Bölvað væl
Eins og flestir vita sem lesa þessa síðu þá er pabbi minn stjórnmálamaður og hefur verið umdeildur sem slíkur síðan ég man eftir mér. Við bjuggum líka í litlum bæ alla mína barnæsku og ef einhver heldur að það sé auðveldara að eiga foreldra eða nána aðstandendur í bæjarpólitík heldur en í landsmálapólitík þá er það mikill misskilningur. Vissulega þýðir það enga Spaugstofu en eins rætið og innanbæjarslúðrið getur verið þá hefði Spaugstofan verið skárri. Það var allavegana mikill léttir að flytja suður og losna undan nálarauga smábæjarslúðursins og vera tekið á mínum eigin forsendum.
Ég er hins vegar afar stolt af pabba mínum og mömmu og ég er þeim afar þakklát fyrir að hafa lánast að ala okkur systkinin upp við að bera virðingu fyrir náunganum og bera það mikla virðingu fyrir okkur sjálfum að fara ekki niður á það plan þar sem óvægnar kjaftasögur og pólítískar blammeringar ráða ríkjum. Ég hef enn þann dag í dag aldrei upplifað það innan minnar nánustu fjölskyldu að talað sé um aðra á rætinn hátt og þrátt fyrir að oft hafi verið spjallað við eldhúsborðið var það aldrei vettvangur slúðurs eða niðrandi ummæla. Það lærðum við í fjölskyldunni eftir að hafa ansi oft verið skotspónn rætinna kjaftasagna að þetta væri ekki hlutskipti sem við ætluðum öðrum.
Þá komum við að vælinu. Eins hvimleiðar og leiðinlegar kjaftasögurnar eru og þó svo að Spaugstofan geri grín að manns nánustu þá er það því miður órjúfanlegur hluti af því að taka þátt í íslenskri pólitík að um mann er talað og umræðan getur verið óvægin. Ef menn ætla bara að væla eins og Björn Ingi þá eiga þeir bara að snúa sér að öðru. Umræðan um Ólaf F er kannski af pínu lítið öðrum meiði en hún á þó algjörlega rétt á sér. Að skýla sér á bakvið geðsjúkdóm og skrílslæti er útí hött og er til þess eins að beina athyglinni frá hefndarþorstanum sem réði ríkjum þegar nýr meirihluti var myndaður í borginni.
Það var viðbúið að það yrði allt vitlaust og það skal enginn segja mér það að gamli góði Villi og Ólafur F séu það blautir á bakvið eyrun í pólitík að þeir gerðu sér ekki grein fyrir því. Vissulega er fín lína á milli umræðu um sjúkdóm Ólafs og fordóma en það þýðir ekki að umræðan eigi ekki rétt á sér. Fólk með hans sjúkdóm getur vissulega funkerað vel í samfélaginu og staðið sig fantavel í vinnu. En eins og kom fram í heimildarmynd Stephens Fry á RÚV um daginn þá er mikið álag ekki af því góða fyrir fólk með þennan sjúkdóm og er það því nema von að það vekji upp hjá manni spurningar hvernig Ólafur F ætli að höndla það álag sem fylgir starfi borgarstjóra Reykjavíkur? Hvort hann sé á þessum tímapunkti í sínu lífi, nýkominn úr veikindafríi, í stakk búinn til þess að valda þessu starfi? Fyrir utan þá staðreynd að einungis 5% borgarbúa styðja hann í starfi - sem er nú mergur málsins þó svo að það læðist að manni sá grunur að samherjar Ólafs í borgarstjórn hafi reynt að beina umræðunni þangað til þess að skapa samúð með honum og auka fylgið við veikan meirihluta.
En að Spaugstofan hafi farið yfir strikið og að Ólafur F og Björn Ingi eigi eitthvað bágt er bara kjaftæði. Þetta er langt frá því það versta sem hefur gengið yfir menn í íslenskri pólitík og það væri ráð fyrir þá að taka þessu eins og menn og svara fyrir sínar gjörðir í stað þess að hlaupa í fórnarlambshlutverkið og sýna tárin.
Mér finnst það líka hræsni að hafa áhyggjur af fjölskyldu Ólafs F og viðbrögðum þeirra við þættinum. Eins og það hafi verið skemmtilegra fyrir dætur Valgerðar Sverris þegar Skaupið gekk út á það eitt árið að drekkja Valgerði? Eða fyrir börn Árna Sigfússonar og Bryndísar þegar þau voru Barbie og Ken heilt gamlárskvöld? Eða þegar Sólveig Péturs og Kristinn Björnsson voru tekin fyrir í Skaupinu. Það hefur enginn haft fyrir því hingað til að hafa áhyggjur af viðbrögðum aðstandenda og barna stjórnmálamanna við því þegar þeirra nánustu verða skotspónn fjölmiðlanna. Ef menn ætla að byrja á því núna þá get ég ljóstrað því upp að það er varla Spaugstofan eða Skaupið sem að meiða mest heldur sú fyrirlitning sem menn eiga til að sýna hvor öðrum í almennri umræðu. Að upplifa fyrirlitningu frá öðrum einungis vegna þess að þeir eru ekki sammála fólki, sem stendur manni nálægt, í pólitík. Það er hægt að hafa húmor fyrir hinu.
Ég sting upp á því að þessir ágætu stjórnmálamenn fari að haga sér eins og menn, sinna því sem þeir voru kosnir til að gera og hætta þessu væli. Að öðrum kosti væri hreinlega þjóðráð að hætta þessu bara. Fólk sem vill hlaupa til og vorkenna börnunum hans Ólafs ætti að líta sér nær. Og ef menn ætla að tapa sér í því að gagnrýna Spaugstofuna þá má minna á að þeir eiga allir börn...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli