Skyldu litlar skvísur borga útsvar á Veðramótum?
Fór á Veðramót í bíó á miðvikudaginn og þvílíka tæra snilldin sem það var. Þessi mynd er frábær og það ættu allir að drífa sig á hana. Leikararnir eru hver öðrum betri og Hera Hilmarsdóttir á stórleik. Hún var alveg frábær. Söguþráðurinn er alvarlegur en samt hló ég mikið. Myndin náði vel andrúmsloftinu á þessum tíma sem var svo fáránlegt þegar það er horft til baka að það var ekki annað hægt en að hlæja að því. Mæli hiklaust með þessari mynd.
Er svo búin að koma mér vel fyrir í sófanum og er að horfa á nýja spurningaþáttinn á RÚV. Hann virðist vera ágætis skemmtun þó svo ég hafi misst af eiginlega öllum bjölluspurningunum af því að það var hringt og beðið mig um að taka þátt í könnun um umferða og skipulagsmál í Reykjavík. Ég var svo vel alin upp á félagsfræðabrautinni í Kvennó að ég segi aldrei nei þegar ég er beðin um að taka þátt í könnun. Þessi var þó með þeim leiðinlegri og hringt á vondum tíma. Hverjum dettur í hug að gera könnun á föstudagskvöldi? En svo ég víki aftur að þættinum þá er þetta ágæt skemmtun. Gátu Hvergerðingar samt ekki fundið einhvern annan frægan en Fjölni Þorgeirs í liðið sitt? Hann varð of þreyttur fyrir 10 árum og hefur ekkert skánað síðan fyrir utan það að sýna vitsmunalega tilburði á við Paris Hilton.
En jæja, er að ganga alveg svakalega illa að horfa á sjónvarpið og blogga í einu. Það hefur aldrei verið mín sterkasta hlið að gera tvo hluti í einu. Ætla að kveðja með því að óska Ellu og Smára innilega til hamingju með litlu prinsessuna sem kom í heiminn á mánudaginn. Það er kominn linkur á síðuna hennar í púkalistanum hérna hægra megin fyrir þá sem vilja sjá mynd af aðalskvísu Bolungarvíkur ;-)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli