Status Update frá Brussel
Hér gengur lífið sinn vanagang. Skólinn kominn af stað og styttist í að maður fari að huga að ritgerðarverkefnum annarinnar. Hér er hið fínasta vetrarveður, enginn snjór, lítill vindur og kalt sem hentar vel þegar maður er búinn að lofa sjálfum sér að ganga sem mest á milli staða. Ég hef verið dugleg við að fara í göngutúra og labba það sem ég þarf að fara síðan ég kom út aftur og er loksins farin að rata almennilega um miðborg Brussel. Fann meira að segja Mannequin Pis þegar ég fór í göngutúr niðrí bæ á sunnudaginn. Hafði aldrei rambað á hann áður og verð að segja eins og allir sem hafa séð þessa styttu - einkennistákn Brussel gæti varla verið minna...
Svo lærir maður alltaf eitthvað nýtt. Konan í þvottahúsinu sem ég fer alltaf í kenndi mér að brjóta saman teygjulök á mánudaginn. Ekki seinna vænna að læra það! Svo sá ég alveg nýja aðferð við að þrífa upp bleytu í búðinni í gær. Það var stór gulur pollur á gólfinu við einn kassann. Ekki veit ég hvað það var en gaurinn sem þreif þetta upp kom vopnaður kústi og fægiskóflu ásamt fullri fötu af sagi. Dreifði svo saginu yfir alla bleytuna og sópaði svo herlegheitunum upp. Mér fundust þetta frekar furðulegar aðfarir en þetta er kannski ekki vitlausara en hvað annað. Svo lærði ég það í gærkvöldi að hraðbankar og allir almenningsstaðir þar sem heimilislausir gætu mögulega fundið sér athvarf eru lokaðir eftir 11 á kvöldin. Það meikar jú kannski eitthvað sense að heimilislausir megi ekki liggja hvar sem er en mikið andskoti var það pirrandi að þurfa að labba á milli hraðbanka til að leita að einhverjum sem var opinn. En þjónustulundin kemur seint til með að sliga Belga svo mikið er víst.
Kíkti út í gærkvöldi með góðum vinum. Planið var að fara út að dansa og það gerðum við. Fórum á stað sem spilaði gamla og góða smelli í bland við franskt diskó og við fíluðum okkur í tætlur. DJinn spilaði svo mikið af 90s tónlist að maður var nánast orðin 15 ára aftur. Ég gerði heiðarlega tilraun til að kenna stelpunum Stellu frasa áður en við fórum út. Skellt'essu í þig. Svo færðu annan - ef þú færð annan. Það þarf ekkert að fara mörgum sögum af því hvernig það gekk. Það er hins vegar stefnt á hitting fljótlega þar sem hinn frábæri menningararfur íslensku þjóðarinnar - Stella í orlofi - verður kynnt fyrir þeim sem hafa áhuga. Að sjálfsögðu með enskum texta og ég bíð spennt eftir enskri útgáfu af uppáhaldsfrösum íslenska vinahópsins. Aldrei að vita nema "skellt'essu í þig" og "Frú Stella, ég tarf ekki sjúss" séu jafn óborganlegir á enskri tungu og þeir eru á hinu ástkæra ylhýra.
En látum þetta gott heita að sinni. Það er kósýkvöld framundan hjá mér og lærdómur á morgun. Þangað til næst.