Mannleg samskipti
Það er ofarlega á baugi í fréttatímum þessa dagana að lögreglumanni hafi verið vísað frá starfi tímabundið eftir að hafa tekið ungling kverkataki. Í fréttatíma Stöðvar 2 áðan kom fram að lögreglumenn hafa sjálfir óskað eftir því að fá kennslu í mannlegum samskiptum og það var það sem þeim þótti hvað mest ábótavant við starfið og námið í Lögregluskólanum.
Þegar ég var í Kennó þótti mér það merkilegt að það var ekki einn skyldukúrs sem snéri að aga og agastjórnun, viðtalstækni eða mannlegum samskiptum. Það er ekki hægt að neita því að þessir þættir eru kjarninn í kennarastarfinu og ef einstaklingur hefur ekki gott vald á þeim er ansi hætt við að hann verði glataður kennari - alveg sama hvað hann getur þulið mikinn fróðleik upp úr bókum. Núna er verið að lengja kennaranámið upp í 5 ár, sem er gott og blessað og afar þarft, en mér þykir það skjóta skökku við að verið sé að lengja námið án þess að bæta inn þó ekki væri nema einhverjum af ofantöldum þáttum. Eitthvað af þessu er kennt í valfögum en í mínum huga er það hreint og klárt djók. Enginn kennari hefur val um það hvort hann vilji halda uppi aga eða eiga samskipti við nemendur sína og foreldra þeirra. Að bjóða upp á þessi fög í vali er eins og að plástra svöðusár með allt of litlum plástri.
Ég held að það sé stór partur af að mörgu leyti slæmri ímynd kennara að þessum þætti sé ekki sinnt sem skyldi í Kennó. Ég hef engan hitt sem ekki hefur getað nefnt dæmi um kennara sem var gjörsamlega vanhæfur í mannlegum samskiptum og skilið eftir djúp sár á sumum nemenda sinna sem gróa jafnvel aldrei. Það þarf ansi marga góða kennara til að bæta upp slík áhrif. Ég held að það sé sama málið með löggurnar. Það er nefnilegast ekki meðfæddur eiginleiki að kunna samskiptatækni og að kunna að tækla erfiðar aðstæður og hann lærist ekki með því einu að setja upp lögregluhúfu eða taka upp kennaraprik.
Í Hjallastefnunni eru mannleg samskipti hluti af námsgreinunum. Margrét Pála hefur unnið mikið brautryðjendastarf og mér finnst frábært að vita til þess að til séu skólar á Íslandi sem hafa það að markmiði sínu að kenna nemendum sínum samskipti - jafnvel þó svo að þeir séu eingöngu á leikskólastigi og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Ég vona bara að við þurfum ekki að bíða eftir því að nemendur þeirra vaxi til vits og ára þangað til að kennsla í samskiptum færist upp skólastigið og til þeirra sem þurfa kannski helst á henni að halda.