30 maí 2007

Er einhver..

á leiðinni vestur í bráð? Ég þyrfti að koma smá sendingu til hennar ömmu minnar.

29 maí 2007

Ástkæra tölvan mín

Það hefur stundum verið hlegið að tölvunni minni en hún er nú farin að nálgast 6 ára aldurinn. Ása Gunnur beið alltaf eftir því að hún tæki á loft í tímum í Kennó því það heyrist víst frekar hátt í viftunni. Það eru hins vegar litlar líkur á því að hún taki upp á því greyið, hún er nefnilegast svo hægvirk að hún færi aldrei langt. Þegar ég var að þrífa hjá mér á sunnudaginn fann ég kassa af diskettum í einni skúffunni hjá mér. Nú er víst ekki hægt að kaupa svoleiðis lengur svo ég verð að nota þá skynsamlega. Reyndar fékk ég gefins svona USB lykil í Való um daginn en ég er nú ekki búin að vígja hann ennþá. Verð reyndar að gera það í vikunni því mér skilst að það séu ekki diskettudrif á tölvunum á kennarastofunni í Való.

En það eru sterk böndin á milli mín og tölvunnar. Mér er alveg sama þó svo hún sé svo lengi að kveikja á sér að ég geti vaskað upp og gengið frá eftir matinn á meðan. Það er bara góð nýting á tímanum sem annars hefði verið eytt í tilgangslausan vals um internetið. Ég sé það samt ekki fyrir mér að við förum í gegnum annað háskólanám saman. Ég vona samt að hún þrauki allavegana ár í viðbót. Þá ætti að vera komin tími til að finna tölvu fyrir næsta nám. Ég ætti því að hafa nægan tíma til að læra á þennan fjandans lykil. Annars get ég upplýst móður mína um það að það er hægt að tengja svona USB við tölvuna. Hún hélt nefnilegast að það hefði ekki verið búið að finna svoleiðis upp þegar tölvan var framleidd.

27 maí 2007

McLaren rúlar

Að fenginni reynslu undanfarinna ára þá hef ég ekki lagt það í vana minn að gorta af góðu gengi minna manna í formúlunni. Þetta er jú ekki búið fyrr en búið er að flagga út seinasta mótið á árinu. En núna get ég ekki setið á mér - McLaren einfaldlega rúlar og ég get ekki neitað því að það hlakkar pínu í mér þegar Ferrari menn væla yfir stigakerfinu ;)

22 maí 2007

SKE - endo.is

Jæja þá kom að því að aðalfundur SKE, samtaka kvenna með endómetríósu, væri haldinn. Það er mikið búið að gera og búið að opna heimasíðuna endo.is. Mæli með því að þið kíkið á hana. Það vantaði nýja meðlimi í stjórn og ég bauð fram krafta mína. Ég held að það verði skemmtilegt verkefni að koma þessu málefni á framfæri í samfélaginu og ég hlakka til að takast á við það með hinum í stjórninni.

18 maí 2007

Bloggleti

Jamm ég er löt við þetta þessa dagana. Er fyrir löngu komin með upp í kok af pólitík og Eurovision framlagið okkar var luftgítar. Þarf ekkert að segja meira um það. Annars er lítið að frétta, AEG parið stendur fyrir sínu í þvottahúsinu og fær óspart að sýna fram á snilli sína. Amma er í bænum mér til mikillar gleði. Hún var í augnaðgerð sem tókst svo vel að þegar hún leit í spegilinn eftir hana uppgötvaði hún að hún væri orðin gömul og hrukkótt. En hún er samt ung í anda ennþá kellan og er auðvitað besta og flottasta amman ;)

Kennslan er að líða undir lok og bara prófið eftir. Þegar yfirferðinni á því verður lokið ætla ég að leggja kennaraprikið á hilluna í bili. Stefnan er hins vegar sett á Brussel þar sem að ég ætla að öllu óbreyttu að setjast á skólabekk árið 2009. Kannski fyrr, við sjáum til.

Svo eru Esjugöngur sumarsins hafnar. Toppurinn er ennþá langt í burtu en hann kemur til með að nálgast eins og óð fluga með þessu áframhaldi. Svo er hárið orðið rautt og þá meina ég rautt. Hún Guðný fékk að ráða litnum og það var ekki að spurja að því, rautt var það. Og ljómandi fínt auðvitað.

06 maí 2007

Elsku litla systir mín hún Rakel átti afmæli í gær. Til lukku með daginn elskan mín og vonandi hafðirðu það úber gott í gær :)

03 maí 2007

Nýji sambýlingurinn

Loksins, loksins hefur gamall draumur orðið að veruleika. Ég bíð spennt eftir því að nýji sambýlingurinn komi heim í dag og komi sér fyrir í plássinu sínu. Kvöldinu verður vafalítið eytt í að dást að þessu yndislega og fallega fyrirbæri sem hann er. Eins og sjá má á myndinni er Arnar Eggert Gunnarsson, einnig þekktur sem AEG, alveg einstaklega smekklegt og heillandi fyrirbæri. Ég er viss um að Arna Elín, einnig þekkt sem AEG, verði félagsskapnum fegin eftir áralanga einveru í þvottahúsinu.