Stopp! Gardínur...
Loksins, loksins eru komnar gardínur fyrir gluggann í herberginu mínu. Og meira að segja í gestaherberginu líka. Ég get haft opin gluggann án þess að það skrjáfi í álpappírnum og get meira að segja dregið frá og fyrir þannig að það verði bjart á daginn. Þvílíkur lúxus. Er líka komin með hillur á baðið og loksins að komast smá skipulag á þar. Veitti sko ekkert af því. Nú vantar mig bara einhvern handlaginn til að hjálpa mér að hengja upp myndir og ljós. Hef varla samvisku í að angra Hauk með það, enda er von á þriðja barni hans og Dagnýjar í heiminn þessa dagana.
En að öðru. Verð bara að tjá mig um þetta Stopp átak sem er í gangi þessa dagana. Þrátt fyrir að mér finnist skelfilegt hvað það hafa margir látist í umferðinni á árinu þá hef ég sjaldan heyrt aðra eins vitleysu og þetta átak. Hvaða heilvita maður trúir því að tímabundið átak komi til með að breyta umferðarmenningu Íslendinga? Hefði ekki frekar mátt eyða öllum milljónunum sem er búið að eyða í auglýsingar í að bæta gæði ökunáms? Í að bæta vegi og skapa öruggari lausnir í vegakerfinu? Vinna að framtíðarlausnum í stað þess að eyða fullt af peningum í e-ð átak sem verður gleymt og grafið eftir mánuð?! Ég ætla allavegana ekki að taka þátt í þessari vitleysu með því að skrifa nafnið mitt á einhverja heimasíðu. Ég mun hins vegar hægja á mér í hvert sinn sem ég keyri fram hjá skilti þar sem kemur fram fjöldi þeirra sem hafa látist í umferðinni á árinu. Ég vona bara að þessi málefni verði stór í komandi kosningabaráttu og að staðið verði við stóru orðin. Ekki bara blásið til átaks.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli