Pælingar í amstri dagsins
Það er aldeilis búið að vera nóg að gera undanfarið. Ég er flutt aftur heim til mín og það hefur dágóður tími farið í það að koma sér fyrir. Það er þó ekki allt tilbúið en það tekur víst allt sinn tíma. Annars er ég mest lítið heima hjá mér því það hefur verið mikið að gera í vinnunni. Ég hjálpa mömmu eftir bestu getu í bókhaldinu á milli vakta á Eir og þá er oft lítill tími fyrir eitthvað annað. Ég er þó að reyna að sinna endóinu eftir bestu getu og Samtökin héldu afar vel lukkaðan fræðslufund í gær. Þar var fjallað um andlegu hlið þess að greinast með krónískan sjúkdóm eins og endómetríósu. Ég var að vinna og komst ekki á fyrirlesturinn en ég var búin að fá að sjá hann áður og hann var ótrúlega vandaður og góður og það var margt sem náði til mín.
Það er algengt að fólk með svona króníska sjúkdóma einangri sig félagslega og ég gerði það. Ég hafði það ekki í mér að mæta í fjölskylduboð og á aðra slíka viðburði og sitja undir spurningum um það hvenær ég ætlaði að koma með eitt lítið. Það var alveg nóg að vera að takast á við lífið án þess að sitja undir eins ónærgætnum spurningum og þessari. Auðvitað meinar fólk vel en það breytir því ekki að svona spurningar eru mjög persónulegar og það er í mínum huga hreinn dónaskapur að spurja fólk sem er manni jafnvel ekki svo náið jafn nærgöngulla spurninga. Þeir sem þekkja til mín vita hvar ég stend í þessum málum og flestir hafa virt það. Það er einna helst fólk sem þekkir mig lítið og fylgist lítið með mér sem spyr. Með því að blogga um það er ég að vona að vekja fólk til umhugsunar. Fólk spyr oft mest af gömlum vana. Ég hef staðið mig að því að gera þetta sjálf. Ég baðst svo sem afsökunar strax að vera að spurja að þessu og það var hægt að hlæja að þessu eftir á en það sýnir samt hvað þetta getur verið mikill vani og einfaldlega hugsunarleysi.
Annað sem fylgir því að greinast með sjúkdóm er að stuðningur vina og vandamanna er alltaf mestur fyrst á eftir. Svo byrjar fólkið að detta út. Þannig var það líka hjá mér og það er ekkert óeðlilegt við það. Fæstir hafa úthald til að sinna öðrum einstaklingi þannig til lengri tíma. Ég hef breyst mikið síðan ég greindist og vinahópurinn hefur breyst líka. Ég er virkilega þakklát þeim vinum mínum sem stóðu við bakið á mér í gegnum allt það sem gekk á í lífinu mínu árið 2006. Það hélt mér gangandi á þeim tíma hvað ég átti góða að. En það eru 3 ár síðan og það er misjafnt hversu mikið af þessu fólki stendur mér nærri í dag. Það er engum um að kenna í þeim efnum, þannig er lífið bara.
Ég er samt að verða meðvitaðri um það hvaða áhrif það hefur haft á mig að hafa veikst og þurft að lifa með þessum sjúkdómi og hvað ég get gert betur. Það er oft hægara sagt en gert, sérstaklega þegar maður er búinn að loka sig af eins og ég hef gert. Það er ekkert auðvelt standa upp og fara út á meðal fólks aftur. Reyna að virkja vinasambönd sem maður hefur jafnvel lítið sem ekkert sinnt. En kosturinn er að maður veit hverjir vinir manns eru. Hverjir það eru sem standa eftir og eru þarna enn eftir allt sem á undan er gengið. Maður þakkar svo fyrir að hafa fengið að kynnast þeim sem eru búnir að sigla sína leið og vonar að þeim farnist vel í lífinu.
En það er margt annað í gangi en svona pælingar. Ég er búin að fá niðurstöður úr mastersritgerðinni og þann 20. nóvember nk. fæ ég formlega að kalla mig master í alþjóðasamskiptum. Svo verð ég víst þrítug eftir viku og ef það er ekki tilefni til að lyfta sér upp í góðra vina hópi þá veit ég ekki hvað þarf til. Svo heppilega vill til að ég á fríhelgi á Eir svo tækifærið verður nýtt til þess að gera eitthvað skemmtilegt. En ég á víst ekki frí í dag og það er kominn tími til þess að hafa sig til fyrir vaktina. Þangað til næst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli