29 maí 2007

Ástkæra tölvan mín

Það hefur stundum verið hlegið að tölvunni minni en hún er nú farin að nálgast 6 ára aldurinn. Ása Gunnur beið alltaf eftir því að hún tæki á loft í tímum í Kennó því það heyrist víst frekar hátt í viftunni. Það eru hins vegar litlar líkur á því að hún taki upp á því greyið, hún er nefnilegast svo hægvirk að hún færi aldrei langt. Þegar ég var að þrífa hjá mér á sunnudaginn fann ég kassa af diskettum í einni skúffunni hjá mér. Nú er víst ekki hægt að kaupa svoleiðis lengur svo ég verð að nota þá skynsamlega. Reyndar fékk ég gefins svona USB lykil í Való um daginn en ég er nú ekki búin að vígja hann ennþá. Verð reyndar að gera það í vikunni því mér skilst að það séu ekki diskettudrif á tölvunum á kennarastofunni í Való.

En það eru sterk böndin á milli mín og tölvunnar. Mér er alveg sama þó svo hún sé svo lengi að kveikja á sér að ég geti vaskað upp og gengið frá eftir matinn á meðan. Það er bara góð nýting á tímanum sem annars hefði verið eytt í tilgangslausan vals um internetið. Ég sé það samt ekki fyrir mér að við förum í gegnum annað háskólanám saman. Ég vona samt að hún þrauki allavegana ár í viðbót. Þá ætti að vera komin tími til að finna tölvu fyrir næsta nám. Ég ætti því að hafa nægan tíma til að læra á þennan fjandans lykil. Annars get ég upplýst móður mína um það að það er hægt að tengja svona USB við tölvuna. Hún hélt nefnilegast að það hefði ekki verið búið að finna svoleiðis upp þegar tölvan var framleidd.

Engin ummæli: