07 september 2008

Styttist í brottför

Þá er farið að líða að því að maður yfirgefi klakann og haldi á vit ævintýranna í Brussel. Kveðjustundirnar hafa verið margar undanfarnar 2 vikur og maður er að undirbúa taugarnar fyrir þriðjudagsmorguninn þegar verður endanlega klippt á naflastrenginn á milli mín og mömmu. Ég er búin að vinna fyrir hana í 5 ár og þó svo að ég gæti varla verið meira tilbúin til þess að breyta til og fara að gera allt aðra hluti þá verður skrýtið að vera ekki í þessum daglegu samskiptum.

En það er ekki eins og maður sé að fara til tunglsins og tæknin sér til þess að maður verði í daglegum samskiptum við vini og vandamenn. Bloggið sér svo til þess að hinir sem vilja fylgjast með manni geta gert það líka. Ég er komin með netsíma hjá Vodafone þar sem ég get hringt í alla heimasíma á Íslandi ókeypis og það er hægt að hringja í mig líka svo framarlega sem það er kveikt á tölvunni og hún nettengd. Bara að hafa samband til þess að fá númerið.

Vinkonur mínar hafa svo verið með mig í tölvutímum yfir helgina. Búið að kenna mér á webcamið á MSN, búið að setja upp gmail fyrir mig, kenna mér á Itunes og meira að segja leggja það til að ég fái mér flakkara. Reyndar spurning hvort að það náist áður en ég fer en það er aldrei að vita - maður er farinn að tæknivæðast svo hratt ;-)

En allavegana, þetta er síðasta bloggið af klakanum í bili. Næsta blogg kemur frá Brussel þegar ég verð búin að koma mér í nettengda tölvu. Það má gera ráð fyrir því að það taki þó nokkrar vikur að fá netið heim svo það veltur allt á því hvað ég verð dugleg á netkaffihúsunum og í skólanum þegar hann byrjar hvað ég verð dugleg að blogga. Ég reyni samt að pósta inn nýju gemsanúmeri þegar það verður klárt. En ég ætla að fara að njóta kyrrðarinnar hérna í sveitinni áður en ég fer að ganga frá eftir skemmtilegheit helgarinnar og drífa mig í bæinn. Sjáumst í Brussel ;-)

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hæhæ
Já Erla mín þetta verður eflaust skrítið fyrir þig, og alla . Vonansi gengur bara allt vel hjá þér. Hver veit nema að maður skelli sér til Brussel. heyri kannski í þér á morgun
Kveðja
Kolla móðursystir