Jæja, þá er búið að selja elskulega bílinn minn. Ég er bara nokkuð sátt með verðið og líst ágætlega á nýja eigandann. Ég á samt eftir að sakna bílsins - og þá sérstaklega topplúgunnar!
Annars er mest lítið að frétta eins og venjulega. Skólinn byrjar eftir viku og er ég bara farin að hlakka til. Það verður ágætt að losna úr þessari 9-5 vinnurútínu. Ég hef mikið verið að þvælast með ömmu yfir helgina og það er búið að vera fínt. Það er alveg yndislegt að hafa hana ömmu sína hjá sér. Guðjón dró mig með sér niðrí bæ á menningarnótt. Við röltum bara niður Laugaveginn og kíktum svo til frænku hans sem á penthouse íbúð í Bankastrætinu. Þar eru þessar líka fínu svalir þar sem við gátum horft á flugeldasýninguna og skemmtiatriðin fyrir utan Sólon. Við fórum svo bara snemma heim og kúrðum okkur yfir vídeóspólu.
Það var svo öfga skemmtileg formúla í gær. Minn maður tók þetta með glæsibrag og Schumi var keyrður út. Ég hefði vorkennt öllum öðrum en Schuma að vera keyrður svona út held ég bara. Annars sá ég á netinu í dag að Schumacher ætti í samningaviðræðum við McLaren... Ég veit ekki hvað ég myndi gera ef Raikkonen færi til Ferrari og Schumi til McLaren! Þá yrði formúluheimsmyndinni minni algjörlega rústað! Þá reynir á hvort maður heldur upp á manninn eða liðið - og það er ekki alltaf auðvelt að svara því!
Á föstudaginn er stefnan tekin til Bolungarvíkur og á Sálarballið. Hef enga trú á öðru en að það verði rokna stuð á ástarvikuballinu þó svo að kallinn minn verði í bænum. En hann er að koma og sækja mig svo ég ætla að drífa mig heim. Hafið það gott elskurnar.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli