09 júní 2009

Þrumuveður

Það gengur þrumuveður yfir Brussel í augnablikinu og ég sit og kippist við í hvert sinn sem það kemur elding fyrir utan gluggann hjá mér. Það er GRENJANDI rigning og bölvaður hávaði í þrumunum og ég er voðalega glöð með að vera bara inni hjá mér núna. Annars er allt í ágætis gír hérna í útlandinu, ég er komin af stað með ritgerðina og kláraði að lesa heimildirnar sem ég er búin að sanka að mér í gær. Ég kom mér ekki í það að byrja að skrifa í dag heldur hafa hlutirnir verið að meltast á meðan ég hef verið að versla og græja það sem þarf til að allt verði klárt þegar mamma og amma koma á laugardaginn. Ég ætla hinsvegar að nota dagana fram að helgi til þess að setja eitthvað kjöt á grindina sem ég er komin með í hausnum. Ég er svo búin að ganga frá því að ég fer til Austur Englands í lok júní til þess að taka viðtal við einn prófessor fyrir ritgerðina og eftir það verður setið við skriftir þangað til að öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Á morgun er ég að fara á handboltaleik ásamt fleiri Íslendingum en Belgía og Ísland eru að fara að keppa í undankeppni EM. Það er víst mikið um meiðsl í íslenska liðinu en ég vona að við eigum nú samt eftir að taka Belgana í smá kennslustund í því hvernig á að spila handbolta. Væri ekki amalegt fyrir þjóðarstoltið. Svo koma mamma og amma á laugardaginn eins og áður sagði og þær verða hérna til 21. júní. Það ætti að verða nóg að gera hjá okkur, við ætlum til Waterloo, Antwerpen og vera eina helgi í Amsterdam fyrir utan það að túristast um Brussel. Ég hlakka mikið til að fara til Amsterdam og planið er að skóa sig upp fyrir næstu árin. Það er ekki alltaf sældarlíf að vera hávaxin og það er með því leiðinlegasta sem ég geri að kaupa skó. Það er ekkert gaman að fara í búðir þegar það er aldrei neitt til sem passar. En Hollendingar eru hávaxnir og það er búið að benda mér á skóbúðir þar sem ég ætti að geta valsað um og fundið fullt af skóm sem passa svo ég krossa bara fingur.

En jæja, ég ætla að fara að gera eitthvað af viti hérna. Þangað til næst, Áfram Ísland!

Engin ummæli: