Kristni í skólum
Eins og sumir vita er ég lærður kennari þó svo ég starfi ekki sem slíkur. Ég hef aðallega kennt tungumál en í náminu er það skylda að fara í æfingakennslu á yngsta stigi og miðstigi auk þess að fara í æfingakennslu á kjörsviði. Í mínu tilfelli var það enska. Þegar ég kenndi á yngsta stigi og miðstigi kenndi ég í 2 vikur í 4. og 5. bekk. Það var vissulega gaman að prófa að kenna fög sem maður ætlaði sér ekki að kenna en það voru tvö fög sem voru almennur hausverkur hjá kennaranemum sem maður var í sambandi við. Það fyrra var stærðfræði en á yngsta stigi og miðstigi eru allt aðrar bækur notaðar í dag heldur en þegar ég var í skóla og eru þær byggðar á allt annarri aðferðarfræði en var kennd þegar ég var ,,ung". Þessar bækur eru sjaldnast sendar heim með nemendum til heimalærdóms þar sem fæstir foreldrar ráða við að aðstoða börnin við dæmin. Aðferðarfræðin er það ólík því sem eldri kynslóðir eiga að venjast.
Síðara fagið var kristinfræði. Ég á ekkert annað orð yfir það námsefni sem er í notkun í dag heldur en trúboð. Mér þótti það hart að það væri hluti af starfi mínu að kenna þessi fræði og ég veit að það eru margir kennarar sama sinnis. Mér hefði verið ljúft og skylt að kenna trúarbragðafræði en þessi námsgrein á einfaldlega ekkert skylt við hana og því gengur það þvert á siðferðisvitund margra kennara að kenna þetta fag eins og það er sett upp í dag.
Ég ætla ekki að setja neitt út á æskulýðsstarf Þjóðkirkjunnar, þar er ágætur boðskapur sem gerir börnum og unglingum eflaust gott. Þetta starf á hins vegar ekki heima innan veggja skólakerfisins. Það er bara svo einfalt. Mér finnst sorglegt að hlusta á málflutning biskups varðandi þá atlögu sem verið er að gera að kristnu starfi í skólum eins og hann orðar það sjálfur. Skólinn er ekki vígi kirkjunnar, ekki frekar en annarra trúfélaga. Það skiptir engu máli í því samhengi að meirihluti landsmanna sé hluti af Þjóðkirkjunni.
Það sést á málflutningi kirkjunnar manna að þeir eru sárir yfir þessari ,,atlögu" og finnst lítið gert úr því starfi sem kirkjan innir af hendi. Þrátt fyrir að málflutningur sumra beinist kannski í þá átt þá held ég að í flestum tilfellum sé það ekki málið. Öflugt og gott æskulýðsstarf kirkjunnar er af hinu góða fyrir samfélagið. Því á hins vegar að halda fyrir utan skólakerfið. Það er mergur málsins. Ég held að það væri vænlegra fyrir þjóna kirkjunnar að bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum og aðlaga sitt æskulýðsstarf að breyttum aðstæðum heldur en að koma sárir og reiðir í viðtöl í fjölmiðlum. Að sýna það umburðarlyndi og kærleik sem trúin boðar en ekki pakka í vörn þegar sjónarmið annarra samræmast ekki þeirra eigin. Slíkur málflutningur gerir lítið annað en að eyðileggja fyrir þeim sjálfum og stuðlar ekki að framgangi trúar, umburðarlyndis og kærleika á Íslandi - nema síður sé.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli