Björninn unninn
Ég náði langþráðu markmiði í dag þegar ég gekk upp á topp Esjunnar með silfurskóna mína í bakpokanum. Við Þórdís höfðum planað að fara saman í dag en hún er veik svo ég dreif mig bara sjálf. Það var að vísu mikil þoka í efri hluta Esjunnar en ég arkaði þetta samt. Þegar ég var komin í klettana villtist ég aðeins en rataði út úr því og fann stíginn að lokum. Hitti þar Íra sem lóðsaði mig upp á topp. Þegar upp var komið vildi hann ólmur vita hvaða fjall hann hafði verið að klífa. Ætti að vera vísbending til Ferðamálayfirvalda að hafa eitthvað af þessum fínu skiltum sem þarna eru á ensku! Írinn lóðsaði mig niður klettana aftur og alla leið niðrá stíginn. Honum fannst ég hugrökk. Frekar heimsk, hugsaði ég með sjálfri mér að hafa verið að þvælast þarna í klettabeltinu í svarta þoku alein án þess að hafa hugmynd um hvað ég væri að gera. En hugrökk hljómar auðvitað mikið betur. En upp fór ég á einum og hálfum tíma. Næst er að fara þetta í góðu veðri svo ég sjái eitthvað hvert ég er að fara!
1 ummæli:
Hæhæ
Frábært hjá þér
Til hamingju með áfangann
Kveðja
Kolla
Skrifa ummæli