25 september 2008

Loksins, loksins, loksins

Er ég komin með nettengingu heim. Ég er eins og lítið barn á jólunum ég er svo ánægð. Nú get ég hætt að kúldrast úti á verönd með grifflurnar, trefilinn og teppið og farið á netið bara þegar mér hentar. Þvílík þægindi! Svo fékk ég sjónvarpið í lag í dag líka (kapalinn tengdann) svo að ég get horft á formúluna á helginni og allt. Gæti lífið orðið mikið betra?

Annars gengur lífið bara ágætlega hérna í Belgíu. Mér líst mjög vel á skólann og það sem komið hefur fram á kynningarvikunni lofar góðu fyrir komandi skólaár. Skólinn heitir University of Kent, fyrir þá sem ekki vissu, og er með aðal campusinn sinn í Canterbury á Englandi. Þeir eru hins vegar með starfsstöðvar á nokkrum stöðum í Evrópu og allt framhaldsnám tengt alþjóðafræðum er kennt hér á campusnum í Brussel. Ég ætla mér að taka master í Alþjóða samskiptum og það er ársnám. Útskriftin verður í Canterbury Cathedral í Kent í nóvember á næsta ári. Það kemur svo bara í ljós hvað ég geri í framhaldi af því.

Í gær fór ég á svokallað Global Security Challenge sem skólinn minn var að hósta. Þetta er semsagt alþjóðleg keppni þar sem fyrirtæki geta komið á framfæri ýmiskonar lausnum í öryggismálum og í verðlaun eru 500.000 USD. Lokakeppnin verður í London í nóvember en í gær var lokakeppni í Evrópuhlutanum og fóru 2 fyrirtæki af 5 áfram í úrslitin í London. Þetta var mjög áhugaverð ráðstefna og þarna voru samankomnir nokkrir toppar í öryggismálum Evrópu og voru bæði frá ríkinu (lögreglu, her o.s.frv.) og frá einkafyrirtækjum sem sérhæfa sig í öryggismálum fyrir hið opinbera og fyrirtæki. Blackwater, sem hefur starfað fyrir Bandaríkjastjórn í Írak, er dæmi um slíkt fyrirtæki þó svo að það hafi komið skýrt fram í gær að það væri ekki hátt skrifað í þeim geira. Ég efast um að ég eigi eftir að starfa í þessum geira í framtíðinni en þetta var mjög áhugavert engu að síður og upplýsandi. Væri ekki vanþörf á fyrir upplýsta umræðu af þessu tagi heima á klakanum þó svo ég sjái ekki þörfina fyrir heimavarnarliðið hans Björns Bjarnasonar.

Frönskutímar byrja svo í næstu viku. Ekki vanþörf á því. Maður getur ekki tekið Joey á þetta endalaust... Þann 11. nóvember býður einn prófessorinn við skólann upp á ferð til Ypres, sem er í flæmskumælandi hluta Belgíu. Bærinn rekur sögu sína fyrir kristsburð og er kannski hvað þekktastur fyrir það að þar voru harðar orustur háðar í fyrri heimsstyrjöldinni. Því stríði lauk einmitt 11. nóvember og af því tilefni er ferðin farin. Ég er búin að skrá mig í þessa ferð og hlakka bara til þess að fara. Svo er búið að bóka spennandi gestafyrirlesara í skólanum þessa önnina og margt fleira skemmtilegt framundan.

En jæja, ætla að fara og hafa það huggulegt yfir góðri bíómynd. Af því að ég get það núna. Spáið í lúxus! Það er svo auðvelt að gleðja mann....

Engin ummæli: