17 september 2007

Spurning dagsins

Inn á forsíðu vísis má sjá spurningu dagsins í Fréttablaðinu. Þar er spurt hvort að viðkomandi telji að Kate og Gerry McCann hafi átt þátt í hvarfi dóttur sinnar og svarmöguleikarnir eru já og nei. Þessi spurning gengur svo þvert á alla siðferðisvitund mína að það fyrsta sem mér datt í hug var að hvaða heilalausa hálfvita hefði dottið í hug að spurja að þessu. Fjölmiðlafárið í kringum þetta mál er búið að vera þvílíkt og vitað að mikið af fréttaflutningnum er skáldskapur þar sem bæði portúgölsku lögreglunni og foreldrunum er bannað að tjá sig um málið í fjölmiðlum. Hvers kyns kjaftasögur fá því að grassera óáreittar í fjölmiðlum og foreldrarnir geta engan vegin borið hönd fyrir höfuð sér og lögreglan má ekki leiðrétta hann.

Hvað kom fyrir vesalings stúlkuna er hulin ráðgáta og ég ætla ekki að sakfella foreldranna á grundvelli æsifyrirsagna í fjölmiðlum. Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér fjölmiðlasirkus í kringum álíka mál bendi ég á góða grein sem birtist í Fréttablaðinu að mig minnir á helginni og fjallar um mál lítillar stúlku sem hvarf í Ástralíu fyrir ca 20-30 árum síðan. Þar voru foreldrarnir teknir af lífi í fjölmiðlum og ásakaðir fyrir að hafa myrt dóttur sína. Móðirin sat saklaus í fangelsi í 6 ár. Það var svo tilviljun að gögn komu fram sem sönnuðu sakleysi þeirra og þegar málið var skoðað frekar kom í ljós að þau sönnunargögn sem voru notuð til grundvallar sakfellingu móðurinnar voru ansi hæpin svo ekki sé meira sagt. Móðirin ferðast nú um heiminn og heldur fyrirlestra um það vald sem fjölmiðlar hafa yfir skoðunum fólks og oft á tíðum lífi þess.

Það er góð regla að fólk sé saklaust þangað til annað sannast. Ég held að sú vísa sé aldrei of oft kveðin og er skemmst að minnast hins fáránlega Lúkasarmáls í því samhengi. Vald fjölmiðla er mikið og almenningur á að geta treyst því að forsvarsmenn þeirra fari með það af ábyrgð og samviskusemi. Það finnst mér vísismenn ekki gera í þessu tilfelli og sá má skammast sín sem lét sér detta það til hugar að láta fólk út í bæ kjósa um svona vitleysu.

Engin ummæli: