30 maí 2006

Þá eru kosningarnar búnar og ég kaus í Bolungarvík í síðasta sinn - í bili allavegana. Það er alltaf jafn skondið að fylgjast með viðbrögðum frambjóðenda eftir að úrslit verða ljós og hlusta á yfirlýsingar þeirra um að þeir hafi unnið góðan sigur, varnarsigur eða það sem þeim dettur í hug að kalla niðurstöðurnar - þrátt fyrir að hafa jafnvel bara skíttapað. Það fauk hins vegar í mig að lesa viðbrögð Elíasar Jónatans við kosningaúrslitunum heima. Þar missti íhaldið meirihlutann í bæjarstjórninni í fyrsta sinn held ég bara (þori samt ekki að fullyrða það) og ástæður þess má að sjálfsögðu rekja til framboðs Önnu Ed. eins og Elías sagði. En það sem varð til þess að fauk í mig var þegar Elías sagði að íhaldið hefði nú fengið 58% atkvæða ef framboð Önnu Ed hefði ekki komið til og eignaði þar með sjálfstæðisflokkinum öll atkvæði A-listans. Það er hins vegar afar hæpið hjá honum að eigna sér þessi atkvæði. Miðað við úrslitin 2002 tók A-listinn 12% af íhaldinu og 8% af K listanum. Þrátt fyrir að A-listinn hafi verið klofningsframboð frá íhaldinu þá var þetta fyrst og fremst persónulegur sigur Önnu Ed og ég held að það sé afar hæpið fyrir báða hina listana að halda því fram að þeir hafi ,,átt" atkvæðin sem fóru þangað. Það er nefnilegast þannig í pólitík að maður á aldrei atkvæði, maður verður að vinna fyrir þeim. Þar sem sitjandi meirihlutar unnu góða sigra, t.d. í Hafnarfirði og Keflavík, höfðu menn einfaldlega verið að vinna vel og fengu því góða kosningu aftur.

Ég kaus A-listann heima einfaldlega af því að ég hef trú á Önnu Ed til að rífa bæjarfélagið upp og gera það sem þarf að gera. Ég yrði ekki hrifin af því ef hún myndaði meirihluta með íhaldinu en það kæmi mér svo sem ekkert á óvart. Íhaldið getur því ekki eignað sér mitt atkvæði þó svo það hafi fallið hjá A listanum að þessu sinni og K listinn á það ekki heldur. Ég á nefnilegast mitt atkvæði og minn rétt til að kjósa sjálf og atkvæðið mitt fæst ekki gefins nema menn hafi sannarlega unnið fyrir því.

Engin ummæli: