22 september 2008

Fyrsti skóladagurinn

Þá er fyrsti skóladagurinn og ætli hann hafi ekki verið nokkuð týpískur. Standa í biðröð til þess að fá eyðublöðin sem átti að fylla út, önnur röð til að fá lykilkort að skólanum og enn önnur til þess að skrá sig. Fór svo og opnaði bankareikninginn í útibúinu sem er á campusnum. Þar hefur einn annar Íslendingur verið með bankareikning og það var búið að merkja við Reykjavík á heimskortinu. Þar sem ég er hins vegar borin og barnfæddur Bolvíkingur fékk Bolungarvík sinn stað á kortinu og trónir þar að sjálfsögðu efst.

Deginum lauk svo með tveggja og hálfs tíma göngu um campus svæðið. Við höfum aðgang að öllum campusnum hjá flæmska skólanum og að bókasafninu hjá þeim franska. Svo er svaka líkamsræktarstöð á campusnum sem við höfum aðgang að og nokkurs konar heilsugæslustöð sem á eftir að nýtast mér held ég ágætlega. Þetta lítur allt saman ágætlega út og mér list vel á skólann. Ég veit ekki hversu mikla samleið ég á með meirihlutanum af nemendahópnum en þau hafa talsvert meiri áhuga á börunum hérna heldur en ég. Ég hef nú samt farið einu sinni eða tvisvar og hitt þau til að vera ekki algjör félagsskítur en ég vona bara að það sé einhver í hópnum á mínu leveli. Væri skemmtilegra.

Annars er ég farin að þekkja mig ágætlega í borginni. Pabbi kom í nokkra daga í síðustu viku og við kláruðum að koma mér almennilega fyrir. Fundum líka skólann - sem tók sko tímana tvenna enda Belgar ekki þeir áreiðanlegustu í því að gefa leiðbeiningar svo ekki sé meira sagt... - og hann kenndi mér á metroið líka. Ég á svo aðeins eftir að skoða hverfið mitt, finna almennilegan stórmarkað og sundlaugina sem á að vera þar en þvottahúsið er ég búin að finna. Það var eiginlega möst því reykingar eru leyfðar á börunum hérna og maður er eins og úldin skunkur þegar maður kemur heim eftir að hafa kíkt aðeins út og algjört möst að henda öllu í þvott á eftir.

Skólinn fer svo á fullt á mánudaginn og það má búast við svakalegri keyrslu fram að jólum. Ég er hins vegar í fyrsta skipti síðan ég var í 1. bekk í menntó ,,bara" í skóla svo ég ætla að sjá hvort að ég geti nýtt virku dagana vel undir skólann og átt meira eða minna frí á helgum. Lúxus líf ;-) Annars er lítið planað á meðan evran er svona há en það er þó á dagskránni að fara skrepp til Amsterdam og jafnvel gista eina nótt svo maður verði ekki alveg úti á túni þegar maður fer heim um jólin og villist með lestinni.

Ég er ekki komin með netið ennþá en krossa fingur að ég fái það á föstudaginn. Þangað til nýti ég mér góðmennsku nágranna minna sem hafa ekki læst routerunum sínum. Þarf að vísu að sitja úti á verönd til að ná sæmilega tengingu og það er mishlýtt að sitja þar. En maður dúðar sig bara og sest út með tölvuna. Allt gert til að halda sambandi við umheiminn ;-) En þar sem það er farið að kólna aðeins og ég er orðin svöng ætla ég að koma mér inn með tölvuna og fá mér eitthvað í svanginn. Kveðjur frá Brussel þangað til næst.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hvað ertu svo að læra þarna úti?

Ertu ekki búin að kíkja í miðbæinn, sjá Mannekin Pis ofl.?

Ég hef einu sinni komið til Brussel (10 ár síðan) og ég man ennþá eftir lyktinni á miðbæjarlestarstöðinni.. hún var ekki góð:/

Annars segi ég bara gangi þér vel að aðlagast og gangi þér vel í skólanum!

kv.
Eygló khi-bekkjarfélagi