20 september 2007

Leyndarmál Viktoríu er yfirstærð

Það hefur verið fjallað dulítið um holdarfar í fjölmiðlum undanfarið. Farið er að banna fyrirsætur sem eru undir ákveðnum þyngdarstuðli og nýjasta útspilið er að banna fyrirsætur yngri en 16 ára. Bransafólkið sem talað hefur verið við í fjölmiðlum segir þó allt að það sé erfitt að eiga við þetta þar sem markaðurinn kalli á svo grannar fyrirsætur, þ.e. að fólk almennt vilji sjá þær svona skelfilega mjóar. Það finnast mér afar sérstakar fullyrðingar og ég er hissa á því að engin umræða hafi skapast um það hvort komi á undan, hænan eða eggið. Þegar Marilyn Monroe var upp á sitt besta var hún langt frá því að vera anorexíusjúklingur og þótti flott. Ég efast stórlega um það að Jóni og Gunnu í næsta húsi hafi dottið það í hug á árunum sem hafa liðið síðan þá að anorexíulúkkið væri kúl og þar með hafi það komist í tísku. Það er í besta falli hægt að líta á það sem lélegan brandara að hlusta á bransafólkið réttlæta sköpunarverk sitt með þessum hætti.

Brenglunin í sambandi við holdarfar er gríðarleg og auglýsingar og markaðsherferðir virðast einna helst miðast að því að láta sem flesta líða illa með eigið útlit. Sérstaklega eftir tilkomu forrita eins og Photoshop. Ef ég tek sjálfa mig sem dæmi þá hef ég ofast verið undir kjörþyngd og þurft að hafa mig alla við að halda því sem ég þó hef. Núna slefa ég í kjörþyngdina og þrátt fyrir að ég gæti verið styrkari þá er ég langt frá því að vera feit. Samt líður mér eins og illa saumuðum lundabagga þegar ég máta buxur og það er alltaf sama kvölin og pínan að finna buxur sem henta mínu vaxtarlagi. Ef ég væri módel væri ég plus size eða í yfirstærð. Það er notað yfir þær sem nota númerin 8-10 í Bandaríkjunum. Þar er best að vera eins og Eva Longoria og vera í stærð 0.

En plúsin við að vera í plus size er að það þýðir líka oftast stærri stærðir á sviðum þar sem það þykir eftirsóknarvert að nota stórar stærðir. Þá komum við einmitt að leyndarmáli Viktoríu. Ég ætlaði að panta mér brjóstahaldara þar síðasta vetur og mældi mig eftir kúnstarinnar reglum til að vita hvaða stærð ég ætti að panta. Ég varð álíka ill þegar niðurstaðan AA kom út og þegar ég hélt því statt og stöðugt fram að baðvigtarnar á Skýlinu væru bilaðar fyrir nokkrum árum síðan. Það var svo líka álíka ljúft að fá aðrar niðurstöður þegar ég fór í Victoria's Secret út í New York og það var sárt að viðurkenna það að líklegast hafði góði ömmu og skýlismaturinn allur sest á rassinn á mér og verið asskoti snöggur að því. Og að baðvogirnar hefðu hreint ekkert verið bilaðar.

Í dag eru flest fötin mín í sömu stærð og passa ágætlega. Ég á hins vegar brjóstahaldara í að minnsta kosti þremur mismunandi skálarstærðum og þeir passa allir. Enginn þó í stærð AA mér til mikillar gleði. Það segir þó sitt um mælingar og hvað við dæmum okkur sjálf út frá einhverjum stöðluðum mælieiningum sem segja þó aðeins hálfa söguna - ef þær þá ná því. Í dag passa ég mig á því að borða hollan mat og hreyfa mig eftir þörfum. Það er engin baðvog til heima hjá mér og ég forðast föt sem láta mig líta út eins og illa fylltan sláturskepp eins og heitan eldinn. Ég þarf hins vegar ekki læknisfræðilega aðstoð til að fylla upp í brjóstahaldarana mína og rassinn gæti ekki verið meira ekta enda hef ég lagt mikla rækt við hann með hverjum einasta hamborgara sem ég hef borðað um ævina. Og þar held ég að leyndarmál Viktoríu liggi. Í sjálfsöryggi og mjúkum línum. Ekki í rifbeinum og sílikoni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr!!!