25 júlí 2008

Fólk er fífl

Það höfðu greinilega fleiri en ég hug á að labba Esjuna og það er sorglegt mál mannsins sem fannst þar látinn fyrr í dag. Sorglegast finnast mér þau viðbrögð bloggheima við leitinni að manninum. Upphrópanir eins og að maðurinn mætti labba þarna nakinn ef hann vildi og það væri algjör óþarfi að eyða peningum í að leita að manngreyinu, hann væri örugglega ekki heill á geði. Svona upphrópanir eru það heimskulegar að þær eru ekki svaraverðar og ég er nokkuð viss um það að annar tónn hefði verið í þessu fólki ef þetta hefði verið einhver þeim nákominn.

En fyrst að flestar upphrópanirnar snérust að peningum langar mig að benda á eitt. Þegar björgunarsveitir eru kallaðar út til leitar er ekki verið að eyða skattpeningum. Fólkið sem starfar í björgunarsveitunum gerir það í sjálfboðaliðastarfi og sveitirnar eru ekki á fjárlögum frá Ríkinu. Auðvitað kostar Ríkið rekstur Gæslunnar og þar af leiðandi þyrlunnar en ég verð að viðurkenna að ég treysti því ágæta fólki sem vinnur við þessi mál miklu betur til þess að vega og meta hvenær það er réttlætanlegt að kalla þyrlurnar út heldur en sjálfskipuðum besservissurum út í bæ sem fela sig á bakvið tölvuskjái.

Eins og viðbrögð bloggheima gefa merki um þá er fólk fífl og ég held að við ættum öll að vera þakklát því fólki sem er tilbúið til þess að eyða sínum frítíma í að leita að okkur fíflunum og bjarga okkur þegar við förum okkur að voða. Ef að þau væru ekki til staðar gerði það enginn annar.

Engin ummæli: