Þá byrjar ballið
Þá er kynningarvikan búin og alvara lífsins að taka við. Ég er búin að velja mér kúrsa og kem til með að eiga frí alla mánudaga svo það er enginn skóli í dag. Ég verð reyndar bara í tveimur fögum vikulega, International Relations Theory og undirbúningskúrsi fyrir mastersritgerðina, en hinir tveir kúrsarnir sem ég valdi eru kenndir óreglulega. Annar, Negotiation and Mediation, verður tekinn mjög stíft eina helgi í mánuði. Prófessorinn býr í Berlín og því er fyrirkomulagið svona. Þetta er hins vegar mjög erfiður kúrs er okkur sagt og nógur lestur þó svo að tímarnir séu ekki vikulegir. Efnið er samt svo svaðalega spennandi að ég ákvað að skella mér í hann þrátt fyrir það og sleppa History of International Conflicts í staðinn. Sá kúrs er hins vegar kenndur á þriðjudögum, sem er skóladagur hjá mér, svo ég ætla að sitja fyrirlestrana í honum en við megum audita kúrsa, eins og það heitir á slæmri íslensku. Þá sitjum við fyrirlestra en þurfum ekki að lesa efnið eða gera verkefni. Þá fæ ég upprifjun á sögunni sem ég lærði hjá Ragga sögukennara í Kvennó og fæ jafnvel annan vinkil á efnið í leiðinni.
Hinn kúrsinn, International Economics, verður kenndur á föstudögum sirka hálfsmánaðarlega. Prófessorarnir sem sjá um hann koma frá Canterbury. Prófessorinn sem kynnti kúrsinn á kynningarvikunni náði mér alveg þegar kom að námsefnislistanum. Bara ein bók og ekkert vesen! Hentar fullkomlega með Negotiation kúrsinum þar sem er dágóður slatti af bókum sem þarf að lesa og prófessorinn gerir kröfur um að við lesum þær ALLAR. En efnið er líka áhugavert og ég tók það framyfir alla kúrsana um pólitík og umhverfisvernd.
Talandi um umhverfisvernd þá eru græn sjónarmið alveg svaðalega heit hérna. Ég er svo innilega ekki pólitískt ,,rétt“ þenkjandi í þeim efnum því að mér finnst umræðan um umhverfis- og dýravernd alveg sérstaklega leiðigjörn. Fyrir utan hvað það pirrar mig að þurfa að flokka ruslið hérna og mega ekki henda hverju sem er í ruslið – fyrir utan það er ég ekki alveg búin að ná því hvar Sorpa þeirra Belga er og þá síður hvort að Metróið gangi þangað – hvað þá að nenna að drösla því sem ég þarf að farga þangað.. Ekki það að ég vilji ekki ómengaða náttúru, mér finnst t.d. hugmyndin um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum vera gjörsamlega út í hött, en fyrr má nú rota en dauðrota í öllum púritanismanum...
Og pólitíkin.. Kannski ég eigi eftir að velja mér stjórnmálafræðikúrs eftir áramótin, það er aldrei að vita, en á meðan ég er ennþá glöð yfir að vera laus við fréttir af argaþrasi íslenskrar pólitíkur þá hef ég lítinn áhuga á því að demba mér útí stjórnmálafræðikúrsa á alþjóðavettvangi. Og þó svo það sé gaman að ræða heimsmálin við samnemendur úr öllum heimshornum og heyra alskonar sjónarmið þá er stúdentapólitíkin í skólanum heldur amerísk fyrir minn smekk. Svo sem í takt við meirihluta nemenda þar sem tveir þriðju þeirra koma frá Bandaríkjunum, en afsakið á meðan ég æli kemur frekar upp í hugann heldur en ji hvað þetta er áhugavert. Enda er ég ekki alin upp við það að smjaðra og kyssa rassa og þykjast ætla að styðja fólk sem ég ætla ekki að styðja eins og virðist því miður vera lenskan hér. Það er kannski auðveldasta leiðin að aðlaga sig að þessum viðhorfum og taka þátt í leiknum en það verður bara að segjast eins og er að ég fæ of mikinn aulahroll. Mér finnst svona hegðun einfaldlega röng og óheiðarleg svo að ég ætla að synda á móti straumnum og standa við mín prinsipp.
Annars gengur lífið sinn vanagang í landi bjórs, blúndna og súkkulaðis. Ég hef aðallega verið í súkkulaðideildinni hingað til og hef tekið miklu ástfóstri við súkkulaðibitakökurnar hérna. Smakkaði belgískt heitt súkkulaði á laugardaginn og verð nú reyndar að viðurkenna að þó svo það hafi verið afar bragðgott þá toppaði það ekki íslenskt heitt súkkulaði með rjóma. Enda fékk ég engan rjóma sem er önnur saga. Annars er planið að vera innandyra í dag og reyna að ná úr mér slappleikanum sem hefur verið að angra mig alla síðustu viku. Ekki seinna vænna að ná upp orkunni áður en alvaran tekur við...