26 júní 2009

Lokahnykkurinn

Jæja, þá eru mamma og amma farnar heim á klakann. Við höfðum það bara gott og gerðum mikið. Fórum til Waterloo þar sem Napóleon var sigraður árið 1815, versluðum í Antwerpen og röltum um Brussel. Borðuðum belgískar vöfflur og súkkulaði, drukkum rauðvín og spiluðum rakka. Við enduðum ferðina í Amsterdam þar sem við kíktum í fleiri búðir og mér tókst það sem ég hafði stefnt að - að kaupa mér skó og það þrenn pör! Það var nú reyndar enginn draumur í dós en hafðist. Við fórum svo í skoðunarferð um Amsterdam og fórum í hús Önnu Frank og það var meiriháttar upplifun. Gaman að fara þangað og óhætt að mæla með því.

Þegar ég kom heim frá Amsterdam tók við undirbúningur fyrir Bretlandsferð en þangað fór ég til þess að taka viðtal við prófessor í adult education fyrir mastersritgerðina. Það ferðalag gekk mjög vel og ég fékk m.a. lánaðar bækur sem eiga eftir að nýtast mér vel við skriftirnar. Efnið hefur soldið þróast frá upprunalegum hugmyndum en ég er komin með það í kollinn núna hvernig ég ætla að hafa þetta. Fókusinn verður á adult literacy og development og ég ætla að nota eina case study til þess að fara ofan í saumana á efninu frekar. Pælingin er hvort að adult literacy sé sú frelsun fyrir fólk í vanþróuðum ríkjum sem UNESCO og sumir fleiri vilja vera láta og ég ætla að nota case study/rannsóknina til þess að rökstyðja mál mitt og til að stýra því hvaða þætti af umræðunni ég fjalla um enda er þetta allt of yfirgripsmikið efni til þess að fjalla um til hlítar í einni ritgerð. Þannig að núna leggst ég yfir ritgerðina og byrja að skrifa og hætti ekki fyrr en öll 10.000 orðin eru komin í hús.

Ég hef 4 vikur til stefnu til þess að skrifa, láta lesa yfir, binda inn og skila því ég á pantað flug heim til Íslands þann 26. júlí. Ég hef engar áhyggjur af því að það náist ekki og finnst bara ágætt að fá smá pressu. Lokaskil á ritgerðinni eru reyndar ekki fyrr en 10 . ágúst en ég ætla á Þjóðhátíð og ritgerðarskilunum verður fagnað vel þar :-) Annars fékk ég tölvupóst frá skólanum í dag sem staðfesti það formlega að ég hefði náð öllum kúrsunum sem ég tók í vetur og ég fékk formlegt leyfi til þess að hefja vinnuna við mastersritgerðina. Einkunnirnar fyrir prófin eru reyndar ekki komnar á netið en það er svo sem ekki aðalatriðið þegar maður veit að vinnan í vetur hefur skilað tilætluðum árangri og bara lokahnykkurinn eftir til þess að masterinn sé í höfn.

Þannig að það er allt í góðum gír í höfuðborg Evrópu og nú verður bara skrifað og skrifað og skrifað.... Þangað til næst.

Engin ummæli: