10 maí 2008

Ást er miklu meira en bara þriggja stafa orð

Ég var að koma heim af tónleikum. Við mamma fórum að sjá Hörð Torfa í Fríkirkjunni. Ég hef einu sinni áður farið á tónleika með Herði. Þá bauð pabbi mér með sér á tónleika með honum í Borgarleikhúsinu. Hann kom mér skemmtilega á óvart og því var það ekki spurning um að drífa sig þegar ég rakst á það að það væru tónleikar með honum í kvöld. Tilefni tónleikanna var að það eru 30 ár síðan Hörður stóð fyrir stofnun Samtakanna 78 og hann fór í grófum dráttum í gegnum sögu sína og þá ofboðslegu fordóma sem hann varð fyrir þegar hann kom út úr skápnum.

Mér finnst alveg magnað að hlusta á sögu hans. Daginn eftir að hann kom úr skápnum var hann búinn að missa vinnuna og íbúðina og stóð einn. Honum var vísað út af skemmtistöðum, fékk jafnvel ekki að fara inn á þá, var laminn og það var hrækt á hann úti á götu. Ofsóknirnar voru þvílíkar að hann varð að flýja land og hann var í tæp 20 ár í útlegð í Danmörku.

Mannvirðing og náungakærleikur hafa verið mér ofarlega í huga undanfarið og kannski náði boðskapur Harðar því betur til mín en ella. Íslenskt samfélag hrækir kannski ekki á samkynhneigða í dag en samfélagið hefur ekki breyst meira en svo að það eru bara aðrir sem verða fyrir hrákanum. Mér finnst það umhugsunarefni hvernig samfélagið kemur fram við náungann og það væri óskandi að fleiri eyddu tíma sínum í að skoða bjálkann í sínu eigin auga og takast á við sjálfan sig í stað þess að einblína sífellt á flísina í auga náungans.

Ég er á því að Hörður Torfa sé einn vanmetnasti tónlistarmaður sem við Íslendingar eigum. Hann er söngvaskáld sem syngur um lífið eins og það hefur komið honum fyrir sjónir og það verður að segjast eins og er að það er mikill viskubrunnur um mannvirðingu, samskipti og kærleika. Boðskapur sem er aldrei nóg af. Náfrændi hans Harðar, Ævar Örn Jósepsson, hefur unnið að því í samvinnu við Hörð að skrá niður sögu hans. Ég veit ekki hvenær bókin verður klár en eitt er þó víst að saga hans verður fróðleg lesning. Ég mun allavegana klárlega kaupa mér eintak þegar hún kemur út. Ég mæli með því að þú gerir það líka.

Engin ummæli: