21 nóvember 2007

Netið smetið

Einhverjum snillingnum tókst að grafa í sundur ljósleiðara á Bíldshöfðanum í dag. Þar af leiðandi vorum við netlaus í vinnunni frá hádegi og er víst ekki alveg ljóst hvenær þetta kemst í lag en það verður vonandi fyrir morgundaginn. Við vorum algjörlega handa og fótalaus og það var hreinlega kúnst að finna verkefni sem þarfnaðist ekki nettengingar. Það var líka ótrúlega furðuleg tilfinning að vera ekki á MSN, komast ekki inn á póstinn og geta ekki tékkað á nýjustu fréttum á mbl. Þegar ég kom heim byrjaði ég auðvitað á því að fara á netið og það voru nánast sömu fréttir á forsíðu mbl og þegar ég hafði kíkt seinast fyrir hádegi. Ég missti sem sagt ekki af neinu.

Ég held að uppgötvun dagsins sé að netið sé að mestu leyti tilbúin þörf og við hefðum klárlega gott af því að taka netlausan dag annað slagið. Þrátt fyrir þau ýmsu þægindi sem fylgja netinu þá komumst við nú ágætlega af án þess og væri varla vanþörf á að rifja það upp annað slagið.

Annars væri gaman að vita það hvað lesendur þessarar síðu eyða miklum tíma á netinu á hverjum degi - og hvað mikið af þeim tíma er í vinnu eða nám og aðrar ,,nauðsynjar" og hversu mikið er bara hangs.

Engin ummæli: