03 febrúar 2006

Jæja, Guðjón er á æfingu og mér datt í hug að drífa mig í að skella nokkrum orðum inn á bloggið. Janúarmánuður hefur verið erilsamur og varla hægt að segja frá öllu hér. Af skólanum er það að frétta að lokaverkefnið er að komast vel af stað hjá okkur og ég er bara mjög spennt að fara út í þá vinnu. Matreiðslan gengur bara ljómandi vel og ég er ekki frá því að ég sé upprennandi kokkur ;) Ég hætti hins vegar í prjóninu, ekki af því að það væri ekki skemmtilegt heldur hafði ég einfaldlega ekki tíma fyrir það. Ég er þó að dunda mér við að prjóna vettlinga undir dyggri aðstoð tengdó. Ég er hins vegar að mygla í enskunni og er farin að hlakka mikið til að klára þennan blessaða skóla.

Það er hins vegar búið að breyta útskriftardagsetningunni mér til mikils ama. Við fengum sendan tölvupóst með tilkynningu um það. Stjórnendur skólans sáu svo ekki ástæðu til að svara kvörtunum nemenda fyrr en við hótuðum að fara með málið í blöðin. Þá var haldinn fundur með nemendum - já eða staðnemum, fjarnemar virðast vera eitthvað aukaatriði í þessum skóla - og það kom ekkert út úr honum og rektor er einfaldlega ekki til viðtals um þessi mál. Maður er alveg ótrúlega sár og reiður út í stjórnendur skólans fyrir þessi vinnubrögð og það er alveg klárt mál að ég kem ekki til með að mæta í útskriftina. Enda ber hann upp á brúðkaupsdegi Þórdísar og Tomma og löngu planað að ég mæti þar! Mig langar hins vegar til að halda upp á það að ég sé að útskrifast og hvað maður gerir í því verður bara að koma í ljós. Það koma ekki margir dagar til greina, annað hvort held ég bara upp á þetta 10. júní eins og ætlað var í upphafi eða 8. júlí...

En jæja, það er ágætt að fá að blása aðeins. Það er svo sem margt annað búið að vera í deiglunni hjá mér en fólk verður bara að kíkja í heimsókn í Hafnarfjörðinn til að fá frekari fréttir ;)

Engin ummæli: