. Þá get ég vonandi farið að vera sumarleg og sæt. LOKSINS :)

Ég er að lesa bókina Peð á plánetunni jörð með 8. bekk. Þar er sá boðskapur að í ástum skipti útlitið ekki máli heldur karakterinn. Ég fór þá náttúrulega að pæla í því hvað mér fyndist um þessi mál og ég verð að viðurkenna það að mér finnst útlitið skipta máli. Ég meina, það verður að vera eitthvað sem laðar mann að manneskjunni til að byrja með. Ef gaurinn er hins vegar sætur og alveg hryllilega leiðinlegur þá fer sjarminn nú reyndar fyrir lítið. Ég er samt ekki á því að einhver ljótur gaur geti orðið alveg rosalega sjarmerandi bara af því að hann er skemmtilegur. Sumt fólk sem er ekkert rosalega myndarlegt hefur samt oft mikinn kynþokka og hann gerir það fallegt. Þá er ég eiginlega komin í hring... En samt ekki. Það verður að vera ákveðin heildarpakki til þess að dæmið gangi upp og maður laðist að einhverjum. Það er ekki nóg að vera sætur og dumb i hovedet, og heldur ekki að vera bara skemmtilegur. Þetta verður einhvern vegin allt að mynda heildarpakka. Þannig að já, útlitið skiptir máli - þó ekki öllu máli..

Jæja, ég held að þetta sé orðið ágætt hjá mér. Siggi Hall er búinn á Stöð 2 þannig að ég get farið að horfa núna..

25 mars 2003

Jæja, best að drífa sig að blogga áður en ég gleymi því sem mér datt í hug að skrifa um áðan :p

Ég var nefnilegast að horfa á fréttirnar, sem er svo sem ekki frásögu færandi. Nema að það er verið að fjalla um málefni heyrnarlausra. Eins og þeir sem hafa fylgst með undanfarnar vikur vita þá er verið að berjast fyrir því að þeir fái táknmál viðurkennt sem sitt móðurmál. Ef það nær í gegn eiga þeir rétt á víðtækari túlkaþjónustu í daglegu lífi heldur en þeir eiga í dag. Fréttin var öll á samúðar nótum, textuð og alles. En það var hins vegar ekki restin af fréttatímanum. Það mætti halda að fréttastofan ályktaði sem svo að heyrnarlausir horfðu ekki á fréttir og vissu þá af því ef það kæmu textaðar fréttir.. Ég er hins vegar ekki svo vitlaus að ég haldi að svo sé. Væntanlega vantar peninga - og vilja - til að texta íslenskt efni hjá sjónvarpstöðvunum. Þær gætu virkilega hjálpað heyrnarlausum í réttindabaráttu sinni með því að texta þó svo að ekki væri nema einstaka íslenska þætti eða bara fréttatímana. En það er greinilega langt í frá að svo þyki sjálfsagt á Íslandi í dag. Það er eiginlega sorglegt hver staða minnihlutahópa er í samfélaginu. Ef maður myndi standa í þeim sporum að eignast fatlað barn í dag væri staða manns ekki glæsileg. Maður þyrfti að berjast fyrir öllu því sem maður ætti rétt á - þó svo að nær væri lagi að samfélagið héldi pínulítið utan um mann og vísaði manni áfram. Fordómarnir eru líka miklir. Margir eru t.d. hissa á því að Rakel, litla systir mín, hafi fengið að taka bílpróf. Getur hún keyrt? hefur mamma oft fengið að heyra. Ég er samt ekki frá því að hún sé oft á tíðum betri bílstjóri en margir þarna úti í umferðinni. Gamla fólkið með hattana er stórhættulegt þegar það er að viðra bílana sína!

Stöð 2 bilaði hérna í Bolungarvík á miðvikudaginn. Ef að ég hefði búið í Árbænum hefði þetta verið komið í lag samdægurs. Þetta komst hins vegar ekki í lag hjá okkur fyrr en á laugardeginum. Alveg merkilegt hvernig þeir leyfa sér að koma fram við okkur. Þetta gerðist víst líka í fyrra og þá var þetta viku að komast í lag. Það er bara vonandi að Skjár 1 fari að koma hingað, þá gæti maður bara sagt upp Stöð 2, enda tekur því ekki að borga tæpar 5.000 kr á mánuði fyrir svona þjónustu..

Jæja, ég er alveg stopp.. Man ekki meira hvað ég var að hugsa áðan. Ég er alveg búin að sjá það út að þetta er eitthvað genetískt hjá mér. Það getur ekki annað verið en að mamma og pabbi beri einhverja ábyrgð á þessu ástandi mínu...

24 mars 2003

Jæja, þá er best að reyna að röfla eitthvað hérna og drepa tímann þangað til að ég má fara heim. Í dag er viðvera þannig að ég verð að vera í skólanum til kl 4. Venjulega kemur maður engu í verk á þessum tíma því það eru allir að þvælast um hérna og engin vinnufriður. Mér finnst best að vinna bara heima, þar truflar mann enginn.

Ég er búin að vera að spá hvað ég gæti talað um hérna. Það er einhvern vegin engin umræða um neitt í samfélaginu nema þetta blessaða stríð í Írak og ég er ekki að nenna að ræða það. Enda lítið um það að segja þannig lagað séð. Hver heilvita maður sér að það er ekkert point með þessu.. Ég fékk tillögu frá Atla vini mínum, sem býr á Akureyri, að ég ætti bara að tala um hann. Þannig að svo ég segi ykkur eitthvað frá honum þá er hann voða sætur strákur sem býr á Akureyri eins og ég var búin að segja. Alveg eldklár strákur. Svo er ég að kenna með henni Halldóru Dagnýju. Hún verður þrítug á næsta ári og við erum að spá hvort og þá hún komi til með að breytast við það. Hvort að brjóstin byrji að síga og svona. Ég er samt ekkert viss um að það gerist. Maður verður víst að halda í vonina að maður verði ekki orðin algjör kelling þegar maður verður þrítugur! :p

Það verður ball í Hnífsdal á föstudaginn :) Hljómsveitin Í svörtum fötum verður að spila. Það verður örugglega alveg rosalega gaman. Ein besta ballhljómsveit landsins á einum besta ballstað landsins! Þið vitið að það er nóg pláss heima ef þið viljið koma í heimsókn og djamma með mér ;) blikk blikk ;) Jæja, ég ætla að hætta þessu röfli áður en ég fer að steypa einhverja vitleysu...

23 mars 2003

Þá er Malasíukappaksturinn búinn og minn maður - Raikkonen - vann þar sína fyrstu keppni. Það er allt annað að sjá McLaren liðið núna og það er bara vonandi að það haldi sér svona allt tímabilið og við fáum að sjá hörkukeppni um heimsmeistaratitilinn í ár. Það var gaman að sjá Alonzo á palli, hann stóð sig vel þessa helgina og átti þetta fyllilega skilið. Næst verður svo Brasilía eftir hálfan mánuð, vonandi verður góð keppni þar líka.

Við systkinin kíktum út á lífið í gær ásamt Ellu og Bödda. Við byrjuðum á því að fá okkur pizzu sem ég eldaði fyrir okkur með hjálp frá Ellu. Síðan var spilað þangað til við fórum inneftir. Við fórum á Kaffi Ísafjörð og skemmtum okkur alveg ljómandi vel. Ég og Ella slógum rækilega í gegn á dansgólfinu! Dagurinn í dag er svo búinn að vera ansi þunnur svo ekki sé nú meira sagt..

Jæja, ég er hálf tóm í haus eitthvað.. Er að spá í að henda mér upp í sófa og hafa það kósý..

21 mars 2003

Jæja, þá er loksins komin helgi! Ég fór og hitti bróður minn í gær. Hann kom svo í skólann til mín í dag og spjallaði við 9. og 10. bekk hvernig það var að fara svona til annars lands, að þurfa að standa á eigin fótum í ókunnu landi og vera því sem næst alveg mállaus. Það komu nú ekki mikil viðbrögð frá 9. bekk - ekki frekar en vanalega. Við erum alvarlega að spá í að gefa út dánarvottorð á þann bekk. Þó svo að maður vilji nú hafa hljóð í bekknum á meðan maður er að kenna þá vill maður nú geta spjallað um daginn og veginn við þau, en það er frekar erfitt í þeim bekk. Krakkarnir í 10. bekk voru hins vegar hressari og spurðu mikið. Ég vona bara að þetta hafi verið þeim hvatning til að láta verða af því að fara eitthvað til útlanda í framtíðinni. Ég fór svo með 8. bekkinn í heimsókn til 7. bekkjar þar sem að Hlynur lögga var með fyrirlestur um vímuefni, hnupl og alls kyns hluti. Ekki mikið kennt í dag semsagt. Ég verð að viðurkenna að mér finnst Hlynur vera orðinn svolítið þreyttur sem fyrirlesari fyrir þessa krakka. Ég veit ekki hvort það skili einhverjum árangri það sem hann er að segja við þau. Ég reyni oft að nýta tímann ef þau spurja um eitthvað til að spjalla við þau. Ræddi m.a. líffæragjafir við 8. bekk í morgun. Man samt ekki af hverju við byrjuðum að ræða það.. Ræddi líka áfengisdrykkju við 7. bekk um daginn. Strákarnir þar sjá áfengið í miklum dýrðarljóma, svona eins og flest allir krakkar svo sem. Ég reyndi að benda þeim á að þeir ættu ekki að byrja að drekka fyrr en þeir gætu tekið þeim afleiðingum sem fylgdu því. Það væri t.d. ekki gaman að fara út og muna ekkert eftir kvöldinu. Vakna svo kannski á ókunnum stað og vita ekkert hvað maður var að gera af sér. Enda kom það svo í ljós að þeir eru hálf hræddir við eldri strákana í bænum sem eru að drekka og dópa og voru ekki á því að þeir hefðu það eitthvað gott. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki með geðveikan áróður fyrir því að þau eigi ekki að drekka fyrr en þau eru orðin tvítug, en ég reyni að benda þeim á að þetta á ekki alveg við grunnskólasamfélagið. Líka að þau verði að hugsa hvað þau eru að gera, það sé engin afsökun að hafa verið fullur, maður verði að taka ábyrgð á sjálfum sér. Það er bara vonandi að það komist til skila...

Jæja, er að spá í að fara heim og þrífa. Ég var að fá nýtt klósett í gær :) Skil ekki í mér að hafa ekki fattað fyrr að leika sætu, vitlausu stelpuna.. Fór og talaði við Bæsa á laugardaginn þegar ég var búin að gefast upp á því að reyna að ná í Hafþór - sem er píparinn hérna. Hann er búinn að vera á leiðinni til mín síðan ég flutti í íbúðina í júlí í fyrra. Bæsi er semsagt bróðir hans og býr í íbúðinni við hliðina á mér - og hefur verið duglegur að bjóða fram aðstoð sína ef ég hef þurft á því að halda.. Það semsagt svínvirkaði að vera bara vitlaus og sæt og allt er komið í lag núna.. En allavegana, ég ætla heim að þrífa. Er svo að hugsa um að skella mér eitthvað út á lífið á helginni...

20 mars 2003

Ég fór í sund í gær eins og ég ætlaði mér. Stoppaði reyndar mjög stutt í heita pottinum því að pottaskelfir var þar. Þegar ég ætlaði að flýja í nuddpottinn þá elti hann greyið svo ég fór bara upp úr. Við Ella fórum svo á leikinn í gærkvöldi. KFÍ var að spila við Ármann/Þrótt um sæti í úrvalsdeildinni að ári. Þetta var nú bara ágætis leikur. KFÍ vann í framlengingu þannig að þeir koma til með að spila á meðal þeirra bestu á næsta ári. Það verður gaman að fylgjast með því. Á morgun spila þeir svo við Þór um meistaratitilinn í deildinni - og ef þeir vinna það verður væntanlega mikið djamm! Ekki leiðinlegt!

Annars er nú bara allt fínt að frétta úr Bolungarvíkinni. Finnabær verður opnaður fyrir páska þannig að bráðum getur maður farið að kaupa sér eitthvað að borða hérna aftur - já og kíkja á pöbbinn ;) Svo er búið að vera líflegt á fasteignamarkaðinum. Alda Karen og Bjössi voru að flytja vestur og taka við Finnabæ. Þau voru að kaupa af Möggu Eyjólfs. Síðan var Matta á pósthúsinu að kaupa inn á grundum, við hliðina á Nonna Bjartar. Svo er Unni að skoða hvort hann geti keypt af Dodda hennar Magneu Guðfinns. Stebba og Óli eru svo í greiðslumati því þau eru að spá í að kaupa af Jóhannesi og Halldóru uppi á Hjallastræti. Svo er Stebba ólétt aftur, Íris læknir er líka ólétt. Hmm, man ekki meira slúður - nú getur samt enginn kvartað yfir því að ég hafi gleymt að segja frá! Heyrðu jú, það var brotist inn í Tröð aðfararnótt þriðjudagsins. Stolið sígarettum og einhverjum peningum held ég. Bragi dóp og co hljóta að vera líklegir kandídatar. Svo er verið að loka blómabúðinni hérna. Soffía ætlar samt að halda áfram með búðina innfrá og vera í samkeppninni þar. Skil ekki alveg hvað hún er að pæla. Daddara.. Held að ég muni ekki meira..

Jæja, ég er að spá í að drífa mig heim. Ég var að frétta að bróðir minn hefði komið vestur í morgun! Það er ekki verið að kíkja í skólann til að láta mig vita... Maður hefur það svo bara rólegt í kvöld. Fæ reyndar eina gellu í aukatíma í ensku - en það reddast nú..

19 mars 2003

Ég var að fá símareikninginn fyrir seinasta mánuð. Ég sendi 507 sms.. Mamma skilur ekkert í því hvernig ég fer að þessu og ég verð eiginlega að viðurkenna að ég geri það ekki heldur. Ég held samt að þetta sé tengt því hvað mér leiddist mikið í janúar og febrúar. Enda var nákvæmlega ekkert um að vera hérna þá.

Ég er alveg að mygla í öllu þessu árshátíðarstússi. That´s not my idea of fun! Þegar að það er stigsvinna væflast ég bara um, get ekkert hjálpað krökkunum. Svo þarf ég að hafa leikæfingu á hverjum degi eftir skóla. Það er endalaust vesen að fá krakkana til að mæta og fá suma til að fara með textann sinn með smá tilfinningu. Ég verð alveg svakalega fegin þegar árshátíðin verður búin!

Nú á víst að ráðast inn í Írak í nótt. Ég verð að viðurkenna það að rökin fyrir þessu stríði finnst mér heldur léttvæg. En það er kannski ekki við neinu öðru að búast frá Bush - ef hann hefur einhverjar gáfur þá eru þær ekki gáfulega notaðar. Ég var mjög ánægð að heyra að Robin Cook - utanríkisráðherra Bretlands - hefði sagt af sér til að sýna andstöðu við stríð. Það er bara verst að þegar er verið að fást við jafn stórt afl og Bandaríkin þá skiptir afstaða annarra engu máli. Eins og sést hefur í þessu máli. Bush ætlar sér að ljúka því sem pabbi hans hóf alveg sama hvað aðrar þjóðir segja. Maður verður eiginlega bara að krossa fingur og vona að þetta fari vel, já eða eins vel og hægt er þegar tveir klikkhausar fara í hár saman.

Daddara.. Jeg er stone completely dead eitthvað. Vantar nammi... Get samt ekki mætt með það á æfinguna á eftir - djö... Er að spá í að drífa mig í sund eftir vinnu og svo á körfuboltaleikinn innfrá í kvöld..

18 mars 2003

Jæja, þá ætla ég að láta reyna á röfl-hæfileikann minn sem allir eru að tala um að ég hafi.. Ég á reyndar að vera að vinna en er einhvern vegin ekkert að nenna því. Er að skipuleggja kjörbókarlista hjá 8. og 9. bekk. Ætla að fara að kenna þeim að skrifa ritgerð og meta góðar bókmenntir - eða eitthvað..

9. bekkur er að vinna verkefni hjá mér um Bolungarvík í tengslum við bók sem þau eru með í íslensku. Þau eiga að ,,selja" heimabyggðina sína, þe. búa til kynningu á henni sem myndi laða fólk hingað. Ég reyndi að benda þeim á hina ýmsu kosti sem bærinn hefur upp á að bjóða svona til að koma þeim af stað. Þegar við fórum að ræða bæinn almennt, landslagið, fjöllin, höfnina o.s.frv. þá fékk ég algjört áfall. Krakkarnir þekkja ekki bæinn sinn! Það er varla að þau viti hvað fjöllin hérna heita! Það hefur greinilega margt breyst á þeim stutta tíma sem er liðinn síðan ég var hérna í skólanum. Þá þótti það sjálfsagt mál að þekkja sögu bæjarins í grófum dráttum. Við vorum líka alin upp við að þykja vænt um bæinn okkar enda sést það á Bolvíkingafélaginu fyrir sunnan. Því miður heyrði ég það ekki á krökkunum að þeim þætti vænt um bæinn. Ég trúi ekki öðru en að þessi hugsunarháttur komi að mestu leyti frá foreldrunum og þeim skilaboðum sem samfélagið sendir þeim sem búa á landsbyggðinni. Það er kannski ekkert skrýtið að neikvæð viðhorf til landsbyggðarinnar komi fram þegar óopinber stefna stjórnvalda er að leggja landsbyggðina - eða allavegana Vestfirðina - niður. Stjórnvöld geta lítið þrætt fyrir það þegar þau hafa gefið út skýrslu um byggðamál og eflingu landsbyggðarinnar en minnast ekki einu orði á Vestfirði. Maður hefur það á tilfinningunni að það sé þögult samkomulag um að það eigi smátt og smátt að hrekja fólkið í burtu með því að gera því illkleift að búa hérna. Alveg eins og gert var á Hornströndum á sínum tíma. Það væri þó heiðarlegra af stjórnvöldum að lýsa því yfir að þau vilji ekki sjá byggð hérna og lýsa því þá hvernig þau vilji færa íbúana í burtu. Fólk gæti þó allavegana kosið um slíka stefnu.

Daddara.. Ég get nú greinilega ekki endalaust röflað - allavegana ekki um málefni sem hægt er að birta hérna.. Ætla að fara að reyna að koma einhverju í verk, það veitir víst ekki af....

17 mars 2003

AARRG!! Var búin að skrifa fullt og það datt allt út... Ég hata tölvur!! Ég náttúrulega man ekkert hvað ég var að röfla um áðan... Hmm, hugsi hugs.. Ég var eitthvað að segja frá því hvað ég var að gera á helginni. Á föstudaginn fórum við Ella á körfuboltaleik. KFÍ var að spila í úrslitakeppninni um sæti í Intersportdeildinni á næsta ári. Við urðum náttúrulega að hvetja sætu strákana :p Eftir leikinn var stefnan sett á djammið en mig langaði meira að vera heima og hafa það kósý - svo ég gerði það náttúrulega. Á laugardeginum fórum við í sund - já eða í pottana - og horfðum síðan á ágætis no brainer mynd. Um kvöldið skelltum við okkur svo á djammið. Enduðum á Kaffi Ísafirði og skemmtum okkur bara alveg ljómandi vel. Í gær var svo hálfgerður þynnkudagur. Ég var bara að dúllast heima hjá mér, fór svo með Ellu á Pizza 67 að borða og svo kíktum við í bíó. Það var verið að sýna Two Weeks Notice með Söndru Bullock og Hugh Grant. Hún var alveg ágæt bara. Lára hringdi reyndar til að athuga hvort ég væri ekki að horfa á myndina um Hlemminn sem var verið að sýna á RÚV. Ég var náttúrulega búin að steingleyma henni. En Lára tók hana upp og ætlar að senda mér hana. Mér skilst að þarna hafi verið meirihlutinn af kúnnahópnum úr bankanum okkar, aðallega rónar og þroskaheft fólk samt. Það verður fróðlegt að sjá hana.

Agga mín - ég verð að fá útrás fyrir röflið mitt einhvers staðar :p Sérstaklega þegar enginn vill koma vestur að heimsækja mig!! Sem minnir mig á eitt.. Það eru að koma páskar sem þýðir bara eitt hérna fyrir vestan. Skíði og djamm!! Þannig að ef einhverjum langar í tilbreytingu í djammlífið sitt - og að djamma með mér auðvitað - þá er ykkur öllum meira en velkomið að koma í heimsókn!!! Svona ef þið vissuð ekki af því...

12 mars 2003

Ég er alveg að sjá það að ég þarf að fara að komast í algjöra afslöppun. Heilinn á mér er gjörsamlega búinn að brenna yfir. Það var reyndar verið að benda mér á að ég væri nýkomin úr vetrarfríi, búin að kenna í 7 eða 8 daga síðan þá. En ég hef greinilega ekkert slappað af þá.. Eða þá að heilastarfsemin er í einhverju lágmarki á þessum árstíma. Ætla ekkert að tjá mig um þetta frekar áður en ég segi eitthvað miður gáfulegt..

Ég var að skrifa undir undirskriftarlista vímulausrar æsku gegn lögleiðingu kannabisefna. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg röksemdarfærslur þeirra sem vilja lögleiða þessi efni. Þó svo að áfengi sé langt frá því að vera skaðlaust þá þýðir það ekki að við eigum að lögleiða önnur efni sem nota bene má deila um hvort séu skaðsamari en áfengi. Áfengi hefur verið til í okkar samfélagi síðan á landnámsöld en hassið kom ekki til landsins fyrr en á síðustu öld. Rökin fyrir því að banna áfengið og lögleiða kannabis á þeim grundvelli að áfengið sé hættulegra er því hægt að skjóta niður með því að það væri illframkvæmanlegt. Áfengið hefur alltaf verið til og við aðlöguðumst því eins og öðru. Það er hins vegar algjör óþarfi að taka inn fleiri ósiði en við höfum. Áfengisdýrkun Íslendinga er líka þvílík að það myndi aldrei fást í gegn að áfengi yrði bannað. Ég er þeirrar skoðunar að fræðsla um skaðsemi áfengis eigi að hefjast heima. Ekki það að fólk þurfi að vera algjörir fanatíkerar og banna allt áfengi í 100 km radíus en það þarf að kenna fólki að umgangast áfengi af virðingu. Áfengið hefur nefnilegast aldrei gert neinum mein að fyrra bragði. Það eru sorglega fáir sem gera sér grein fyrir því hver séu helstu einkenni alkóhólista og reyna að vera meðvitaðir um sína drykkju. Þetta vantar algjörlega inn í allt forvarnarstarf. Krökkunum er bara sagt að áfengi sé slæmt og að þau eigi ekki að drekka. Hins vegar drekka flest allir í kringum þessa krakka - og það þýðir lítið að koma með þau rök að þau megi ekki drekka því þau séu ekki orðin nógu gömul.. Enda fer þetta forvarnarstarf oft fyrir ofan garð og neðan..

Alþingi lýkur störfum þetta kjörtímabilið á föstudaginn. Kosningaherferðirnar eru rétt að fara í gang og ég verð að viðurkenna að ég er farin að slökkva á sjónvarpinu þegar stjórnmálamennirnir byrja að rífast á skjánum. Ég held að þetta eigi eftir að verða ansi blóðug barátta - og leiðinleg eftir því. Það eru einhvern vegin engir virkilega skemmtilegir karakterar í pólitík í dag. Fyrir utan Guðna Ágústsson. Mér finnst hann rosalega skemmtilegur. Geir Haarde var einu sinni skemmtilegur en svo einhvern vegin missti hann touchið. Það er reyndar alltaf hægt að hlægja af Pétri Blöndal. Ég veit ekki í hvaða heimi maðurinn býr. Ég er allavegana búin að finna út að ég bý ekki þar.. Konurnar eru ansi litlausar eitthvað. Það eimir ennþá af þeim hugsunarhætti að maður eigi að kjósa konur af því að þær eru konur. Mér finnst það alveg kolröng stefna. Ef einhver kemur með þessi rök til mín er alveg pottþétt að viðkomandi fær ekki mitt atkvæði.

Jæja, viðveran er að byrja. Anna E. er byrjuð með klámvísurnar - læt eina fljóta með að lokum..

Einn piltur af fjallinu fannlausu,
var að fá það hjá Rannveigu mannlausu.
Þá brjálaðist gellan
og beit hann í sprellann.
Nú tekur hann bara þær tannlausu.

11 mars 2003

Þá er maður farinn að undirbúa umsóknina í Kennó. Ég var að gera starfsferilsskrá sem ég þarf að skila með í gærkvöldi. Var ekki alveg viss hvernig maður gæti gert svona skrá svo vel væri, en Anna skólastjóri er búin að kíkja yfir þetta hjá mér og samþykkja. Svo á maður að skila mynd með umsókninni - er ekki alveg að skilja það. Þarf víst að láta taka af mér passamynd. Þá er bara að vona að maður sé nógu sætur til að komast inn í skólann :p

Þann 5. apríl verður árshátíð skólans. Í ár verður eitt stórt leikrit sem að 5. - 10. bekkur setja upp fyrir utan hefðbundið kennaragrín 10. bekkjar. Ég er ekkert smá fegin að vera ekki að kenna þeim.. Ég á að leikstýra einum þætti í stóra leikritinu.. Er ekki alveg að sjá fyrir mér hvernig ég eigi að fara að því með mína rosalegu leikhæfileika! Það hlýtur samt að reddast einhvern vegin. Unglingastigið er líka að fara að hanna búninga og sviðsmynd fyrir leikritið og búa þetta allt til að sjálfsögðu.Við kennararnir eigum að leiðbeina þeim við þetta. Ég verð að viðurkenna að ég kvíði því svolítið.. Smíðar, hönnun og saumaskapur er ekki mín sterkasta hlið.. Ég þyrfti eiginlega að fá Öggu til að kenna fyrir mig í þessum tímum :p

Ég er búin að vera á kjaftatörn síðan ég kláraði að kenna í dag. Hef smá áhyggjur af tveimur stelpum sem ég er að kenna og hef verið að fá ráð hjá þeim eldri og vitrari hvað er hægt að gera.. Er að spá í að drífa mig í sund og hreinsa aðeins hugann. Leggjast í pottana og plana næstu helgi með Ellu. Böddi er einn heima og mér skilst að það eigi sko að djamma.. Ég var svona að reyna að benda þeim á að ég væri alltaf ein heima - er einhvern vegin löngu dottin úr þeim gír að halda partý þegar ég er ein heima.. En það verður svo sem gaman að upplifa smá gelgjufíling svona einu sinni á gamals aldri :p

10 mars 2003

Jæja, þá er fyrsta formúlukeppnin búin. Þvílík keppni! Ég bara man ekki eftir að hafa séð svona mikið action í einni keppni. Ég var að sjálfsögðu hæst ánægð með mitt lið. McLaren tók fyrsta og þriðja sætið :) Það er bara vonandi að allt tímabilið verði svona líflegt og skemmtilegt! Villeneuve var líka að koma á óvart - ég verð að standa með Hjördísi og vona að hann standi sig betur en Button í ár og haldi þar með sæti sínu hjá BAR.

Annars var helgin bara nokkuð róleg. Ég kíkti aðeins á Kaffi Ísafjörð með Ellu og Bödda. Var nú samt bara á bíl - voða góð. Það var eitthvað happdrætti í gangi og haldiði ekki að mín hafi unnið kassa af bjór!! Ekkert smá lukkuleg með það. Síðan fór ég í skírn í gær hjá Jónasi og Sólrúnu. Litli púkinn heitir Einar Geir og er að sjálfsögðu algjör dúlla.

Núna er ég í forfallakennslu í tölvum.... Bannað að hlægja!! Þar sem að ég er svo öfga klár á tölvur þá ákvað ég að leyfa þeim bara að leika sér :p Þá gat ég líka kíkt á MSN og bloggað.. Sló margar flugur í einu höggi! Þá er bara einn tími eftir í dag - íslenska hjá 7. bekk - og síðan er viðvera til 4 og leikfimi kl 5. Ég ætla síðan að fara öfga snemma að sofa í kvöld.. Er eitthvað svo þreytt eftir helgina..

07 mars 2003

Jæja þá er maður kominn í helgarfrí!! Þetta er búið að vera öfga erfið vika. Merkilegt hvað það getur verið erfitt að koma sér í gang eftir svona frí. Ég fór samt í leikfimi í gær - alveg rosalega dugleg :)

Þá er fyrri hlutinn af tímatökunum búinn. Minn maður, Raikkonen, varð annar :) Glæsilegur árangur það. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta verður allt saman út af nýju reglunum. Maður getur einhvern vegin ekkert séð út fyrir fram hvernig þetta verður. En það gerir þetta bara ennþá skemmtilegra. Þetta var náttúrulega ekki eðlilega leiðinlegt í fyrra.

Jæja, ég er ekki eðlilega tóm í haus. Var að kenna 9. bekk ensku í seinasta tímanum í dag og var ekkert að meika það. Leyfði þeim bara að hlusta á U2 :p Ætla að fara að dúllast með ömmu inn á Ísafirði..

Já já.. Ég meinti sko kynferðið.... Freudískt maður :p

05 mars 2003

Jæja, þá er maður byrjaður að kenna aftur og lífið farið að hafa sinn vanagang. Veturinn ákvað að koma í heimsókn, það byrjaði að snjóa í gær og hefur bara snjóað talsvert í dag. Ég var að kenna ensku í morgun og í þann mund sem ég segi að við séum að fara að hlusta og útskýri fyrir þeim hvað eigi að gera fer rafmagnið... Að sjálfsögðu við mikla ánægju krakkanna! Það var nú samt ekki rafmagnslaust lengi og ég komst yfir allt sem ég ætlaði í tímanum. Klukkan tíu var farið út í íþróttahús, kötturinn sleginn úr tunnunni og farið í leiki. Það var alveg ágætt bara. Verð að viðurkenna að þessi siður að slá köttinn úr tunnunni hefur aldrei þekkst hérna. Held að þetta hafi byrjað í fyrra. Við fórum bara á okkar maska, þeir allra hörðustu öll kvöldin. Það voru nú samt fáir maskar á ferðinni í gærkvöldi, enda var veðrið ekki gott. Ég verð bara að borða maskanammið sjálf ;)

Svo ég haldi nú aðeins áfram að fjalla um pólitík þá hefur kosningabaráttan heldur betur farið hressilega af stað. Þetta mútudæmi er alveg með ólíkindum. Ef ég pæli í því finnst mér afar ótrúlegt að Baugsmenn séu svo vitlausir að þeir haldi að hægt sé að múta Davíð. Enda held ég að það hefði vakið mikla athygli ef Davíð hefði allt í einu farið að láta þá í friði. Þetta er orðin ein hringavitleysa sem ég held að eigi eftir að reynast erfitt að komast til botns í. Davíð hefur svo sem aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér og að mínu mati er hann löngu farinn yfir strikið með ásökunum sínum og yfirlýsingum. Persónudýrkunin í Sjálfstæðisflokknum virðist vera slík að honum leyfist að gera því sem næst allt - og það er hættulegt. Mér finnst sorglegt að sjá þingmenn flokksins verja hann með kjafti og klóm, því að þó svo að maðurinn sé þeirra foringi þá er hann ekki fullkominn frekar en aðrir og ekki nema heilbrigt að vera honum ósammála. Það er að mínu mati munurinn á honum og Ingibjörgu Sólrúnu. Þau eru vissulega keimlíkir karakterar en þó finnst mér hún ekki leyfa sér að segja nákvæmlega það sem henni býr í brjósti án þess að skeyta um kóng né prest. Kannski er skýringin á því sú að hún sé ekki búin að vera eins lengi við völd og Davíð og hafi þar með ekki öðlast sama valdshrokann. Kannski liggur munurinn í kynhneigðinni. Konur hafa jú annan stjórnunarstíl en karlar. Ég skal ekki segja með það. Ég viðurkenni samt alveg að ég er hrifin af Ingibjörgu Sólrúnu sem stjórnmálamanni. Finnst hún bera af sér góðann þokka. Veit samt ekki hvort ég myndi kjósa hana og Samfylkinguna. Þeir eru ekki alveg að ná að sannfæra mig um það. Össur fer líka oft í mínar fínustu. Orðtakið bylur hæst í tómri tunnu lýsir honum oft vel.. Vinstri grænir eru heldur ekki að gera það fyrir mig. Kolbrún Halldórs fær mig til að slökkva á sjónvarpinu og þessi stefna þeirra að vera mjög skýrt á móti öllu finnst mér ekki góð. Alltof lítið af jákvæðum málflutningi hjá þeim. Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei haft neitt fram að færa sem hefur heillað mig og það hefur ekkert breyst. Þá er lítið eftir. Frjálslyndir boða svo sem góða stefnu fyrir Vestfirði - en ég er samt ekki að sjá þá komast til áhrifa. Framsókn já.. Kannski best að tjá sig sem minnst um þá..

Þá er formúlan að fara að hefjast að nýju :) Það verður gaman að sjá hvaða áhrif nýju reglurnar koma til með að hafa í keppni. Það er bara vonandi að það verði einhver spenna í þessu í ár. Þetta var ekki beint skemmtilegt í fyrra. Maður lét sig samt hafa það að horfa á hverja einustu keppni og vona að liðið mitt myndi fara að sýna sinn rétta lit.. En það kemur að því - ég er alveg sannfærð um það. Áfram McLaren!! :)

Jæja, ég ætla að fara að glápa á imbann fyrst hann er kominn í lag. Bæsi var eitthvað að fikta við rafmagnið hjá sér og þar sem að loftnetstengingin mín kemur þaðan var bara snjór í sjónvarpinu mínu.. Það er nú nóg af honum úti þó svo hann þurfi ekki að vera í sjónvarpinu líka!

03 mars 2003

Jæja, þá er maður loksins komin heim. Það er alveg merkilegt hvað það er alltaf gott að koma heim úr ferðalögum - eins og það er gaman að fara eitthvað! Ég byrjaði náttúrulega á því að fara í bollur til ömmu. Fiskibollur í matinn og rjómabollur í eftirmat. Mundi svo allt í einu eftir því að það eru maskar núna - og ég á ekkert nammi :( Góði kennarinn.. Ég bæti úr því á morgun eða hinn. Er að spá í að draga Ellu og Unu með mér á maska - gæti orðið gaman.

Á föstudaginn fór ég að djamma með Öggu. Frekar klikkað djamm hjá okkur. Byrjuðum heima hjá Öggu, vorum frekar lengi þar af því að hún var svo lengi að velja sér föt! Alveg búin að taka við mínu hlutverki í því greinilega. Kíktum svo upp í Listaháskóla þar sem að einhverjir sem eru í grafísku hönnuninni með Öggu voru að djamma. Fórum á Spotlight að heimsækja Jóa, kíktum á Hverfisbarinn - ég var ekki alveg að fíla troðninginn þar - á Gaukinn, Sportkaffi... Man ekki meira :p Hef aldrei flakkað svona mikið á einu djammi. En það var nú rosalega gaman hjá okkur ;) Meira að segja svo gaman að það var lítið um djamm á laugardagskvöldinu.. Kíkti þá á rúntinn með Hrafnhildi, það var rólegt og fínt. Sáum Laugaveginn frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Í gær komu svo Dagný og Haukur í mat með Kristinn Breka. Ég eldaði burritos fyrir okkur og seinna um kvöldið kíktum við Agga á Brennsluna. Í dag var svo verið að klára að útrétta allt og flogið heim seinnipartinn.

Alveg er ég orðin orðlaus á þessum blessaða forsætisráðherra okkar. Ekki það að ég ætli að taka afstöðu í þessu mútumáli, maður hefur ekki hugmynd um hverjum er hægt að trúa þar, en hrokinn og yfirgangurinn í manninum er ótrúlegur. Það er virkilega sorglegt að sjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins verja þessa tilburði. Hann er algjörlega að fara yfir strikið núna karlgreyið.. Það sorglega samt er að hinir flokkarnir eru bara ekkert mikið skárri. Pólitíkin á Íslandi í dag er eiginlega bara hund leiðinleg! Menn virðast ekki geta skipst á skoðunum án þess að þurfa að vera með skæting og dónaskap. Hvað varð um þá hæfni fólks að geta sýnt hvoru öðru kurteisi og virðingu? Mér finnst þetta sorgleg þróun. Eins og það var gaman að horfa á Silfur Egils og fylgast með pólitískri umræðu fyrir svona tveimur árum síðan. Verð að viðurkenna að ég er farin að slökkva á sjónvarpinu eða skipta um stöð þegar að umræða um stjórnmál byrjar.. og þá er nú mikið sagt!

Jæja, ætla að fara að drífa mig út í sjoppu að kaupa nammi fyrir maskana. Get ekki verið þekkt fyrir annað!