17 ágúst 2004

Ég ákvað að skjótast aðeins upp í Mosó um kvöldmatarleytið á sunnudaginn. Ætlaði að tékka á Rakel og sjá hvernig hún hefði það. Þegar ég var komin upp á Vesturlandsveg runnu á mig tvær grímur. Umferðin inn í Reykjavík silaðist áfram og það var bíl við bíl svo langt sem augað eygði. Með fullri virðingu fyrir þeim sem berjast fyrir breikkun Reykjanesbrautar verð ég að viðurkenna að ég skil ekki af hverju kaflinn frá Kjalarnesi og inn í Reykjavík var ekki á undan. Umferðin á Vesturlandsveginum er helmingi meiri en á Reykjanesbrautinni og auk þess er slysatíðnin helmingi hærri. Á sumrin dettur manni ekki til hugar að skjótast til mömmu í Mosó seinnipart á föstudegi því maður er heila eilífð á leiðinni. Það sama má segja um seinnipart sunnudaga - ekki nema maður ætli að stoppa góða stund í Mosó og bíða af sér umferðina. Vissulega hafa orðið stærri slys á Reykjanesbrautinni undanfarið en það er bara guðs mildi að það hafi ekki gerst á Vesturlandsveginum. Spurning hvað þarf mikið að gerast áður en ráðamenn vakna til lífsins og fara að gera eitthvað af viti í þessum málum. Það var allavegana gaman að sjá Ómar Ragnarsson vekja athygli á þessari umferðarteppu sem varð á sunnudaginn í fréttunum í gær því venjulega fer umferðin þarna afar hljótt.

En að öðru, ég datt inn í skemmtilega fræðslumynd á RÚV í gærkvöldi um breytingar sem gætu orðið á veðurfari heimsins ef golfstraumurinn hættir að ganga. Virkilega fræðandi og góð mynd sem hræddi mann þó verður að segjast. Margir vinir mínir kvarta jafnan undan dagskrá RÚV en ég verð að viðurkenna að ég lærði að meta hana fyrir vestan þegar ég hafði ekki aðgang að annarri sjónvarpsstöð. Það er margt skemmtilegt í boði á RÚV og meira um áhugaverðar heimildamyndir en á öðrum stöðvum. Á sunnudagskvöldið var t.d. góð mynd um skuggahliðar netsins og hvernig börn virðast oft á tíðum kunna betur á það en foreldrarnir. Virkilega þarft innlegg í umræðuna um þessi mál. Sérstaklega sá punktur sem var stór í myndinni að ábyrgðin væri fyrst og fremst foreldranna en ekki skólans þrátt fyrir að samstarf þessara aðila sé alltaf nauðsynlegt. En allavegana, prófið að horfa á RÚV - hún er ekki eins leiðinleg og margir vilja láta!

Ég fagnaði líka frétt að vestan í fréttum RÚV þar sem kom fram að það hefði aðeins rignt tvisvar þar í sumar. Góður rökstuðningur fyrir því af hverju ég blóta helv..... rigningunni hérna fyrir sunnan alltaf jafn mikið...

Engin ummæli: