17 ágúst 2005

Jæja, þá er það smá update.

Ég er komin á nýjan bíl, Toyota Yaris 2004 módel. Fjandi mikill kellingabíll fyrir minn smekk en það er fínt að keyra hann og ég held að ég eigi eftir að verða sátt bara. Ég sakna topplúgunnar samt. Gamli bílinn minn verður auglýstur í Fréttablaðinu á helginni og vonandi selst hann bara hratt og örugglega.

Skólinn byrjar 29. ágúst þannig að sumarið er heldur betur farið að styttast í annan endann. 5 vikna æfingakennsla framundan í október og svo þarf maður að fara að undirbúa lokaverkefnið. Ég er búin að ákveða efni og er búin að finna nokkrar bækur sem ég gæti notað sem heimildir. Ef einhver er að fara til BNA og er til í að kaupa fyrir mig bækur í leiðinni má láta mig vita ;) Annars er það bara Amazon. En ef einhver vill vita um hvað ég ætla að skrifa þá er það samskiptamáti stelpna og samskipti innan stelpnahópa og jafnvel hvernig skólinn getur komið að þeim málum. Afar áhugavert ;)

En annars er mest lítið að frétta af þessum bænum. Ekki nema fólk vilji vita mikið um þá félaga debet og kredit. En það eru samt nokkrir punktar sem ég man eftir að ég ætlaði að blogga um.

Í Blaðinu um daginn sá ég spurningu dagsins. Þar stóð stórum stöfum: Hlakkar ÞIG til að byrja í skólanum? Þetta fannst mér alveg fáránlegt að sjá og alveg ótrúlegt að svona komist fram hjá í yfirlestri. Sérstaklega þar sem í svörum viðmælanda var sögnin notuð rétt, þe. ég hlakka til eða ég hlakka ekki til.

Síðan vil ég taka undir orð Baldurs Smára um ísfirska fréttavefinn BB. Það er þeim miðli til háborinnar skammar hvernig hann einblínir á málefni Ísafjarðar en fjallar lítið sem ekkert um fréttir frá öðrum stöðum á Vestfjörðum. Þetta er ekki Vestfirskur fréttamiðill fyrir fimm aura og ég veit að ég er ekki ein um að kaupa aldrei blaðið hjá þeim í mótmælaskyni við fréttaflutninginn hjá þeim.

En jæja, amma er að koma í bæinn og ég ætla að drífa mig upp í Mosó og knúsa hana.

Engin ummæli: