Áfram Ísland!
Þá er maður kominn heim af leiknum. Þetta var nú enginn eðal handbolti en strákarnir gerðu það sem þeir þurftu að gera og unnu leikinn. Leikurinn var lengst út í rassgati, ca klukkutíma keyrslu frá Brussel. Við ákváðum að fara í fyrra fallinu af stað og borða og svoleiðis áður en að leikurinn byrjaði. Við vorum hinsvegar föst í umferð í góðan klukkutíma og rétt náðum leiknum þegar hann var að byrja. Til allrar hamingju voru Belgarnir að selja grillaðar pulsur og hamborgara og ég söng þjóðsönginn með hamborgara í annarri hendinni og íslenska fánann í hinni. Afar smekkleg. Það voru nú ekki margir Íslendingar á leiknum en við reyndum að láta heyra vel í okkur og hvetja strákana áfram. Skemmtilegt kvöld þrátt fyrir lúðrasveit hússins sem hafði augljóslega aðrar skilgreiningar en við Íslendingarnir á því hvernig halda skal uppi góðri stemmingu á landsleik...
En ég ætla að ljúka þessu á góðri sögu sem ég heyrði á leiðinni heim af leiknum. Það var brotist inn til íslenskrar fjölskyldu hérna í Brussel um daginn sem er svo sem ekki efni í skemmtisögu. Þjófarnir gáfu sér góðan tíma til að fara yfir innanstokksmuni og velja úr hverju væri best að stela. Þeir brutu meðal annars sparibauk barnsins á heimilinu þar sem púkinn hafði verið að safna að sér evrum og krónum. Þjófarnir hafa augljóslega verið ágætlega að sér í heimsmálunum því þeir stálu bara evrunum úr bauknum en létu íslensku krónurnar alveg eiga sig. Það ætti því að vera nokkuð öruggt að geyma spariféð undir koddanum í öruggu skjóli frá íslenskum bankamönnum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli